28. desember 2008

Doktor Proktor og spörfuglar Lesbíu

Í Fréttablaðinu í dag eru kynntar niðurstöður kosninga um slæma og góða nýlega bókatitla. Ein okkar er meðal þeirra sem nefndir eru sem álitsgjafar, en viðkomandi leitaði til hinna sem hér skrifa um tillögur. Að sjálfsögðu komu hinir og þessir titlar til tals en hér fyrir neðan er lausleg samantekt á því hvað okkur finnst gott og slæmt af nýlegum titlum.

Það er vinsælt núna að hafa skáldsagnatitlana eitt orð, margir eru frekar lítið eftirminnilegir og þeir renna sumir dálítið saman: Vetrarsól, Skaparinn, Ódáðahraun, Myrká, Ofsi, Auðnin, Rán, Konur, Vargurinn, Sólkross o.s.frv. Af þessum eins orða titlum þóttu Rökkurbýsnir flottur bókartitill (dulúð og undur) og Vonarstræti (margrætt og vekur forvitni) og Algleymi fannst einhverjum okkar líka fín heiti.

Titlar sem taldir voru með þeim betri:

- Loftnet klóra himin: Tvímælalaust einn besti titill ársins, flott mynd.
- Flautuleikur álengdar: Titill með aðdráttarafl.
- Heitar lummur: Tvístígandi með þennan en akkúrat núna gleðst ég yfir því hann býður upp á fullkominn fimmaurabrandara (selst eins og …).
- Gissursson - hver er orginal?: Fínn endapunktur á fínni ævisagnaseríu.
- Doktor Proktor og prumpuduftið: Góður titill af því að hann höfðar til hins síbernska í börnum og fullorðnum.
- Amtmaðurinn á einbúasetrinu: Eitthvað dularfullt og spennandi við þennan einbúaamtmann.
- Ú á fasismann og fleiri ljóð: Góð hvatning, við ættum öll að úa á fasismann.
- Ég skal vera Grýla: Fyndinn titill, maður gleymir honum allavega ekki um leið eins og sumum öðrum.
- Dexter dáðadrengur: Eitthvað sætt við þennan.

Titlar sem þóttu slæmir:

- Apakóngur á Silkiveginum: Þessi titill er einhvern veginn bæði góður og asnalegur.
- Fiðrildi, mynta og spörfuglar Lesbíu: Ungskáldatilgerð ársins.
- Stebbi Run - Annasamir dagar og ögurstundir: Er þessi titill ekki bara eitthvað spaug?
- 10 ráð til að hætta að drepa fólk og byrja að vaska upp: Brýtur vandlega upp eins-orðs-trendið sem er svo áberandi í skáldsögum ársins, en samt, veit það ekki ...
- Opinská ævisaga gleðikonu í London: Banvænn titill!
- Sjáðu fegurð þína: Hljómar eins og sjálfshjálparbók fyrir ófrítt fólk.
- Óvænt áfall eða fyrirsjáanleg tímamót. Brottför Bandaríkjahers frá Íslandi: Aðdragandi og viðbrögð: Svo vondur bókartitill að maður á ekki orð.

Klisjur ársins:

- Sæmi Rokk - Lífsdans Sæmundar Pálssonar: Lífsdans, þetta orð er hreinn viðbjóður.
- Melódíur minninganna: Það hljóta allir að vera búnir að fá nóg af þessu. Þetta er samt svo mislukkað að það er komið í hring og næstum orðið skemmtilegt.
- Hljómagangur: Svolítið sniðugur en líka afar klisjukenndur.

26. desember 2008

Pollýanna – úlfur í sauðagæru?

Í jólabókaflóðinu nú í haust skaut upp kollinum gömul vinkona, Pollýanna, sem á vissulega sinn stað í barnabókahillunni á heimilinu en hefur ekki verið tekin fram ansi lengi. Ég fagnaði því að sjá hana aftur mætta brosandi (en ekki hvað) til leiks. Ekki hafði hvarflað að mér annað en allir aðrir væru sama sinnis. Þótt barnabækur eldist misvel þá fannst mér Pollýanna vera sérstaklega saklaus og falleg barnabók – hvað er hægt að hafa á móti brjálæðislega jákvæðri stúlku?

Heilmargt kemur í ljós. Vinkona mín og samstarfskona til margra ára saup hveljur af skelfingu þegar hún rak augun í glaðlegt andlit Pollýönnu í bókaverslunum. Sem barn hafði hún hatast við bókina og hafði síður en svo tekið hana í sátt eftir því sem árin liðu. Hún benti mér á hversu hroðaleg fyrirmynd stúlkan hefði verið fyrir konur í gegnum árin – alveg sama hversu leiðinlegt fólk var við hana eða hversu illa örlögin léku hana – alltaf tók hún öllu með brosi á vör. Steininn tók svo úr þegar hún fékk ljóta hækju í jólagjöf og tókst að gera gott úr því! Ef allar konur væru jafn umburðalyndar og ljúfar og Pollýanna væru engin Stígamót – ekkert Kvennaathvarf, það væri engin þörf á því þar sem allar konurnar sætu brosandi heima undir barsmíðunum. Kvenfyrirmyndir eins og Pollýanna hafa verið notaðar til að bæla konur gegnum alla mannkynssöguna og því fór fjarri að vinkona mín ætlaði að fagna því að hún væri mætt enn og aftur.

Mig setti nú bara hljóða en sá mér ekki annað fært en lesa bókina aftur. Pollýanna er sum sé ellefu ára munaðarlaus stúlka sem fer í fóstur til ríkrar móðursystur sinnar sem er ógift (lesist einmana, bitur og kaldlynd). Bókin segir svo frá uppvexti Pollýönnu og hvernig hún tekst á við erfiðleika lífsins með „leikinn“ að vopni. Leikurinn felst í þeirri afstöðu til lífsins að finna eitthvað jákvætt við allt og þá meina ég ALLT. Með viðhorfi sínu og barnslegu sakleysi tekst Pollýönnu að bræða frosin hjörtu og dreifa hamingju allt um kring. Það er því um að gera að leggja alla kaldhæðni á hilluna áður en lestur hefst.

Höfundurinn, Eleanor H. Porter (1868-1920) var þekkt söngkona áður en hún gifti sig en tók síðar til við að skrifa barnabækur, flestar um munaðarlaus börn eins og var sérlega vinsælt á þessum árum. Það er þó hin síglaða Pollýanna (1913) sem hefur haldið nafni hennar á lofti í hartnær hundrað ár og þættir og kvikmyndir hafa verið gerðar eftir bókinni. Orðið Pollýanna hefur síast inn í tungumálið og skv. orðabók Oxford þýðir „Pollýanna“ manneskja sem er alltaf glöð og bjartsýn.

Árið 1915 birtist svo framhaldsbókin Pollyanna Grows Up. Þar flytur hún til stórborgarinnar og Mrs. Porter til varnar á Pollýanna víst erfitt með að leika „leikinn“ þegar hún sér hin skelfilegu áhrif kreppunnar (það hefði kannski verið ráð að endurútgefa þá bók nú um jólin...).

Eftir lesturinn varð ég að viðurkenna að vinkona mín hafði vissulega sitthvað til síns máls en bókinni og Pollýönnu var þó ekki alls varnað. Fyrir það fyrsta má í raun teljast kraftaverk að bók um stúlku sem er jafn jákvæð og Pollýanna sé ekki óbærilega leiðinleg – sem hún er ekki (þótt augum hafi verið ranghvolft meira við lestur nú en fyrir 20 árum). En því er ekki að neita að Pollýönnu tekst á ótrúlegan hátt að breyta fólki og fá það til að bæta ráð sitt bara með því að vera góð og glöð og það er kannski dálítið hæpið veganesti út í lífið fyrir litlar stúlkur. Á móti kemur að hún er sinnar gæfu smiður og kann að njóta lífsins og finna gleðina í litlu hlutunum sem er ekki amalegt – sérstaklega ekki á þessum síðustu og verstu. Pollýanna er barn síns tíma og ekki hægt að lesa hana gagnrýnilaust – enda er það kannski ekki endilega kappsmál. Góðar bækur þroska mann og fá mann til að spyrja spurninga á hvaða aldri sem maður er.

Niðurstaðan er sem sagt engin en það var hollt og gott að hitta aftur gamla félaga eins og Pollýönnu og endurmeta aðeins hvað hún sagði manni. Ég skil vel vinkonu mína sem fórnaði höndum yfir endurkomu hennar en sjálf var ég ekki alveg tilbúin að afskrifa hana...sá alveg ljósu punktana í bókinni...auðvitað – eitthvað af lífsspeki Pollýönnu hefur greinilega síast inn í viðkvæma barnssálina!

Nú er bara að grafa fram Önnu í Grænuhlíð, Rebekku í Sunnuhlíð og Yngismeyjar!

Gott á pakkið

Rétt fyrir jól keypti ég bókina Gott á pakkið: ævisaga Dags Sigurðarsonar, af höfundinum, viðkunnanlegum manni í gulri regnkápu. Bókina las ég seint á aðfangadagskvöld. Hún er skrifuð í dálítið furðulegum tóni, líkt og þroskað barn sé að reyna að skrifa formlegan stíl eða kannski eins og eldri manneskja sé að reyna að skrifa barnalega. Sumpart á þetta ekki illa við, Dagur Sigurðarson komst að mörgu leyti aldrei af æskuárunum, og stundum er textinn ágætur. En hitt og þetta í hugsun og orðalagi þessarar bókar er býsna einfeldningslegt og líkingarnar oft dálítið kjánalegar. Forlagið hefði átt að splæsa í einn eða tvo vandaða yfirlestra einhvers góðs ritstjóra, bókin og höfundur hefðu alveg átt það skilið því Gott á pakkið er alls ekki leiðinlegt eða gagnslaust rit þrátt fyrir augljósa galla. Bókin bætti hins vegar litlu við fyrir mig, mér finnst ég hafa heyrt eða séð flest sem þarna kemur fram áður.

24. desember 2008

Við óskum öllum lesendum gleðilegra jóla og margra harðra pakka. Á þessum vettvangi er von á mögnuðum umfjöllunum um fjölbreytt lesefni að jólahaldi loknu.

22. desember 2008

Bókabúðir í Kaupmannahöfn – annar hluti

Í Danmörku er auðvitað gífurlegur lúxus að kaupa bækur, jafnvel burtséð frá fljótandi íslenskum krónum. Eins mikið og Íslendingar kvarta yfir verði á bókum þá eru þær mun dýrari hér, sökum skattastefnu stjórnvalda. Hinum megin við Eyrarsundið er hins vegar hægt að gera kjarakaup á bókum, en það er önnur saga. Hér er þó ekki ætlunin að fjalla um verð á bókum í Kaupmannahöfn heldur fjalla áfram bestu bókabúðirnar í borginni, en þar má svo sannarlega gera margt annað en að kaupa bækur þó það sé óneitanlega fylgifiskur mikilla langdvala þar.

Politikens Boghal – Rådhuspladsen
Bókahöllin á Ráðhústorginu minnir mig svolítið á bókabúð Máls og menningar á Laugavegi, amk. áður en Pennaveldið gleypti hana. Innréttingarnar í Politikens Boghal eru mjög eighties, orðnar svolítið sjúskaðar og á rigningardögum þarf maður að passa sig að labba ekki niður fötuna sem stendur á miðju gólfi og tekur við nokkuð reglulegum vatnsdropum. Gersamlega óskiljanlegt þar sem bókabúðin er á jarðhæð fimm hæða húss. Hér er besta starfsfólkið í bókabúðum borgarinnar, það er svolítið veðrað eins og innréttingarnar en í hæsta gæðaflokki. Staffið veður náttúrulega ekki upp að manni og býður þessa gæðaþjónustu en hún er þó til staðar. Í búðinni er sérstakur rekki þar sem starfsfólkið hefur stillt fram áhugaverðum bókum að þeirra mati, þar er oft áhugaverður þverskurður og þau nösk að draga fram eitthvað sem annars hefði ekki fangað athygli manns.

