29. september 2012

Leiðsagnarlaust inn að fjórða hring Helvítis

Við fengum þennan gestapistil sendan frá Arngrími Vídalín, doktorsnema í miðaldabókmenntum og sérlegum áhugamanni um skrímsli.

Eitt er það rit sem flestir Íslendingar lesa en aldrei ratar á vinsældalista útgefenda og bókaverslana. Það hefur komið út á Íslandi árlega og aldrei verið tilnefnt til bókmenntaverðlauna, enda þótt verkið sé þrungið jafnt áþreifanlegri sem og táknrænni merkingu. Rit þetta er að sjálfsögðu vörulisti IKEA, hinn árvissi haustboði sem svo mjúklega smýgur inn um póstlúgur sérhvers heimilis í landinu með nýjar hugmyndir handa hinni meðalauðgu millistétt sem elskar nýaldarbullhugtök einsog „sjálfun“ (sjá IKEA 2013, bls. 83).

Fyrir margar sakir er áhugavert að greina vörulista IKEA, og ekki síst núna því vörulistinn 2013 er um margt frábrugðinn þeim fyrri. Vanalega hefst listinn til að mynda á eins konar ávarpi verslunarstjóra til hins innbyggða lesanda bæklingsins; hér áður fyrr var jafnan heilskrokksmynd í lit af forstjóra sem annars var svarthvítur og brosti aldrei, en á seinni árum hefur siðurinn verið svarthvít ofanmittismynd af kankvísum verslunarstjóra með hönd undir höku eða krosslagða handleggi; ætíð var nafn þeirra ritað skrifstöfum undir myndinni og lesandinn gat skemmt sér við að geta sér þess til hvort undirskriftin hafi verið mannsins sjálfs eða markaðsdeildarinnar. En nú bregður öðruvísi við: í nýja bæklingnum er ekkert andlit fyrirtækisins fremst, engin vinaleg kveðja til væntanlegra viðskiptavina verslunarinnar, og raunar er hvergi minnst á neina verslun fyrr en í lok bæklingsins. Þess í stað er lesandinn boðinn „VELKOMIN/N Í NÝJA VERÖLD HUGMYNDA,“ og því bætt við að „við viljum gefa þér meira en áður.“ (bls. 3) Lesandinn fyllist hér strax nokkurri óvissu um hvaða ferðalag hann eigi í vændum þar sem ekki er fyllilega ljóst hver „við“ eru né hvort veröld bæklingsins eigi sér raunverulega hliðstæðu í verslun – sú ráðgáta er sem fyrr segir ekki leyst fyrr en í lok verksins og deilir bæklingurinn því að vissu leyti þematískri uppbyggingu með spennusögu. Þetta getur valdið nokkrum óhug hjá óreyndum lesanda, og þessi „nýja veröld“ sem svo er ekkert útskýrð vekur upp hugrenningatengsl við aðvörunina á hliði Vítis í kviðum Dantes: Lasciate ogne speranza, voi ch'entrate – látið af allri von, þið sem gangið hér inn (Dante, bls. 36). Enda kemur fljótt á daginn að ekki er allt sem sýnist í Hugmyndaveröld IKEA.

28. september 2012

Fer vel í einni hendi: Bókaspjall um Fantasíur

Það er ef til vill að bera í bakkafullan lækinn að fjalla um hina umdeildu kvennafantasíubók í ritstjórn Hildar Sverrisdóttur, Fantasíur, en við Kristín Svava og Guðrún Elsa stóðumst auðvitað ekki mátið og hittumst yfir Fanta eftir lesturinn.

KST: Útgáfa bókarinnar var gerð heyrinkunnug einhvern tímann í vor og það komu strax fram ýmsar gagnrýnisraddir á hugmyndina. Meðal annars lýstu margir yfir áhyggjum sínum af því að það sé engin leið að vita hvort þessar fantasíur voru sendar inn af konum eða körlum, en ég efast svona frekar um það sjálf að karlmenn úti í bæ hafi beðið í röðum eftir tækifæri til að skekkja mynd fólks af fantasíuheimi kvenna. Ég efast ekki um að það megi sjá áhrif karllægs sjónarhorns í bókinni en ég held að þau hljóti að vera lúmskari en þetta.

