Mörg börn og foreldrar þekkja bækurnar um the Gruffalo, sem í skemmtilegri þýðingu Þórarins Eldjárn heitir Greppikló. Greppikló er skrítið og skemmtilegt skrímsli sem kemst í kynni við brögðótta mús. Eftir fyrri bókinni hefur verið gerð teiknimynd sem var sýnd í íslensku sjónvarpi fyrir einhverjum jólum síðan; ekki veit ég hvort myndin eftir seinni bókinni hefur verið sýnd hér en hún er allavega líka til.
Greppikló hefur líka komið út á rússnesku |
Skosku, eða Scots, má ekki rugla saman við skoska gelísku, sem er keltneskt tungumál sem u.þ.b. eitt prósent skosku þjóðarinnar talar. Scots er ýmist flokkað sem tungumál eða sem mállýska/afbrigði af ensku, sumsé skosk enska. Talið er að einn af hverjum þremur Skotum hafi vald á að tala skosku en mun fleiri skilja hana. Innan skoskunnar er svo hellingur af mállýskum og svæðisbundnum sérkennum. Eitthvað er enn gefið út af bókum á skosku og margir nútímahöfundar sem skrifa á ensku nota eitthvað úr skoskunni. Þegar leikrit eftir undirritaða var sett upp með skoskum leikurum var til dæmis önnur persónan þýdd yfir á skoska mállýsku á meðan hin talar "flatari" ensku. Í skosku (og skoskri ensku almennt) er fullt af orðum sem eiga meira skylt við íslensku og norræn mál en enskuna. Mér reyndist oft auðveldara að skilja skosku orðin heldur en enskum og bandarískum vinum mínum. Skoska er blæbrigðarík og það er einhver innbyggður húmor í málinu; ég á mjög skemmtilega bók þar sem safnað hefur verið saman vísum og leikjaþulum frá Skotlandi þar sem smellið rím og óvænt málnotkun eru á hverju strái.
Átjándu aldar skáldið Robert Burns er líklega sá skoskuskrifandi höfundur sem flestir kannast við, en svona hefst eitt þekktasta ljóð hans, To a Mouse, on Turning Her Up in Her Nest with the Plough"
Wee, sleekit, cow'rin, tim'rous beastie,
O, what a panic's in thy breastie!
Thou need na start awa sae hasty
Wi bickering brattle!
I wad be laith to rin an' chase thee,
Wi' murdering pattle.
Að kveldi afmælisdags Roberts Burns, 25. janúar (sem vill svo gasalega skemmtilega til að er líka afmælisdagurinn minn), sletta Skotar gjarnan úr klaufunum, koma saman, lesa eða leika ljóð eftir Burns og borða skoskt góðgæti. Burns Night er alltaf gott partý.
Robert karlinn Burns |
Á heimasíðu barnabókaverkefnisins Itchy Coo, sem var samvinnuverkefni forleggjara og skoska menntamálaráðuneytisins, má sjá hinn fínasta katalóg af frumsömdum bókum sem og þýðingum úr ensku yfir á Scots. Til dæmis er þar að finna Ástrík, bækur eftir Roald Dahl og Alexander McCall Smith sem þekktastur er fyrir bókaflokkinn um botsvanska spæjarann Precious Ramotswe. Bækur eins og Greppikló eru upplagðar til að kynna börn og annað fólk fyrir skoskunni, til dæmis er hægt að lesa bókina fyrst á móðurmálinu og síðan á skosku. Eins og fólk sem les fyrir börn þekkir þá eru þau gjarnan búin að læra heilu bækurnar utan að.
Hér má hlýða á lestur fyrri bókarinnar um Greppikló sem einhver Skotinn hefur tekið sig til og skellt inn á YouTube. "A moose took a dauner through the deep, mirk widd. / A tod saw the moose and the moose looked guid ..."
En skemmtileg færsla! Og við fjölskyldan hlustuðum öll á upplesturinn á okkar gömlu vinkonu Greppikló.
SvaraEyðaVei! :)
SvaraEyða