31. október 2012

Fátækt fólk

Kápumynd Haraldar Guðbergssonar
á frumútgáfunni  sem Mál og menning
gaf út 1976
Af hverju er Fátækt fólk eftir Tryggva Emilsson ekki skyldulesning í grunn- eða framhaldsskóla? Eftir lestur þessarar mögnuðu sögu Tryggva finnst mér helst til undarlegt að hana hafi ekki rekið á fjörur mínar fyrr. Ég er enginn sérfræðingur í sögu Íslands eða þeim bókmenntum sem nýta sagnaarfinn en þykir mikilvægt að viða að mér fróðleik til skilnings á rótunum. Þó svo að allsnægtir hafi ávallt verið til staðar þá þekkir maður gróflega sína sögu; sögu fátæka Íslands, vosbúðina, sjálfstæðið, klisjurnar og ekki klisjurnar. En núna held ég að ég hafi hreinlega aldrei haft lifandi skilning á aðstæðum fólks fyrir mína daga, Fátækt fólk fékk mig, á einhvern hátt, til þess að lifa vosbúðin, lifa þau örlög að dauðinn er alls staðar en fegurðin líka.

Tryggvi fæddist 82 árum áður en ég fæddist en mér líður eins og geimveru frammi fyrir því samfélagi sem hann fæddist í. Áttatíu og tvö ár. Kannski er ekki skrýtið að fólk hræðist að við séum búin að slíta ræturnar við gamla, fátæka Ísland í okkar gjörbreytta heimi. Enda fer fátæka fólkið hans Tryggva ekki hátt. En það ætti að gera það. Tryggvi nýtti sínar fábreyttu aðstæður til fulls og hann lifði. Hann kunni að lifa í endurtekningunni, að þekkja dalinn, fjöllin, hverja einustu hæð og hól, hvert veðurbrigði, hvað hundurinn var að meina, kindin eða hesturinn, hann sá hvernig dýrin hugsuðu. Næmnin fyrir fegurðinni er (náttúrulega) ólýsanleg. Lýsingarnar á Öxnadalnum, tíminn sem hann hafði og nýtti til að velta öllu fyrir sér og komast þannig í djúp tengsl við umhverfið. Þær fengu mig til þess að hugsa um mín eigin tengsl við umhverfið, okkar eigin væntingar, hvað við viljum, hvað þykir kúl. Ég hef komið til Kasmír, ég hef komið til Rómar og ég hef komið til Balí, plánetan er falleg. Það eru ótrúlegir hlutir alls staðar en því fleiri staði sem ég heimsæki, því fleiri fallegar evrópskar borgir, fallega skógardali, fallegar strendur, því meir myndast abstrakt mynd af fallegri evrópskri borg, fallegum skógardal, fallegri strönd í huga mér í stað hins einstaka staðar. Ég ólst líka upp í sveit. En ég hafði sjónvarpið, ég hafði bækurnar, bílinn, snjóþotuna, mér var alveg sama um hundinn, hugsuðu kindurnar? Ekkert af þessu hafði Tryggvi, vart til bók á heimilinu, hann notaði einungis hugann til þess að búa til töfraheiminn, hann talaði við fólk, dýr og jafnvel fjöllin. En það er ekki aðeins næmni Tryggva sem hreif mig heldur einnig réttlát reiðin og skilningur á fólki, góður vilji gagnvart fólki. Lýsingarnar á lífi foreldra hans á eyrinni, þegar faðir hans var veikur og móðirin með mörg börn að reyna að finna mat, hvernig dönsku kaupmennirnir lokuðu dyrunum, arðránið var algert og arðurinn fluttur til Kaupmannahafnar. Presturinn hjálpaði ekki heldur, heldur minnti móðurina á að dýrðina væri að finna í fokking næsta lífi!