Formáli bókarinnar er stuttur, rétt um hálf blaðsíða, en Hildur tileinkar bókina kynfrelsi kvenna og virðist þannig tengja útgáfu hennar femínískum hugsjónum. Í ljósi fyrrnefndra gagnrýnisradda er kannski eðlilegt að það sé ákveðinn varnartónn í formálanum, en að mínu mati hefði verið hægt að gera hann mun betur úr garði og bókin hefði grætt á því að hann væri ítarlegri, ræddi til dæmis nánar forsendur verkefnisins. Hildur segist til að mynda styðjast við „almenn viðmið og rannsóknir um kynferðislegan hugarheim kvenna“ en útskýrir það ekkert frekar. Hvaða viðmið og rannsóknir eru þetta?

Eins og Halla Sverrisdóttir fjallaði um í nýlegri grein á Knúz.is voru skrifaðar bækur af sama meiði í Bandaríkjunum og á Norðurlöndunum fyrir þrjátíu árum síðan, og þá í tengslum við aðra bylgju femínismans sem lagði gjarnan mikla áherslu á opinskáa umræðu um langanir og kynhvöt kvenna í samfélagi þar sem slíkt var mikið tabú. Bækur frumkvöðulsins Nancy Friday lögðu áherslu á að setja kynlífsfantasíur kvenna í persónulegt og pólitískt samhengi og dýpkuðu þannig umræðuna, ekki ósvipað og Jóhanna Sveinsdóttir gerði í bók sinni um Íslenska elskhuga sem við fjölluðum um hér í sumar. Af hverju kemur þessi bók ekki út á Íslandi fyrr en árið 2012 – er þetta sambærilegt framtak? Er þessi fantasíubók frelsandi á Íslandi í dag á sama hátt og hún var það á Norðurlöndunum og í Bandaríkjunum fyrir þrjátíu árum síðan? Ítarlegri svör við svona spurningum hefðu gert bókina mun áhugaverðari sem vitnisburð um hugsanir og viðhorf kvenna á Íslandi í dag.

26. september 2012

Til Gautaborgar með Síberíuhraðlestinni

Rosa Liksom er svo mikill töffari.
Ég á það til að lesa fleiri en eina bók samtímis og jafnvel fleiri en tvær. Þótt bækur staldri auðvitað yfirleitt við í huga lesandans að lestri loknum (eða ættu að minnsta kosti að gera það) og jafnvel öðlist þar varanlegan sess, þá er misdjúpt á slíkri nærveru og hún verður kannski aldrei eins lifandi aftur og meðan á lestrarferlinu stóð. Þá má aftur velta því fyrir sér hver áhrif hálflesnu bókanna á áhrif hver annarrar á lesandann geti verið, og hvort að þræðir og andrúmsloft sumra bóka sem einhverra hluta vegna lesast ekki til enda kunni jafnvel að verða varanlega áleitnari fyrir vikið.

Undanfarið hef ég haft nokkrar í takinu ‒ er enn að lesa Yarden eftir Kristian Lundberg og smásögusafnið Burning Your Boats eftir Angelu Carter ‒ en í morgun sat ég í lestinni á leið hingað til Gautaborgar og lauk þar við finnsku skáldsöguna Hytti nro 6, eða Klefi nr. sex. Hún gerist einmitt um borð í lest, nánar til tekið Síberíuhraðlestinni milli Moskvu og Úlan Bator, þar sem finnsk stúlka deilir klefa með rússneskum, drykkfelldum og hnífglöðum manni í vorbyrjun á síðkvöldi Sovétríkjanna. Gegnum samskipti klefafélaganna dregur höfundur upp áhrifamikla mynd af upplifun hvors þeirra um sig af Rússlandi og af Sovétríkjunum, sem stundum eru eitt og hið sama en stundum jafnólík og mæðgin geta yfirhöfuð verið.

Fyrir tæpu ári síðan var ég á bókamessu í Helsinki og sá viðtal sem Sofi Oksanen tók við Rosu Liksom, höfund Klefa nr. 6, sem kom út um það leyti (ég bloggaði um messuna og viðtalið hér á síðunni). Liksom er einnig væntanleg á bókamessuna í Gautaborg ‒ sem er einmitt ástæðan fyrir veru minni hér ‒ og ég er farin að hlakka til að heyra hana tala meira um bókina, en hún mun m.a. taka þátt í pallborðsumræðum með enskuþýðandanum sínum undir yfirskriftinni Austur og vestur mætast. Ég veit að Sigurður Karlsson þýðandi, sem meðal annars hefur þýtt verk Sofi Oksanen og Tapio Koivukari prýðilega á íslensku, hyggst líka þýða Klefa nr. 6; sennilega má búast við henni á næsta ári. Svo er auðvitað ýmislegt fleira áhugavert í gangi á Gautaborgarmessunni, sem hefst á morgun og stendur yfir helgina, eiginlega of margt til að rekja hér, en m.a. verður Gunilla Bergström í viðtali undir yfirskriftinni Hvem er pappa Åberg? og einnig verða þónokkrir íslenskir höfundar á svæðinu. Ég hlakka til!

