Ég bý, ásamt eiginmanni og tveimur börnum, í 69 m2 íbúð í úthverfi nálægt París. Þegar við fluttum í þessa íbúð fyrir fimm árum síðan, þurftum við heldur betur að grisja bókaeign okkar, aðallega vegna þess að í íbúðinni er ekkert sérlega mikið af veggjaplássi fyrir bókahillur. Við vorum snögg að sjá möguleikann á að koma dágóðu magni af bókum fyrir á klósettinu, en í Frakklandi tíðkast það að skipta baðherberginu í tvö aðskilin svæði, það þykir ekki fínt að ganga örna sinna og þrífa sig í sama rýminu. Þess vegna er klósettið ekki rakt herbergi og algengt í smáum íbúðum að nýta það sem geymslupláss líka.
Sakir þrengsla var tilvalið að láta saga mjóar hillur og koma vasabrotsbókunum okkar þarna upp á vegginn vinstra megin. Við vorum ægilega hörð og gáfum frá okkur gífurlegt magn af kiljum, en berjumst því miður bæði vonlausri baráttu gegn söfnunaráráttu og ég efast ekki um að megnið af þessum bókum verða ekki teknar úr hillunum aftur nema ef ég ákveð að ég neyðist til þess þegar ég mála næst - sem átti að vera í fyrrasumar, en framkvæmdin strandaði einmitt á þessari úlfakreppu, þ.e. hvort ég ætti að mála í kringum bækurnar eða ekki.
Þarna kennir ýmissa grasa, allt frá léttum reyfurum upp í dýrindis skáldsögur og ljóð, heimspekirit, sagnfræði og annað gáfulegt. Þessi flokkun einkennir reyndar allar bókahillur heimilisins, það er frekar raðað eftir stærð og útgáfum en í stafrófsröð eða eftir efni, einfaldlega vegna þess að þannig kemst meira fyrir. Þessar klósetthillur eru einu sérsmíðuðu hillurnar okkar, aðrir bókaskápar koma úr IKEA, utan einn smáan sem er úr búi langömmu minnar.
Neðsta hillan er eflaust sú sem mesta hreyfing er í, þar eru nokkrar bækur sem ég glugga reglulega í þegar klósettferðin vill verða löng og er ég nokkuð viss um að fleiri fari eins að, þó ekki minnist ég þess að það hafi verið rætt, þó heimilismeðlimir eigi það reyndar til að missa sig í einum of djúpar samræður um klósettferðir.
Ég er til dæmis búin að lesa undanfarið ár aftur og aftur á brotakenndan hátt Dúfuna eftir Patrick Süskind og hef verið að glugga hér og hvar í Stefnumót í Dublin eftir Þráinn Bertelsson, bók sem mér var gefin þegar ég lagði af stað til Parísar fyrir tuttugu árum til að búa þar og skipar því sérstakan sess í hjarta mínu. Þegar ég vil ekki ílengjast um of, gríp ég einhverja þunga heimspekibók frá manninum mínum og voilà, það virkar alltaf.
Í hillunum til hægri, sem eru dýpri vegna þess að þær falla inn í hið undarlega holrúm sem var þarna fyrir, voru vídeóspólur safnarans mannsins míns. Þær eru að hverfa, hann hefur verið að færa þær á stafrænt form og áttaði sig vitanlega í leiðinni á því að megnið mátti nú bara fara beint í ruslið. Í stað vídeóspólanna hefur plássið verið tekið undir bækur sem hann hefur til sölu á netinu, Arnaud er nefnilega bóksali. Hann kaupir bækur fyrir slikk á ókristilegum tíma á flóamörkuðum og í litlum rykugum holum í ytri hverfum borgarinnar og selur þær svo á mismiklum okurprís á ebay og priceminister og græðir á tá og fingri. Reyndar ekki nóg til að kaupa handa mér húsið með stóru bóka-, koníaks- og vindlastofunni sem mig dreymir um að eignast einhvern daginn, en nóg til að börnin okkar eru aldrei svöng þó að tekjulindin mín, íslenskir ferðalangar í Parísarheimsókn, sé í smá þurrð þessa dagana.
Reykjavík, 20. júlí 2009,
Kristín Jónsdóttir.
Kæra Kristín Parísardama - ég leita þig uppi næst þegar ég kem til Parísar og fæ að pissa hjá þér. Þetta er frábær hönnun!
SvaraEyðaTakk fyrir skemmtilegan pistil.
Þetta er alger snilld.
SvaraEyðaFrá Parísardömu: Takk takk. Það er um að gera að leita uppi Parísardömuna þegar komið er til Parísar, eiginlega bara ómögulegt annað!
SvaraEyða