5. nóvember 2013

Ekki þessi týpa ‒ Reykjavíkursaga eftir Björgu Magnúsdóttur

Einhverra hluta vegna kom ég að Ekki þessari týpu (2013), fyrstu bók Bjargar Magnúsdóttur fréttakonu, með þá hugmynd að um væri að ræða bókmenntir af taginu kenndu við skvísur. Kannski mér hafi skilist þetta af markaðssetningunni, nema það hafi frekar verið skærlit kápan; skreytt byggingum við Austurvöll innan í útlínum fjögurra kvenna, eða þá slangurlegur bókartitillinn. Að lestri bókarinnar loknum finnst mér hún þó allavega ekki samsvara mínum eigin hugmyndum um skvísubækur, sem eru meira í ætt við Sex and the City með tilheyrandi glamúr, gegndarlausri neyslu og einhvernveginn meiri froðu. Hér er minna af þessu öllu en meira af pólitískum pælingum, hversdagsamstri og húmor.

Ekki þessi týpa er saga af fjórum vinkonum og minnir að því leyti á aðra nýlega, íslenska skáldsögu, Korter, þar sem einnig voru raktir fjórir þræðir samhliða. Í Korter var þó um að ræða persónur sem ekki tengdust með beinum hætti í upphafi bókarinnar, en í Ekki þessari týpu eru aðalpersónurnar fjórar æskuvinkonur sem hafa haldið hópinn síðan í grunnskóla þrátt fyrir að eiga kannski ekki svo mikið sameiginlegt lengur að sumu leyti. (Mér fannst satt að segja dálítið ótrúverðugt að þær hefðu allar farið gegnum menntaskóla, háskóla og vinnustaði án þess að finna sér vini einhvers staðar á leiðinni sem þær ættu meira sammerkt með ‒ þær virðast bókstaflega enga vini eiga, varla svo mikið sem góða kunningja, nema hver aðra.) Hver kafli er sem sagt sagður út frá sjónarhorni einnar aðalpersónu, sem gefið er til kynna með nafni viðkomandi í kaflaheiti. Í undirkaflaheiti er staðsetning, yfirleitt götuheiti í borginni, og fáein orð sem gefa vísbendingu um innihald kaflans.


Stelpurnar fjórar, Bryndís, Inga, Regína og Tinna, fundust mér alveg ágætlega gerðar persónur. Hver þeirra hefur eigin rödd sem er vel greinanleg frá hinum, þannig að mér fannst ekki erfitt að fylgja því eftir hvaða sjónarhorn var í gangi á hverjum tíma. Tinna, sýningahönnuður á Þjóðminjasafninu, er e.t.v. flötust að mínu mati ‒ eins og sá karakter sé aðeins óljósari en hinna, eða ekki með eins greinilegar langanir og mótíf. Mamma Tinnu kom reyndar jafnvel skýrar fram að mínu mati þótt hún kæmi ekki mjög mikið við sögu, enda Tinna háð móður sinni og skoðunum hennar um mjög margt. Best af vinkonunum fannst mér vera lögfræðingurinn Inga, þ.e. bæði best heppnuð sem persóna og jafnframt sympatískust þeirra fjögurra. Kannski það stafi af því að Inga er raunsæislega meðvituð um eigin annmarka (sjúklega fullkomnunaráráttu og hreinlætisæði) þegar hinar eru meðvitaðri um galla allra annarra. Hún veltir öðru fólki og samböndum sínum við það fyrir sér á yfirvegaðri hátt en vinkonur hennar og á endanum er það líka hún sem tekur mestum persónulegum framförum og tekur af skarið í eigin einkalífi. Hinar eru meira í að velta sér upp úr því hvað eitthvað annað, mis-ókunnugt fólk sé miklir fávitar ‒ hvort sem um er að ræða „úthverfadrulluhala“ sem kaupa garðálfa eða „afdankaða bókmenntafræðihippa“. Fólk er óspart dissað á kaf fyrir allt frá grænmetisáti til veðuráhuga. Þetta er reyndar ábyggilega meðvitað hjá höfundi a.m.k. upp að einhverju marki; þannig viðurkennir Bryndís, sérfræðingur í viðskiptaráðuneytinu, sjálf að hún sé föst í því mynstri að hrauna yfir fjarstadda en geta síðan ekkert sagt við fólk augliti til auglitis. Líka mætti líta svo á að þetta kallist á við titil sögunnar; stundum er einhvernveginn auðveldara að skilgreina hvernig manni finnst maður ekki vera; út frá þeim sem maður telur sig ekkert eiga sammerkt með, frekar en hvernig maður er.