14. september 2012

Má ekki elska þig — ekki láta kápuna glepja þig

Einhverntíman um miðbik sumars barst Druslubókum og doðröntum bókin Má ekki elska þig eftir breska höfundinn Jenny Downham. Einhvernveginn leist okkur frekar illa á gripinn, fannst titilinn hljóma einkennilega væminn, myndin framaná kápunni einhvernveginn einsog verið væri að stæla ítalskar marmarastyttur og ekki bætti úr skák litla auglýsingin á fyrri bók höfundar sem er hringlaga mynd af neðri hluta stúlkulíkama í rauðdoppóttum stuttbuxum – og sjálf bókin heitir Áður en ég dey. Þetta var bara of mikið, engin sýndi bókinni áhuga. Ég ákvað svo á hádegisverðarfundi að nú væri sennilega kominn tími til að bjóða fordómum sínum birginn, taka sig saman í andlitinu og lesa eitthvað sem manni hefði aldrei annars dottið í hug að skoða. Ég hafði séð þessa bók tilsýndar áður, í kassaröðinni í Lyfju eða einhverjum álíka stað og hnussað yfir því að þetta væri nú ábyggilega ljóti ástarvaðallinn. En ég gekk sum sé út af fundinum með bókina í töskunni og fannst ég ansi sniðug að ætla nú að taka á því og komast að því hversvegna bækur á borð við þessa og hina með hræðilega nafninu verða metsölubækur. Ég viðurkenni að ég þurfti að taka smá tilhlaup, bókin var enn ólesin þegar ég fór í sumarfrí seint og um síðir og það var ekki fyrr en undir lok frísins, nánar tiltekið næstsíðasta kvöldið sem hún var tekin upp og lesin. En þá varð líka ekki aftur snúið, ég sem er allt að því sjúklega kvöldsvæf las fram eftir allri nóttu og náði ekki að stoppa fyrr en allt var búið!

13. september 2012

Mýrarhátíð

Um helgina og á mánudaginn, 15.–17. september, verður barna- og unglingabókmenntahátíðin Úti í mýri haldin í sjötta sinn í Norræna húsinu í Reykjavík. Yfirskriftin er Matur úti í mýri, en hátíðin er að þessu sinni tileinkuð mat og matarmenningu í barna- og unglingabókum. Dagskráin verður fjölbreytt; myndlistarsýningar, upplestrar, vinnustofur, málstofur og fyrirlestrar fyrir alla áhugamenn um bókmenntir, unga sem aldna.

Laugardaginn 15. september kl. 14 heldur Arndís Þórarinsdóttir, rithöfundur og formaður IBBY á Íslandi opnunarræðu hátíðarinnar í Norræna húsinu. Afhent verða verðlaun til vinningshafa í smásagnasamkeppni hátíðarinnar og Samtaka móðurmálskennara sem haldin var í öllum grunnskólum landsins síðastliðið vor og vinningshafar lesa upp sögur sínar fyrir hátíðargesti. Að því loknu hefst málstofa, sem Þórarinn Eldjárn kynnir, þar sem rit- og myndhöfundar fjalla um hvaða hlutverki matur gegnir í bókmenntum þeirra. Egill Helgason stjórnar málstofunni og umræðum að fyrirlestrum loknum. Allir eru velkomnir.

Dagskráin sunnudagurinn 16. september hefst kl. 11 og hún er tileinkuð börnum. Haldin verður fjölskyldudagskrá í Norræna húsinu þar sem börn geta hlustað á rithöfunda lesa upp úr bókum sínum, sótt vinnustofur þar sem höfundar kenna tækni og vinnubrögð og skoðað myndlistasýningu á vegum hátíðarinnar í anddyri hússins. Meðal höfunda sem koma fram eru: Candace Fleming og Eric Rohmann frá Bandaríkjunum, Katrine Klinken frá Danmörku, Jutta Bauer frá Þýskalandi, Polly Horvath frá Kanada, Svein Nyhus frá Noregi og íslensku höfundarnir Ragnheiður Gestsdóttir, Sigrún Eldjárn og Þórarinn Eldjárn.

Mánudaginn 17. september verða haldnar tvær málstofur í sal Norræna hússins þar sem fræðimenn flytja fyrirlestra og koma saman til að ræða mat og matarmenningu í barnabókmenntum. Meðal fræðimanna sem taka þátt eru Anna Heiða Pálsdóttir, Ármann Jakobsson og Dagný Kristjánsdóttir, Kristin Hallberg frá Svíþjóð og Fridunn Tørå Karsrud, Kirsti-Nina Frønæs og Unni Mette Solberg frá Noregi. Málstofurnar eru opnar öllu áhugafólki.