27. október 2012

Vögguvísa: Reykjavíkursaga frá liðinni öld

Síðsumars á þessu ári var endurútgefin nóvellan Vögguvísa eftir Elías Mar, en hún kom fyrst út árið 1950. Bókaforlagið Lesstofan stendur fyrir útgáfu bókarinnar, sem er afskaplega áferðarfögur, með inngangsorðum og vönduðum eftirmála rituðum af aðstandendum Lesstofunnar sem eru þau Anna Lea Friðriksdóttir, Sigrún Margrét Guðmundsdóttir, Svavar Steinarr Guðmundsson, Þorsteinn Surmeli og Þórunn Kristjánsdóttir. Að auki fylgir lítil slangurorðabók aftast í bókinni, sem nýtist vel þegar maður rekst á háþróað slangur á borð við „salatfatið“ (löggubíll) og „ein á peysufötunum“ (brennivínsflaska). 

Vögguvísa fjallar um þrjá sólarhringa í lífi unglingsins Björns Sveinssonar, sem er jafnan kallaður Bambínó af félögum sínum. Bókin hefst á glæp sem Bambínó flækist í og svo fylgja lesendur honum um fremur skuggalegar götur Reykjavíkurborgar, sem hann arkar yfirleitt drukkinn eða þunnur, þangað til það er eins og hann geti ekki meir. Þótt hann hafi ýmislegt fyrir stafni, fari í partí og á billjarðstofur, þjónar bíóið afar miðlægu hlutverki í bókinni. Eins og fjallað er um í eftirmálanum, minnir bókin á kvikmynd. Þar er vísað í bókadóm Helga Sæmundssonar úr Alþýðublaðinu árið 1951, þar sem hann segir: „Hún er tæknilega byggð og hraðstreym, söguþráðurinn er órofinn frá upphafi til enda, og höfundurinn viðhefur hvorki vangaveltur né málalengingar, en það er blessunarleg nýbreytni á þessari öld kjaftháttarins.“ Maður upplifir verkið að vissu leyti eins og mynd – þegar maður hefur fest hugann við það líður það áfram á allt að því sjónrænan hátt og stundum verður maður var við tónlistina sem hljómar undir: „chi–baba, chi–baba“. Mér duttu aðallega í hug unglingamyndir sjötta áratugarins við lesturinn, ég sá fyrir mér að James Dean léki Bambinó þar sem hann gengur óöruggur og leitandi um í borgarumhverfinu, fullur löngunar eftir því að verða karlmaður – hvað svo sem það merkir. Í eftirmálanum er hins vegar bent á líkindin við rökkurmyndir (film noir), sem eru vissulega töluverð. Er ekki einhver til í að kvikmynda Vögguvísu, í rökkurmyndastíl?

Vögguvísa er í brennidepli á fyrstu Lestrarhátíð Bókmenntaborgarinnar, sem hefur staðið yfir núna í október. Á lestrarhátíð sameinast borgarbúar á öllum aldri „um að njóta þess að lesa eina tiltekna bók, ræða hana, uppgötva og vinna með útfrá öllum mögulegum sjónarhornum.“ Bókin er lesin víða nú í mánuðinum, meðal annars í skólnum og leshringjum, auk þess sem staðið er fyrir viðburðum tengdum bókinni, til dæmis verður Vögguvísuganga um miðborgina á miðvkudaginn næsta. Í dag verður hins vegar haldið málþing um verkið, það fer fram á Þjóðarbókhlöðunni klukkan eitt og við druslubókadömur mælum með því að þið mætið á svæðið og njótið.

26. október 2012

Af norrænu messuhaldi, menningartímaritum og tungumálapólitík

Ritstýrur sitja fyrir svörum: Charlotte Myrbråten frá Fett,
Anneli Carnelid frá Bang og Sara Eriksson frá Astra
Orðið bókamessa fannst mér hálfskrítið þegar ég heyrði það fyrst, vekjandi tengsl við einhverskonar tilbeiðslu eða helgisiði ‒ en ef að einhversstaðar eru aðstæður til tilbeiðslu á bókmenntum þá er það auðvitað einmitt á bókamessunum. Þær eru ekki bara gríðarstórir bókamarkaðir heldur einnig vettvangur allskonar pallborðsumræðna og viðtala og upplestra rithöfunda, útgefenda og annarra úr faginu. Bókaforlög og allskonar bókmenntatengd batterí og hagsmunasamtök eru með bása og ekki verra að oft er tækifærið notað til að setja upp matarmessu í sama húsnæði, svo þegar messugestir eru orðnir svangir og þreyttir í eyrum og athyglisgáfu má rölta yfir á matarsvæðið og smakka í nokkrum vel völdum básum.