Bryndís er kynnt til sögunnar í fyrsta kafla þar sem hún andskotast út í sjálfa sig fyrir króníska meðvirkni og viðleitni til að þóknast öðrum, stundum þvert á eigin langanir, og síðar í sögunni er einnig bent á að fólk sem hrauni stöðugt yfir aðra sé kannski ekki beint að kafna úr lífshamingju sjálft. Þetta dissandi viðhorf vinkvennanna hefur eflaust átt að vera fyndið á köflum, en mér fannst það eiginlega ganga of langt og byrja að vera þreytandi - bæði vegna þess að ég varð varla vör við að þær kynnu vel við nokkra manneskju nema hver aðra og gaura sem þær voru heitar fyrir þá stundina, og líka vegna þess að oftar en ekki var þetta svo gelgjulegt dót sem þær voru að pirra sig á (t.d. ógeðslega ljót föt einhvers vinnufélaga). Eiginlega má segja að allar lengri samtalasenur bókarinnar séu annað af tvennu: 1) dramatík og yfirdrifin hneykslun yfir einhverju sem einhver fáviti gerði (þessi „samtöl“ eiga sér gjarnan stað innra með persónu) 2) æsilegar samræður tveggja andstæðra póla um jafnrétti kynjanna / útlendinga á Íslandi / umhverfismál.

Sem dæmi um 1) gengur fyrsti kafli bókarinnar að mestu út á gríðarlega hneykslun og „bugun“ Bryndísar í kjölfar þess að náungi sem sambýlingur hennar, bankastarfsmaðurinn Regína, bauð heim af djamminu kvöldið áður hefur kúkað í klósettið þeirra, sem verður til þess að það stíflast:
Mig langar svo innilega ekki að díla við þetta. Ísköld tilfinning lengst ofan í maga hreiðrar um sig. Spennuhnúturinn hleður utan á sig, hríslast um líkamann og ég þarf að gubba. Held ég. Ef þetta er hljóð í klósettburstanum er þessi dagur að verða verri en ég hafði séð fyrir. Þegar maður tekur upp klósettbursta í ókunnugum húsum er það venjulega vísbending um að maður hafi gert eitthvað sem enginn ætti að komast upp með. Allavega ekki í dagsbirtu í lýðræðisríki. Já, einmitt. Auðvitað er vandamálið líka fólgið í hversu lélegur sturtarinn er á klósettinu en það er aukaatriði. Hann á ekki að koma sér í þessa aðstöðu. Bara alls ekki. […] ‒ Hérna, hafið þið verið í vandræðum með að sturta niður? Ég heyri að hann reynir að láta þetta hljóma eðlilega. Sem þetta er auðvitað alls, alls ekki. (6-7)

Afsakið tepruskapsleysið, en eru margar athafnir eðlilegri en einmitt sú að losa úrgang þegar þörfin er mest? Ég get svo sem séð fyrir mér að sumir myndu bregðast við svona aðstæðum með þessum hætti, en svona yfirdrifin viðbrögð fannst mér ósannfærandi gelgjuleg fyrir þessa karaktera að öðru leyti. Ég fæ á tilfinninguna að þau séu til komin af einhvers konar félagsmótun ‒ svona svipað eins og að sumt finnst manni ekkert skrítið eða ógeðslegt fyrr en maður t.d. byrjar í skóla og lærir af ýmiss konar aðstæðum og viðbrögðum annarra að það á að þykja skrítið eða ógeðslegt. Svipað og að sumum strákum finnst eitthvað óhugsandi við það að sætar stelpur hafi líkamsstarfsemi á við aðra.