Hér má sjá dagskrána með nákvæmari tímasetningum.

Meðfram þessari dagskrá eru einnig haldnar tvær myndlistasýningar. Á sýningunni Matarlist í barnabókmenntum eru sýndar myndir úr íslenskum barnabókum sem tengjast mat, matseld, borðhaldi og áti. Bækurnar sem myndirnar birtust í munu liggja frammi í sýningarrýminu fyrir gesti til að glugga í. Sýningin er í Norræna húsinu. Önnur sýning, Í skóginum stóð kofi einn, sem er með myndum úr samnefndri bók eftir rit- og myndhöfundinn Jutta Bauer, stendur yfir 10– 24. september á Reykjavíkurtorgi í Aðalsafni borgarbókasafnsins við Tryggvagötu. Bókin kom út á íslensku fyrr á árinu og verður höfundurinn Jutta Bauer með leiðsögn um sýninguna.

Nánari upplýsingar um hátíðina og dagskrá má nálgast á heimasíðunni www.myrin.is og facebook-síðunni http://www.facebook.com/MyrinBarnabokmenntahatid, og hjá verkefnisstjóra hátíðarinnar Tinnu Ásgeirsdóttur á netfanginu: myrinfestival@gmail.com eða í síma: 857-0298.

Muriel Spark leiðréttir nokkrar rangfærslur

Lesendur kannast sennilega einhverjir við átakið „Að lesa bækur sem hafa verið lengi ólesnar í hillunum“. Ég endist oftast ekki mjög lengi í slíku átaki því um leið og ég er búin með fyrstu ólesnu bókina grípur einhver önnur bók athygli mína á bókasafni eða í bloggfærslu eða bara í hillunum hjá einhverjum öðrum. Ég byrjaði í svona átaki núna í september og náði að ljúka einni bók úr eigin hillum. Þessi bók var valin af algjöru handahófi, enda sjálfsævisaga rithöfundar sem ég hafði aldrei lesið neitt eftir áður, hinnar skosku Muriel Spark (1918-2006). Hún er þekktust fyrir skáldsöguna The Prime of Miss Jean Brodie, en eftir henni hefur verið gerð kvikmynd með Maggie Smith í aðalhlutverki.

Bókin, sem heitir því frekar tilþrifalitla nafni Curriculum Vitae, fjallar um fyrri hluta ævi Spark og lýkur um það bil sem hún er að byrja að gefa út bækur og geta sér nafn sem rithöfundur. Fram að því drífur ýmislegt á daga hennar. Hún ólst upp í Edinborg upp úr fyrra stríði, giftist kornung og flutti með manni sínum til Zimbabwe eða Rhódesíu eins og það hét þá (þar sem hún bjó skammt frá Doris Lessing, þótt þær kynntust ekki þá) og eignaðist son. Eiginmaður hennar reyndist veikur á geði og ofbeldishneigður svo hún fór frá honum og flutti aftur til Englands um það leyti sem seinni heimsstyrjöldin hófst, kom syni sínum fyrir hjá foreldrum sínum í Edinborg en vann sjálf fyrir sér við fjölbreytt störf í London. Hún skrifaði í fagtímarit um skartgripi, starfaði fyrir dularfulla áróðursskrifstofu sem hélt úti falskri þýskri útvarpsstöð með aðstoð flóttamanna, og var miðpunkturinn í dramatískum listrænum ágreiningi um módernisma sem ritstjóri ljóðatímaritsins Poetry Review og var loks rekin úr því starfi. Bókinni lýkur um 1960 en þá er Spark orðin rithöfundur í fullu starfi.

11. september 2012

Með draugaverki í kynjagleraugunum

Draugaverkir er önnur sakamálasaga Norðmannsins Thomas Enger (en fjallað var um frumraunina Skindauða hér á síðunni fyrir rétt um ári síðan) og önnur bókin um rannsóknarblaðamanninn Henning Juul. Hún er sjálfstætt framhald fyrri bókarinnar; þótt hvor um sig hverfist um eitt tiltekið sakamál hefur stærra plott einnig verið í þróun frá upphafi, sem felur í sér mikla tilfinningahagsmuni fyrir Juul og virðist hvergi nærri lokið með þessari annarri bók – það er semsé greinilegt að fleiri bækur eru væntanlegar.