Í ár var ég svo heppin að vera boðið á þýðendaseminar á bókamessunni í Gautaborg, sem er sú stærsta á Norðurlöndum. Þar var ýmislegt í gangi, yfirþyrmandi margt reyndar. Allt sem ég missti af væri út af fyrir sig upptalningarefni í minnst eina færslu (það sem kemur helst upp í hugann og mér fannst hljóma virkilega áhugavert var Gunilla Bergström, höfundur Einars Áskels, með erindið Hvem er pappa Åberg?)

23. október 2012

Matur að vestan

Í sumar kom út á þremur tungumálum (íslensku, ensku og þýsku) vegleg matreiðslubók, Boðið vestur, veisluföng úr náttúru Vestfjarða eftir Guðlaugu Jónsdóttur og Karl Kristján Ásgeirsson, með ljósmyndum Ágústs Atlasonar. Bókin er meira en matreiðslubók, hún er full af allskonar alþýðufróðleik, upplýsingum um Vestfirði, frásögnum af sérstökum hátíðum fyrir vestan og fróðleik um lifnaðarhætti og matarverkun fyrr og nú. Í formála segja höfundarnir að þau vilji ýta undir vakningu fyrir nauðsyn þess að viðhalda gömlum, svæðisbundnum matarhefðum sem ekki mega glatast. Einnig vilja þau hvetja fólk til að nýta það sem náttúran býður upp á og gera umheiminum ljóst að Vestfirðir séu svæði með stórbrotinni náttúru og góðu mannlífi sem eftirsóknarvert er að búa á og heimsækja.


Ég er búin að fletta og lesa kafla og kafla í Boðið vestur öðru hverju síðan í sumar og verð sífellt ánægðari með þessa bók. Hún er kaflaskipt eftir mánuðum og hefst á sólardaginn, 25. janúar og fyrsta uppskriftin er auðvitað að pönnukökum. Síðan er fetað áfram fram eftir ári, fjallað um sólþurrkun á saltfiski fyrr á tímum, léttsöltun dagsins í dag og gefnar uppskriftir að saltfiskréttum. Svo er þarna kafli um hákarl og harðfisk og þó að ég éti ekki hákarl nema tilneydd þá er náttúrulega óskaplega skemmtilegt að lesa laufléttan fróðleik um hákarlsverkun með tilvitnunum í Íslenska sjávarhætti og sömuleiðis um rækjuveiðar við Djúp, framleiðslu hnoðmörs og fleira áhugavert sem gaman að er að kunna skil á. Uppskriftirnar eru ýmist afskaplega nútímalegar (t.d. saltfiskþynnur með basil- og balsamolíu, silungstartar með hundasúrum, ofnbakaðar skarfabringur með döðlusósu og beikonfylltum kartöflum, marineraður steinbítur með teriyaki og núðlum með sætri chilisósu) eða gamlar (hveitikökur, vestfirsk fiskistappa, kleinur, rúgbrauð, plokkfiskur, kjötsúpa, aðalbláberjasulta) og svo eru líka í bókinni uppskriftir að hversdagsmat á borð við fiskibollur kryddaðar með lúxuskryddinu aromati, sem maður ætti auðvitað að elda mun oftar, svo fátt eitt sé talið.

18. október 2012

Hugguleg sænsk glæpaeyja

Steinblóð er þriðja bók svíans Johans Theorin sem þýdd hefur verið á íslensku. Hinar fyrri eru Hvarfið og Náttbál. Þessi bókaflokkur er óvenjulegur að því leyti að lesandinn fylgist ekki með ákveðnum spæjara/lögreglu/blaðamanni í gegnum bækurnar. Þess í stað er það staðsetningin sem bindur bækurnar saman. Lítil eyja undan ströndum Svíþjóðar, Öland, er sögusvið þeirra allra. Reyndar kemur gamall skipstjóri – Gerlof Davidson líka við sögu í bókunum, mismikið þó og er skemmtilegt að fylgjast með þróun þeirrar persónu. Í raun má segja að með hverri bók bætist nýtt púsl í myndina sem lesandinn gerir sér af eyjunni – t.d. er gömul steinnáma sem kom við sögu í fyrri bókum hér aftur sögusvið og smám saman fáum við að vita meira og meira um staðinn og íbúana í gegnum árin.

