Þótt mér finnist það varla hafa getað verið fyrir svo löngu að ég síðast (jafnvel tvöfalt síðast) hyggaði mig í kósý félagsskap í Nýlenduvöruverzlun Hemma og Valda á Laugaveginum var það nú samt í desembermánuði síðastliðnum. Þetta umrædda aðventukvöld fór fram ljóðadjamm á Hemma og Valda og meðal skálda sem lásu þar upp úr ljóðum sínum voru Ísak Harðarson, okkar eigin Kristín Svava og Bragi Páll Sigurðarson, sem gaf frumraun sína í ljóðagerð út um þetta leyti (blogg Sölku um bókina hans má lesa hér). Á stokkinn steig einnig bandaríska hipphoppsveitin The Welfare Poets, sem stóð fyrir djammi og góðu stuði í hléi milli upplestraratriða – svo góðu stuði að fyrsta skáldið á dagskrá eftir hlé, Ásta Fanney Sigurðardóttir, bar upp þá ósk við meðlimi sveitarinnar að þeir myndu djamma áfram á hljóðfærin undir upplestri hennar. Sjálfri hefði henni nefnilega ekki orðið rappframa auðið þrátt fyrir bernskudrauma í þá veru. Eftir á að hyggja er rappflutningur Ástu upp úr þá nýútkomnu verki sínu, Herra Hjúkket, það sem mér er eftirminnilegast frá þessu kvöldi; lesturinn var mjög töff og grípandi og hún náði upp rífandi stemningu meðal áhorfenda. Ég átti þó ekki svo gott með að grípa innihald ljóðanna gegnum flæðið, en þótti það reyndar varla koma að sök. Það var svo ekki fyrr en seinna að ég las bókina, og nú, ennþá og mun seinna, sem ég kem því loks í verk að skrifa um hana.
Herra Hjúkket leit sem sagt dagsins ljós árið 2012 og tilheyrir bókaflokknum Meðgönguljóðum, sem Frú Stella hefur gefið út. Á innri kápu stendur að bókin hafi verið prentuð í 150 sérmerktum eintökum. Hún samanstendur af 10 ljóðum (þar af einu örljóði, 2ja línu löngu) og nokkrum áhugaverðum myndskreytingum (meint þannig að mér finnast þær góðar og hæfa ljóðunum, þótt ég sé ekki alltaf viss um af nákvæmlega hverju myndirnar eigi að vera). Kápuhönnunin er smekklega einföld, það sem kannski einkum grípur augað er mynd af hálfmánalöguðu, kaffilitu fari eftir bolla. Mér finnast kaffiblettir almennt geta gert bækur einhvernveginn notalegri og heimilislegri (klárlega matar- og drykkjarbletta æskilegastir í þessu samhengi), og þessi kaffiblettsmynd skilar einmitt sömu hughrifum. Mér skilst hún skreyti kápur allra bóka Meðgönguljóðaflokksins – hugmyndin er, ef ég man rétt, að verð einnar bókar sé um það bil það sama og verð kaffibolla, og hvort tveggja eigi sameiginlegt að fólk geti gripið það með sér á ferðinni (og gengið með) til að njóta innihaldsins.
Ég kunni vel að meta innihald Herra Hjúkkets. Ásta Fanney er ófeimin við að leika sér með tungumálið, dregur upp lifandi og nýstárlegar myndir og einnig þótti mér hressandi hvað ljóðin eru laus við skáldskaparsjálfhverfu (mér finnst allavega geta verið frekar þreytandi eða í besta falli vandmeðfarið þegar ljóðmælandi er einhvernveginn síupptekinn af því ástandi að vera skáld). Að sama skapi er yfirbragðið varla beint það sem kalla mætti eitthvað sérlega „bókmenntalegt“, en ég spottaði reyndar vísun í eina af mínum uppáhaldsbókum, Meistarann og Margarítu eftir Búlgakov, í lokaljóði bókarinnar sem heitir „Dansinn í Moskvu“.
Myndmálið er oft líkamlegt og allt að því gróteskt, t.d. í lýsingum á líkamshlutum (ljóðmælanda sjálfs og annarra) og allskonar athöfnum á borð við dríslaveiðar, blóðdrykkju og maltsvita – maður nánast finnur þefinn af dríslasteik á grillinu. Textinn eru stundum á mörkunum að beinlínis meika samhengislegt sens, en raunsæislegur broddur skýtur þó líka upp kollinum öðru hvoru. Og þrátt fyrir á stundum samhengislitlar lýsingar á furðuverum og athöfnum þeirra fannst mér heildarmyndin alltaf ná að koma heim og saman (e.t.v. á eilítið svipaðan hátt og í Jabberwocky Lewis Carroll – sé rétt að staðið er stundum einfaldlega nóg að hlutirnir hljómi vel).
Þótt lýsingarnar verði á stundum hlægilega hátíðlegar fékk ég ekki á tilfinninguna að hér tæki neinn sig of hátíðlega. Við lestur fyrsta ljóðs bókarinnar sá ég ljóðmælandann t.d. skýrt fyrir mér uppi í ísköldum turni úti á opnu hafi, fellandi hrossatár í fjögur þúsund ár undir söng harmi vafinna sírena – og fannst það aðallega mjög fyndið, en samt líka mjög epískt, líklega bara frekar tragíkómískt. Eins og skáldið eigi í hæfilega yfiveguðu sambandi við eigin orð og myndir til að ná alltaf að afstýra hvorutveggja, óhóflegri háfleygni eða þá flatneskju. Þótt andrúmsloftið sé yfirleitt framandlegt ná ljóðin beittu raunsæisflugi á köflum og eru meira að segja skemmtileg í leiðinni. Eiginlega var helst að mér hefði þótt Herra Hjúkket mega vera lengri, en ég vona þá bara að Ásta Fanney haldi ótrauð áfram að yrkja og gefa út.
Mér finnst alveg nauðsynlegt að koma rauðvínsblettum til varnar. Rauðvínshringir á bók eru mjög artí og smart, finnst mér.
SvaraEyðaJá! Algjörlega sammála, þeir eru þarna uppi með kaffiblettunum.
SvaraEyða