Mér fannst plottið í Draugaverkjum betra en í Skindauða. Það er meira spennandi og eins fékk ég einhvernveginn meira út úr úrlausninni, sem var dáldið antíklæmax í fyrri bókinni (þótt þessi sé nú ekkert á Agöthu Christie kalíberi heldur). Eins og í fyrri bókinni rennur textinn ágætlega niður og missir aldrei dampinn (þótt sumir kunni að hnjóta um ýmsar innsláttarvillur og þvíumlíkt, líkt og í fyrri bókinni). Juul sjálfur er andhetju-hress sem fyrr; þjakaður af martröðum og greinilega með áfallastreituröskun eftir að hafa mistekist að bjarga syni sínum úr bruna og skaðbrunnið sjálfur, hann er langþreyttur á alkóhólíseraðri móður sinni, ekki kominn yfir eiginkonuna fyrrverandi (sem er farin að deita kollega hans), og svo framvegis – alveg einstaklega mannlegur. Hann er líka viðkunnanlegur karakter, að því nú ógleymdu að hann er klárari að góma glæpóna en lögreglulið Oslóarborgar eins og það leggur sig.

9. september 2012

Frásagnarfræði, sálgreining, sjálfsögur og annað skemmtilegt

Í bókahillunni minni er ein fræðibók sem ég hef leitað í aftur og aftur í áranna rás. Bókin er eftir Peter Brooks og heitir Reading for the Plot: Design and Intention in Narrative. Fyrstu kynni mín af henni voru tveir kaflar sem ég las í ljósriti á námskeiði og var svo uppnumin að ég keypti bókina að því loknu. Allar götur síðan hefur hún verið endalaus uppspretta hvers kyns bókmenntaumfjallana og –pælinga.

Reading for the Plot fjallar, eins og nafnið gefur til kynna, um frásagnarfræði. En í stað þess að byggja kenningar sínar aðallega á málvísindum eins og margir fyrirrennarar í þeim efnum leitar Brooks á náðir sálgreiningarinnar. Markmið hans er þó ekki að sálgreina lesendur, höfunda eða persónur heldur nýtir hann sér hugmyndir Freud til að skapa frásagnarfræðimódel sem tekur ekki aðeins á uppbyggingu textans heldur innri öflum hans og samspili við lesandann. Brooks sækir einkum tvennt til Freud. Annars vegar eru það hugmyndir hans um yfirfærslu (transference á ensku) og svo samspil vellíðunarlögmálsins og dauðahvatarinnar. Það síðarnefnda fjallar hann um í sambandi við enda frásagna, hvernig lesandinn þráir að ná endanum, leysa flækjuna og upplifa kyrrðina að því loknu - en að það verði að gerast á réttan hátt. Í hvert sinn sem plottið tekur nýja stefnu, að því er virðist í áttina frá hinum rétta enda er það dauðahvötin sem tekur í taumana og stýrir því aftur á rétta braut. Og vellíðunarlögmálið safnar atburðunum saman í heild, skapar tengingar milli þeirra og sér til þess að þegar hinum rétta endi er loksins náð veiti hann lesandanum mestu mögulegu ánægju. Bæði dauðahvötin og vellíðunarlögmálið stefna í sömu átt, að endanum, en vegna samspils þeirra verður töf á því að takmarkið náist og sú töf er það sem við köllum miðju frásagnar. Hversu skemmtilegt væri til dæmis ævintýrið um Mjallhvíti ef veiðimaðurinn dræpi hana þarna á fyrsta degi í skóginum? Eða ef prinsinn í Öskubusku hefði á endanum gifst annarri stjúpsysturinni? Sennilega ekki mjög. Með því að fjalla um frásagnir út frá Freud og hugmyndum hans um vellíðunarlögmálið og Eros opnar Brooks líka á umræðu um lestur sem nautn og tengir frásagnir þrá, kynlífi, tælingu, hinum forboðna líkama og jafnvel vændi. Það er auðvitað vonlaust að gera þessu öllu nægilega góð skil í stuttum bloggpistli en þið verðið bara að trúa því að þetta er allt mjög áhugavert og kannski umfram allt mjög skemmtilegt – sem verður ekki alltaf sagt um fræðibækur.

6. september 2012

Einar Áskell og refsingin

Síðustu fjóra áratugi hefur reglulega komið út bók um brúnklæddu feðgana, Einar Áskel og hinn góðlega pabba hans. Þeir feðgar hafa líka nokkrum sinnum birst á þessari síðu, til dæmis hér og hér. Á dögunum bættist enn ein við þær tuttugu og fimm sem til voru fyrir og hún kom út samtímis á Íslandi í Svíþjóð. Bókin heitir á íslensku Sá hlær best ...! sagði pabbi og þýðandi er Sigrún Árnadóttir.

