21. ágúst 2013

Þokkalega öflugur hvirfilbylur

Í vor kom út fyrsta skáldsaga Bjargar Magnúsdóttur, Ekki þessi týpa. Druslubækur og doðrantar fengu þennan nýslegna höfund til að svara nokkrum (ókei, mis)laufléttum spurningum.

Hvers vegna byrjaðir þú að skrifa og ertu búin að skrifa lengi?

Það að hafa unun af því að skrifa er eiginlega eini rauði þráðurinn í lífi mínu, þegar ég rek ævi mína aftur á bak. Þú veist, connecting the dots, eins og Steve Jobs talar um í algjörri must see ræðu við útskrift úr Stanford. Mér hefur stundum liðið eins og þokkalega öflugum hvirfilbil sem spænist á milli staða og áhugamála. Skriftirnar eru eini fastinn í lífi mínu sem ég man eftir núna, eitthvað sem mér finnst svo innilega gaman og hefur aldrei breyst, frá því ég var mjög ung. Ég hef haldið dagbækur og hugmyndabækur í tæpa tvo áratugi og man fyrst eftir mér svona 13 ára að baksa við að skrifa hnyttna myndatexta í ljósmyndaalbúm heimilisins.

Ég veit þetta er óþolandi spurning sem er næstum því ómögulegt að svara, en hverjir eru uppáhaldshöfundar þínir og hverjar eru uppáhaldsbækurnar þínar?

Japanski meistarinn Haruki Murakami er uppáhaldsrithöfundurinn minn, ekki síst vegna þess hve margar frábærar bækur hann hefur skrifað. Hann nær alltaf að snúa tilverunni á hvolf, eða í það minnsta láta hrikta í stoðum hennar, kann þá list að blása lífi í grautfúlan hversdaginn. One hit wonder (þó ég hafi enn ekki lesið Undirstöðuna) er Ayn Rand með Uppsprettuna sem segja má að hafi breytt lífi mínu. Ég las hana á hárréttum tímapunkti! Harry Potter bækurnar tróna líka á toppnum. Mér finnst þær algjörlega magnaðar bækur enda svigna þær undan hlaðborði lífsins. Í þeim er allt; barátta, kærleikur, líf, dauði, gleði, sorg, illska, metnaður, vinátta og auðvitað snarmagnaðir töfrar.

Þú hefur sagt í viðtölum að margt í Ekki þessari týpu sé byggt á atvikum úr eigin lífi. Er þetta eins konar skáldævisaga?

Já, það má segja að Ekki þessi týpa sé mín hliðarveröld. Allar persónurnar eiga sér fyrirmyndir - mismargar - á Íslandi í dag og allar senurnar hafa gerst i einhverri mynd. Ég hef lengi verið þekkt fyrir að færa hressilega i stilinn ef það er mín tilfinning að það geri sögur betri. Vinir mínir grínast reglulega með að það þurfi í það minnsta að deila í með tveimur sögunum sem ég segi. Í bókinni verða sannir atburðir enn betri eða verri eftir atvikum að mínum dómi. Þar fæ ég tækifæri til þess að færa raunveruleikann í þann búning sem ég held að sé skemmtilegastur aflestrar.

Er einhver aðalpersónanna fjögurra byggð á þér?

Já. En ég ætla ekki að segja hver það er. Ég á eitthvað í þeim öllum en mest í einni.

Ekki þessi týpa er skrifuð inn í ákveðna hefð skvísubóka, eða að minnsta kosti markaðssett sem slík. Geturðu sagt okkur hvers vegna þú ákvaðst að skrifa skvísubók? 

Ég ákvað aldrei að skrifa skvísubók enda veit ég ekki beint hvað skvísubók er. Markmiðið var að skrifa fyndna og skemmtilega bók um sterkar ungar konur. Það virðist vera þannig að slík bók sé ósjálfrátt skvísubók. Ég hef sagt það áður að með því að stimpla bókina mína sem skvísubók finnst mér takmarkandi fyrir lesendahópinn sem ég fíla auðvitað ekki. Um leið og búið er að stimpla eitthvað sem skvísubók er dálítið verið að segja að þetta sé bara bók fyrir skvísur. Og þá þarf að skilgreina hvað skvísa er. Ég er ekki til í að samþykkja þetta nema bæta við að þetta sé bók fyrir skvísur af báðum kynjum á öllum aldri. Basically bók fyrir alla sem hafa áhuga á lífi ungra kvenna. Þetta er sama og til dæmis með Harry Potter bækurnar sem voru stimplaðar barna- og unglingabækur en eru alls ekki bara fyrir þann aldurshóp. Að þessu sögðu tek ég fram að ég er ekki sérfræðingur í markaðssetningu bókmennta, það getur vel verið að mín bók virki best undir þessum formerkjum. Það sem ég hef hins vegar ítrekað bent á er að fyrirfram stimplanir mega ekki verða takmarkandi fyrir komandi lesendahóp. Fyrir mína parta er ég ekki hrifin af því að hólfa hluti alveg niður í ræmur, með þannig skipulagi er hætt við því að fólk fari á mis við einhverja dúndrandi snilld.

Skvísubækur hafa verið umdeildar og sumar til dæmis gagnrýndar á feminískum forsendum fyrir það að snúast fyrst og fremst um makaleit, þ.e. að líf konu verði ekki fullkomnað fyrr en hún hefur fundið ástina í formi karlmanns. Þá hefur einnig verið bent á að margar skvísubækur séu mjög neyslumiðaðar og bókagreinin hefur ekki síst verið gagnrýnd fyrir að setja raunveruleika nútímakvenna fram sem froðukenndan og jafnvel léttvægan. Hver er skoðun þín á því? 

