|
Aðalbókasafnið á fyrstu hæð.
Hjá lyftunni og neyðarútgangnum. |
Undanfarna viku hef ég dvalið á farfuglaheimilinu Hostel Buffalo-Niagara, sem stendur við Main Street í Buffalo, New York. Dvölin hefur verið með besta móti, aðstaðan til fyrirmyndar og andrúmsloftið rólegt. Það sem gerir það þó að verkum að ég væri næstum til í að vera hérna lengur – og þá er mikið sagt, þar sem er mig farið að lengja töluvert eftir því að flytja í íbúð sem bíður mín í nágrenninu – er bókasafn farfuglaheimilisins.
Þar má finna óvenjumikið af góðu efni, meðal þess eru skáldsögur eftir höfunda á borð við Joyce Carol Oates (sem er eftir því sem ég best veit eini frægi rithöfundurinn sem hefur gert Buffalo að sögusviði bóka sinna), Paul Auster og Ursula K. Le Guin, ævintýri eftir Lewis Carroll og C.S. Lewis, bókin
Little Men eftir Louisa May Alcott (ég hafði aldrei heyrt um þetta framhald
Little Women) og auðvitað bæði
Pride and Prejudice og
Pride Prejudice and Zombies. Til að sýna hversu fjölbreytilegt safnið er má líka nefna bók Bills Clintons,
Giving: How Each of Us Can Change the World, sem hvílir sig á hillunni rétt hjá barnasmásagnasafninu
Chicken Soup for the Kid's Soul: 101 Stories of Courage, Hope and Laughter.
|
Sigur mannsins yfir
dauðanum? |
Á safninu eru líka óvenju margar bækur og tímarit um skáldskap og aðrar listir. Margar þessara bóka bera stimpil listamannakollektífs sem var eitt sinn starfandi hérna ofar í götunni og gaf svo Buffalo-Niagara farfuglaheimilinu bækurnar þegar það hætti – sem útskýrir úrvalið að einhverju leyti. Þar sem fyrsti skóladagurinn minn í nýrri bókmenntafræðideild er í dag, hef ég verið að glugga örlítið í bókmenntateóríuna sem hostelið bíður uppá yfir helgina. Til dæmis má finna hér eintak af
Modern Criticsm and Theory: A Reader (gamla útgáfu), sem hefur að geyma mikilvægar fræðigreinar sem Prófessor David Lodge hefur tekið saman. Við hlið
Modern Criticism and Theory stendur bók sem dró mig þó ekki síður að:
Make Your Juicer Your Drug Store eftir Dr. L. Newman. Hún er spennandi, bæði vegna þess að John Lust, höfundur bókarinnar
Drink Your Troubles Away, skrifar inngang og vegna þess að fyrsti kaflinn heitir „Man Does Not Die – He Kills Himself“. Ef uppskriftin að ódauðleika leynist einhvers staðar, þá hlýtur það að vera í þarna.
|
Þessi hilla er frammi í anddyri.
Bók Wilsons blasir við
þreyttum ferðalöngum. |
Bókin sem ég gleymdi mér hins vegar alveg óvænt yfir, var
Axel's Castle: A Study in the Imaginative Literature of 1870 to 1930 eftir Edmund Wilson. Ég fór sérstaklega að skoða hana vegna þess að einn kaflinn fjallar um Gertrude Stein, sem er höfundur sem ég á að lesa í einu námskeiði haustsins. Og mér þótti tilhugsunin um að vísa stöðugt og jafnvel einungis í þennan Edmund Wilson, bæði í tímum og í lokaritgerð, ótrúlega sniðug. Ég gæti logið því að hann væri í hávegum hafður í Háskóla Íslands, að fæstir lesi þar nokkuð annað en Wilson, þótt bókin hafi fyrst komið út árið 1931… Og þótt ég sjái kannski ekki alveg hvernig þetta plan ætti að ganga upp hjá mér – þetta er bara ein af þessum ótalmörgu frábæru hugmyndum sem verður líklegast aldrei hrint í framkvæmd – þá var eitthvað alveg sérstaklega notalegt við að lesa í bókinni, sem fjallar sérstaklega um symbólisma í verkum nokkura valinna skálda. Textinn flæðir rólega áfram og er fróðlegur.
|
Mig langar að taka, en ég tími því varla. |
Ég má til með að minnast að lokum á kjallara farfuglaheimlisins, því þar má ekki aðeins finna þvottavél og þurrkara sem kostar bara $1.50 að nota, heldur líka stórbrotið vídjóspólusafn, vídjótæki og sjónvarp. Þar situr fólk á kvöldin og horfir á allt frá
Casablanca, til
The Mask, til glæpamyndarinnar
Clay Pigeons, sem ég nennti ekki alveg að klára að horfa á í fyrrakvöld. (Flestar myndanna eru frá 10. áratug síðust aldar.) Nú held ég að það sé alveg ljóst hvar þið hvílið ykkur næst þegar þið eigið leið hjá Buffalo eða ætlið að skoða Niagarafossa.
Engin ummæli:
Skrifa ummæli