Eins og blogglesendur munu væntanlega átta sig á eftir lestur þessa pistils sé ég ekki fyrir mér að þessi bók sé fyrir mjög litla krakka, enda stendur aftan á henni Einar Áskell fyrir stóra krakka, en á heimasíðu sænska forlagsins er mælt með henni fyrir 3-6 ára.

Líkt og oftast á við um Einars Áskels-bækurnar er sögusviðið heimili feðganna. Það er sunnudagur og allir í góðu skapi. Einar Áskell og Milla eru að byggja stjörnustríðsveröld sem gerist á tímum riddaranna og allt á að vera tilbúið þegar frændurnir Birgir og Benni koma í heimsókn. En þegar þeir kumpánar birtast, þeir virðast vera aðeins eldri en Einar og Milla, eru þeir með sitt eigið dót, farsíma og fjarstýrðan torfæru-árásar-jeppa með gripklóm. Þeir hafa nákvæmlega engan áhuga á stjörnustríðsmannvirkjunum  með riddaraþemanu og rústa öllu fyrir Einari og Millu og í kjölfarið brjálast þau og elta Birgi og Benna þannig að húsmunir brotna, hurðir skella og almenn ólæti verða. Pabbi kemur æðandi öskureiður og spyr hver hafi byrjað og þar stendur orð gegn orði líkt og við má búast, en frændaóbermin virðast sannfæra pabba um að Einar og Milla hafi byrjað og pabbi þrumar að þá verði þeim refsað í einrúmi. Þau sjást ganga hnípin inn í herbergi, en strákarnir glotta og velta því fyrir sér hvort þau verði flengd. Birgir og Benni læðast síðan að dyrunum á herberginu þar sem Einar og Milla eru með pabba og tárin renna niður kinnar þeirra síðarnefndu og þau kvíða óréttlátri refsingunni. En þá kemur í ljós að pabbi hefur heyrt allt og séð og er bara að plata Birgi og Benna, enda má ekki berja börn, og síðan segir: „Maður verður bara að nota hausinn. Maður verður að vera sniðugur og leiða óvinabjána á villigötur svo þeir haldi að hér sé heldur betur verið að rassskella ... “ Síðan hvíslar pabbi að Einari og Millu að þykjast skæla á meðan hann klappar saman lófunum.

Að kaupa sér lífstíl á formi frostpinna

Hin fegursta bókin er fundin.
Sagan segir að í Svíþjóð komi út ein matreiðslubók á dag að meðaltali. Hvort sem það er sannleikanum samkvæmt eða ekki er víst að þær eru ansi margar og fjölbreyttar. Á undanförnum árum hefur færst í aukana að fræga fólkið gefi út matreiðslubækur. Alls konar tónlistarmenn, rithöfundar og sjónvarpsstjörnur hafa keppst við að gefa uppskriftir að sínum eigin handrúlluðu kjötbollum og jólasmákökum. Um daginn las ég dálítið áhugaverða grein í Dagens Nyheter sem fjallaði um þetta trend. Í stuttu máli voru líkur leiddar að því þar að með þessum matreiðslubókum væri fyrst og fremst verið að selja lífstíl. Það skipti sem sagt í rauninni ekki máli að gera pönnukökur eins og Camilla Läckberg (út af fyrir sig væri nú efni í heilan pistil að ræða ímyndarsköpun hennar) eða villibráð eins og hin forna hockeystjarna Börje Salming heldur sé tilgangurinn að öðlast brotabrot af lífi þessa fólks, ljóma þess og stjörnuglansi í skamma stund. Það er án efa heilmikið til í þessu.

Eplasneiðarnar alræmdu.
Sjálf á ég enga af matreiðslubókum fræga fólksins en þessi grein fékk mig samt til að hugsa um það hvers vegna ég sjálf kaupi matreiðslubækur. Ég er vonlaus kokkur en finnst gaman að baka og kaupi því helst alls konar köku- og desertabækur. Ég á í fórum mínum eina og eina uppskrift sem klikka aldrei og slá alltaf í gegn en satt best að segja held ég að ég sé ekkert sérstaklega hæfileikaríkur bakari. Einu sinni gerði ég límónuböku með soðnu eggjalagi í miðjunni. Hún hafði átt að vera límónubaka með marengs ofan á. Og ég get ekki, sama hvað ég reyni og vanda mig hellt bræddu súkkulaði í örmjórri bunu yfir eitthvað og búið til fallegt munstur. Það koma bara stórar og ólögulegar klessur og svo fer ég í örvæntingu að reyna að laga það með höndunum og enda með súkkulaðifingraför út um allt í ofan á lag. Ég hef líka oftar en ekki endað með köku í þremur hlutum af því að ég er svo óþolinmóð að ég nenni ekki að beita lagni við að ná henni úr forminu. Þá hef ég yfirleitt bara klappað henni einhvern veginn saman aftur og ekki hikað við að bjóða hana gestum. Í ljósi alls þessa er dálítið merkilegt að skoða þær matreiðslubækur sem mig hefur dreymt um að eignast undanfarna mánuði.

