James Patterson og Liza Marklund ættu líklega að vera skothelt glæpasagnapar. Liza er gríðarvinsæll höfundur og Patterson hefur átt um fimmtíu bækur á metsölulista New York Times, af bókum hans hafa selst einhver skrilljónhundruðmilljón eintök. Í Aftonbladet stendur að fimmtánda hver innbundin bók sem seldist í Bandaríkjunum 2007 hafi verið eftir hann, þetta ár var hann söluhærri en John Grisham og Stephen King til samans.
Ég hef aldrei lesið bók eftir James Patterson og aðeins eina hef ég lesið eftir Lizu Marklund. Eftir lestur Póstkortamorðanna er ég efins um að ég nenni að lesa meira eftir þau. Bókin fjallar um röð subbulegra morða sem framin eru á pörum í evrópskum stórborgum en morðingjarnir senda á undan viðvörunarpóstkort til blaðamanna. Persónulýsingar eru allar mjög illa gerðar, fólkið almennt óáhugavert (ein aukapersóna er þó undantekning), kaflarnir eru örstuttir og málið á bókinni einfalt, en ég geri ráð fyrir að það sé miklu einfaldara á útlensku því þýðandinn, Guðni Kolbeinsson, bjargar algjörlega því sem bjargað verður í þessari bók og kemur virkilega sterkur til leiks.
Nú halda kannski lesendur þessa bloggs að ég sé geðvond og fordómafull út í metsölubókmenntir en það er kolrangt. Ef gluggað er í erlenda gagnrýni sem umrædd bók hefur fengið þá hefur henni bókstaflega verið rústað. Rýnir Gautaborgarpóstsins hallast að því að Marklund og Patterson hafi skrifað glæpasögu fyrir tólf ára krakka með áhuga á blóði og smekklausum kynlífslýsingum og segir Póstkortamorðin mest óspennandi spennubók sem hann hefur komist yfir um leið og hann spyr hvað höfundunum gangi eiginlega til með því að senda þetta frá sér. Hann veltir því fyrir sér hvers vegna Liza Marklund, sem hefur skapað sér orðspor sem þokkalegur glæpasagnahöfundur, taki sénsinn á að vinna með maskínu á borð við Patterson og segir í leiðinni að þessi spurning sé það eina sem hélt honum vakandi yfir þessari bók. Marie Tetzlaff hjá Politiken vísar í blaðamann Expressen og kallar Póstkortamorðin „hamborgarabókmenntir“ og þá er ekki átt við neinn djúsí þynnkuborgara heldur seigt amerískt hakk í einföldu norrænu brauði. Lotta Olsson hjá Dagens nyheter trompar eiginlega slátrunina en hún segir um bókina að hún »slår alla rekorder i idioti«. Það sem fer mikið fyrir brjóstið á Lottu eru fordómar fyrir listum, en aðalpersónu bókarinnar, afbrotafræðinginn Dessie Larsson, segir hún bergmála grunnhyggni og heimskulega fordóma fyrir nútímalist. Lars Ole Sauerberg hjá Jyllands-Posten líkir bókinni við flugvél sem er á sjálfsstýringu og kvartar yfir skorti á tilþrifum í stíl áður en hann gefur henni tvær stjörnur.
Það vita auðvitað allir glæpasagnalesendur að ákveðin frelsun getur verið fólgin í því að lesa meira eða minna fyrirsjáanlega reyfara. Stundum er bara svo þægilegt að hugsa ekki neitt og láta sig pompa inn í heim snjallra leynilögreglumanna og sturlaðra morðingja í framandi heimshlutum eða næsta húsi. Þess vegna er skúffelsi hvað þessi bók er þunnur þrettándi. Það er reyndar í sjálfu sér áhugavert hvað hún er lapþunn því maður hefði aldeilis haldið að höfundar á borð við Marklund og Patterson væru með færustu glæpasagnaritstjóra heims sem einkaþjóna.
Ég tek hins vegar pípuhatt minn ofan fyrir Guðna Kolbeinssyni sem er stórskemmtilegur þýðandi. Reyndar finnst mér hann tala hið glæsilega vöruhús NK í Stokkhólmi niður með því að kalla það stórmarkað hvað eftir annað og við íslensku kaþólikkarnir tölum um heilagan Georg og drekann en ekki heilagan Göran, kanilbollur eru líka étnar í bókinni (kanelbulle er víst það sem kallað er falsvinur) en þetta, ásamt því að ákveðið ósamræmi er í þýðingum t.d. á staðarnöfnum, er nú bara eitthvað sem smásmugulegir þýðendur geta skemmt sér við að þrasa um yfir kaffibolla og sígarettu. Í þýðingu Guðna gengur maður að „rórillandi skrifborði“, himinninn er „skafheiður“ og maður er sagður „vendilkráka“. Svoleiðis orðalag kemur mér í gott skap þannig að þegar upp er staðið sé ég ekkert eftir að hafa lesið Póstkortamorðin.