Politikens Boghal var opnuð 1919 og er hluti af fjölmiðlaveldinu sem er bæði dagblaða- og bókaútgáfa. Hún er auðvitað staðsett á besta stað í bænum og iðulega full af ferðamönnum. Fyrst og fremst þarf ég reyndar að taka til baka að það sé meira af erlendum bókum í Arnold Busck. Framboðið af erlendum skáldsögum til dæmis er prýðilegt og nýjar bækur koma tiltölulega fljótt í sölu í Politikens Boghal. Eldri bækur fara hins vegar fljótlega niðrí kjallara og hafa ekki langan líftíma þar heldur. Bækur almenns efnis eru hins vegar fábreyttari hér en í Arnold Busck og heimsstyrjaldarbækur allsráðandi hér sem annars staðar. Ferðabókadeildin (hornið) er framúrskarandi, mikið úrval af fjölbreyttum útgáfum um öll heimsins horn. Lítil áhersla er lögð á barnabækur, einungis tveir rekkar hýsa þær. En það er líka allt í lagi, í borg sem býður uppá sérstakar barnabókabúðir.

Það er ekki kaffihús í þessari bókabúð og lítil aðstaða til nískulesturs. Það er einn stærsti galli búðarinnar, hún er satt að segja alveg að sprengja af sér húsnæðið þar sem lítið pláss er fyrir bæði bækurnar sjálfar og kúnnana. Niðursokkinn viðskiptavinur getur því hæglega lent í því að troða öðrum um tær. Í því samhengi má reyndar nefna að ég steig á tá Tommy Kenter í morgun. Gleðileg jól!

21. desember 2008

Jólabókin 1930

Sé setningin "Jólabókin í ár" slegin inn á timarit.is kemur þessi auglýsing frá 1930 upp sem elsta dæmið:

19. desember 2008

skáld og skvísur

Þórunn Erlu- Valdimarsdóttir fékk rétt í þessu viðurkenningu RÚV. Það finnst mér vel valið og við hrópum húrra fyrir því í huganum.

Svo eru eru hérna tvær myndir sem teknar voru í Nýlistasafninu í gær. Á annarri má sjá frísklegar konur sem gleðjast á góðri stundu, á hinni eru lipur ljóðskáld með blóm og blik í augum.





partí og piparkökur (og glaður ráðherra?)

Í gær veitti Bókmenntasjóður fimm nýræktarstyrki. Fullt af sætu skáldfólki fékk tvöhundruðþúsundkalla og túlípana í Nýlistasafninu og Þorgerður Agla bauð upp á piparkökuhjörtu, konfekt og vín. Samkvæmt frétt í Fréttablaðinu í dag, sem undirrituð er af pbb, veitti Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir styrkina og var ekki annað að sjá (að sögn fréttablaðsgreinarinnar) en að menntamálaráðherrann væri "glaður eftir að hafa komið þessum útgáfum og höfundunum til aðstoðar í útgáfunni." Druslubókadömurnar eru ekkert of góðar til að mæta í boð sem þeim er boðið í og þess vegna vita þær að menntamálaráðherrann komst ekki í Nýló í gær. Því ríkir algjör nagandi óvissa um hversu glaðbeitt hún var af þessu tilefni. Hins vegar voru þeir sem mættu alveg dúndrandi hressir og í miklu stuði. Partíið hélt síðan áfram því strax á eftir var útgáfubjóð á vegum Omdúrman vegna bókarinnar Díana í snjónum og þar var allt vaðandi í heimsfrægu fólki jafnt sem fögrum sveitamönnum.
Í dag fær svo rithöfundur pening frá Rithöfundasjóði RÚV. Druslubókadömum hefur ekki verið boðið í neinn gleðskap af því tilefni og því er alls óvíst hvort það verður nokkuð stuð í partíinu.

P.S. Myndasmiður þessarar síðu er enn í losti vegna konfektáts og víndrykkju. Hafi hann ekki týnt myndavélinni á skrölti um hála vegi næturborgarinnar birtast hér hugsanlega fljótlega myndir af glöðum skáldum.

18. desember 2008

Þegar vonin ein er eftir

Árið 1978 var gefin út í íslenskri þýðingu, frönsk bók sem vakti mikla athygli. Bókin heitir Þegar vonin ein er eftir og er eftir Jeanne Cordelier. Markaðssetning á bókinni var um margt athyglisverð. Hún var upphaflega skrifuð sem skáldsaga, á Íslandi var hún eingöngu kynnt til sögunnar sem „bók“ en áhersla lögð á ævisögulega þáttinn, sem er svo sannarlega mikilvægur þar sem frásögnin byggir á reynslu höfundarins, en hún starfaði sem vændiskona um fimm ára skeið. Bókin er ekki beinlínis kynnt sem ævisaga en bókarkápu- og kynningartexta má lesa á þann veg. Þar kemur að minnsta kosti aldrei beint fram að um skáldsögu sé að ræða enda algengur misskilningur að raunveruleikinn sé merkilegri en skáldskapur.

Jeanne Cordelier fæddist í París árið 1944. Tvennum sögum fer af því hvort Jeanne Cordelier sé dulnefni, einhverjir vilja meina að hún heiti í raun Danielle Valdelin, en það er þó algerlega óstaðfest. Þegar vonin ein er eftir kom fyrst út árið 1976, hún var þýdd á 19 tungumál enda um forvitnilegt efni að ræða. Samkvæmt bókarkápu tekst Jeanne Cordelier að „segja allt og verða þó hvergi klámfengin. Hún reynir ekki að draga neitt undan en forðast samt að laða fram gluggagæginn sem leynist í sérhverjum lesanda.“ Kannski er eitthvað til í þessu en undirritaðar leyfa sér álykta að margir hafi nákvæmlega sýnt bókinni áhuga af þeirri, kannski ágætu, ástæðu að þeir hafi aðeins þurft að viðra gluggagæginn í sjálfum sér.

Um það leyti sem Þegar vonin ein er eftir kom út vann Jeanne Cordelier í verslun, en 1980 hélt hún til Svíþjóðar, stofnaði þar fjölskyldu og bjó þar í 17 ár. Árið 1997 yfirgaf hún Svíaríki ásamt fjölskyldu sinni og bjó eftir það meðal annars á Indlandi, í Víetnam, Eþíópíu og Albaníu, svo einhver af þeim 28 löndum sem hún hefur dvalið í séu nefnd. Árið 2004 sneri hún þó aftur til Evrópu og settist að í Frakklandi. Hún hefur skrifað býsna margar skáldsögur eftir að Þegar vonin ein er eftir kom út, nokkrar fjalla um ástarsambönd en einhverjar líka um kynferðislega misnotkun og ofbeldi. Hún hefur einnig skrifað nokkur leikrit og svo hefur Þegar vonin ein er eftir verið kvikmynduð. Myndin var sýnd í Háskólabíói árið 1983 og skartaði meðal annars Mariu Schneider sem lék sællar minningar í Bertolucci-myndinni Síðasti tangó í París.

Líf vændiskonunnar er ekki sveipað neinum dýrðarljóma í bókinni sem hér um ræðir. Bókarýnir Þjóðviljans benti á sínum tíma á að Jeanne Cordelier haldi því fram í bók sinni að 70% gleðikvenna Frakklands, og væntanlega annarra landa, komi úr lægstu stéttum þjóðfélagsins og úr sveitahéruðum, sem í Frakklandi séu lágstéttahéruðin. Einni af hverjum fjórum vændiskonum hafi verið nauðgað í æsku og þá oft af eigin föður. Hvort sem þetta eru félagsfræðileg sannindi eða ekki, eru þetta blákaldar staðreyndir úr lífi Cordelier sjálfrar. Sjálf ólst Jeanne Cordelier upp við ömurlegar aðstæður, faðir hennar var glæpamaður og móðirin drykkjusjúklingur. Hún kynntist ung melludólgnum Gerard sem var flottur í tauinu og ók um á glæsibifreið en séntilmennskuskelin var æði þunn þegar á reyndi. Aðalpersónan Sophie í bókinni kynnist einmitt melludólg með sama nafni sem nýtir krafta hennar óspart sér til framdráttar. Bókin virðist ekki síst skrifuð með það í huga að opinbera niðurlægjandi aðstæður vændiskvenna og áhrif vændiskaupa á stöðu kvenna almennt og á í því tilliti fullt erindi enn þann dag enda vændi síst á undanhaldi. Sophie prófar ýmislegt á vændisferlinum, hún stundar starf sitt á ýmsum stöðum, prófar bæði götuna og fínustu hótelin.

Stíll bókarinnar er nokkuð sérstæður. Frásögn Sophie er sett fram í fyrstu persónu og mikið um upphrópanir, stundum er einhvern veginn ekki ljóst hvern hún er að ávarpa; lesandann, aðrar sögupersónur, sjálfa sig eða æðri máttarvöld. Ætla má að það hafi ekki ekki verið neitt grín að eiga við að þýða þennan texta en það var Sigurður Pálsson rithöfundur sem fékk það verðuga verkefni. Sigurður lýsir í nýlegri endurminningabók sinni, Minnisbók, hvernig það gekk allt saman en skáldið bjó eins og kunnugt er í París og vann á þessum tíma sem fréttaritari Ríkisútvarpsins þar í borg. Það má eiginlega segja að Minnisbók sé sama marki brennd og Þegar vonin ein er eftir, hún er í raun endurminningabók en fékk hinsvegar verðlaun í flokki fagurbókmennta við afhendingu Íslensku bókmenntaverðlaunanna 2007. Það má þannig segja hún leiki einnig tveimur skjöldum

Sigurður Pálsson hefur samkvæmt Minnisbók ekki gert sér fullkomlega grein fyrir eðli og lengd bókar vændiskonunnar fyrrverandi, sem er um 360 blaðsíður, þegar hann tók þýðingaverkefnið að sér á sínum tíma. Hann þurfti að kljást við ýmis vandamál sem málfari bókarinnar tengjast, út í þau verður ekki farið nánar hér en þess má þó geta að þýðingarvinnan krafðist þess að hann skryppi á búllur og sæti að spjalli við næturdrottningar Parísarborgar.

Af Jeanne Cordelier er það að frétta að hún hefur haldið áfram að skrifa og jafnframt látið ofbeldi á börnum sig varða og hún tjáði sig meðal annars um Dutroux-málið svokallaða í Belgíu, en Marc Dutroux var kærður fyrir að ræna, pynta og misnota sex stúlkur kynferðislega og myrti tvær þeirra seint á síðasta áratug síðust aldar. Jeanne Cordelier tjáir sig oft á sérstakan hátt um skáldskap sinn en um franskar bókmenntir segir hún að mikilvægi þeirra megi meta með því að skoða áhrif þeirra á franska tungu, það er að segja á orðabækur. Sjálf ferðast hún aldrei án þess að hafa með sér að minnsta kosti eina orðabók og skýrir það á þann veg að eina bókin á heimili foreldra hennar hafi verið frönsk orðabók. Faðirinn notaði hana aðallega til þess að berja þau systkinin í höfuðið og sagði þá gjarnan „þarna kemur það inn.“ Ekki er vitað nákvæmlega hvað karlinn átti við með þessu en Jeanne Cordelier kýs að túlka á skáldlegan hátt og segir að þannig hafi öll orðin komist inn í höfuðið á henni.
Þorgerður og Þórdís.

17. desember 2008

Bókmenntaverðlaun starfsfólks bókaverslana

Eins og flestir eflaust vita eru bóksalar upp til hópa gáfað og skemmtilegt fólk með vit og áhuga á bókum en í kvöld var tilkynnt um úrslit í árvissri kosningu þeirra á meðal um bestu bækur ársins. Úrslitin eru sem hér segir:

Besta íslenska skáldssagan: 1. Ofsi - Einar Kárason 2. Rökkurbýsnir - Sjón 3. Skaparinn - Guðrún Eva Mínervudóttir.

Besta þýdda skáldsagan: 1. Bókaþjófurinn - Markus Zusak 2. Karlar sem hata konur - Stieg Larsson 3. Vatn handa fílum - Sara Gruen.

Besta íslenska barnabókin: 1. Garðurinn - Gerður Kristný 2. Steindýrin - Gunnar Theodór Eggertsson 3. Fíasól er flottust - Kristín H. Gunnarsdóttir.

