22. apríl 2013

Martin snýr aftur

Á kápu nýjustu bókar Steinunnar Sigurðardóttur, Fyrir Lísu, má lesa að þetta sé sjálfstætt framhald Jójó sem kom út fyrir jólin 2011. Þetta er vissulega framhald en ansi hæpið að kalla það sjálfstætt. Nú er komið rúmt ár síðan ég las Jójó og strax á fyrstu síðum Fyrir Lísu var ég komin í vandræði – ég mundi ekkert hver Luftpabbi og Mammasomm voru og ég var meira að segja búin að gleyma að besti vinur aðalsöguhetjunnar Martins heitir einmitt Martin. Þetta allt saman ruglaði mig algjörlega í ríminu fyrstu 20 blaðsíðurnar eða svo. Smám saman rifjaðist þó fortíð persónunnar upp fyrir mér en ég er hrædd um að fyrir þann sem ekki hefur lesið Jójó verði róðurinn þyngri. Hin augljósa lausn væri kannski bara að lesa Jójó fyrst – enda dásamleg bók.

Hér er aftur kominn krabbameinslæknirinn Martin, sem er í sambandi við hina fullkomnu (meira um hana síðar) Petru og virðist lifa glansmyndalífi. Undir yfirborðinu býr þó brotinn lítill drengur sem eilíflega er á leið heim úr skólanum eins og þegar hann varð fórnarlamb barnaníðings fyrir fjöldamörgum árum. Í Jójó kynntist læknirinn Martin rónanum Martin sem einnig var misnotaður sem barn og bundust þeir ólíklegum en þó sannfærandi böndum. Líf beggja voru í raun í rúst þó að á yfirborðinu hafi himinn og haf skilið rónann og lækninn að. Martin á fá alvöru sambönd í lífi sínu, hann fyrirgaf foreldrum sínum aldrei að taka ekki orð sín um misnotkunina trúanleg, hann hleypir eiginkonunni ekki nálægt sér og hann getur ekki rætt ofbeldið sem hann varð fyrir við neinn nema mögulega en þó varla – Martin róna. Í raun felst mesta spenna bókarinnar í samtölum þar sem stóra spurningin er hvort hann muni geta rætt misnotkunina.

Steinunn býður uppá gönguferðir um söguslóðir í Berlín -
það hljómar ansi vel!
Petra hin fagra er svo fullkomin að hún er gjörsamlega út í hött – og auðvitað er það engin tilviljun hjá jafn flínkum höfundi og Steinunni. Hún er þolinmóð, skilningsrík, greind og þar að auki svo fögur og glæsileg að annan eins þokka í eiginkonu hef ég ekki rekist á síðan í Málaranum eftir Ólaf Gunnarsson. En þrátt fyrir fullkomleikan er fortíð hennar – eins og Martins, lituð af skelfilegum atburðum. Fortíðin virðist reyndar ekki hafa markað Petru nema að því leiti að hún gerir henni kleift að skilja Martin betur. Á ögurstundu skilur hún hvað það er að vera brotin manneskja. Fullkomleiki Petru undirstrikar kannski hvernig öll sambönd Martins eru í raun dæmd til að mistakast ef honum tekst ekki að vinna á einhvern máta úr hryllingi fortíðarinnar. Ef sambandið við hana gengur ekki upp eru önnur sambönd dauðadæmd.

Að sumu leyti er dýpsta samband Martins við Lísu þá sem bókin heitir eftir – öll frásögnin (báðar bækurnar) grundvallast á einhvern hátt á þeim augnablikum þegar fundum þeirra Martins ber saman. Hann hittir hana fyrst sem ungur læknanemi þegar hún er lögð inn á geðdeild vegna misnotkunar föður síns – áratugum síðar sér hann stúlkuna aftur og er hún þá aðeins skugginn af sjálfri sér. Hróp hennar á hjálp höfðu verið þögguð niður og misnotkunin hélt áfram. Augnablikið þegar hann sér hana aftur markar upphafið að því ferli sem bækurnar lýsa. Þó að sá tími sem þau eiga saman innan bókarinnar sé mjög stuttur er Lísa engu að síður fyrirferðarmikill þáttur í vitund Martins og segja má að allt sem hann gerir – uppgjörið við fortíðina, uppgjörið við kvalara hans, sé gert í hennar nafni – (enda heitir bókin Fyrir Lísu).

Ég var afskaplega hrifin af Jójó, fannst hún bæði mögnuð, skemmtileg og takast að rista djúpt með efni sem er svo sannarlega enginn hægðarleikur að nálgast. Því miður finnst mér Fyrir Lísu vera síðri. Meðan Jójó snerist að einhverju leyti um að fletta ofan af fortíðinni – sýna lesandanum þennan sérkennilega mann og útskýra svo af hverju hann er eins og hann er – þá er Fyrir Lísu meira eins og úrvinnsla Martins sjálfs á misnotkuninni. Og úrvinnslan er einhvern vegin dálítið naív. Á tímabili breytast Martin og Lísa eiginlega í persónur úr CSI, þau smella á sig latexhönskum og sýna fádæma færni og glöggskyggni við að brjótast inn í leyniherbergi þar sem glæpirnir fóru fram. Þar finna þau urmul sönnunargagna sem þau koma til lögreglunnar og þetta leiðir allt til handtöku ekki aðeins föður hennar heldur stórs nets barnaníðinga víðsvegar um Evrópu ... já, þetta hljómar aðeins of gott til að vera satt. Að einhverju leyti mætti þó segja að þessi ævintýrabragur sé bara stílbragð og skemmtilegur í sjálfu sér en þá flækjast fyrir fremur grunnhyggin en þó fræðileg samtöl Martins við lögreglu og sálfræðing. Þar er þó undanskilin dásamleg sena þar sem Martin rekur inn nefnið á afar óvenjulega sálfræðistofu í Berlín. Persóna sálfræðingsins og samtal þeirra er af sama toga og samband Martins við rónann Martin eins og það gerðist best í fyrri bókinni. Hæpið og ólíklegt en þó svo sannfærandi – lífið er svo ólíklegt þegar allt kemur til alls.

Það eru engu að síður margir skemmtilegir og jafnvel magnaðir kaflar í Fyrir Lísu. Senan hjá sálfræðingnum, átveisla í almenningsgarðinum, fyrsta viðtalið við lögreglukonuna og fleiri og fleiri. Þá verður að nefna borgina Berlín sem verður dásamlega áþreifanleg á síðum bókarinnar og augljóst að höfundur er gjörkunnugur henni. Stærsti kostur bókarinnar er þó sennilega tungumálið. Steinunn er svo hrikalega flínk að raða saman orðum að það er alltaf unun að lesa textann hennar og Fyrir Lísu er þar engin undantekning – hún rennur afskaplega ljúflega í gegn. Það mætti kannski segja að stærsti galli Fyrir Lísu sé að hvað Jójó var frábær, óræð og mögnuð – Eins ágæt og Fyrir Lísu er þá nær hún ekki hennar hæðum.

Engin ummæli:

Skrifa ummæli