17. október 2012

Margaret Atwood: The Blind Assassin

„Tíu dögum eftir að stríðinu lauk keyrði Laura systir mín út af brú.“ Svona hefst The Blind Assassin eftir Margaret Atwood og fljótlega á eftir fylgir blaðafrétt um dauða Lauru árið 1945, þá formáli skáldsögunnar The Blind Assassin eftir Lauru Chase með útgáfuárið 1947 og inn á milli næstu kafla á eftir eru m.a blaðafréttir af andláti iðnjöfursins Richards E. Griffen 1947 og banaslysi Aimee dóttur hans árið 1975. Í dánarfregnunum er líka minnst á Iris Chase Griffin, systur Lauru, konu Richards og móður Aimee, sem var sú sem rifjaði upp dauða Lauru og viðbrögð sín við honum í upphafskaflanum. Um Iris hverfist síðan stór hluti bókarinnar.

Mér finnst oft skemmtilegt trikk þegar blaðafréttir og annað þykjustu-ekta-efni er notað í skáldsögum þannig að þetta lofaði strax góðu og ennþá meira spennandi var hversu margar spurningar vöknuðu strax í byrjun. Hvaða fólk er þetta sem minnst er á, af hverju kemur fram að dóttur Aimee hafi verið komið í fóstur hjá Winifred afasystur sinni en ekki ömmunni Iris, hvert er hlutverk skáldsögunnar í sögunni, hversu langt tímabil spannar frásögnin? Og þannig mætti lengi telja.

13. október 2012

Af sögu frjálshyggjunnar

Þegar ég var í framhaldsskóla fannst mér fátt leiðinlegra en saga. Mér fannst hún bara snúast um landamæradeilur og hanaslagi einhverra karla sem komu mér ekkert við; mér var eiginlega bara slétt sama hver hefði verið kóngur hvar og hvenær. Í fyrsta söguáfanganum mínum í MH lenti ég á kennara sem var fremur daufur og líflaus í framkomu, eins og hann væri ein af blaðsíðunum í kennslubókinni, og af því dró ég þá ályktun að sögukennarar væru vita gagnslaus fyrirbæri, sem og mæting í sögutíma. Ég tók því afganginn af framhaldsskólasögunni utanskóla og nám mitt í þeim þremur áföngum fól þá í sér að ég skrifaði tvær ritgerðir, aðra um uppkastið að sambandslögunum frá 1908 og hina um rússnesku byltinguna, og lestur undir lokapróf hvers áfanga, sem fram fór á síðustu stundu.

Ritgerðarefnið um Uppkastið var (kannski augljóslega) ekki eftir mínu höfði. Sem nemandi í svokölluðum P-áfanga (það hét svo þegar nemandi tók stök námskeið utanskóla) átti ég að hafa samband við umsjónarkennara viðkomandi námskeiðs, sem í þessu tilviki var maður sem þótt ekki skapgóður og ég var skíthrædd við hann og frestaði því að hafa samband við hann eins lengi og ég gat. Þegar ég kom loksins á fund hans mældi hann mig út og sagði geðvonskulega: „Af hverju talaðirðu ekki við mig fyrr?“ Ég stamaði einhverju upp úr mér og hann sagði þá, með sama fýlutóninum og áður: „Þú átt að skrifa ritgerð. Hún á að fjalla um Uppkastið.“ Svo skrifaði hann eitthvað á blað og rétti mér: „Þetta eru heimildirnar sem þú átt að nota.“ Ég er sannfærð um að hann hefur gagnvert valið það ritgerðarefni sem hann hefur talið ólíklegast að feimnisleg 17 ára stelpa gæti mögulega haft áhuga á. Ritgerðina skrifaði ég samviskusamlega og fékk held ég bara sómasamlega einkunn fyrir, en ekki get ég sagt að ég myndi þekkja þetta verk mitt aftur ef það ræki óvænt á fjörur mínar. Ritgerðarefnið um rússnesku byltinguna fékk ég að velja sjálf, hjá öðrum kennara síðar, og líklega fékk ég heldur meira út úr þeim skrifum. Sú ritgerð hefur sennilega verið sú fyrsta sem ég skrifaði á tölvu (svona er ég nú orðin gömul) og ég man að ég vandaði mig mikið við að búa til flotta forsíðu á hana. Af námsefninu sem ég las til prófs man ég sama og ekkert.