Besta þýdda barnabókin: 1. Hver er flottastur? - Mario Ramos 2. Ljósaskipti - Stephenie Meyer 3. Bangsímon - A. A. Milne.

Besta ljóðabókin: 1. Eg skal kveða um eina þig alla mína daga - Páll Ólafsson 2. Hvert orð er atvik - Þorsteinn frá Hamri 3. Ljóð og myndir - Þorsteinn frá Hamri.

Besta ævisagan: 1. Magnea - Magnea Guðmundsdóttir og Sigmundur Ernir Rúnarsson 2.-3. Ég ef mig skyldi kalla - Þráinn Bertelsson 2.-3. Í húsi afa míns - Finnbogi Hermannsson.

Besta handbókin/fræðibókin: 1. Dýrin - David Burnie 2. Íslenskar kynjaskepnur - Sigurður Ægisson og Jón Baldur Hlíðberg 3. Myndlist í þrjátíu þúsund ár - Ýmsir.

Ég hef bara lesið eina af þessum bókum sem er auðvitað skandall en ég get staðfest að hún er allra atkvæða virði. Þið megið geta hvaða bók það er.

„Ég hef verið manninum mínum ótrú“

Yfirskrift þessa pistils er fyrsta setning bókar sem einhverjir gætu kannski haldið nýlega játningasögu eða félagslegt raunsæisverk frá sjöunda- eða áttunda áratugnum. En svo er ekki, hér er um að ræða bók sem kom út fyrir meira en hundrað árum. Fyrsta setningin lýsir í rauninni ótrúlegri djörfung og skáldlegu hugrekki höfundarins, sem var þá 25 ára gömul skrifstofustúlka, en síðar varð hún skálddrottning Norðmanna. Um er að ræða Sigrid Undset, sem fæddist árið 1882 en lést 1949, og bókin sem hefst á setningunni; Ég hef verið manninum mínum ótrú, heitir Frú Marta Oulie og kom út í Osló, sem þá hét reyndar Kristjanía, árið 1907.

Framhjáhald hefur líklega aldrei verið almennt viðurkennt athæfi í okkar heimshluta, og allra síst fyrir rúmum hundrað árum þegar Sigrid Undset hóf höfundarferil sinn á því að skrifa bók um þetta viðkvæma efni. Enn þann dag í dag er Frú Marta Oulie umhugsunarverð lesning og um margt vönduð sálfræðileg stúdía. Um er að ræða fyrstupersónu frásögn í dagbókarformi. Dagbókina skrifar sögukonan á árunum 1902–1904 en sögupersónan er Marta Oulie, fjögurra barna móðir á fertugsaldri, sem heldur framhjá eiginmanni sínum Ottó, sem dvelur á berklahæli úti í sveit. Viðhaldið heitir Henrik og er besti vinur og samstarfsmaður eiginmannsins. Þau Marta og Henrik hafa meira að segja eignast barn saman, dóttur sem eiginmaðurinn heldur mest upp á af öllum börnunum. Ottó grunar ekki tvöfeldni eiginkonunnar en hugarangist og samviskubit Mörtu eru að eyðileggja líf hennar. Lesandinn gengur í gegnum sterkar tilfinningar með sögupersónunni; ást, angist, sektarkennd og sorg. Ottó deyr síðan úr tæringu og Marta giftist Henrik, en hjónabandið er óhamingjusamt, skuggi sektarkenndarinnar vofir yfir og þau fara að lokum hvort sína leið. Það má segja það ótrúlegt að þessi bók hafi verið skrifuð fyrir rúmum 100 árum, slík er einlægnin þegar fjallað er um framhjáhald aðalpersónunnar og samskipti hennar við karlmennina í lífi hennar; hún elskar þá báða.

Bókin um framhjáhald Mörtu Oulie olli víst umtali og töluverðri hneykslun og fussi meðal siðprúðra Norsara árið 1907. Hún var líka umrædd í kreðsum bókmenntamanna, enda var þarna nýstárleg samtímasaga á ferð og bókin seldist víst vel því oft eru menn til í að kaupa það sem kitlar hneykslistaugarnar. Fleiri bækur fylgdu síðan í kjölfarið, Sigrid Undset varð fræg fyrir skáldskap sinn og fékk Nóbelsverðlaunin í bókmenntum árið 1928 þegar hún var aðeins 46 ára gömul.

Frú Marta Oulie kom út í íslenskri þýðingu í ritröðinni Bókasafn Helgafells árið 1946 en um er að ræða ritröð sem ber yfirskriftina Listamannaþing og þetta er fimmta bókin í þeim flokki. Á titilsíðu kemur fram að þýðandinn sé Kristmann Guðmundsson og hann skrifar einnig inngang þar sem hann fjallar um höfundinn, ekki aðeins verk hennar, sem skáldið íslenska er töluvert hrifið af, heldur lýsir hann líka líkamlegu atgjörvi og viðmóti skáldkonunnar. En tvennum sögum fer af þessari þýðingu og menn greinir á um hvort Kristmann hafi raunverulega verið þýðandinn eða hvort hann hafi í rauninni verið að eigna sér verk annars manns. Að því verður kannski komið síðar.

16. desember 2008

Njósnari í húsi ástarinnar

Varla þarf að minna lesendur á að Góði hirðirinn er gullnáma fyrir bókaunnendur, þar bíða ljóðabókafíklar í röðum eftir dagsskammtinum þegar búðin opnar og oftar en ekki má gera afar góð kaup, Kolaportið er eins og hver önnur góðærisbúlla í samanburði. Í einum leiðangrinum í Góða hirðinn fjárfesti ég í bókinni Unaðsreitur eftir hina alræmdu Anaïs Nin en um er að ræða þýðingu á smásagnasafninu Delta of Venus sem kom út árið 1977 en gleðisögurnar þrettán sem það inniheldur eru hinsvegar mun eldri. Þær eru skrifaðar á fimmta áratug tuttugustu aldarinnar fyrir ónefndan safnara erótískra sagna sem borgaði rithöfundum fyrir sögur "til einkanota". Höfundarnir fengu þau fyrirmæli að forðast ljóðrænu og slíkt óþarfa flúr og einbeita sér frekar að opinskáum og refjalausum kynlífssenum.

Lífið þenst út og skreppur saman í hlutfalli við kjarkinn skrifaði Anaïs Nin einhversstaðar og það er óhætt að segja að hún hafi lifað í samræmi við það. Hún var gift tveimur mönnum í einu og var þar fyrir utan orðuð við marga, ekki síst rithöfundinn Henry Miller en margir muna eflaust eftir hinni ögn tilgerðarlegu mynd Henry and June eftir Philip Kaufmann sem gerði sambandi þeirra skil og í þeirri mynd er Nin jafnframt orðuð við June, eiginkonu Henrys en það fer hinsvegar tvennum sögum af því hvort þær hafi átt í ástarsambandi í raunveruleikanum.

Einhvern tímann fyrir löngu las ég þessar erótísku sögur og ég hafði satt best að segja áhyggjur af því að þær hefðu ekki elst sérstaklega vel. Í minningunni voru þær upphafnar og tilgerðarlegar og ekkert sérlega krassandi. Margt hefur jú gerst síðan í erótískum skrifum kvenna, Erica Jong og Nancy Friday hafa staðið vaktina, svo ekki sé minnst á franska kúratorinn Catherine Millet sem vakti mikla athygli fyrir vægast sagt opinskáar endurminningar sínar af kynlífssviðinu sem eru reyndar merkilega leiðinlegar, svona miðað við efniviðinn. Það er skemmst frá því að segja að skáldskapur Anaïs Nin er ennþá heillandi og ekki jafn væminn og mig minnti, sögurnar eru margar hverjar ennþá býsna ögrandi. Þær eru bæði fallegar og hættulegar, sjónarhornið er oft óvenjulegt og það er augljóst að höfundurinn hefur haft bæði næmt auga og smekk fyrir möguleikum munúðarinnar sem er afar hressandi núna á gósentímum vélræns leiðindakláms. Í dagbók sinni ávarpar Anaïs Nin nafnlausa kaupandann að erótísku sögunum fyrir hönd skáldanna sem vinna fyrir hann og gerir lítið úr áhuga hans á óskáldlegum samfaralýsingum:


"Kæri safnari. Við hötum yður. Kynlíf missir allan mátt sinn og töfra þegar það verður of berort, tæknilegt eða ýkt, þegar það verður að vérænni þráhyggju. Það verður leiðinlegt. Þér hafið kennt okkur betur en nokkur annar hversu rangt það er að blanda það ekki með tilfinningum, hungri, girnd, losta, duttlungum, hugdettum, tengslum milli manna og dýpri samböndum sem breyta lit þess, bragði, hrynjandi og áhrifamætti.

Þér vitið ekki hvers þér farið á mis með þessum smásjárathugunum yðar á kynferðislegum athöfnum og útilokið þar með þá þætti sem eru eldsneyti þess, sem tendra athafnirnar; hið skynræna, hugmyndaflugið, rómantíkin og hið tilfinningalega. Það er þetta sem veitir kynlífinu síbreytileika sinn og hárfín blæbrigði og er hinn eiginlegi lostavaki þess. Þér eruð að setja tilfinningaheimi yðar takmörk. Þér látið hann þorna upp, visna í hel og þér tæmið úr honum hvern blóðdropa.

Ef þér nærðuð kynlíf yðar á allri þeirri spennu og ævintýrablæ sem ástin veitir því, yrðuð þér getumesti karlmaður heimsins. Uppsprettni kynferðislegrar orku er forvitni, ástríða. Þér eruð að horfa á hinn veika loga hennar kafna. Kynlíf þrífst ekki á einhæfni. Án tilfinninga, ímyndunarafls, uppátækja og síbreytilegs hugarástands, yrðu engar nýjungar í rúminu. Kynlíf verður að blanda með tárum, hlátri, orðum, fyrirheitum, árekstrum, afbrýðissemi, öfund; öllu því kryddi sem fylgir ótta, ferðum til útlanda, nýjum andlitum, sögum, frásögnum, draumum, hugarórum, tónlist, dansi, ópíumi og víni." (úr formála Unaðsreits, þýð. Guðrún Bachmann).

Er ekki margt til í þessu?

Delta of Venus má lesa í heild sinni hér.

Goðheimar

Fyrsta aðdráttaraflið er bókarkápan: troðfullt tungl af orðum á blóðrauðum bakgrunni, glottuleit skuggavera í forgrunni, hrafnar fljúga yfir. Það næsta: litskrúðugt mósaík fremst og aftast í bókinni úr blómum og hauskúpum, gleði-, áhyggju og skelfingarsvip og ýmsu þar á milli. Og síðan sogast maður inn í sagnaheiminn …

Bókin Örlög guðanna – sögur úr norrænni goðafræði er samvinnuverkefni Ingunnar Ásdísardóttur og Kristínar Rögnu Gunnarsdóttur. Vandfundin eru skemmtilegri söguefni en norrænu goðin og heimsmyndin sem þeim tengist og þessu eru gerð verðug skil í bókinni á skapandi og skemmtilegan hátt. Ingunn segir sögurnar í orðum, Kristín Ragna í myndum og hvort tveggja helst mjög vel í hendur. Hver opna er ein heild, eitt myndverk sem textinn er hluti af. Því miður er letrið ekki alveg nógu læsilegt, allra síst á bakgrunni með litbrigðum sem víða er að finna í bókinni og fyrir kemur að í miðri mynd séu mikilvæg atriði sem hverfa inn í kjölinn, t.d. nýtur ein myndin af Óðni sín ekki fullkomlega af þessum sökum. Flestar opnurnar koma þó vel út.

Flestar sögurnar eru ein, tvær eða þrjár opnur og fjalla oftast um afmarkað efni þannig að þær geta staðið sjálfstæðar en saman mynda þær jafnframt samfellda sögu þar sem byrjað er á tilurð heimsins og endað á ragnarökum og tóminu sem þróast svo yfir í nýjan heim.