5. september 2012

Rithöfundar eru tvíhöfða skepnur

Í sænskum dagblöðum í dag kemur fram að nýjasta bók Kerstin Ekman, Grand final i skojarbranschen, sem kom lítillega við sögu hér, verði fljótlega kvikmynduð. Í sænskum dagblöðum  gærdagsins kom fram að bók Åsu Linderborg, sem kom við sögu hér og hér, verði kvikmynduð á næstunni með Mikael Persbrandt í aðahlutverki. Um daginn frétti ég svo af því að í Svíþjóð sé nú verið að setja upp leikrit eftir bókinni Yarden, sem sem hefur komið hér við sögu og að tónlistin í verkinu verði eftir Sigur Rós. Þetta er svona upphafsútúrdúr til að koma því að hvað við Guðrún Lára erum seigar við að fjalla um funheitt, sænskt efni hér á síðunni.

Efni þessarar færslu er hins vegar Grand final í skojarbranschen eftir Kerstin Ekman. Bókina lauk ég við í gær eftir að hafa eytt töluvert löngum tíma í lesturinn. Það er frekar óvenjulegt að ég sé lengi að lesa bækur, yfirleitt eyði ég ekki tveimur vikum í að lesa eina bók en Grand final i skojarbranschen er löng og ekki fljótlesin. Hún er hins vegar sérlega safarík og með betri bókum sem ég hef lengi komist í. Þessi nýjasta bók Kerstin Ekman kom út á sænsku í fyrra en ég keypti hana í Góða hirðinum í sumar, greinilega ólesna, og kann þeim sem nennti ekki að lesa hana kærar þakkir fyrir að hafa sent hana í nytjagám í Sorpu.

Eins og Guðrún Lára minntist á þegar Tuula Sariola og leigupenninn Ritva voru til umfjöllunar þá minnir bók Kerstin Ekman á þeirra sögu en hún er þó alls ekki byggð á henni, enda byrjaði Kerstin Ekman að skrifa bókina löngu áður en saga Tuulu Sariola varð opinber. Grand final i skojarbranschen er sjálfsævisöguleg skáldsaga og segja má að hún fjalli um bókmenntaheiminn sem höfundurinn hefur lifað í síðustu sex áratugina. Kerstin Ekman er fædd 1933, menntuð við Uppsalaháskóla og starfaði í kvikmyndabransanum og sem lýðháskólakennari áður en hún gerðist rithöfundur. Ferilinn hóf hún á glæpasögum og þótti endurnýja formið. Árið 1978 var hún valin í Sænsku Akademíuna en hætti að mæta þegar henni þótti samverkamenn sínir þar ekki standa við bakið á Salman Rushdie árið 1989. Því er stóllinn hennar í Akademíunni auður, það er víst ekki hægt að hætta. Wikipedia segir Kerstin Ekman hafa fengið hátt í þrjátíu verðlaun fyrir bækur sínar en eftir hana hafa verið þýddar þrjár bækur á íslensku eftir því sem ég best veit.

3. september 2012

Skuggamyndir, skáldskapur, minning

Ég er 36 ára gömul og það er tvennt sem ég tel að ég hafi fyrst núna þroska til að skilja og hafa áhuga á. Í fyrsta lagi er það garðrækt. Ætli maður þurfi ekki að hafa tiltekinn árafjölda að baki til að til að finnast það borga sig að puða í einhverju sem maður sér ekki almennilega árangur af fyrr en nokkrum árum síðar? Og svo er það hvers kyns ættfræði, fjölskyldusögur og þörfin fyrir að skilja fortíð sem er ekki manns eigin – en um leið einmitt það. Sennilega er það vegna þessa síðara að bókin Skuggamyndir úr ferðalagi eftir Óskar Árna Óskarsson hitti mig beint í hjartastað.