11. október 2012

Minna dót, meiri hamingja

Ein okkar druslubókadamanna flutti búferlum á dögunum. Hún þurfti ekki að flytja um langan veg en þetta var engu að síður ærið verkefni – ekki síst vegna allra þeirra bóka sem höfðu safnast á hennar hendur í gegnum árin. Ég fékk kvíðakast í hvert sinn sem ég sá nýjustu stöðuuppfærslur þessarar vinkonu minnar á facebook þar sem hún lýsti því hvernig hún sat í hrúgu af allskyns dóti sem hún var ekki viss um hvað ætti að gera við - svefnlaus og með harðsperrur í öllum útlimum. Að flytja er nefnilega eitt það versta sem ég veit. Það helgast líklega af því að ég hef haft þann leiða ávana í gegnum tíðina að sanka að mér allskyns dóti og drasli. Það kemur mér alltaf jafn mikið á óvart þegar ég þarf að fara í gegnum eigur mínar hvað leynist þar. Síðustu flutningar voru reyndar sérstaklega sársaukafullir þar sem ég þurfti að flytja milli landa og fara í gegnum alla búslóðina. Ýmislegt kom upp sem ég hefði betur verið löngu búin að losa mig við. Þetta átti ekki hvað síst við þegar kom að eldhúsinu. Ég komst til dæmis að því að ég átti þrjár hvítlaukspressur og tvær salatvindur og nota raunar slík tól afar sjaldan. Út úr skápunum ultu margir árgangar af jólakortum, gömul tímarit í stöflum og bækur á bækur ofan. Ég fyllti ótal poka af fötum sem ég hafði ekki gengið í í mörg ár, gaf DVD myndir sem ég horfði aldrei á og geisladiska sem ég hlustaði ekki á.
Nú þarf ég bráðum að flytja aftur og í ferðum mínum í bókabúðir síðustu vikur hef ég blaðað í gegnum nokkrar bækur sem gefa sig út fyrir að hjálpa þér að skipuleggja eigur þínar. Yfirleitt held ég nú að það sé ekki mikið á þessum bókum að græða, mér hefur sýnst að flestar þeirra reyni að hjálpa lesendum sínum að flokka og raða – segja þeim að laga til og komi með einhverjar tillögur að kerfum til að fella dótið inn í. Á dögunum rakst ég hinsvegar á eina bók í þessum anda sem vakti áhuga minn og ég greip hana með mér inn á kaffihús bókabúðarinnar. Hún ber titilinn The Joy of Less. A Minimalist Living Guide og er eftir konu að nafni Francine Jay. Ég sá strax að hún var annarar gerðar en flestar hinar bækurnar sem ég hafði kíkt á. Yfirlýst markmið hennar er einfaldlega að kenna fólki að eiga færri hluti – komast vel af með minna af öllu og ráðast þannig að rótum vandans. Á hverjum degi fáum við þau skilaboð að með því að eignast fleiri hluti muni okkur líða betur og mögulega færast nær hamingjutakmarkinu. Í huga Francine Jay er enginn vafi á því að þessu er einmitt öfugt farið – dótið íþyngir þér og skapar meiri vanlíðan. Við vinnum myrkanna á milli til þess að fylla híbýli okkar af hlutum sem hafa lítinn tilgang, másum eins og slefandi hamstrar á hjóli við að fylla tómið. Hugsið ykkur orkuna sem fer í að eigast og eiga einn hlut – við hugsum um að festa kaup á einhverju, lesum ótal umsagnir um hlutinn á netinu, leitum að besta verðinu, vinnum fyrir fjárútlátunum, keyrum í búðina til að versla hlutinn, finnum stað fyrir hann á heimilinu, lærum að nota hann og þrífa, sinnum viðhaldi, kaupum viðeigandi varahluti o.s.frv. Fyrirtækin selja okkur ekki bara hlutinn sjálfan heldur efni og tæki til þess að hugsa um hann – þvottaefni fyrir fötin, skóáburð fyrir skóna og tryggingar til að leita til ef svo illa færi að hlutunum yrði stolið. Lásasmiðir og öryggisfyrirtæki selja okkur vernd fyrir allt dótið okkar og sendibílstjórar hafa atvinnu af því að flytja það. Það er ekkert undarlegt þótt okkur líði stundum eins og dótið okkar eigi okkur en ekki við það. Fyrstu kaflar bókarinnar fara í það að leiða út þetta ástand fyrir lesendum – útskýra hvernig eigur okkar geta bundið okkur niður, hindrað okkur í því að nýta okkur ný tækifæri (t.d. starf í öðru landi) og sannfæra okkur um að þetta þurfi alls ekki að vera svona.