Myndirnar eru oft bráðfyndnar og skemmtilega uppbyggðar. Á opnunni sem sýnir borðhaldið í Valhöll er borðið t.d. á jöðrum blaðsíðnanna og af einherjunum sjást einungis hendur og fætur en úlfarnir Geri og Freki narta í tærnar. Hrafnarnir Huginn og Muninn eru utan myndar en talblöðrur þar sem þeir spjalla um matinn eru til marks um nærveru þeirra. Ef bókinni er snúið á hvolf má svo lesa matseðilinn. Raunar er heilmikið lesefni fléttað inn í sumar myndirnar, t.d. má finna lista yfir dverganöfn í einni og heiti Óðins í annarri, auk þess sem myndin um Njörð geymir alls konar orð og frasa sem tengjast veðri og sjóferðum svo nokkur dæmi sé nefnd. Myndirnar eru líka iðulega morandi í skemmtilegum smáatriðum af ýmsu öðru tagi, t.d. eru engir tveir einherjar í fyrrnefndri mynd af borðhaldinu með eins útlimi þannig að auðvelt er að eyða drjúgum tíma í að rýna í þær.

Texti bókarinnar er miklu meira en endursögn. Hann er líflegur og skapandi, fullur af sviðsetningum og felur í sér bæði beinar og óbeinar vangaveltur, túlkanir og útskýringar. Gott dæmi er m.a. kaflinn þar sem lesendum er gert morgunljóst hvernig það getur staðist að Þór sé sonur Óðins og Jarðar:
„Það var í upphafi tímans þegar Óðinn var að skapa heiminn að hann lét sogast upp og inn í himininn. Hann varð himinninn og himinninn varð Óðinn. Og himinninn lagðist yfir um jörðina, vafði hana örmum, umlukti hana og jós yfir hana regni og snjó, hagli og röku þokumistri. Allt helltist þetta yfir hana í einni bendu, stjórnlaus vatnsausturinn buldi á jarðskorpunni og flæddi og byltist um hana. Hún þambaði og svolgraði í sig lífgefandi flauminn. Þannig frjóvgaði himinninn jörðina.“
Þótt bókin sé gefin út sem barnabók er enginn vafi að fólk á öllum aldri á eftir að njóta hennar Bæði myndirnar og textinn einkennast af kunnáttu, húmor og hugkvæmni og hvort tveggja þolir vel að vera skoðað aftur og aftur – og svo nokkrum sinnum í viðbót.

(Birtist einnig í Börnum og menningu, 2. tbl. 2008. Eftir að ritdómurinn var skrifaður bárust þau ánægjulegu tíðindi að bókin hefði verið tilnefnd til Íslensku bókmenntaverðlaunanna en hún var eina barnabókin sem þar komst á blað.)

15. desember 2008

Anne-Cath Vestly

Norski barnabókahöfundurinn og leikkonan Anne-Cath Vestly fékk, að sögn norskra fjölmiðla, hægt andát í nótt. Hún var 88 ára gömul og um skeið hafði hún þjáðst af alzheimer-sjúkdómnum.

Anne-Cath Vestly skrifaði tugi barnabóka og margar þeirra komu út á íslensku fyrir nokkrum áratugum. Fyrst skal nefndur flokkurinn um Óla Alexander Fílibomm-bomm-bomm, en fyrsta sagan um hann, sem kom út í Noregi 1953 var þýdd á íslensku 1960. Síðan má nefna sögurnar um systkinin átta sem búa með ömmu sinni, hundinum Stuttfæti og foreldrum í skóginum og bækurnar um Áróru sem býr í blokk X ásamt litla bróður sínum Sókratesi. Mamman kemur lítið við sögu í Áróru-bókunum því hún vinnur úti en systkinin eiga heimavinnandi föður. Loks má nefna sögurnar sem fjalla um strákinn Litla bróður sem leikur sér oft með trjágrein sem hann kallar Stúf.

Það er erfitt að ímynda sér að þessi hlýlegi höfundur hafi einhverntíma verið umdeildur en raunin er sú að á sjötta og sjöunda áratugnum voru landsmenn hennar ekki allir sáttir við hana. Anne-Cath mun, mörgum foreldrum til skelfingar, hafa frætt krakka sem hlustuðu á barnatíma útvarpsins á að storkurinn kæmi ekki fljúgandi með ungbörnin og margir fundu að því að pabbi Áróru væri óttalega lufsulegur og léleg fyrirmynd þar sem hann spígsporaði um með barnavagn á milli þess sem hann hékk heima hjá sér og skrifaði óskiljanlega doktorsritgerð um forn-Grikki.

„allklúr og blautleg og hin mesta saurlífssaga“ - Þegar miðdegissögur komu fólki í tilfinningalegt uppnám.

Árið 1981 kom út á íslensku þýðing Dagnýjar Kristjánsdóttur á bókinni Praxis eftir Fay Weldon (f. 1931). Þar er líf nokkurra kynslóða kvenna í forgrunni en bókin hafði komið út á ensku 1978 og verið tilnefnd til Booker-verðlaunanna í Bretlandi. Praxis segir ævisögu konu allt frá óhamingjusamri barnæsku til fullorðinsára. Ferill hennar um ævina er vægast sagt stormasamur og viðburðaríkur. Þarna er fjallað um stöðu konunnar í samfélagi 20. aldarinnar, en sagt hefur verið að í sögu þessarar einu konu sé ævisögu margra vesturlenskra kvenna þjappað saman og margir telja Praxis til nútímaklassíkera. Sagan hefst í Brighton um 1920, en aðalpersónan er Praxis Duveen, sem einnig gengur undir mörgum öðrum nöfnum á lífsleiðinni. Praxis er meðal annars skólastúlka, vændiskona, móðir og stjúpmóðir, ástkona og eiginkona, starfsmaður auglýsingastofu, morðingi, leiðtogi og fyrirmynd kvenna, en sögunni lýkur uppúr 1970. Praxis, sem margir telja eitt af lykilverkum kvennabókmenntanna ásamt til dæmis Kvennaklósettinu eftir Marilyn French, hefur mörgum þótt bera af bókum höfundarins, sem einnig hefur komið víða við og mikið skrifað um dagana. Fay Weldon er ennþá umdeild fyrir skoðanir sínar, hún er þekkt fyrir að ögra fólki með beittum penna, svörtum húmor og skoðunum sem hún liggur aldrei á og eru oft í algjöru ósamræmi við það sem kallað er pólitísk rétthugsun.

Praxis olli fjaðrafoki og deilum á Íslandi sumarið 1981 þegar Dagný las hana sem miðdegissögu í Ríkisútvarpið. Þá skrifuðu menn gjarna í dálkinn Velvakanda í Morgunblaðinu til að tjá sig og birtum við nú nokkur sýnishorn af þeim sígilda vettvangi kverúlantanna, en bréfin birtust öll í ágústmánuði 1981:

Heiðraði Velvakandi.
Nokkrar umræður hafa orðið í dálkum þínum um miðdegissögu þá er nýlega hefur verið lokið við að lesa í útvarpinu. Er hún, eins og margir hafa þegar bent á allklúr og blautleg og hin mesta saurlífssaga. Það ætlar illa að ganga hjá bókmenntaforkólfum að draga okkur Íslendinga upp og kenna okkur að meta æðri bókmenntir, svo sem Kvennaklósettið og fleiri meistaraverk nútímasnillinga. Við höfum semsé hingað til leyft okkur að telja þær annars flokks, gefið þeim hornauga og litið á þetta sem illa hnoðaðar klámvísur. Alveg gekk það líka yfir menningarvita þegar hlustendur fúlsuðu við eyrnakonfektinu Praxis, fluttu af þessari líka englarödd og mátti alveg skilja á orðum dagskrárstjóra í viðtali við Morgunblaðið sl. sunnudag að nú hefðu íslenskir útvarpshlustendur endanlega komið upp um sinn skrælingjahátt og ómóttækilegheit fyrir nýjum útlendum menningarstraumum. Skáldsagan Praxis er nefnilega hinn sanni skilningur á manninum, loksins kominn fram í öllu sínu veldi eftir samfellt strit skáldakynslóða um þúsundir ára. Fá rithöfundar framtíðarinnar líklegast engu þar við bætt og gætu allt eins farið á eyrina strax þess vegna. En ég vil nú samt halda því fram að klám sé klám og verði aldrei annað. Vilji einhver predika að klámtugga eins og Praxis sé stórkostlegt listaverk þá er það allt í lagi mín vegna. En ég vil síður borga slíkum menningarvitum kaup og halda þeim uppi. Hefði þessi saga birst í blaði sem ég væri áskrifandi að hefði ég einfaldlega sagt því upp og ekki gert meira í málinu. En því er nú einu sinni þannig farið með Ríkisútvarpið að það hefur sína margfrægu einokun og er eitt um að miðla efni, klámi eða öðru sem því sýnist, út á öldur ljósvakans. Fólk skal því hlusta á það sem menningarklíkan þar velur til flutnings, hvort sem því líkar betur eða ver, ellegar vera útvarpslaust. Er ekki meira en kominn tími til að rekstur útvarpsstöðva verði gefinn frjáls hér á landi og útvarpsstöðum verði fjölgað? Að Ríkisútvarpið verði svipt einokun og frjálsar og heilbrigðar útvarpsstöðvar fái að taka til starfa. Þá gætu menningarvitar Ríkisútvarpsins haldið áfram að láta lesa í það sóðasögur og gælt við ónáttúru sína óáreittir, en við sem viljum ekki slíka "menningu" gætum hlustað á aðrar útvarpsstöðvar á annarri bylgju. Góðir landar. Látum ekki mata okkur á hverju sem er. Látum ekki sjálfskipaða menningarvita telja okkur trú um að ónáttúrusögur úr forarpyttum hins stóra heims séu sígild listaverk. Tökum okkur vald til að velja og hafna. Hnekkjum einokun Ríkisútvarpsins og klíkunnar sem að því stendur. Útvarpseigandi.


Viðtalið sem útvarpseigandi nefnir í greininni í Velvakanda, hafði birst í Morgunblaðinu nokkru áður, við Hjört Pálsson dagskrárstjóra, þar sem hann ræddi lestur miðdegissögunnar, sem þá hafði fengið töluverða gagnrýni. Í viðtalinu er haft eftir Hirti að hann sé ósammála gagnrýninni en skilji hana því höfundurinn lýsi: „hugsunarhætti, viðhorfum og tilfinningalífi kvenna. Bæði reynslu þeirra og afstöðu til ýmissa hluta í tilverunni, á miklu naktari og hreinskilnari hátt en maður hefur oft átt að venjast í svona sögum. Ég held að það sé fyrst og fremst það að vegna þess að í bókinni eru lýsingar og þar eru tekin fyrir viðhorf sem að hafa verið „tabú“ að tala um hingað til. Það er þess vegna sem þessi bók hefur valdið svona miklum hræringum hjá sumum hér“. Hjörtur segir söguna vekjandi og umhugsunarverða og að um sé að ræða bókmenntir sem eigi erindi. Engu að síður héldu bréfin áfram að streyma til dagblaðanna. Ekki voru þó allir neikvæðir, til dæmis fagnaði Kristján G. Arngrímsson lestri sögunnar:

