14. október 2011

Ekki líta undan

Það skal viðurkennt að ég var á báðum áttum með að tjá mig opinberlega um bókina Ekki líta undan, sögu Guðrúnar Ebbu Ólafsdóttur, sem Elín Hirst skráði. Í fyrsta lagi er búið að fjalla mjög mikið um mál biskupsins heitins og kærurnar á hendur honum og einnig um mál dóttur hans og í öðru lagi þá er afskaplega erfitt að fjalla um bækur á borð við þessa, og aðrar sem lýsa svona hræðilegri lífsreynslu, á einhverskonar fagurfræðilegum nótum, hvað þá að gagnrýna þær. Ekki líta undan er ætlað að segja sögu konu í því skyni að benda á að mikilvægt sé að uppgjör ákveðinna mála fari fram, að satt megi ekki kyrrt liggja. Ætlunin er að benda fólki á að vera á verði gagnvart hugsanlegum kynferðisbrotamönnum, það geti mögulega komið í veg fyrir að einhverjir lendi í klóm þeirra. Mér finnst líklegt að bókin muni að einhverju leyti standa undir ætlunarverkinu og ég efast ekki um að það sé til góðs að þessi saga sé sögð.

Ekki líta undan er fyrstu persónu ævisaga sögð í tímaröð, hún hefst á fæðingu aðalpersónunnar og lýkur fyrir skömmu. Aftast er ítarefni, fræðsla um sifjaspell, bréf Guðrúnar Ebbu til Karls Sigurbjörnssonar biskups og þakkir höfundarins, sem hitti Guðrúnu Ebbu fyrst árið 2010. Þar kemur einnig fram að Elín Hirst ræddi við móður og bróður Guðrúnar Ebbu, en þau samtöl eru (því miður) ekki til umræðu í bókinni. Í upphafi bókar kemur fram að Guðrún Ebba sé ekki í tengslum við systkini sín og móður, þau eru ósátt við að bókin sé skrifuð og af tillitsemi við þau koma þau mjög lítið við sögu og ég held að fjölskyldan, sem greinilega virðist ekki vilja hugsa þá hugsun til enda, hvað þá viðurkenna að Ólafur Skúlason hafi nokkurn tíma misnotað nokkra konu kynferðislega, geti bara vel við sinn hlut unað, þau eru næstum ósýnileg.


Í upphafi bókar er þeirrar spurningar spurt hvernig standi á því að maður eins og Ólafur Skúlason komst til mikilla valda. Hann var sóknarprestur, barnakennari og fararstjóri og síðan dómprófastur, vígslubiskup og biskup sem var heiðraður fjórum sinnum af forseta Íslands og við hlið hans stóð konan hans eins og geislandi klettur í skautbúningi. Kannski hef ég enga trú á mannkyninu og held að illmenni og síkópatar leynist allsstaðar (mig grunar oft að þeir sem sækjast grimmt eftir embættum og eru sífellt með guðsorð og fagurgala á vörum eigi sér skuggahliðar) þannig að mér finnst einmitt ekkert einkennilegt að svona maður hafi komist til valda, ég held þvert á móti að völd safnist oft á hendur manna með ákveðin einkenni sem Ólafur Skúlason hafði (ekki samt misskilja og halda að ég telji alla valdamikla karlmenn í jakkafötum vera ofbeldismenn). Ólafur var greinilega með mörg þau skapgerðareinkenni sem maður tengir við siðblindingja og eins og dæmin sanna þá hafa þeir oft náð miklum völdum. Í sögu Guðrúnar Ebbu kemur fram að hann stjórnaði fjölskyldunni með mislyndi og sérvisku og kynti undir óöryggi og hræðslu til að geta kúgað fólk í kringum sig. Hann skipti fólki í tvo hópa, góða (þá sem sleiktu sig upp við hann og lutu honum í einu og öllu) og vonda (þá sem hunsuðu hann eða voru ósammála), hann svindlaði, laug og stal. Saga Guðrúnar Ebbu er skelfileg framan af, þó að allt líti vel út á yfirborðinu. Hún er misnotuð af föður sínum frá unga aldri og fram á unglingsár og síðan aftur þegar hún er 43ja ára, hún verður alkohólisti og þjáist í áratugi af lotugræðgi og hún á í gríðarlegum vandræðum í samskiptum sínum við alla í kringum sig, jafnt vini, viðhöld, eiginmann og dætur, en leitar sér hjálpar þegar hún er komin hátt á fimmtugsaldur, vinnur vel úr sínum málum og er í dag vel á vegi stödd og hjálpar öðrum. Auk þess hefur hún gert sitt besta til að fá menn innan kirkjunnar, sem reyndu hvað eftir annað að þagga niður mörg óhugnanleg mál, til að hætta að líta undan. Það hefur sem betur fer að einhverju leyti tekist, þó að maður hafi á tilfinningunni að sumum sé það þvert um geð að hætta að stinga málum undir stóla.

Meðfram því að um er að ræða sögu einstaklings þá finnst mér áhugavert, eins og á auðvitað almennt við um ævisögur, að lesa bókina í samhengi við tíðarandann og viðhorf samfélags karlveldisins. Þar má margt tína til (og í raun á það við um viðbrögð margra við ásökununum á hendur Ólafi í heild sinni), en sem dæmi má nefna að þegar Ólafur Skúlason keyrir fullur og er stoppaður sýnir hann bara prestakragann og er í kjölfarið beðinn afsökunar af löggunni. Einnig er vitnað í ævisögu hans, sem kom út seint á síðustu öld, þar sem hann gantast með það að þegar konan hans var á fæðingardeildinni hafi hann étið upp úr niðursuðudósum og breytt heimilinu í ruslahaug og eftir það hafi konan hans ekki tekið í mál að hann kæmi nálægt eldhússtörfum. Voða fyndið!

Ekki líta undan er greinilega meðfram hugsuð sem hjálparbók fyrir þá sem hafa lent í svipaðri reynslu og Guðrún Ebba. Í bókinni eru neðanmálsgreinar, ítarefni og heimildaskrá og tekin dæmi úr bókum um hvernig ýmislegt í fari aðalpersónunnar er dæmigert fyrir fólk sem hefur upplifað kynferðislega misnotkun. Ég áttaði mig ekki fyrr en nokkuð var liðið á bókina að saga Guðrúnar Ebbu um kynferðislegu misnotkunina í æsku byggir á bældum minningum sem komu upp á yfirborðið þegar hún var orðin harðfullorðin og fór í áfengismeðferð, áður hafði hún algerlega bælt þetta niður. Án þess að ég efist um sannleiksgildi frásagnar hennar þá finnst mér að það hefði alveg mátt ræða aðeins í bókinni að kenningar um svona bældar minningar, sem koma upp á yfirborðið áratugum síðar, eru umdeildar og hafa verið gagnrýndar mjög mikið. Að segja frá slíkri gagnrýni og ræða þau mál lítillega hefði bara gert bókina enn sterkari. Guðrún Ebba hefur líka unnið mikið með samtökunum Blátt áfram, sem hafa líka verið gagnrýnd töluvert, og hafa látið ýmislegt frá sér sem fer mjög fyrir brjóstið á mér án þess að ég ætla að ræða það nánar. Ekki er minnst á þá gagnrýni, en við því var svo sem ekki að búast.

Við lestur Ekki líta undan velti ég ýmsu fyrir mér varðandi samfélagið og mannlega hegðun og eins og ég var líklega að reyna að segja í upphafi þá hefði ég ekki skrifað neitt um þessa bók ef mér hefði fundist hún illa unnin og ómöguleg, til þess er málið einfaldlega of viðkvæmt. Ég mæli alveg með því að þið, sem á annað borð lesið endurminningabækur á borð við þessa, lesið bókina og ég ætla að láta eintakið ganga áfram til Kristínar Svövu.

2 ummæli:

  1. Sem betur fer virðast einhverjir ættingjar standa með henni, miðað við Facebook-statusa-úttekt Fréttatímans: "Er stolt af hugrakkri frænku. Takk Guðrún Ebba fyrir að segja sögu þína." - Helga Vala Helgadóttir, bróðurdóttir Ólafs.

    SvaraEyða
  2. Já, það kemur fram í bókinni að ættingjarnir hafa margir komið til hennar og staðið með henni.

    SvaraEyða