Nú álít ég mig alls ekki vera neinn sérstakan neysluþræl en það var engu að síður margt sem ég kannaðist við í lýsingum höfundar og sum ráð hennar gæti ég hugsanlega nýtt mér. Nokkur þeirra gætu þó virst of sársaukafull, t.d. það að leyfa ekki nýrri bók að koma inn á heimilið fyrr en þú losar þig við eina gamla. Í raun gengur heimspeki Francine Jay voða mikið út á það að losa sig við hluti, endurmeta gildi þeirra og leggja svolitinn tíma í það að hugsa um hvort hlutinn nýtist okkur eða ekki. Og ef hann gerir það ekki, eða við njótum hans ekki á neinn hátt, þá hefur hann ekki þegnrétt inn á heimilinu. Í bókinni er farið sérstaklega í hvert herbergi hússins og komið með tillögur að því sem hægt væri að losa sig við - áttu átta augnskugga en notar samt alltaf bara tvo? Losaðu þig þá við þessa sex sem þú notar aldrei.

Ég renndi í gegnum alla bókina á hundavaði en engu að síður held ég að mér hafi tekist að tileinka mér nokkur af ráðum minimalistans Francine Jay. Mögulega tekst mér að sýna það í verki á mínu næsta heimili.

8. október 2012

Þegar ég keypti dónabók handa barninu mínu

Í febrúar ár hvert halda bókabúðir út um alla Svíþjóð sameiginlega bókaútsölu. Hún er kynnt vel og rækilega fyrirfram, meðal annars með bæklingum sem sendir eru heim þar sem greint er frá hvaða titlar verði í boði og á hvaða verði. Nokkrum dögum áður en útsalan hefst byrja starfsmenn búðanna að stafla bókum á löng borð og á miðnætti aðfaranótt fyrsta dagsins opna búðirnar gjarnan í einn til tvo tíma til að svala eftirvæntingu þeirra allra spenntustu sem hafa þá jafnvel staðið í röð í einhverja tíma til að grípa bestu bitana. Þegar líður á útsölutímabilið tínist úr titlunum og úrvalið sem eftir er hefur tilhneigingu til að lenda í dálitlum hrærigraut, sérstaklega í stórmörkuðunum þar sem starfsfólk hefur kannski minni tök á að umstafla og raða. Það var einmitt á bókaútsölunni í einum slíkum sem ég gerði afdrifarík mistök fyrir örfáum árum.