Okkar sívinsæla einokunarútvarp hefur sjaldan fengið hrós frá hlustendum, enda vart von á slíku meðan efnið sem framborið er, er yfirleitt álíka fýsilegt og súr mjólk. En engum er alls varnað og Ríkisútvarpið átti virkilega góðan sprett þegar tekin var til flutnings afskaplega merkileg saga, nefnilega Praxis eftir Fay Weldon. Nú, auðvitað var ekki að sökum að spyrja: "Konur úr Vesturbænum" og fleira gott fólk sem aldrei má heyra neitt nema sveitarómantík og þvíumlíkt bull, geystist fram á ritvöllinn með skömmum og ólátum í garð útvarpsins. Einhver varð trítilóður útaf því að börnin fengju þetta yfir sig á ferðalagi í bílnum. Var ekki hægt að slökkva á útvarpinu? Annar aðili hellti sér yfir Hjört Pálsson og spurði hvort allt klámið og viðbjóðurinn væri "vekjandi", eins og hann orðaði það, og hvort það væri vekjandi að Praxis tók uppá því að stytta kornabarni aldur. Við skulum bara líta á söguna í heild: Það að Praxis kæfði barnið var alls ekki út í hött, miðað við allt sem yfir hana hafði gengið á ævinni. Barnið var mongólíti. Í framhaldi af því langar mig að minnast á setningu í bókinni: "Children who have been hurt, grow up to hurt" (ég treysti mér hreinlega ekki til að hafa þetta eftir á íslensku). Pennar sem demba niður orðum og senda bréf til þátta eins og Velvakanda, þyrftu stundum að athuga sinn gang áður en þeir pósta ritverk sín, til dæmis að hugleiða aðeins það sem þeir skrifa um. Ef einhver þeirra sem skammast hefur útaf sögunni hefur hug á að kynna sér hana nánar þá má fá hana víða í enskri útgáfu. Það er mikið til í orðum Hjartar Pálssonar, að segan er vekjandi, frábærlega vel skrifuð og vel þýdd. Hafi útvarpið þakkir fyrir og vonandi fer það ekki að hlaupa eftir ruglukollum sem ekkert vilja heyra nema rugl um Óla og Ásu sem fara upp í sveit til afa og ömmu, læra að mjólka beljur, kveða rímur og allt það. Kristján G. Arngrímsson

Þessu bréfi Kristjáns var svarað, kona hringir daginn eftir í Velvakanda og segir:

Ég er víst ein af þeim sem trassa hlutina því ég ætlaði fyrir löngu að vera búin að hafa samband við Velvakanda og lýsa óánægju minni með útvarpssöguna Praxis. Bréfið frá Kristjáni í gær, þar sem þessari sögu er hrósað uppúr öllu valdi ýtti við mér og mig langar að segja mína skoðun. Mig undraði stórlega að nokkur skyldi finna hvöt hjá sér til að þýða svona leiðinlegt og ljótt lesefni, og enn meir að fá þetta svo lesið yfir fólk um hábjartan dag í Ríkisútvarpinu. Öll mín fjölskylda og allir mínir kunningjar eru sammála um að þessi óþverrasaga átti ekkert erindi í útvarpið.

Nokkrum dögum síðar hefur annar hlustandi samband við Velvakanda og mótmælir konunni með þessum orðum:

Það var einhver kona sem tjáir sig um það í Velvakanda síðastliðinn föstudag að henni finnist Praxis óþverra saga og ekkert erindi hafi átt til okkar. Ég vildi bara koma því á framfæri að mér þótti sagan góð og eiga erindi til okkar. Hún lýsir mjög vel staðreyndum lífsins, bæði fyrr og nú. Útvarpið ætti að flytja meira af svona efni, því það er ekki bara gamalt fólk sem hlustar á útvarp. Semsé þetta er góð saga og mættu koma fleiri.

Þannig kölluðust menn á á síðum Morgunblaðsins í ágústmánuði 1981 vegna miðdegissögunnar Praxis. Ljúkum þessum pistli um dagblaðaumfjallanir um bókina á bút úr löngu bréfi Þrándar nokkurs í Götu:

Ekki heyrði ég nema fáa lestra af útvarpssöguni Praxis og hafði þó nokkra skemmtun af, þó óneitanlega væri orðbragðið á stundum full klúrt. Það er kannski allt í lagi að láta lesa svona sögu í útvarp en þó held ég að fjölmiðlar megi vara sig á að ánetjast klámefni um of. Klámhundar fyrirfinnast nefnilega í öllum stofnunum og í kring um þær, og þeir eru vísir til að færa sig upp á skaftið um leið og þeir sjá sér það fært. Varðandi þessa sögu held ég að menningarvitum útvarpsins hafi orðið fótaskortur, þó þeir vilji auðvitað ekki viðurkenna það.Framvegis ættu þeir að vera reynslunni ríkari, jafnvel Ríkisútvarpið hefur sín takmörk og getur ekki boðið fólki upp á hvað sem er. Þegar klám og sóðaorðbragð er annars vegar er áreiðandlega best að setja sér skýr mörk og standa við þau, því varla hefur slíkur kjaftháttur neitt listgildi í sjálfum sér, eða hvað? Þrándur í Götu

Þórdís og Þorgerður

13. desember 2008

Marilyn Monroe les Ódysseif

Borist hafa fyrirspurnir um myndina af Marilyn Monroe sem prýðir þessa síðu. Samkvæmt öruggum heimildum er hún tekin á leikvelli á Long Island um miðbik sjötta áratugar síðustu aldar af Eve Arnold. Ljósmyndarinn og leikkonan hittust til að taka fremur dæmigerðar myndir af þeirri síðarnefndu. Á meðan myndasmiðurinn tók sér hlé til að skipta um filmu í vélinni greip Marilyn niður í Ulysses eftir James Joyce, sem hún var með í handtöskunni (betra kvenfólk er oftar en ekki með bækur í dömuveskinu), og var svo niðursokkin að Eve Arnold notaði tækifærið og smellti af.

Líkt og moggalesendur vita er greinarstúfur um þessa síðu í blaðinu í dag. Fallegt ekki satt? Okkur hafa borist þakkarpóstar og hlýlegar athugasemdir og nú eru útgefendur farnir að bera í okkur víurnar. Já, já, já, það má sko gjarna slá okkur gullhamra með látum og við þiggjum alveg blákalt góðar bækur og vondar, eðalvín, ilmsölt og fleira gott ef svo ber undir, en að sjálfsögðu án nokkurra skuldbindinga. Á okkar manifestói er hvergi stafur um að ekki megi taka við gjöfum.

Bókabúðir í Kaupmannahöfn - fyrsti hluti

Á 500 metra radíus í annars dapurlegum miðbæ Reykjavíkur eru þrjár glæsilegar bókabúðir, sumar þeirra á mörgum hæðum – og allar eru þær opnar langt fram á kvöld. Allar eiga þessar búðir það sameiginlegt að vera með fjölbreytt úrval bæði íslenskra og erlenda bóka, viðhalda háu þjónustustigi og vera með aðstöðu fyrir viðskiptavini (og stundum, róna) til að láta fara vel um sig við bókalestur.

Í þeirri ágætu borg Kaupmannahöfn eru bókabúðir af allt öðrum standard en þeim íslenska. Í fyrsta lagi er Janteloven hluti af starfslýsingunni eins og í öðrum dönskum verslunum og þjónustulundinni ekki mikið fyrir að fara. Í öðru lagi er opnunartíma þessara félagsmiðstöðva bókaunnandans sérlega ábótavant þar sem flestum þeirra er kyrfilega lokað klukkan sex . Eins get ég ekki ímyndað mér hvað danskir helgarpabbar gera með börnunum sínum þar sem bókabúðir eru lokaðar á sunnudögum. Að því sögðu eru hér í borg nokkrar vandaðar og skemmtilegar bókabúðir þrátt fyrir ofantalda annmarka og vert að geta þeirra á bókabloggi sem þessu.

Arnold Busck - Købmagergade 49
Þessi er nú Íslendingum góðkunn, beint á móti Sívaliturninum. Búðin er á þremur hæðum auk þess sem hún hýsir kaffihúsið Baresso á efstu hæðinni. Arnold Busck er bókabúðakeðja, fyrsta búðin var stofnuð 1896 og nú eru einar 35 búðir í Danmörku en þessi hefur nokkra sérstöðu. Bókaúrvalið í henni er mikið á dönskum mælikvarða og fjölbreytnin meiri en í flestum öðrum bókabúðum hér. Eins eru í Arnold Busck fleiri bækur á ensku en í öðrum bókabúðum sem ætlunin er að fjalla um í þessum greinaflokki (!). Í kjallara búðarinnar má finna litla ritfangadeild, en ólíkt íslenskum bókabúðum eru þær dönsku ekki sítroðandi uppá mann blekhylkjum og bic pennum og er það vel. Skipulag bókabúðarinnar mætti hugsanlega vera betra, bækur almenns eðlis (non-fiction) eru til dæmis á öllum hæðum búðarinnar og er kjallarinn sérstaklega kaotískur. Í ranghölum hans eru hlið við hlið sagnfræði, barnabækur og stútfullur rekki um allt sem tengist ástarlífinu. Í seilingarfjarlægð frá ófáum Kama Sutra handbókum er svo furðu gott úrval af heimspekiritum Kierkegaards, svo gott reyndar að reynda bóksala grunar að pöntunarstjórinn hafi verið í heimspekinámi. Einnig er í kjallaranum mikið framboð á bókum tengt sérlegu áhugamáli Dana, seinni heimstyrjöldinni. Ekki laust við að maður hugsi hlýlega til „litla nasistans“ , sérlega viðkunnalegs góðkunningja íslensks bókabúðarstarfsfólks, í kjallaranum á Arnold Busck léki hann við hvern sinn kubbótta fingur.

Yfir þvera jarðhæð búðarinnar hlykkjast skáldsagnarekkinn og býður aðstaðan satt að segja ekki uppá langdvalir þar sem hann er í gangveginum. Það má þá kippa með sér nokkrum sýnishornum og fara með þau í ró og næði í tiltölulega metnaðarfullt matreiðslubókahornið þar sem leynist einn stóll ætlaður viðskiptavinum. Eða laumast með þau uppá kaffihúsið á annarri hæðinni, en hvorki starfsmenn bókabúðarinnar eða kaffihússins hvetja mann sérstaklega til þess kreppulega verknaðar að lesa bækurnar þar. Við kaffihúsið eru aðallega svokallaðar „coffee table books“, listaverka- og ljósmyndabækur, úrvalið er ágætt en ekki mjög sérhæft.

Helsti keppinautur Arnold Busck, í afar vísindalegum samanburði mínum um gæði bókabúða í Kaupmannahöfn, er bókabúð Politiken við Rådhuspladsen. Meira um hana næst.

12. desember 2008

Vonarstræti

Þrátt fyrir að Ármann Jakobsson sé enginn öldungur hefur hann ritað þykkar fræðibækur og ótrúlegan fjölda greina og bókakafla í íslensk og erlend fræðirit. Hann hefur samið bók um verk Tolkiens, gefið út bloggbókina Fréttir frá mínu landi og skrifað fjölbreyttar greinar um barnabókmenntir í tímaritið Börn og menningu svo fátt eitt sé nefnt. Ármann, sem er kennari við Háskóla Íslands, tók líka nýlega á móti verðlaunum Dags Strömbäcks sem konunglega Gustavs Adolfs-akademían í Uppsölum veitir fyrir framlag til íslenskra og norrænna fræða. Nýjasta bók Ármanns er söguleg skáldsaga sem ber hinn fallega titil Vonarstræti. Í bókinni segir hann frá langafa sínum og langömmu, Theodóru og Skúla Thoroddsen, sem flestir þekkja líklega eitthvað til.

Undirrituð á oft dálítið erfitt með sögulega skáldsagnaformið. Aðdáun höfundanna á persónum er oft yfirdrifin og lygin er svo augljós og kjánaleg þegar verið er að dikta upp koddahjal löngu dauðra persóna. En Vonarstræti gafst ég ekki upp á. Ármann er með eindæmum þægilegur penni og ljúfur og launfyndinn höfundur. Atburðum er fléttað saman að því er virðist af fyrirhafnarleysi (fyrirhafnarleysið er sjálfsagt ranghugmynd lesandans) og höfundurinn hikar ekkert við að nota nútímaleg hugtök í bland við gömul orð þannig að menn sem aka í átómóbíl geta líka verið fréttafíklar.

Sagan gerist árið 1908, hún hefst þegar hjónin Skúli og Theodóra koma til Kaupmannahafnar ásamt millilandanefndinni snemma árs og lýkur þegar Uppkastið er fellt í kosningunum í september um haustið. En aftur og aftur er vísað aftur í tímann eða vikið að því sem síðar á eftir að gerast. Við lesturinn lifnaði Theodóra sérstaklega á síðunum, enda sagan mikið til sögð út frá hennar sjónarhorni. Hjónin eru skondin og áhugaverð, margbrotin, mótsagnakennd og um margt nútímaleg (fólk er auðvitað miklu líkara á öllum tímum en við viljum oft halda). Það háði mér dálítið við lesturinn að ég hef mest af þekkingu minni á pólitíkinni á tíma Vonarstrætis úr Ofvitanum, auk skammarlega yfirborðskenndrar barnaskólaþekkingar á körlum á borð við Hannes Hafstein og Bjarna frá Vogi. Ármann hefur áttað sig á að fólk er misvel að sér þannig að aftast er listi yfir sögupersónur ásamt grundvallarupplýsingum og hann er til hjálpar. Síðan er auðvitað hægðarleikur fyrir fákunnandi lesendur að fletta upp atburðum og fólki, veki bókin löngun til að kynna sér menn og málefni betur.

