28. september 2013

Nornaminningar

Í sumarbústað í Borgarfirði rakst ég á gamla uppáhaldsbók: Litlu nornina Nönnu eftir Mariette Vanhalewijn með myndum eftir Jaklien Moerman. Bókin kom út 1971 í íslenskri þýðingu Örnólfs Thorlacius. Ég man eftir að hafa haldið mikið upp á þessa bók sem barn en man ekki hvort ég átti hana sjálf eða notaði bara tækifærið til að fletta henni hjá öðrum.

Ég velti því fyrir mér núna hvað það hefur verið sem heillaði mig helst við þesa bók. Hún er rækilega myndskreytt og myndirnar eru mjög fallegar og þá alveg sérstaklega litirnir í þeim. Litanotkunin er eiginlega barasta frábær. Það er einhver svona psychedelic hippastíll á þessum myndum sem ég kann afskaplega vel við. Ég veit svo sem ekki hvort það hefur verið eitthvað sem ég kunni að meta sem barn en ég kunni alla vega að meta fallega liti. Pappírinn í bókinni er hrufóttur með dálítið glansandi áferð og það er einhver skemmtileg tilfinning sem fylgir því að snerta síðurnar með þessum stórkostlegu litum líka. Það eru margir áratugir síðan ég fletti þessari bók síðast en myndirnar voru allar afskaplega kunnuglegar þegar ég sá þær núna.

25. september 2013

Glaðasta þjóð í heimi?

Ég kaupi oft bækur á hinni ágætu vefverslun Amazon. Raunar nota ég síðuna mjög mikið til að kaupa ýmislegt annað en bækur - allt frá möndlum til sturtuhengja. Það er tímafrekt og streituvaldandi að fara í verslunarferðir og því kærkomin lausn að nota netið til að sinna brýnustu erindum. Tæpum 48 klukkustundum eftir að ég legg inn pöntun hringir dyrabjallan og þar stendur afskaplega elskulegur maður í khakibuxum með derhúfu og pakkann minn í fanginu. Aldrei hefur borið skugga á samband mitt við vefverslunina risavöxnu – ef frá er talið atvikið um daginn þegar ég keypti tæpt kíló af gæðasúkkulaði sem var í fljótandi formi þegar það skilaði sér á tröppurnar hjá mér. En það var reyndar 34 °C úti svo það var erfitt við að eiga.

Vinir mínir á Amazon eru farnir að þekkja mig sæmilega og stinga oft upp á að ég kaupi hitt og þetta. Þar sem ég keypti nú einu sinni íranska matreiðslubók hlýtur mér að geðjast að nýrri uppskriftabók frá Tyrklandi og þar fram eftir götunum. Stundum eru þessar tillögur alveg hreint ágætar og ég læt tilleiðast og lauma einni kilju í körfuna. Það var einmitt það sem ég gerði um daginn þegar ég keypti þá bók sem hér er til umfjöllunar. Bókin ber titilinn The Jungle Effect. The Healthiest Diets from around the World – why they work and how to make them work for you. Höfundurinn, Daphne Miller, er starfandi læknir í San Francisco og kennir einnig næringarfræði og almennar lyflækningar við University of California. Ég hugsaði að þetta gæti nú ábyggilega verið ágætis lesning fyrir mig – ég hef áhuga á heilsusamlegu mataræði og ég hef mjög oft gaman af ferðabókum. Uppleggið er semsagt það að höfundurinn ferðast um framandi slóðir – hún velur sér svæði þar sem tíðni ákveðinna sjúkdóma virðist vera óvenjulega lág miðað við það sem gerist og gengur. Hún spyr heimamenn út í lífshætti þeirra með það fyrir augum að við hin getum mögulega tileinkað okkur eitthvað af þessum góðu siðum og þar með orðið heilsuhraustari. Gott og vel – ég ýtti á „panta“ hnappinn og tveimur dögum síðar lá bókin á náttborðinu hjá mér.