Þórdís
Bókinni var stillt upp í flennistórum stöndum í ICA og fólk keypti þetta víst í hrönnum. Mér fannst bókarkápan svo óaðlaðandi að lá við að ég ældi þegar ég sá hana.
SvaraEyðaÉg hef lesið allar bækur Lizu, nema þessar um konuna sem flúði undan ofstækisfullum eiginmanni sínum. Þær eru allflestar hundleiðinlegar og illa skrifaðar.
Þetta eru líklega bara bókmenntirnar sem "fjöldinn" vill. Allavega hrósaði Kolbrún Bergþórsdóttir þessari bók í Kiljunni (og hún hefur í sama þætti kallað sig "venjulegt fólk") og bókabloggari sem er með krækju hér á Miðjunni heldur ekki vatni yfir þessu jukki :)
SvaraEyðaÉg hef reynt að lesa þrjár bækur eftir Patterson - sennilega kláraði ég eina með herkjum en gafst upp á hinum tveimur (sem er afar fátítt, yfirleitt skanna ég a.m.k. bækur til enda þótt þær séu lélegar) - og Liza Marklund finnst mér vægast sagt mistæk, þannig að þessi pistill styður alla fordóma mína.
SvaraEyðaEf ég man rétt las ég einhvern tíma viðtal við Lizu Marklund þar sem hún sagðist hafa stofnað eigin forlag m.a. til að vera laus við ritstjórn. Það fannst mér skýra ýmislegt við bækurnar hennar.
Jú, jú Sigga, lestu endilega Póstkortamorðin :)
SvaraEyðaEr "Ritstjórnarþjónusta druslubókadamanna" ekki viðskiptahugmynd?
SvaraEyðaJú! Meira að segja góð viðskiptahugmynd! Sammála að Liza er mistæk. Hún skrifaði hins vegar algjörlega frábæra pistla um ofbeldi gegn konum, réttindi barna og innflytjendamál þegar ég bjó úti. Þess vegna fór ég að lesa bækurnar hennar. Var hrifin af þeim fyrstu um Anniku.
SvaraEyðaLífið er of stutt til að lesa drasl.
SvaraEyðaÞað helsta sem Petterson hefur afrekað var að lauma sér á hrossi inn í erótíska dagdrauma Marge Simpson.
Asnaðist til að eyða peningi í að kaupa þessa bók (eftir að hafa heyrt Kolbrúnu lofa bókina!) - peningunum hefði verið betur varið í sígarettur (en ég reyki þó ekki!). Langar helst að rukka Kolbrúnu um þessar tvöþúsundfjögurhundruðognítíu krónur. En já - þetta er alveg hryllilega illa skrifuð bók - svo skelfileg að ég ætla ekki einu sinni að gefa hana í góða hirðinn! Vil ekki gera neinum það að þurfa að upplifa þennan þvætting!
SvaraEyðaKæra Þórdís, langar þig aldrei í skyndibitamat? Þessi bók er það og við skulum ekki gera meiri kröfur til hennar, en hún getur borið. Á ekkert að skrifa fyrir þá sem eiga erfitt með lestur þungra bóka, þarf það alltaf að vera á einhverju barnamáli. Bókin er eins og titillinn, bókarkápan og bókalýsingin gaf til kynna er þú stakkst henni í töskuna.
SvaraEyðaHef lesið mun betri bækur en þessa, en átti ekki von á öðru en að þetta markaðssetningabrask þeirra Marklund og Patterson, myndi höfða án efa til margra. Sniðugt hjá þeim, nú kemst Marklund kannski endanlega á kortið í heimalandi Jefferson og allir svíjar flykkjast til að kaupa rithöfundinn sem skrifaði bók með gullkálfinum þeirra í bókmenntun. Gleymum ekki að rithöfundar eru líka buisnessmenn......
Neibb, mig langar aldrei í skyndibita. Nákvæmlega eins og stendur þarna fyrir ofan þá vil ég helst af öllu lifa á speltjukki og bíódínamískum linsubaunabjúgum. Það er minn risastóri akkílesarhæll ...
SvaraEyða