Vonarstræti er mér, sem áhugakonu um sögu borgarmyndunar og mannlífs í Reykjavík, vænn biti í borgarsögupúslið. Og eins og allar almennilegar sögulegar skáldsögur kallast bókin á við nútímann. Það er áhugavert að bera saman Ísland árin 1908 og 2008. Ágætur samkvæmisleikur gæti verið að setja atburði Vonarstrætis í samhengi við umræðu og atburði okkar daga, hvort sem menn vilja diskútera pólitíska flokkadrætti, mikilvægi inngöngu Íslands í Evrópusambandið eða nauðsyn þess að standa utan við það umdeilda batterí, jafnréttismálin og ójafnréttismálin, fjármálaheiminn eða jafnvel verndun gamalla og sögufrægra húsa í miðborg Reykjavíkur.

Skilaboðin eru skýr: Haltu kjafti og vertu sæt

Á áttunda áratug síðustu aldar komu ferskir straumar inn í bókmenntirnar. Þeir straumar voru meðal annars sprottnir úr umrótinu sem kennt er við 68-kynslóðina en eiga rætur lengra aftur. Gjarnan er talað um vinstriróttækni í þessu samhengi, þar sem marxískar hugmyndir í þjóðfélagsmálum voru áberandi, en ekki er síður mikilvægt að minnast á hugmyndirnar sem spruttu upp úr frjósömum jarðvegi kvennahreyfingarinnar. Höfundarnir beittu raunsæi til að kryfja gildi samfélagsins með gagnrýnum huga og spjótum var beint að stéttaskiptingu og hlutverkum kynjanna. Margir litu á bókmenntirnar sem pólitískan vettvang, leið til að gagnrýna samfélagið, velta við steinum og opna fyrir þarfa umræðu um misrétti og ójöfnuð.

Haltu kjafti og vertu sæt eftir danska höfundinn Vitu Andersen, sem fædd er 1944, kom út í íslenskri þýðingu Kristjáns Jóhanns Jónssonar árið 1981. Bókin inniheldur tólf smásögur sem fjalla um vanrækt börn, fjölskyldur í upplausn, einmana manneskjur og óhamingju í samböndum fólks. Í þessum sögum er lýst ömurlegum uppeldisaðstæðum á 6. áratugnum, þeim uppvexti fylgir óhamingja á fullorðinsárum og sögupersónur búa við örvæntingu og jafnvel geðraskanir. Aðalpersónur allra sagnanna eru konur. Þarna má finna litlar stelpur sem búa hjá einstæðum mæðrum, ungar konur sem sjálfar eru einstæðar mæður, miðaldra konur sem hafa skilið eftir óhamingjusöm sambönd og leita að nýrri ást án þess að verða ágengt, öryggislausar og ósjálfstæðar konur með minnimáttarkennd, konur sem reyna að gera öllum til hæfis, vitanlega án árangurs. Þessar sögur eru óneitanlega svartsýnar, niðurstaða þeirra er sú að félagsleg staða sé órjúfanlegur vítahringur sem haldi kynslóð eftir kynslóð fanginni í járngreipum. Börnin fá litla umhyggju í æsku og það bitnar á þeim alla ævi. Gallinn, fyrsta sagan í bókinni, segir frá Petru, 12 ára stúlku sem hefur frá fæðingu valdið móður sinni vonbrigðum, móðirinn fer ekkert í felur mað að hún hefði frekar viljað eignast son. Petra er vanrækt, móðirin neitar að leyfa henni að taka við gjöfum frá pabba sínum og smám saman hrynur veröld Petru saman. Í sögunni Óreiða segir frá skilnaðarbarninu Maríu, hún hefur verið gift þrisvar og á fimm börn og er í sambandi við ofbeldismann. Í sögunni Utanveltu er aðalpersónan hin ættleidda Maj, hún býr með kennara og er stjúpmóðir tveggja barna hans. Henni finnst hún svo utanveltu í tómleika hversdagslífsins að hún leggur sig úti í skóg til að deyja. Kynlífið í sögum Vitu Andersen er líka í hæsta máta óhamingjusamt og oft kúgunartæki á konurnar. Í sögunni Sunnudagur er til þess að ríða segir frá Kurt sem, konu sinni til armæðu, keppir við félaga sinn um hversu oft sé hægt að ríða á einum sunnudegi. Í annarri sögu segir frá Henry sem þarf nauðsynlega klám, barefli og leður til að geta haft samfarir.

Þrátt fyrir tilvistarvanda sögupersónanna vantar húmorinn ekki í þessar sögur. Vita Andersen er með dálítið ísmeigilegt skopskyn, hún gerir gys að kvennablöðum, kynhlutverkum og staðalmyndum og lýsir smáatriðum hversdagsins oft frá kómísku sjónarhorni. Niðurstaða sagnanna virðist þó vera sú að engin leið sé út. Við lesturinn veltir maður því fyrir sér hvort Vita Andersen sé mögulega á sömu skoðun og August Strindberg sem taldi kynin fædda fjandmenn og sagði það ljóst að karlkynið og kvenkynið væru eilíflega dæmd til að misskilja hvort annað. En kannski má helst túlka verk Vitu Andersen þannig að með því að gera þessar konur sýnilegar sé höfundurinn að opna konum einhverja smugu, sem síðan geti orðið leið þeirra í átt til frelsis.

Í Haltu kjafti og vertu sæt er lífi óhamingjusamra kvenna lýst af raunsæi og hispursleysi. Bókinni var fagnað í Danmörku og íslenska þýðingin fékk mjög góða dóma. Bókmenntarýnir Moggans, kallaði hana raunverulegt listaverk og sagði sögurnar skrifaðar af miklum hæfileikum. Fleiri verk Vitu Andersen voru einnig þýdd á íslensku, bæði ljóð, leikrit og skáldsögur. Þess má einnig geta að í janúar 1982 kom Vita Andersen til Íslands og kynnti verk sín og sat þá ásamt þáverandi eiginmanni sínum, þingmanninum Mogens Camre, boð forseta Íslands á Bessastöðum og birtist fréttin hér að ofan í Morgunblaðinu af því tilefni. Vita Andersen hefur síðan á 8. áratugnum gefið út um tug fjölbreyttra bóka, síðasta skáldsaga hennar, Anna Zoë, kom út 2006.

Þórdís og Þorgerður

11. desember 2008

Ódáðahraun

Stefán Máni er öskrandi kamelljón, hann flakkar um í bókmenntaheiminum og mátar sig við bókmenntategundir en hann læðist aldrei um. Nú virðast sumir telja að hann hafi fundið sína hillu enda hafa síðustu bækur hans verið af spennuþrilleragerðinni og það er í sjálfu sér ýmislegt sem styður þá skoðun í markaðssetningu á höfundinum og nýjustu bókum hans og það væri efni í annan pistil sem bíður betri tíma. Ég er hinsvegar ekki viss um að Stefán Máni sé hillumaður en það á eftir að koma í ljós.

Ódáðahraun, nýjasta bók Stefáns Mána er sumsé spennusaga. Þar segir frá Óðni R. Elsusyni, glæpakóngi af gamla skólanum sem flytur inn dóp og dílar einfaldlega með það, ekkert rugl. Hann er einfari, eins og reyndar margar af aðalpersónum Stefáns Mána í gegnum tíðina og gerir lítið annað en að stunda viðskipti sín og drekka sig útúr. Dag einn fær hann hinsvegar verkefni sem leiðir til þess að hann kynnist nýjum heimi, heimi viðskiptanna þar sem milljarðarnir skipta hratt um hendur og óhreina mjölið er ekki af skornum skammti í þeim heimi. Jafnframt kynnist hann Viktoríu sem er lífræn viðskipta/burberrys týpa og rugla þau saman reitum sínum í ýmsum skilningi.

Ekki verður farið nánar út í söguþráð hér enda bjánaskapur að rekja söguþráð glæpasagna fyrir væntanlegum lesendum. Það er sagt í auglýsingum að Ódáðahraun sé "grafskrift íslenska hlutabréfaævintýrisins" og það er alveg rétt að umfjöllunarefnið er kannski það athyglisverðasta við þessa bók. Höfundurinn hefur lag á því að opna fyrir undirheima borgarinnar fyrir lesendum sínum, hann vann mikla heimildavinnu um dópinnflutning og -sölu fyrir skáldsöguna Svartur á leik og hér bætist svo við rannsókn á því hvernig viðskiptaheimurinn hefur virkað í góðærissprengjunni á undanförnum árum. Það er í raun mjög góð hugmynd að láta þessa heima skarast og hér er verið að vinna með sögur sem hafa gengið lengi í íslensku samfélagi þar sem menn hafa að sögn rennt stoðum undir viðskipti sín með dópinnflutningi og orðið ríkir undir verndarvæng rússnesku mafíunnar, svo dæmi séu tekin af slíkum sögum. Stefán Máni lýsir því vel hér hvernig kaupin gerast á eyrinni um þessar mundir og ég, fremur illa viðskiptalæs bókmenntafræðingurinn, öðlaðist hreinlega betri grunnskilning á fjandsamlegum yfirtökum, verðbréfabraski og ýmsu slíku sem hefur verið einhversstaðar á útjaðri míns áhugasviðs, við lestur bókarinnar. Ég er ekki frá því að Stefán Máni ætti að vera okkar maður í skila- og rannsóknarnefndum, þá kæmust menn ekki upp með neitt bull.

Frásögnin sjálf hallast samt of hressilega að fyrirsjáanlegri melódramatík að mínu mati. Það hefur verið eitt af áhugaverðari einkennum á skáldskap Stefáns Mána hvernig hann blandar saman skáldskap og veruleika í framvindu og persónusköpun og oft hefur þetta virkað vel. Hér eru hinsvegar of mörg fyrirsjáanleg smáhvörf og uppljóstranir sem drífa söguþráðinn áfram af miklum hraða, að því að er virðist að melódramatískri lausn sem reyndar vindur örlítið upp á sig undir lokin en lokauppbrotið er of veikt til að kollvarpa þessari fyrirsjáanlegu uppbyggingu. Hér er auðvitað verið að leika með klisjukenndar persónur og það eflaust af mikilli meðvitund en ég verð þó að segja að ég hló nokkrum sinnum upphátt yfir sambandi þeirra Óðins og Viktoríu og ég er ekki viss um að það hafi verið ætlunin. Það er svo brjálæðislega klisjukennt að það er eiginlega með ólíkindum. Viktoría hefur orðið fyrir skelfilegri kynferðislegri misnotkun sem barn sem gerir það að verkum að hennar eigin sögn að hún á erfitt með að stunda kynlíf. Hún bráðnar hinsvegar um leið og tröllið setur hendina ofan í buxurnar hennar og eftir það stenst hún hann að sjálfsögðu ekki. Hann er ódannaði þursinn og hún er fallega konan sem ætlar að bjarga honum og þegar málin leysast ekki sem skyldi hótar hún honum með kynlífsbanni. Æji já. Ég veit það ekki. Það hlýtur að eiga að vera kaldhæðni þarna einhversstaðar, ég er bara ekki að sjá hana. Og ekki er um tepruskap af minni hálfu að ræða, yfirtröllið Tony Soprano er nú einu sinni kynþokkafyllsti maður allra tíma að mínu mati (og já...ég veit að hann er bara persóna, ekki "maður", kommon:).