23. september 2013

Skrifað í stjörnurnar

The Fault in Our Stars hefur trónað í
efasta sæti ýmissa metsölulista, var
meðal annars í sjö vikur samfleytt í
fyrsta sæti New York Times
metsölulistans.
Um nokkurra ára skeið hef ég lagt það í vana minn að taka mér smá göngutúr eftir að hafa fylgt börnunum í skóla og leikskóla. Ég bý í pínulitlu plássi rétt fyrir utan borgina og möguleikarnir á spennandi gönguferðum eru fáir svo ég er sennilega búin að þramma sama hringinn nokkurhundruð sinnum. Stundum hitti ég hunda með húsbændur í taumi, einstaka sinnum íkorna en almennt séð er ég bara ein með sjálfri mér og satt best að segja orðin dálítið leið á þeim félagsskap. Í byrjun ársins datt mér í hug að kannski yrðu morgungöngurnar örlítið líflegri ef ég hlustaði á hljóðbækur á meðan. Ég sá í hendi mér að þetta þyrfti að vera eitthvað létt og skemmtilegt þar sem söguþráðurinn drægi mig áfram og engin þörf væri á að kryfja hvert orð. Fyrst var ég að hugsa um að finna einhverja glæpasögu en ákvað á síðustu stundu að velja unglingabók (eða YA, sjá nánar hér) sem ég hafði lesið lofsamlega dóma um, The Fault in Our Stars eftir John Green, og var sannfærð um að hún hentaði einbeitingarlausri konu ákaflega vel.

Ég reyndist hafa fullkomlega rangt fyrir mér, The Fault in Our Stars var algjörlega misheppnuð sem hljóðbók á morgungöngum. Fyrst flissaði ég svo mikið að hundarnir og eigendurnir í bandinu horfðu undrandi á mig. Svo grét ég svo mikið yfir henni að ég sá að ég yrði bara að hlusta á hana heima í sófa ef ég ætlaði ekki að enda sem snöktandi hrúgald innan um íkornana í skóginum. Og öfugt við væntingar reyndist full þörf á að kryfja hvert einasta orð ásamt því að elta textatengsl yfir í Shakespear, T.S. Eliot, Emily Dickinson og ótal fleiri. Ég vildi líka gjarnan hafa rými til að njóta textans, melta boðskap hans og hugsa um lífið – sem er dálítið erfitt þegar lesarinn malar áfram án þess að gefa ráðrúm fyrir þess konar hugarflug. Sem sagt, óheppileg hljóðbók en ó svo frábær bók.

19. september 2013

Guðjón vill engum í húsinu vel

Afmælisbarnið 20. september
Boðað er til ljóðakvölds: Á morgun, föstudagskvöldið 20. september, klukkan 20:00 munum við Þórdís Gísladóttir lesa upp ljóð á Café Haítí ásamt þeim Höllu Margréti Jóhannesdóttur og Sigurlín Bjarneyju Gísladóttur, auk þess sem ónefndur leynigestur mun troða upp. Við treystum því að fólk hafi safnað kröftum sínum á ný eftir Bókmenntahátíð í Reykjavík.

Þórdís fór fögrum orðum um fyrstu ljóðabók Höllu Margrétar, 48, hér á síðunni um daginn, og ég ákvað að nota tækifærið til að segja aðeins frá nýjustu bók Sigurlínar Bjarneyjar, sem heitir Bjarg og kom út í vor. Bjarg er þriðja bók Sigurlínar Bjarneyjar, en hún hefur áður gefið út ljóðabókina Fjallvegir í Reykjavík og smásagnasafnið Svuntustrengur. Sigurlín Bjarney hefur sinn sérstaka stíl, yfirvegaðan og lausan við dramatík, en af og til brestur á með undirfurðulegum húmor. Þessi stíll er á sínum stað í Bjargi en er held ég jafnvel orðinn kraftmeiri og blæbrigðaríkari en áður.

Ljóðabókin Bjarg fjallar um íbúa blokkar nokkurrar. Blokkin er stór – átta hæða með sex íbúðum á hverri hæð – og af þeim sökum er bókin lengri en ljóðabækur eru yfirleitt á Íslandi, heilar 111 blaðsíður. Hver íbúð fær eitt ljóð en stundum skarast þau, til dæmis þegar íbúi í einni íbúð er að tala við eða hugsa um íbúa í annarri íbúð. (Ég hef aldrei búið í blokk en ég velti því fyrir mér hvort fólk hafi almennt jafn mikil samskipti í blokkum og það gerir í þessari bók? Er alltaf einhver Skúli í 5a sem fleiri en ein og fleiri en tvær konur í blokkinni láta sig dreyma um?)

15. september 2013

Dríslakjöt og kaffi í boði Herra Hjúkkets

Þótt mér finnist það varla hafa getað verið fyrir svo löngu að ég síðast (jafnvel tvöfalt síðast) hyggaði mig í kósý félagsskap í Nýlenduvöruverzlun Hemma og Valda á Laugaveginum var það nú samt í desembermánuði síðastliðnum. Þetta umrædda aðventukvöld fór fram ljóðadjamm á Hemma og Valda og meðal skálda sem lásu þar upp úr ljóðum sínum voru Ísak Harðarson, okkar eigin Kristín Svava og Bragi Páll Sigurðarson, sem gaf frumraun sína í ljóðagerð út um þetta leyti (blogg Sölku um bókina hans má lesa hér). Á stokkinn steig einnig bandaríska hipphoppsveitin The Welfare Poets, sem stóð fyrir djammi og góðu stuði í hléi milli upplestraratriða – svo góðu stuði að fyrsta skáldið á dagskrá eftir hlé, Ásta Fanney Sigurðardóttir, bar upp þá ósk við meðlimi sveitarinnar að þeir myndu djamma áfram á hljóðfærin undir upplestri hennar. Sjálfri hefði henni nefnilega ekki orðið rappframa auðið þrátt fyrir bernskudrauma í þá veru. Eftir á að hyggja er rappflutningur Ástu upp úr þá nýútkomnu verki sínu, Herra Hjúkket, það sem mér er eftirminnilegast frá þessu kvöldi; lesturinn var mjög töff og grípandi og hún náði upp rífandi stemningu meðal áhorfenda. Ég átti þó ekki svo gott með að grípa innihald ljóðanna gegnum flæðið, en þótti það reyndar varla koma að sök. Það var svo ekki fyrr en seinna að ég las bókina, og nú, ennþá og mun seinna, sem ég kem því loks í verk að skrifa um hana.

8. september 2013

Tuttugasti og annar nóvember árið 1963: saga um siðferðislegar víddir tímaflakks, morðið á JFK og ástina við undirleik stórsveitar Glenns Miller

Í sumar uppgötvaði ég hversu dásamlegt fyrirbæri hljóðbækur eru, en sá höfundur sem helst má þakka þessa uppgötvun mína er Stephen King. Bækurnar hans eru fullkomnar til hlustunar, líklega vegna þess að hann er svo góður sögumaður. Hann gleymir sér sjaldnast í stílþrifum, en skapar aftur á móti afar eftirminnilegar persónur og áhrifamiklar sögur. King er kannski þekktastur fyrir að hafa vera höfundur einhverra bestu hryllingssagna sem skrifaðar hafa verið, en ein besta bókin sem ég hef lesið (og hlustað á) eftir hann tilheyrir í raun ekki þeirri bókmenntagrein, þótt óhugnaðurinn sé oft skammt undan. Þessi bók heitir 11.22.63 og er vísindaskáldsaga sem kom út árið 2011.

11.22.63 fjallar um Jake Epping, enskukennara frá Maine, sem er beðinn um að taka að sér afar óvenjulegt verkefni: það að ferðast aftur í tíma og koma í veg fyrir morðið á John F. Kennedy. Það er hamborgarabúllueigandinn Al Templeton sem biður Jake vinsamlegast um taka þetta að sér, en hann lumar á tímagátt bakatil á veitingastaðnum sínum sem færir mann aftur til ársins 1958. Þá er í raun hægt að dvelja í fortíðinni mínútum, mánuðum eða jafnvel áratugum saman, en þegar maður snýr aftur – mögulega orðinn grár af elli – hafa aðeins tvær mínútur liðið í nútíðinni. Al hefur undirbúið þetta verk lengi og nákvæmlega (hann afhendir Jake mikinn bunka af upplýsingum um Lee Harvey Oswald), en er orðinn of gamall og lasinn til að vinna það sjálfur. Þar af leiðandi vill hann að Jake fari um gáttina fyrir sig, staldri við í fortíðinni í nokkur ár og breyti svo gangi sögunnar, mögulega á afdrifaríkan hátt. Þetta er eitt áhugaverðasta viðfangsefni sögunnar; hvaða áhrif hafa smávægileg afskipti, nú eða gríðarlega stórt inngrip eins og að koma í veg fyrir morð á forseta, á það sem gerist síðan?