Æi, veistu, þessi umræða er eiginlega alveg brjálæðislega flókin og ég held að það þurfi að passa sig mjög á því að detta ekki í alhæfingar um heilt „genre“ útfrá umdeildu og oft vinsælu efni af jöðrunum, sem er nota bene mjög einfalt. Bækur og höfundar eru jafnólíkir og þeir eru margir. Ég segi samt capslock STANS á það að gert sé lítið úr „klassískri kvennamenningu og umfjöllunarefnum“. Það er margt í henni sem er viðbjóðslega fyndið (lesist: léttvægt) og er bara algjör snilld þannig. Það er rosalega auðvelt að vera reiður yfir öllu sem manni finnst fáránlegt, illa skrifað og lélegt yfir höfuð. Það fer bara svo skelfilega illa með mig að ég reyni frekar að nálgast viðfangsefnin útfrá hinni hliðinni, þ.e. gera frekar tilraun til þess að búa til eitthvað gott heldur en að gagnrýna það sem mér finnst lélegt. Eins og ég segi, Ekki þessi týpa er mín hliðarveröld. Ég hef aldrei á ævinni verið á þeirri skoðun að lífið verði ekki fullkomið fyrr en ég hef fundið ástina í formi karlmanns. Það er mikil einföldun á ansi flóknu máli og beinlínis hættuleg skilaboð til fólks almennt - eða kannski ekki hættuleg, hljómar bara eitthvað svo skelfilega innihaldsrýrt og metnaðarlaust. Ég verð að viðurkenna að ég tengi ekki mikið við þessar pælingar og hef lítinn áhuga á að lesa um kvenmenn og karlmenn sem hafa fyrst og síðast metnað til þess að ganga út og kaupa sér nýjasta tískulit augnskugga eða eitthvað álíka. Þó að dagdraumar um æsilega einstaklinga séu algjörlega frábærir og jafnvel nauðsynlegir þarf að vera eitthvað safaríkara stöff í gangi þannig að ég nenni að lesa það. Þess vegna kannski er ég ekki dómbær á „þess konar skvísubækur“ sem þú nefnir í spurningunni, ég bara forðast þær. Fyrir mér eru femínismi, almennt jafnrétti og virðing fyrir mannréttindum ósegjanlega mikilvægir þættir tilverunnar. Þessir hlutir ásamt öðrum tel ég vera forsendur þess að samfélög virki, að við sameinumst þó um það að við höfum sama rétt gagnvart hverju öðru og lögum.

Hvernig var að gefa út sína fyrstu bók?

Það finnast eiginlega ekki nægilega góð lýsingarorð í orðaforða mínum sem geta lýst því. Ég vildi að ég gæti boðið þér inn í hausinn á mér þannig að þú gætir fundið þessa tilfinningu, eða þú svo sem veist auðvitað hvernig það er. Algjörlega einlægt svar: það er stórkostlegt að upplifa langþráð markmið verða að veruleika.

Voru viðbrögðin eins og þú áttir von á? 

Ég var orðin alveg klikkuð á endasprettinum, fannst svo ógeðslega gaman að þetta væri að gerast, að ég hugsaði eiginlega ekkert út í það hvernig fólk myndi taka bókinni. Mér fannst aðalmálið vera að ég væri að gefa út bók. Þegar ég hugsa um það eftir á er ég verulega ánægð með viðbrögðin. Ég hef fengið afbragðsgóða dóma alls staðar (nema hjá DV sem tók á sig að drulla yfir bókina), hún var endurprentuð eftir mánuð í sölu og nú hafa selst tæplega 4.000 eintök, biðlistar eru eftir henni á flestum bókasöfnum landsins auk þess sem fólk þreytist ekki á að ræða hana við mig og hlæja með mér að öllu ruglinu í henni sem mér finnst náttúrulega mjög gaman. Ég held það sé ekki hægt að biðja um mikið meira.

Ég veit að þú ert byrjuð á næstu bók. Viltu eitthvað gefa upp um efni hennar?

Ég hef sagt það áður að mig langar í það minnsta að skrifa eina bók í beinu framhaldi af þessari og er nú þegar byrjuð á því handriti. Útgefandinn minn er búinn að taka mig á teppið og láta mig heyra það að ég fái sko enga silkihanskameðferð þegar kemur að öðru verki og ég verði að gjöra svo vel og vanda mig. Sem er auðvitað stefnan, það er ekki í boði að slá slöku við á þessum tímapunkti. Síðan er margt annað að veltast í hausnum á mér í sama anda og ýmislegt annað af allt öðrum toga.

Eigum við von á fleiri skvísubókum?

Það er von á annarri bók um ungar íslenskar konur. Og alls konar fleiru ef mér endist ævin í allt sem mig langar að gera.

Ertu uggandi yfir stöðu bókmennta á tölvuöld?

Nei. Svo lengi sem rithöfundar halda áfram að skrifa góðar sögur og bókaforlög halda rétt á spöðum á að vera hægt að láta tæknina vinna með sér.

Og að lokum: Ef þú mættir velja þér einn íslenskan höfund til að deila kampavínsflösku með, hvern myndir þú velja?

Auði Jónsdóttur.



Og haldiði ekki bara að síðuhöldurum hafi, með yfirgripsmiklu gúggli, tekist að finna mynd af Auði Jónsdóttur, ásamt manni sínum, drekka kampavín. Bara svona svo Björg geti séð þetta betur fyrir sér. 


Engin ummæli: