Þegar tilkynnt var um Nóbelsverðlaunahafann í bókmenntum í ár fylltust erlendar menningarvefsíður af póstum um verðlaunahafann og verðlaunin yfirleitt og hér á okkar síðu skrifaði okkar kona í Svíþjóð. Val á verðlaunahafa er alltaf umdeilt og gagnrýnt og undanfarin ár hafa Ameríkanar verið sérstaklega gagnrýnir. Þessi gagnrýni Ameríkana var sérstaklega rædd í pistli í danska blaðinu Information um daginn og ekki síst grein Tim Parks, What’s Wrong With the Nobel Prize in Literature, sem birtist í New York Review of Books, en þar segir Tim Parks beinlínis að þessi verðlaun séu hlægileg og kjánaleg.
Margir ritarar í amerískum fjölmiðlum halda því fram að sænska akademían sé Evrópumiðuð og and-amerísk og eftir að tilkynnt var um að Tranströmer fái verðlaunin í ár blossaði umræðan upp. Því er ekki haldið fram að Tranströmer sé lélegt skáld en margir eru samt ansi óhressir með höfundarvalið. Greinarhöfundur Information, Rikke Viemose, nefnir t.d. gagnrýni blaðamanns Washington Post, sem finnst einkennilegt að sjö af síðustu tíu verðlaunahöfum séu Evrópumenn og blaðamenn hafa einnig nefnt að ansi margir Svíar hafi fengið verðlaunin, þeirra á meðal tveir sem sjálfir sátu í Akademíunni. Tim Parks reifar hvernig verðlaunahafi sé fundinn af sextán Svíum, en tveir af átján meðlimum Akademíunnar taka ekki þátt í starfinu, annar vegna skorts á stuðningi við Salman Rushdie á sínum tíma og hinn vegna óánægju með valið á Elfriede Jelinek. Það er ekki hægt að hætta í Akademíunni nema dauður þannig að nýtt blóð á ekki greiða leið inn. Aðeins fimm meðlimir eru konur, aðeins einn fæddur eftir 1960 og síðan spyr Parks hvort meðlimir Akademíunnar hafi virkilega þekkingu á því sem þeir eiga að vega og meta. Flestir sem sitja í Akademíunni eru í fullri vinnu með og eiga þó að lesa að lágmarki 200 bækur á ári og meta verk höfunda frá öllum heiminum. Efni bókanna og form er fjölbreytt og sprottið úr ólíkum menningarheimum, einhver verkanna séu til á ensku en önnur bara í þýðingum á frönsku, þýsku eða spænsku, úr enn meira framandi tungum.
Undanfarin ár hefur veiting Nóbelsverðlaunanna í bókmenntum líka skapað umræður um bókmenntir Bandaríkjamanna. Fyrrverandi ritari sænsku akademíunnar, Horace Engdahl, sagði fyrir einhverju síðan að amerískir höfundar væru með þröngt sjónarhorn og sú athugsemd kom auðvitað mörgum í uppnám. Ameríski höfundurinn Jonathan Franzen reifst á móti og sagði þetta rugl en í þessum mánuði birti annar amerískur höfundur, Alexander Nazaryan, pistil á síðunni salon.com þar sem hann sagði að stærstu höfundar Bandaríkjanna ættu verðlaunin ekkert skilið. Þeir hefðu valið að einangra sig og héldu því fram að höfundar ættu bara að skrifa um veröld sem þeir þekktu í smáatriðum. Verandi sjálf með Freedom eftir Jonathan Franzen á lesborðinu held ég að ég viti hvað hann á við. Nazaryan segir að ný kynslóð amerískra höfunda, þessi sem kemur á eftir Joyce Carol Oates, Philip Roth og Don DeLillo, sé yfirskyggð af sjálfhverfum karlmönnum og nafngreinir m.a. Franzen og Jonathan Safran Foer, sem hann segir sjálfhverfan karl dulbúinn sem húmanista. Hann auglýsir eftir amerískum höfundum sem séu ekki fastir í Kaldastríðinu, byssubardögum í Vestrinu eða liðnum dögum í gyðingahverfum Newark í New Jersey
Herta Müller fékk Nóbel 2009 |
Hér má bæta því við að Per Wästberg, formaður nóbelsnefndarinnar skrifaði svar við grein Parks og leiðrétti ýmsar rangfærslur hans. Það má finna hér: http://akademiblogg.wordpress.com/2011/10/18/svar-till-tim-parks/#comments
SvaraEyðaFyrir mitt leyti hætti ég að taka Parks alvarlega þegar hann nefndi Philip Roth sem helsta dæmið um enskumælandi höfund sem gengið hefði verið framhjá. Frekar myndi ég berjast í gegnum allt sem Jelinek hefur skrifað en að lesa meiri Roth.
Takk fyrir þetta. Ég hef ekki lesið Jelinek en Roth fannst mér ágætur hér fyrr á árum, svo fékk ég bara nóg eða þroskaðist frá honum. Mér finnst þessi Parks nú alveg gríðarlega pirrípú eitthvað ...
SvaraEyðaÞað er aaaaaaðeins of auðvelt að gagnrýna verðlaun almennt. Auðvitað er líka alveg mikilvægt að gera það - en þegar fólk virðist vera andvaka yfir þessum eða hinum verðlaunum held ég það sé á villigötum.
SvaraEyðaÞað mun aldrei ríkja sátt um nein verðlaun - hvernig svo sem að þeim er staðið - það liggur eiginlega bara í hlutarins eðli - verðlaun eru alltaf að einhverju leyti byggð á huglægu mati (nema kannski íþróttaverðlaun og svoleiðis) og þannig verður alltaf nóg til að rífast um! Þannig að já - mér finnst Parks líka vera voðalega eitthvað pirrípú!