Ég hef mikið álit á Stefáni Mána sem rithöfundi og oftast hef ég verið hrifin af bókum hans. Þessi bók hefur bæði kosti og galla eins og komið hefur fram hér og er nokkuð frá hans besta en það gerist auðvitað þegar menn skrifa mikið og taka áhættur. Ég bíð bara spennt eftir næstu.

fram úr björtustu vonum

Fyrsti fundur markaðs- og samskiptadeildar Druslubóka og doðranta var haldinn á Hótel Holti í gærkvöldi. Eftir kaloríuríka máltíð skoluðu druslubókadömur gæsalifrarskán, hreindýrakæfututlur og humartæjur úr endajöxlunum með kaffi og eldgömlu konjaki og fóru í leiðinni yfir nokkur ylvolg excelskjöl. Niðurstaðan er sú að þessi síða sé sú sjóðheitasta í íslensku menningarlífi. Eftir örfáa sólarhringa eru heimsóknir orðnar fleiri þúsund, bókelskandi lesendur hafa svifið á síðuskrifara á götum úti og fagnað framtakinu, tölvupóstar fullir þakklætisorða streyma inn og í morgun horfði eitt þjóðskálda Íslendinga girndaraugum á eina okkar inn um búðarglugga á Skólavörðustíg. Niðustaða fundarins var að lengi gæti gott batnað og því standa þessa stundina yfir samningaumleitanir við eina af andríkustu glæsimeyjum listaheimsins um að slást í hópinn. Meira um það síðar.
Við þökkum hlýleg orð í okkar garð, höldum ótrauðar áfram, og munum gera okkar besta til að valda lesendum ekki vonbrigðum.

fram úr björtustu vonum

Fyrsti fundur markaðs- og samskiptadeildar Druslubóka og doðranta var haldinn á Hótel Holti í gærkvöldi. Eftir kaloríuríka máltíð skoluðu druslubókadömur gæsalifrarskán, hreindýrakæfututlur og humartæjur úr endajöxlunum með kaffi og eldgömlu konjaki og fóru í leiðinni yfir nokkur ylvolg excelskjöl. Niðurstaðan er sú að þessi síða sé sú sjóðheitasta í íslensku menningarlífi. Eftir örfáa sólarhringa eru heimsóknir orðnar fleiri þúsund, bókelskandi lesendur hafa svifið á síðuskrifara á götum úti og fagnað framtakinu, tölvupóstar fullir þakklætisorða streyma inn og í morgun horfði eitt þjóðskálda Íslendinga girndaraugum á eina okkar inn um búðarglugga á Skólavörðustíg. Niðustaða fundarins var að lengi gæti gott batnað og því standa þessa stundina yfir samningaumleitanir við eina af andríkustu glæsimeyjum listaheimsins um að slást í hópinn. Meira um það síðar.
Við þökkum hlýleg orð í okkar garð, höldum ótrauðar áfram, og munum gera okkar besta til að valda lesendum ekki vonbrigðum.

10. desember 2008

Léttúð, afleiðusamningar, refsileysi og rænuskerðing

Lestur orðabóka er góð skemmtun. Kannski er þetta ekki nógu alkunn staðreynd en þá er löngu tímabært að breiða út fagnaðarerindið. Skemmtigildið felst ekki eingöngu í öllum fróðleiknum sem finna má í bókunum því að þær eru gullnáma fyrir orðafíkla af öllu tagi, meira að segja bókmenntaunnendur. Uppflettiorðin birtast oft í nýju ljósi við að standa ekki í samfelldum texta, þau verða gjarnan framandi þegar eina samhengið er stafrófsröðin. Önnur tegund framandgervingar getur birst í orðskýringunum því að þótt markmiðið sé að færa orðin nær lesendum gefur það orðunum oft nýja og sérkennilega vídd að vera útskýrð ofan í kjölinn. Auk þess þurfa orðskýringarnar að uppfylla formkröfur af ýmsu tagi, t.d. verða þær að vera knappar. Formkröfurnar koma einnig fram í fyrrnefndri stafrófsröð uppflettiorðanna. Textinn miðlar því oft nýstárlegum blæbrigðum: þegar best tekst til má jafna honum við afbragðs ljóð.

Lögfræðiorðabók – með skýringum kom út nýverið og uppfyllir allar fyrrgreindar væntingar. Opinber tilgangur bókar sem þessarar er að sjálfsögðu að vera fróðleg og gagnleg og þeim hlutverkum gegnir bókin með prýði. Eftir að fletta henni er ég t.d. töluvert nær því en áður að hafa vott af hugmynd um hvað afleiðusamningur er en hingað til hefur umfjöllun um það fyrirbæri – jafnvel orðið eitt – valdið svimaköstum og jafnvel rænuskerðingu.

Svo skemmtilega vill til að síðastnefnda fyrirbærið, rænuskerðing, er einnig útskýrt í bókinni. Einnig má fræðast um ósanngirni, aðlægt belti, skilmerki dauða, listgagnrýni, kvíðaröskun, atvinnuköfun, kvótahopp, kvalalosta, almenna gáleysisheimild og algjöra staðreyndavillu, svo fátt eitt sé nefnt.

Mikill kostur er hvað orðaforðinn er fjölbreyttur. Þarna er fjöldinn allur af orðum og hugtökum sem eru alltumlykjandi í samtímanum, eins og endurhverf viðskipti og fljótandi gengi, en einnig gnægð orða úr aldagömlu lagamáli, t.d. knérunnur, frilla og flím. Og auðvitað ótalmargt þar á milli. Það vakti til dæmis sérstaka gleði, jafnvel kátínu, að rekast á léttúð meðal uppflettiorða. Þó er rétt að gera þann fyrirvara að útskýringin á léttúð takmarkast við lögfræðilega merkingu orðsins (og bundin við samningarétt) en það er áminning um enn einn áhugaverðan eiginleika orðabóka: hver orðabók um sig er til marks um ákveðna og afmarkaða heimsmynd.

Ýmsar skilgreiningar bókarinnar eru til marks um allnokkurt hugmyndaflug. Sem dæmi má nefna að fasteign er m.a. skilgreind sem „afmarkaður hluti lands ásamt eðlilegum hlutum þess, lífrænum og ólífrænum, og mannvirki sem varanlega eru skeytt við landið“. Hvernig er annað hægt en dvelja allnokkra stund við þessa útlistun? Hún veitir óneitanlega nýstárlega sýn á tilveruna.

Því má ljóst vera að fleiri hvötum en fróðleiksfýsninni má auðveldlega svala við lestur Lögfræðiorðabókarinnar. Áhugafólk um óvænta sýn á tilveruna, ljóðrænan hversdagsleika og súrrealíska málfarsupplifun fær ekki síður fjölmargt fyrir sinn snúð.

9. desember 2008

The Hour I First Believed

Rithöfundurinn Wally Lamb varð fyrir þeirri listrænu ógæfu að Oprah Winfrey tók ástfóstri við bækurnar hans. Fyrstu skáldsögurnar hans, She’s Come Undone (1992) og I Know This Much Is True (1998) voru báðar valdar í Oprah’s Book Club en sá vafasami heiður veldur gjarnan gífurlegum sölukipp og umtali, bækur Lambs sátu lengi í efstu sætum erlendra metsölulista og til stendur að gera kvikmyndir eftir þeim. Eftir að Oprah æðinu lauk tók við níu ára ritstífla hjá Lamb. Í millitíðinni ritstýrði hann tveimur smásagnasöfnum eftir fangelsaðar afbrotakvensur, I Couldn’t Keep It To Myself: Testimonies From Our Imprisoned Sisters (2003) og I’ll Fly Away (2007) en fyrir mánuði síðan kom loks út hin langþráða The Hour I First Believed.

Skáldsögur Wally Lambs eru gersamlega ófráleggjanlegar vegna þess að höfundurinn hefur á valdi sínu sérkennilega blöndu af litríkri frásagnargáfu og mikla þekkingu á goðsögnum. Hann fer þó laumulega með goðsögurnar, vefur þeim saman við söguþráðinn textarýnum til ánægju og yndisauka. Í The Hour I First Believed er viðfangsefnið skotárásirnar við Columbine gagnfræðaskólann árið 1999, þar sem árásarmennirnir Dylan Klebold og Eric Harris eru tákngerðir sem eins konar tvíhöfða Mínótárus. Þeseifur bókarinnar er uppdiktaður kennari við Columbine, Caelum Quirk, sem ásamt eiginkonu sinni berst á næstu árum við að komast upp úr því völundarhúsi sem áfallinu fylgir. Mjög merkingarþrungið allt saman en um leið afskaplega spennandi og áhugavert.

Wally Lamb spilar á löngun manneskjunnar til að gægjast inn í hugarheim skepnunnar og skilja hana. Á þeim næstum tíu árum síðan tveir táningspiltar skutu sig í hausinn inni á bókasafninu í Columbine eftir að hafa myrt 13 manns og sært 23 aðra hefur sankast saman ótrúlega mikið efni um árásirnar. Gus Van Sant gerði kvikmyndina Elephant (2003) byggða á atburðunum í Columbine, á blessuðu internetinu er hægt að skrá sig í aðdáendaklúbb þeirra Klebold og Harris, hægt er að hlusta á símtöl kennara til neyðarlínunnar þar sem heyrast öskur og köll fórnarlambanna og þar má fara ofaní saumana á hinum ýmsu skýrslum um málið. Í sjálfu sér bætir þessi skáldsaga Lambs skiljanlega ekki mikið við þá vitneskju, hann hefur hins vegar eytt gífurlegum tíma í rannsóknir á árásunum og tekst að sigla framhjá (næstum) allri melódramatík í umfjöllun sinni. The Hour I First Believed er alveg biðarinnar virði, nú er óskandi að Oprah láti Wally Lamb í friði svo hann geti farið að vinna að næstu skáldsögu.

8. desember 2008

Druslubækur og doðrantar um veröld víða

Bókmenntaáhugafólk tekur Druslubókum og doðröntum fagnandi. Frá því að síðunni var lætt óforvarendis og án nokkurrar auglýsingaherferðar í loftið, um hádegisbil í fyrradag, eru heimsóknirnar komnar á annað þúsundið. Lesendur um víða veröld, allt frá Grindavík til Buenos Aires, hafa kíkt við. Við klöppum fyrir því!

Innan skamms slást tvær konur í hóp okkar, Þórdísar og Þorgerðar, sem hafa hingað til skrifað hér. Þær eru Erna Erlingsdóttir og Æsa Guðrún Bjarnadóttir, báðar fljúgandi læsar, fluggáfaðar og hugmyndaríkar. Við hrópum húrra fyrir því!

Nú skal minnst á tvo bókmenntaviðburði þar sem tónlist kemur einnig við sögu. Sá fyrri verður á miðvikudagskvöldið kl. 20.30 í veitingahúsinu Catalinu í Hamraborg í Kópavogi. Þar verður lesið úr þremur bókum sem Vestfirska forlagið gefur út fyrir þessi jól. Guðrún Jónína Magnúsdóttir kynnir bók sína Birta – ástarsaga að vestan, Harpa Jónsdóttir les úr bók sinni Húsið – Ljósbrot frá Ísafirði og Bílddælingarnir Jón Kr. Ólafsson, söngvari og Hafliði Magnússon, rithöfundur, kynna bók Hafliða um lífshlaup Jóns Kr.; Melódíur minninganna.
Hinn viðburðurinn verður á fimmtudagskvöldið á Næsta bar í miðborg Reykjavíkur undir yfirskriftinni Bræðrafagnaður. Mér segir svo hugur að þar verði sko ekki leiðinlegt að vera.

Rökkurdama

Ég hef tilhneigingu til að snobba fyrir ákveðnum bókaforlögum en eitt þeirra er breska forlagið Serpent's Tail. Þar á bæ hafa menn verið duglegir að gefa út óhefðbundnar glæpasögur og hafa marga afspyrnu frumlega glæpasagnahöfunda á sínum snærum, til dæmis hina ofursvölu Vicki Hendricks sem verður kannski fjallað um síðar á þessum vettvangi. Nýlega greip ég hinsvegar með mér bók úr spennubókahillunni í Eymundsson á þeim forsendum eingöngu að hún er gefin út af Serpent's tail en það er bókin The Not Knowing eftir Cathi Unsworth.

