30. desember 2013

Morð, spenna, tár og veður

er „augað“ ekki orðið dáldið
þreytt sem kápumynd?


Larsson á góðri stund
Ég hef lengi verið mikill aðdáandi Åsa Larsson og dálítið-dapurlegu-en-þó-skemmtilegu reyfara hennar. Fyrir það fyrsta er hún með frumlegar og áhugaverðar aðalsöguhetjur sem þróast og eru ekki fullkomlega fyrirsjáanlegar. Þar ber fyrst að nefna lögfræðinginn Rebecku Martinsson sem var áður heilmikið númer hjá stórri lögfræðistofu í Stokkhólmi en vegna persónulegra aðstæðna er hún nú flutt aftur á heimaslóðirnar í Kiruna, fyrrum yfirmanni sínum og ástmanni til mikils ama. Fórnargjöf Móloks (langsóttur titill verð ég að segja) er fimmta bókin um hana og þó að bækurnar séu allar sjálfstæðar þá mæli ég með því að þær séu lesnar frá byrjun...eða í öllu falli allar lesnar til að skilja til fulls persónuna - og svo líka af því þær eru spennandi og skemmtilegar. Til að ljóstra ekki upp um neitt læt ég nægja að segja að Rebecka hafi í fortíðinni orðið fyrir áfalli sem breytti afstöðu hennar til lífsins og í raun henni sjálfri – sem er líka þægileg tilbreyting frá lögreglumönnum (eða öðrum sem leysa glæpamál í reyfurum) sem spretta iðulega alheilir upp í bókarlok og hrista af sér skelfingu síðustu 300 blaðsíðna eins og kátir hundar hrista af sér vatn.

Pólska útgáfan hefur hitt augað fram yfir þá íslensku
Hinar tvær auka-aðalsöguhetjur eru ekki síðri, ljúfur ekkill og margra barna þreytt móðir mynda lögregluteymið sem Rebecka vinnur með og þá er ótalinn Siving, fjörgamall nágranni hennar, sem býr með hundum í eldhúsinu sínu og hálf andlitslaus vinur sem hjálpar Rebecku þegar mest á reynir. Ef þetta er farið að hljóma eins og persónugalleríið í League of Gentlemen þá er það alls ekki rétt mynd. Það er einmitt einkennandi fyrir bækur Larsson hvað persónurnar eru trúverðugar og venjulegar – og þó að Rebecka komist yfirleitt að lausn gátunnar í bókarlok þá er hún langt frá því að vera einhver ótrúlegur snillingur – hún er mjög klár en fyrst og fremst mjög þrautseig.

Í Fórnargjöf Móloks fylgjumst við með þremenningunum leysa undarlegt morðmál þegar fullorðin kona finnst látin í rúmi sínu og ekkert vitni nema mögulega sjö ára sonarsonur hennar sem ekkert man. Málið er auðvitað stærra og flóknara en virðist í fyrstu og samhliða þessari sögu fylgjumst við með atburðum sem gerast í sama bæ tæplega hundrað árum fyrr – sú saga tekur einnig á taugarnar – en af öðrum ástæðum. Sú mynd sem er dregin upp af námusamfélagi Svíþjóðar um aldamótin er hreint ekki bara sleðaferðir og rómantík. Það er svo auðvitað ekki fyrr en á lokasprettinum sem verður fullkomlega ljóst hvernig sögurnar tengjast. En ég held ég geti lofað því að endirinn sé gríðarlega spennandi og alls ekki fyrirsjáanlegur.

Smábærinn Kiruna er eiginlega sjálfstæð persóna í þessum bókum, hitinn á sumrin og kuldinn á veturna (eins og í þessari bók) er hreinlega áþreifanlegur – og eins og sönnum Íslendingi sæmir kann ég vel að meta áhrifamikið veðurfar og náttúru í bókmenntum. Hér eru frostið og snjórinn, áin, skógarnir, bjarndýrin og sérstaklega hundarnir mikilvægir þættir í framvindu sögunnar og sögusviðið raunar áhugsandi án þeirra. Larsson tekur hvorki persónur sínar né lesendur neinum vettlingatökum og ég er ekki frá því að ég hafi skælt svolítið á köflum. Það er nú alltaf vel af sér vikið ef reyfarahöfundar ná að snerta við lesandanum – ekki bara adrenalínstöðvunum (eða er kannski bara ein?) heldur hjartastöðvunum líka. Ég bíð spennt eftir næstu Larsson-bók – gjarnan í íslenskri þýðingu Eyrúnar Eddu Hjörleifsdóttur sem tókst afskaplega vel upp með Fórnargjöf Móloks. Svei mér ef Åsa Larsson er ekki bara uppáhalds skandinavíski krimmahöfundurinn minn í augnablikinu!

Engin ummæli:

Skrifa ummæli