3. september 2013

Hermann

Hinn norsk-danski Lars Saabye Christensen er afkastamikill rithöfundur sem heimsótti Bókmenntahátíð í Reykjavík fyrir nokkrum árum. Um helgina var byrjað að sýna á RÚV þætti eftir skáldsögunni Hálfbróðurnum, en fyrir hana hlaut hann Bókmenntaverðlaun Norðurlandaráðs árið 2002. Sú bók hefur verið þýdd á fjölmörg tungumál og hún kom út á íslensku fyrir um áratug í þýðingu Sigrúnar Kr. Magnúsdóttur. Hálfbróðurinn má enn kaupa hjá útgefanda og hún kostar minna en kók og pulsa. Önnur bók eftir Lars Saabye Christensen, Hermann, kom út á íslensku árið 2005, einnig í þýðingu Sigrúnar Kr. Magnúsdóttur, en fyrir hana fékk höfundurinn norsku kritiker-verðlaunin árið 1988. Eftir bókinni hefur líka verið gerð kvikmynd og hún hefur verið þýdd yfir á fjölmargar tungur. Ég er hrifin af Hálfbróðurnum en ekki síður hrifin af Hermanni* en hún er mun nettari bók að umfangi en Hálfbróðirinn og atburðarásin einfaldari.

Sögusviðið er Osló fyrir nokkrum áratugum. Sagan lýsir einum vetri í lífi Hermanns, drengs sem er á að giska 10 ára. Snemma í sögunni fer hann til rakara sem hættir skyndilega að klippa í miðju kafi og vill fá að tala við mömmu hann. Þarna kemur í ljós að strákurinn er kominn með blettaskalla og hann verður síðan smám saman sköllóttur.

1. september 2013

Gott er að borða gulrótina …

Mér finnst gott að vera alæta og myndi seint gerast grænmetisæta eða fara á eitthvert vandlega skilgreint mataræði með alls konar boðum og bönnum nema ég neyddist til. Aftur á móti finnst mér grænmeti frábært, grænmetisfæði almennt gott og ég borða sífellt meira af því, m.a. fyrir áhrif frá matarskrifum Michaels Pollans, þar á meðal matarboðorðum hans um að borða mat, ekki of mikið, mest úr jurtaríkinu. Ég mæli eindregið með bókunum hans, sérstaklega The Omnivore‘s Dilemma þar sem er kafað ofan í fjögur mismunandi bandarísk matarferli, allt frá plöntu eða dýri og þangað til maturinn er kominn á diskinn: Í fyrsta lagi skoðar Pollan iðnaðarframleiðslu og gerir m.a. úttekt á því hvernig maís liggur henni að verulegu leyti til grundvallar sem er verulega hrollvekjandi lesning. Í öðru og þriðja lagi kannar hann gerólíkar lífrænar leiðir, annars vegar iðnaðarferli þar sem ræktunin sjálf er lífræn en svo er t.d. ekið með afurðina langar leiðir til pökkunar og frágangs og síðan flogið ennþá lengra með hana til að koma henni í stórmarkaði, og hins vegar býli sem er býsna heildstætt vistkerfi og afurðirnar eru seldar á svæðinu. Að síðustu prófar Pollan svo að vera sjálfum sér nógur og rækta, safna og veiða mat.

Þótt það sé varla raunhæft markmið að allir borði alltaf mat sem er fullkominn út frá m.a. siðrænum og umhverfislegum sjónarmiðum, þá er illmögulegt að lesa skrif á borð við The Omnivore‘s Dilemma án þess að verða áhugasamari og meðvitaðri um það hvernig maturinn manns varð til og það er líklegt til að hafa einhver áhrif á neysluvenjur. Ég veit t.d. að mörgum er líkt farið og mér, að hafa tekið þá stefnu að kaupa kjöt sjaldnar og vanda þá valið á því. Það felur ekki endilega í sér að kaupa dýrt kjötmeti, ég er t.d. afar hrifin af bæði hjörtum og lifur sem kosta sáralítið.

Þessu fylgir auðveldlega aukinn áhugi á grænmetisfæði og í fyrra eignaðist ég þrjár breskar matreiðslubækur sem eiga það sameiginlegt að snúast um grænmeti en vera eftir menn sem eru ekki grænmetisætur. Í stuttu máli hef ég það um þær að segja að River Cottage ‒ Veg Every Day! eftir Hugh Fearnley-Whittingstall uppfyllir ekki allar óskir mínar en allt sem ég hef prófað upp úr henni er gott, The Vegetarian Option eftir Simon Hopkinson hefur marga kosti en höfðar samt ekki nógu vel til mín, en Plenty eftir Yotam Ottolenghi heillaði mig strax í byrjun og ef eitthvað er hef ég orðið hrifnari eftir því sem ég nota bókina meira. Nánari útlistun á þessu öllu fylgir hér á eftir.