Skuggamyndir eru safn prósatexta þar sem tilvitnanir í bréfasöfn og ljósmyndir eru spunnar saman við frásögn manns (sem væntanlega er óhætt að gera ráð fyrir að sé höfundurinn sjálfur) af ferðalagi á slóðir fyrri kynslóða einkum og sér í lagi foreldra sinna, föðurömmu og ömmubróður. Hann ferðast með rútu og snapar sér far með hinum og þessum, gerir stans á Sauðárkróki, Siglufirði, Akureyri, Raufarhöfn og fleiri stöðum. Eftir því sem ferðinni vindur fram fylgja sögur af fjölskyldumeðlimum, æskuminningar sögumanns sjálfs og frásagnir af samferðafólki. Brotin raðast saman svo úr verður heildstæð mynd sem birtir ekki bara sögu þessa fólks heldur fangar tíðarandann hverju sinni, segir kannski á einhvern hátt sögu okkar allra. Hér má finna ótal áhrifamiklar smámyndir sem sitja eftir í huga lesandans: fótur er tekinn af barni á borðstofuborðinu heima, lítill drengur kúrir í ilmandi lárviðarlaufshaug, moldin tekur til sín aukafingur smástelpu. Að ógleymdu lakkríshúðaða þríhjólinu! Hvílík dásemd! Frá öllu þessu og mörgu öðru er sagt á einfaldan og yfirvegaðan hátt. Í káputexta er bókin kölluð „ljóðræn minningabók“ en ég veit ekki alveg hvort ég er sammála því. Sjálfur textinn er í rauninni ekkert sérstaklega ljóðrænn en hins vegar má kannski segja að einmitt í látleysi sínu dragi hann fram hversu ljóðræn tilveran sé í raun og veru.

1. september 2012

A Walk in the Woods í rútu um Bandaríkin

Á nýlegri rútuferð minni um Bandaríkin langaði mig (eftir skammt af skandinavískum glæpum auðvitað) til að lesa eitthvað um ferðalög í Ameríkunni og leitaði til Bill Bryson sem ég hef lengi ætlað að lesa annað eftir en Shakespeare (hana hef ég lesið þrisvar). (Bryson er góðvinur Druslubloggsins og hefur verið fjallað um hann hér). Fyrir valinu varð A Walk in the Woods sem segir frá (þrauta)göngu höfundar um Appalachia-slóðina sem er um 2000 mílur (heimildum ber ekki saman um nákvæma vegalengd) og liggur um mikilfenglega fjallgarða Bandaríkjanna og á nákvæmlega ekkert sameiginlegt með huggulegu rútuferðalagi mínu annað en landið. Það dró þó ekki úr ánægju við lesturinn og þó að mínar göngur hafi helst verið um aðalgötur bæja og borga (með sólhatt og kælt vatn í kaffhaldaranum á barnakerrunni) þá sá ég raunar bæði The Rockies og The Smokies út um gluggan á rútunni og átti ekki vandræðum með að ímynda mér Bryson sveittan í hlíðum fjallanna.
Rocky Mountains séð frá Bozeman Montana en þar
kom ég við...

Bryson hefur ferð sína um þennan fræga götuslóða þegar hann er 44 ára. Jólin áður hafði hann sent línu með öllum jólakortunum og boðið fólki að koma með (hann hryllti við að mæta úlfum, björnum og morðingjum einn á ferð). Einn einasti svaraði kallinu – Stephen Katz, æskuvinur sem hann hafði ekki hitt í 25 ár. Sá reyndist hafa fitnað og ólukkast eitthvað á þessum 25 árum og eftir lýsingar á því hvernig hann mæddist við að ganga upp stigann heima hjá Bryson var erfitt að ímynda sér annað en að hann yrði dragbítur á höfundinum þótt hann væri kannski enginn Ólympíufari sjálfur. Katz reynist vera mikill furðufugl en auðvitað betri en enginn þegar á hólminn (eða fjallið) er komið. Hann tekur gríðarmikið af kleinuhringjum og bollakökum með en hendir síðan helmingnum á leiðinni þegar bakpokinn fer að síga í, hendir dýrmætri vatnsflösku, villist, fer í fýlur, fer á fjörurnar við afmyndaða (og – kemur í ljós – gifta) gengilbeinu og er að sumu leyti það merkilegasta við ferðina. Bryson er reyndar svo brútal stundum í lýsingum á þessum félaga sínum að ég fór alvarlega að velta því fyrir mér hvort hann væri skáldaður, hvort hann hefði svona æpandi mikinn húmor fyrir sjálfum sér - eða hvort hann væri svo lítið menningarlega sinnaður að Bryson treysti því að hann myndi aldrei lesa bókina.