Við fengum þennan gestapistil sendan frá Arngrími Vídalín, doktorsnema í miðaldabókmenntum og sérlegum áhugamanni um skrímsli.
Fyrir margar sakir er áhugavert að greina vörulista IKEA, og ekki síst núna því vörulistinn 2013 er um margt frábrugðinn þeim fyrri. Vanalega hefst listinn til að mynda á eins konar ávarpi verslunarstjóra til hins innbyggða lesanda bæklingsins; hér áður fyrr var jafnan heilskrokksmynd í lit af forstjóra sem annars var svarthvítur og brosti aldrei, en á seinni árum hefur siðurinn verið svarthvít ofanmittismynd af kankvísum verslunarstjóra með hönd undir höku eða krosslagða handleggi; ætíð var nafn þeirra ritað skrifstöfum undir myndinni og lesandinn gat skemmt sér við að geta sér þess til hvort undirskriftin hafi verið mannsins sjálfs eða markaðsdeildarinnar. En nú bregður öðruvísi við: í nýja bæklingnum er ekkert andlit fyrirtækisins fremst, engin vinaleg kveðja til væntanlegra viðskiptavina verslunarinnar, og raunar er hvergi minnst á neina verslun fyrr en í lok bæklingsins. Þess í stað er lesandinn boðinn „VELKOMIN/N Í NÝJA VERÖLD HUGMYNDA,“ og því bætt við að „við viljum gefa þér meira en áður.“ (bls. 3) Lesandinn fyllist hér strax nokkurri óvissu um hvaða ferðalag hann eigi í vændum þar sem ekki er fyllilega ljóst hver „við“ eru né hvort veröld bæklingsins eigi sér raunverulega hliðstæðu í verslun – sú ráðgáta er sem fyrr segir ekki leyst fyrr en í lok verksins og deilir bæklingurinn því að vissu leyti þematískri uppbyggingu með spennusögu. Þetta getur valdið nokkrum óhug hjá óreyndum lesanda, og þessi „nýja veröld“ sem svo er ekkert útskýrð vekur upp hugrenningatengsl við aðvörunina á hliði Vítis í kviðum Dantes: Lasciate ogne speranza, voi ch'entrate – látið af allri von, þið sem gangið hér inn (Dante, bls. 36). Enda kemur fljótt á daginn að ekki er allt sem sýnist í Hugmyndaveröld IKEA.