Við mæðgurnar, ég og dóttir mín sem þá var um tíu ára, stóðum við barnabókaborðið og leituðum að ákjósanlegu lesefni fyrir þá síðarnefndu. Hún var sjálf búin að þrengja valið niður í tvær bækur, eina eftir Meg Cabot (sem hefur m.a. skrifað Dagbók prinsessu) og svo bók sem bar heitið Borta bäst og var eftir Söru Kadefors höfund bókarinnar Nyckelbarnen sem hún hafði lesið skömmu áður og verið yfir sig hrifin af. Sú stutta var eitthvað tvístígandi svo ég greip sænsku bókina og las aftan á hana. Samkvæmt káputexta fjallaði bókin um konu sem bjó í bíl fyrir utan Ikea og lifði af því að borða leifar af diskum veitingastaðarins þar eftir að hafa yfirgefið fjölskyldu sína, vinnu og heimili í kjölfar einhverrar uppákomu sem maður þyrfti vitanlega að lesa bókina til að komast að hver væri. Þetta fannst mér hljóma sem stórkostlega frumlegt og athyglisvert efni í barna- og unglingabók! Ég lýsti því yfir með miklum þunga að þessa bók litist mér vel á og þegar ég sá að barnið horfði enn efasemdaraugum á græna kápuna hóf ég langan fyrirlestur um að auðvitað gætu barnabækur fjallað um fullorðið fólk, það þyrftu ekkert endilega að vera börn í bókum fyrir börn, að það sem skipti máli væri hvernig væri sagt frá og þetta væri nú heldur betur athyglisvert umfjöllunarefni fyrir alla krakka sem hefðu áhuga á samfélagsmálefnum. Skítt með einhverjar amerískar prinsessur, þetta væru hlutir sem skipti sköpum fyrir börn að lesa um! Ég var komin í mikinn ham þarna milli útsöluborðanna (maður verður líka svo sveittur í dúnúlpunni inni í búðum svona í febrúar) þannig að dóttirin sá sér auðvitað ekki annað fært en að velja Borta bäst. Þar sem ég var búin að leggja mikið undir í þessu vali fylgdist ég sennilega betur með lestrinum en nokkru sinni fyrr. Ég spurði reglulega hvernig bókin væri og fékk framan af þau svör að hún væri skemmtileg en að hana grunaði nú samt að þetta væri ekki skrifað fyrir krakka. Ég lét mér hins vegar ekki segjast og taldi mögulegt að hún væri bara ekki orðinn nógu þroskaður lesandi til að kunna að meta svona snjalla og öðruvísi barnabók. Þangað til einn daginn að hún kom stormandi út úr herberginu sínu, rjóð í vöngum og illúðleg á svip og sagði ásakandi: „Bókin sem þú keyptir handa mér – hún er POTTÞÉTT ekki barnabók“! Eitthvað í látbragði hennar og rödd sannfærði mig samstundis. Og ég vissi, ég bara vissi að ég hefði óvart neytt barnið til að lesa kynlífslýsingu. Strax sama kvöld var komin ný bók á náttborðið og sú græna horfin veg allrar veraldar. Ég lagði aldrei í að spyrja hvað það hefði verið nákvæmlega sem hún hefði lesið enda fannst mér svo sem nóg að hafa neytt upp á barnið einhverjum dónaskap að ég væri ekki að ætlast til þess að hún þyldi hann svo aftur upp fyrir móður sína.

5. október 2012

Bókabúðir og bókabarir í Lissabon


Hér á druslubókablogginu hafa stundum verið færslur um bókabúðir erlendis. Við höfum komið við á jafn ólíkum stöðum og Boston, Porto og Singapúr, og þessar færslur okkar Guðrúnar Elsu mynda ágætis upplýsingabanka um enskumælandi bókabúðir í Berlín. Mér datt í hug að skrifa eina praktíska færslu um bókabúðir í Lissabon, til viðbótar við þessa færslu um Ler Devagar, áður en þær líða mér úr minni. Þótt Lissabon teljist varla til vinsælustu áfangastaða Íslendinga erlendis geta þessar upplýsingar ef til vill komið einhverjum að gagni – og svona í leiðinni mæli ég eindregið með borginni sem viðkomustað, hún er dásamleg. Bókasöfn heimsótti ég þar ekki önnur en þau eldgömlu og konunglegu sem hafa verið fryst í tíma og gerð að minjasöfnum. Bækur á öðrum tungumálum en portúgölsku eru líka yfirleitt mjög lítill hluti af bókunum í bókabúðum; aðalbókabúðin okkar var í rauninni Amazon. Það er mjög mikið þýtt á portúgölsku og fólk getur því oftast nálgast erlendar bókmenntir fljótt og vel á eigin móðurmáli. Þótt það sé mér þvert um geð verð ég að viðurkenna að langbesta úrvalið í Lissabon af bókum á ensku er í bóka- og tónlistarbúðakeðjunni FNAC, sem er með útibú niðri í bæ í lítilli verslunarmiðstöð við Rua do Carmo. Þar fá enskumælandi bækur næstum heilan hilluvegg og maður finnur þannig yfirleitt eitthvað við sitt hæfi, þótt úrvalið sé annars fjarri því að vera frumlegt.