Þessi yfirdrifni æsifrásagnarstíll fannst mér semsagt skjóta frekar skökku við, en líklega á þetta að vera fyndið og er þá einfaldlega húmor sem ég kann ekki að meta. Eitthvað sem ég hefði frekar samþykkt komandi frá yngri persónum en þær eiga að vera (fæddar 1986). Annað sem mér fannst nálgast að vera ósannfærandi miðað við aldur er hvað stelpurnar hafa allar komið sér upp stabílum starfsframa, sem myndar t.d. hálfósannfærandi kontrast við lýsingar Bryndísar á fyrrum samnemendum sínum, „afdönkuðu bókmenntafræðihippahræðunum“ sem eru „öll á bótum og eiga varla fyrir mat“.

Hvað samtalstýpu 2) snertir (s.s. æsilegar samræður eins PC-þenkjandi aðila við annan, mjög ó-PC-þenkjandi aðila), þá fannst mér ýmislegt við þau samtöl alveg sannfærandi, þ.e. á þann hátt að ég get séð fyrir mér svona fólk að eiga í svona samtölum. Mér fannst þó ekki alltaf neitt sérlega gaman að lesa þessi samtöl á prenti. Sannfærandi elementið í þeim dvínar líka eftir því sem á líður, þegar lesandinn fær á tilfinninguna að helsti tilgangur samskiptanna sé að útsetja hann fyrir beisik hugmyndafræði femínisma / umhverfisverndar o.s.frv. ‒ það finnst engum gaman að láta mata sig á boðskap.

Eins og Inga bendir á, þá er Bryndís vinkona hennar þessi týpa sem nær að koma jafnréttismálum inn í öll samtöl. Svoleiðis týpur eru klárlega til en mér finnst þessi framsetning bara ekki eiga sérlega vel við í skáldsögu, formi sem býður upp á annað og meira en atburðarás með persónum sem eiga í raunhæfum samtölum. Sem dæmi (og þau eru reyndar fleiri) finnst mér höfundur sýna betra vald á forminu t.d. í tilfelli Ingu; þannig er lesandanum sýnt með hegðun hennar og hugsanagangi að hún er illa haldin af fullkomnunaráráttu og þess vegna þarf engin persónanna að koma því á framfæri með því að segja „Inga er illa haldin af fullkomnunaráráttu“. Á sama hátt hefði getað verið mun áhrifameira að sýna fram á mikilvægi femínisma / umhverfisverndar / menningarlegs fjölbreytileika óbeint gegnum samskipti persónanna, frekar en að láta þær bara halda einræður um hugmyndafræðina. Eins og er finnst mér framsetningin minna meira á unglingabók, eða kannski samsuðu úr pistlum um þessi málefni, heldur en heilsteypta skáldsögu.

Það er að mörgu leyti týpískt fyrir skvísubókmenntir (og bara alls konar bókmenntir og annað afþreyingarefni) að í lokin endi allar persónurnar hamingjusamlega í sambandi til æviloka, en sem betur fer eru persónur Ekki þessarar týpu sjálfum sér samkvæmar að þessu leyti og ekki að sjá að velgengni á rómantíska sviðinu jafngildi allsherjarvelgengni í tilverunni fyrir þeim. Ég held að bókin hefði haft virkilega gott af meiri yfirlegu ‒ hún ber með sér að hafa verið komið út í flýti; er til dæmis illa prófarkalesin og orðalag mætti sums staðar betur fara. Þótt hér hefði að mínu mati mátt vanda betur til verka kemst frásögnin á gott skrið inn á milli, sérstaklega fannst mér hún ná flugi á djamminu í miðbæ Reykjavíkur. Söguframvindan er heldur ekki slæm (þótt mér fyndist lokasenan toppa sig fullmikið í geðveikislegri dramatík), og margt fínt í persónusköpun sem fyrr segir. Það er greinilegt að Björg Magnúsdóttir hefur ýmislegt að segja, frásagnargleðin skín alls staðar í gegn og spennandi að sjá hvað hún sendir frá sér næst, en eins og fram kom í viðtali  D&D við Björgu í haust er önnur bók væntanleg.

Engin ummæli:

Skrifa ummæli