The Fault in Our Stars hefur trónað í efasta sæti ýmissa metsölulista, var meðal annars í sjö vikur samfleytt í fyrsta sæti New York Times metsölulistans. |
Ég reyndist hafa fullkomlega rangt fyrir mér, The Fault in Our Stars var algjörlega misheppnuð sem hljóðbók á morgungöngum. Fyrst flissaði ég svo mikið að hundarnir og eigendurnir í bandinu horfðu undrandi á mig. Svo grét ég svo mikið yfir henni að ég sá að ég yrði bara að hlusta á hana heima í sófa ef ég ætlaði ekki að enda sem snöktandi hrúgald innan um íkornana í skóginum. Og öfugt við væntingar reyndist full þörf á að kryfja hvert einasta orð ásamt því að elta textatengsl yfir í Shakespear, T.S. Eliot, Emily Dickinson og ótal fleiri. Ég vildi líka gjarnan hafa rými til að njóta textans, melta boðskap hans og hugsa um lífið – sem er dálítið erfitt þegar lesarinn malar áfram án þess að gefa ráðrúm fyrir þess konar hugarflug. Sem sagt, óheppileg hljóðbók en ó svo frábær bók.
Sögumaður The Fault in Our Stars er hin 16 ára gamla Hazel Grace Lancaster. Hazel er með ólæknandi krabbamein en þökk sé nýju kraftaverkalyfi er meinvörpum í lungum haldið í skefjum, að minnsta kosti tímabundið. Hún er samt mikið veik, á erfitt með andadrátt og er tengd við súrefni nótt sem dag. Í stuðningshópi fyrir unglinga með krabbamein kynnist hún Augustus Waters sem er hávaxinn, myndarlegur og laus við krabbamein eftir að annar fóturinn var tekinn af honum ári áður. Augustus fellur strax fyrir Hazel, hún er aftur á móti ekki eins viss í sinni sök. Raunar er Hazel bara viss um eitt í lífi sínu: að hún sé gangandi tímasprengja sem fyrr eða síðar muni springa með hræðilegum afleiðingum fyrir alla þá sem standa henni nærri. Að bjóða fleirum inn á áhættusvæðið er nánast óhugsandi. Í það minnsta er útilokað að hún hleypi Augustus inn fyrir varnarmúrana nema hann hafi lesið uppáhaldsbókina hennar An Imperial Affliction eftir Peter Van Houten. Bókina hefur Hazel lesið óteljandi sinnum, heilluð af sögu hinnar krabbameinssjúku söguhetju Önnu, vonsvikin yfir óskiljanlegum endi hennar sem skilur eftir allt of margar brennandi spurningar. Saman leggja þau Augustus í leit að svörum við þeim – hún með súrefniskútinn í eftirdragi, hann á gervifæti. Svörin reynast þó önnur en þau áttu von á – og umfram allt kannski ekki nærri eins mikilvæg.
Aðdáendur bókarinnar hafa verið iðnir við að búa til svokallað "fan art", gjarnan með því að hanna nýja bókakápu. |
Þrátt fyrir að heimurinn sem The Fault in Our Stars birti sé óréttlátur og sorglegur er bjart yfir bókinni. Ein persóna hennar er skapvondur og illa alkóhólíseraður rithöfundur á ljósbláum náttfötum. Sá fullyrðir að það séu bara til tvær tilfinningar, ást og ótti. Um þessa póla hverfist bókin. Á öðrum vængnum óttinn við dauðann sem er auðvitað sérstaklega nærtækur fyrir krabbameinssjúka unglinga en jafn óumflýjanlegur fyrir okkur hin. Á hinum kærleikurinn, ekki bara milli stráks og stelpu heldur milli foreldra og barna og milli vina, alls óskyldur óttanum en samt á einhvern hátt órjúfanlegur frá honum. Átök þessara tveggja tilfinninga ná ákveðnum hápunkti í uppáhaldskaflanum mínum sem gerist á stað þar sem óttinn og dauðinn eru greyptir í veggina, í húsi Önnu Frank. Ég trúi því ekki að nokkur maður geti lesið þann kafla án þess að komast að þeirri niðurstöðu að við ættum frekar að láta ástina leiða okkur en óttann. Sá boðskapur er auðvitað, út af fyrir sig, enn ein klisjan. En þannig er það auðvitað með klisjur, þær eru ekki endilega ósannar þótt framsetning þeirra sé stöðnuð og þær hafi fyrir vikið misst merkingu sína. Mér finnst John Green hins vegar takast að setja sínar hugmyndir fram án þess að klæða þær í margtuggna frasa eða úr sér gengið myndmál, án þess að grípa fyrir nefið á okkur og troða þeim ofan í kok – og fyrir vikið hitta þær beint í hjartastað.
Þau Ansel Elgort og Shailene Woodley munu leika Augustus Waters og Hazel Grace Lancaster. Nöfn þeirra eru ágætt dæmi um að stundum er raunveruleikinn ótrúlegri en skáldskapurinn. |
Ég hef alltaf látið fullyrðingar um bækur sem breyta lífi lesenda fara dálítið í taugarnar á mér. Ég trúi því ekki að bækur breyti lífi nokkurs, ekki upp að öðru marki en að allt sem á daga okkar drífur breyti lífi okkar pínuponsulítið. Hvað stórar og dramatískar breytingar varðar held ég að þær séu frekar sjaldgæfar og orsakist þá yfirleitt af einhverju öðru en lestri bóka – og þetta segi ég sem bókaunnandi mikill! En ef ég tryði á takmarkalausan áhrifamátt skáldskaparins þá mætti The Fault in Our Stars gjarnan vera bókin sem breytir mínu lífi.
Mikið er þetta fallega skrifað, mig langar strax að lesa þessa bók :-)
SvaraEyðaBestu kveðjur, Una Björk
Eftir lesturinn bíð ég hreinlega spenntur eftir að lesa The Fault in Our Stars - þess albúinn að bókin breyti mínu lífi :-)
SvaraEyðaP.s. vongóður eftir framhaldsfærslu.
Kveðja, dyggur lesandi ÞF
Ég spái því að Borgarbókasafnið og bókasöfn víða um land fái yfir sig hrinu spurninga um þessa bók strax á morgun! Allavega er hún komin á lestrarlistann minn.
SvaraEyðaSalka
Þetta er yndisleg bók, ég fékk hana í afmælisgjöf frá syni mínum og barnabarn mitt 17 ára þekkti bókina af netinu og fyrirlestrum höfundarins þar ! Svona eru tímarnir. Mér fannst svo fallegt og lærdómsríkt hvernig foreldrar unga fólksins í bókinni tókust á við erfiðleikana og krabbamein barna sinna.
SvaraEyða