Aðrar bókabúðir sem hafa dálítið úrval af bókum á ensku eru til dæmis fyrrnefnd Ler Devagar, sem er með litla fræðibókadeild á ensku en selur líka fagurbókmenntir á frönsku, og litla safnbókabúðin í Gulbenkian-listasafninu. Eins og sjá má af myndunum í færslunni um Ler Devagar er búðin mjög  skemmtileg og vel þess virði að heimsækja þótt það sé bara til að skoða, og það sama á við um Gulbenkian-listasafnið, sem er einn vinsælasti áfangastaður ferðamanna í Lissabon. Hvorki Ler Devagar né Gulbenkian eru í miðbænum en það er auðvelt að komast þangað með sporvagni eða neðanjarðarlest.

4. október 2012

Heyrist me í litlu lambi

Um daginn fór ég á bókamarkað og rak þar augun í bók sem ég hafði ekki séð síðan ég var barn, Vísur Ingu Dóru eftir Jóhannes úr Kötlum. Bókin kom fyrst út 1959, 2. útgáfa kom 1979 og svo var hún gefin út í 3. sinn af Forlaginu 2008. Flestir kannast sjálfsagt við fyrstu vísurnar, þessar um kindina, en þær heyrast stundum sungnar á barnaplötum. Sú fyrsta hljóðar svona:
Inga Dóra á lítið lítið
lítið ósköp skrítið skrítið
skrítið lamb í túni
Inga litla á lítið skrítið
lamb í grænu túni.
Ég átti þessa bók sem barn og það er einhver nostalgía sem grípur mig alltaf þegar ég rekst á eitthvað eftir Jóhannes úr Kötlum. Það er líklega ekki bara út af þessari bók heldur líka út af Sóleyjarkvæði, sem gjarnan var lesið upp úr á herstöðvaandstæðingasamkundum sem ég, barnið, var dregin með á. Seinna, á síðasta ári í menntaskóla, átti ég að skrifa ritgerð um ljóðabók og valdi þá Óljóð eftir Jóhannes, sem reyndist mjög skemmtilegt að grúska í. Það er eitthvað við málnotkunina hjá Jóhannesi sem hittir í mark hjá mér, hann leikur sér að orðunum, veltir þeim fram og aftur, ekki síst ef þau hljóma skemmtilega. Í Vísum Ingu Dóru leikur hann sér mikið með endurtekningar á orðum, sem ég held að hljóti að geta höfðað skemmtilega til ungra barna.

Vísur Ingu Dóru fjalla um litla stelpu sem er að uppgötva heiminn í íslenskri sveit. Þarna eru vísur um kindina, kúna, hestinn, hundinn, köttinn, hænuna, rottuna, hrafninn, fluguna og fífilinn. Inga Dóra er forvitin og áhugasöm um umhverfi sitt og við kynnumst dýrunum og umhverfi þeirra gegnum hana. Jafnframt má lesa út úr þeim ýmsar hugleiðingar um lífið og tilveruna sem fullorðnir geta haft gaman af, en eiginlega finnst mér nauðsynlegt að smábarnabækur séu líka skemmtilegar fyrir fullorðna sem geta lent í að lesa sömu bókina óendanlega oft fyrir barn sem hefur tekið ástfóstri við viðkomandi bók. Sem dæmi um þetta má nefna bakþanka fífilsins sem hefur sagst glaður vilja deyja fyrir Ingu Dóru:
Innan stundar fann hann fingur hvíta
færast niður legginn sinn og slíta
ó þú Inga Dóra
ó þú veröld stóra
ég vil tóra ég vil heldur tóra. 
Teikningar Gunnars Ek af Ingu Dóru og ævintýrum hennar eru hreint afbragð. Inga Dóra er hnellin og grallaraleg og sést í ýmsum aðstæðum og dýrin eru líka skemmtilega teiknuð. Oft má greina alls konar skemmtileg smáatriði á myndunum. Þessi bók fer í pakka til ungrar konu sem heldur upp á sinn fyrsta afmælisdag um þessar mundir.