Cathi Unsworth starfaði lengst af sem blaðamaður hjá tónlistartímaritum á borð við Sounds og Melody Maker en hún er hinsvegar tiltölulega nýlega farin að skrifa skáldskap. Hún skrifar spennusögur sem eru undir miklum áhrifum frá noir hefðinni, eða rökkurhefðinni, en hennar helsti áhrifavaldur er Derek Raymond sem oft er kallaður guðfaðir breskur rökkurbókmenntahefðarinnar og hér með er þeim sem aðhyllast subbulega og kolsvarta rökkurreyfara bent á skáldsöguna I was Dora Suarez eftir kappann en hún er mögnuð.

The Not Knowing er fyrsta bók Cathi Unsworth en þar virðist hún sækja í eigin reynsluheim þar sem aðalsöguhetjan Diana Kemp er blaðamaður hjá jaðarmenningarriti og skrifar meðal annars um glæpasögur sem hún hefur mikinn áhuga á. Sögusviðið hér er London, nánar tiltekið Portobello Road, Soho og Camden en þar finnst ungur kvikmyndagerðarmaður myrtur og starfsmenn tímaritsins flækjast í málið með óvæntum hætti. Ekki verður farið nánar út í þá sálma hér enda er það í raun ekki lausn málsins sem skiptir mestu máli í þessari sögu heldur miklu fremur stemningin. Hér er fjallað af þekkingu um ákveðinn menningargeira og ég er kannski heilluð af henni vegna þess að mig hefur alltaf langað til að vera týpa á borð við aðalpersónuna hér. Hún er svona rokkabillítýpa með litað svart hár og Betty Page hárgreiðslu, rauðan varalit, svarta augnmálingu, alltaf í gömlum kvikmyndastjörnudröktum og hlébarðajökkum og þar fram eftir götunum. Hún er ekki beinlínis hefðbundið háskakvendi, hún er bæði gerandi og fórnarlamb í þessari sögu, ósnertanleg á yfirborðinu en viðkvæm og brotin undir niðri. London er dökk og háskaleg í þessari bók, tunglið veður stöðugt í skýjum og það eru skuggalegir smáklúbbar í öllum kjöllurum. Spennandi og sóðaleg rökkurbók með óhefðbundinni aðalpersónu.

Meðfylgjandi mynd er af höfundinum.

7. desember 2008

Konur Steinars Braga

Um daginn fékk ég ógeðslega gubbupest. Ég engdist í rúminu með magaverki á milli þess sem ég lufsaðist fram á baðherbergi og ældi. Eftir eina af nokkrum krampakenndum gubblotum sofnaði ég og fékk martröð sem ég hrökk uppaf við að eitthvað kom inn um bréfalúguna og féll á forstofugólfið. Þar sem þetta var á laugardagseftirmiðdegi bjóst ég ekki við pósti og staulaðist því niður stigann til að athuga málið. Þar beið bókin Konur eftir Steinar Braga, sem einhver hafði augljóslega séð ástæðu til að gauka að mér. Og ég gladdist mjög – það er alltaf tilhlökkunarefni að lesa texta eftir Steinar Braga. Ég ákvað að láta eldsúrt gubbið ekki stoppa mig heldur las bókina samstundis, tók bara nokkar ælupásur öðru hverju þegar maginn snerist við.

Sögusviðið er Reykjavík útrásarmanna, bankastráka og vaðandi yfirborðsmennsku. Strax á fyrstu síðunum sogaðist ég inn í spennandi atburðarás þar sem ráðvillt, einmana og drykkfelld kona, Eva Einarsdóttir, er í aðalhlutverki. Einkennilegar og verulega ógeðfelldar persónur verða hvarvetna á vegi hennar, maður sem Evu finnst hún kannast við veitir henni eftirför og hún kemst að því að konan sem bjó á undan henni í lúxusíbúðinni sem hún hefur að láni fyrirfór sér. Smám saman tekur gjörsamlega botnlaus hryllingur yfirhöndina. Þegar líður á opinberast lesandanum og aðalpersónunni hverskonar öfl eru að verki og hvílíka gildru er búið að veiða konuna í. Konur er hrollvekja þar sem uppdiktaðar persónur jafnt sem þekktar verur koma við sögu, allt frá hundinum Lúkasi til Hannesar listfræðings. Þarna er fjallað um fólk í þjóðfélagi þar sem peningar, frægð og yfirborðsmennska gegnumsýra alla tilveruna með tilheyrandi siðblindu og subbuskap. Algjörlega klikkað ...

Síðan ég las Konur með uppköstum fyrir tveimur vikum hefur hún hvað eftir annað sótt á mig. Ég sniðgeng Sæbrautina meðvitað líkt og þar um slóðir sé ekkert nema uppsafnaður viðbjóður og þegar ég sá fyrrnefndan Hannes listfræðing á Mokka um daginn fór um mig hrollur. Ég ætla að lesa bókina aftur fljótlega – það verður spennandi að sjá hvort gubbið hefur aukið á eða dregið úr áhrifamætti textans.

Mér finnst kápa umræddrar bókar óspennandi og eiginlega beinlínis ljót. Þess vegna birti ég þokukennda mynd af Steinari Braga þar sem hann situr á tröppum húss í miðborg Reykjavíkur. Mér finnst ólíklegt að rithöfundurinn hafi vitað af því að myndin var tekin.

Druslubækur og doðrantar slá í gegn

Á þessum vettvangi er greinilega verið að svara kalli tímans. Fyrsta sólarhringinn sem bloggsíðan Druslubækur og doðrantar var á vefnum voru heimsóknir um 300. Ef fram heldur sem horfir munum við bókakonur fyrr en varir fara að huga að framleiðslu á druslubókabolum, kaffibollum, g-strengjum og titrurum. Einnig munu gullmiðar með druslubókastimplum mjög sennilega skreyta bókakápur og í okkur verður vitnað í partíum jafnt sem virðulegum tímaritum.

Nú standa hins vegar yfir þreifingar við nokkrar gáfaðar og bókelskandi dömur um að taka þátt í skriftum á síðuna auk þess sem verið er að glugga í nokkrar nýútkomnar bækur. Hér verður engin molla!

6. desember 2008

Þrír menn og líkbíll

Heimspekingurinn alþýðlegi Alain De Botton bendir á í bók sinni The Art of Travel að það sé að mörgu leyti heppilegra að lesa sér til um fjarlæga staði en að heimsækja þá þar sem skáldskapurinn sé oftar en ekki mun magnaðri en raunveruleikinn. Það er auðvitað mikið til í þessu, enda eru raunveruleg ferðalög mikið til bara ávísun á vesen og fjárútlát. Það er hinsvegar bráðnauðsynlegt að ferðast í huganum, ekki síst á tímum gjaldeyrishafta og útbíaðs þjóðarorðspors en ferðalýsingar hafa lengi verið í miklu uppáhaldi hjá mér og helst verða þær að vera nokkuð sérviskulegar.

The Burial Brothers eftir Simon Mayall er gott dæmi um slíka bók, hún kom fyrst út árið 1996 og segir frá ferð höfundarins til Suður-Ameríku. Hann býr í New York, þar sem allt gengur vægast sagt á afturfótunum og hann ákveður að breyta til. Hann kaupir notaðan líkbíl á vægu verði og heldur ásamt félaga sínum til Suður-Ameríku en stefnan er sett á kjötkveðjuhátíðina í Ríó. Þetta hljómar allt mjög vel á pappírnum, en annað kemur í ljós. Þeir þurfa að koma sér klakklaust yfir 13 landamæri, drífa yfir Andesfjöllin á hálfbiluðum bílnum, eiga við spilltar löggur, eiturlyfjaglæpona, allskonar veikindi, vöðvastæltar gleðikonur og fáránlega ódýrt kókaín. Allt þetta þurfa þeir að kljást við í hlutverki útfararstjóra, það kemur nefnilega í ljós að það er ekki hægt að ferðast um í líkbíl án útskýringa.

Það er auðvitað mikil hefð fyrir svona "road trip" bókum og þær eru oftar en ekki þrungnar merkingu, ferðalagið er þá leiðin til aukins þroska, það er jafnvel einhverskonar manndómsvígsluathöfn Ferðalagið opinberar einhvern sannleika fyrir þeim sem ferðast. Það gerist hinsvegar ekki hér, hér er ekki verið að leggja út af ferðalaginu, skuldirnar bíða einfaldlega í New York og ferðalagið hefur aðeins frestað óumflýjanlegum skuldadögum. En það er einmitt ekki síst það sem er skemmtilegt við þessa bók, hún er einfaldlega óskaplega fyndin frásögn af ferðalagi án móralíseringa og markmiða.

5. desember 2008

Ástaraldin

Það er dálítið hryggilegt þegar góðar bækur týnast eða ná ekki verðskuldaðri athygli. Því miður gerist slíkt býsna oft, hérlendis er jólabókaflóðið hugsanlega ákveðinn sökudólgur; margar bækur koma út á mjög stuttum tíma. Mig grunar að ein bók sem kom út árið 2004 hafi sokkið í flóðið og ekki ratað til jafn margra og mér finnst að hefðu átt að lesa hana. Bókin heitir í íslenskri þýðingu Ástaraldin og er eftir Hollendinginn Karel van Loon en bókin var metsölubók í Hollandi og eftir henni var gerð bíómynd sem meira að segja var sýnd hérlendis, því miður fór hún framhjá mér.

Sögusvið bókarinnar er Holland nútímans. Armin Minderhout á 13 ára son með konu sem dáið hefur tíu árum áður. Hann langar að eignast annað barn með nýrri konu en í ljós kemur að hann er með sjaldgæfan litningagalla (XXY) og hefur verið ófrjór alla ævi. Armin Minderhout neyðist til að spyrja sjálfan sig margra erfiðra spurninga. Hann þarf að endurskoða ævi sína, sambandið við barnsmóðurina og myndina sem hann geymir af henni. Hversu vel þekkir maður sína nánustu? Hvaða máli skipta DNA-keðjurnar? Einnig hefst örvæntingarfull leit að mögulegum líffræðilegum föður sonarins. Lesendur fá að heyra af sjálfseyðingu og innri baráttu sem átti sér stað eftir dauða konunnar og sálarflækjurnar ýfast upp eftir vissuna um ófrjósemina.
Ástaraldin minnir á vissan hátt á skandinavískar raunsæisskáldsögur 7. og 8. áratugarins en einnig má líkja aðalpersónunni við karlmenn í bókum Hanif Kureishis þótt Armin eigi skilið miklu meiri samúð en margir karlmenn í verkum Kureishis. Og svo má sjá klassíska drauga á sveimi; um sögusvið þessarar nútímalegu skáldsögu læðast bæði Ödípus og Jesús Kristur.

Ástaraldin er reykmettuð sál-/líffræðileg saga með ávaxta- og áfengisbragði. Saga um hvernig er að elska og missa, deyja smávegis en rísa svo aftur upp og halda áfram að lifa. Þessi bók er of áhrifarík og áhugaverð til að hún eigi skilið að vera alveg týnd og gleymd. Ég sá eintak í hillu Góða hirðisins um daginn. Grípið hana með ykkur ef þið rekist á hana.

Börn og menning

Tímaritið Börn og menning, 2. tbl., 23. árg. 2008, er nýkomið út.
Meðal fjölbreytts efnis má nefna grein eftir Ármann Jakobsson um vinsælar bækur sem komu fyrst út á fimmta áratug síðustu aldar, greinin ber titilinn Adda trúlofast og Beverly Gray leitar að gulli; Í árdaga unglingabókanna á Íslandi. Anna Þorbjörg Ingólfsdóttir skrifar um svokallaðar skvísusögur og heitir grein hennar Dramadrottningar með beygluð og brotin hjörtu, Guðlaug Richter fjallar um nýjar bækur Jónínu Leósdóttur Kossar og ólífur og Svart og hvítt og ber grein hennar yfirskriftina Hinsegin unglingabækur um sanna vináttu, og Sigurður Ólafsson skoðar nokkrar bækur Helga Jónssonar og heitir hans innlegg Metsöluhöfundur barnanna; Afþreyingarbækur fyrir yngri borgara. Í blaðinu er einnig grein um bækur Kristínar Steinsdóttur sem gerast á Austurfirði og í Reykjavík og önnur um samkynhneigðar verur í heimi múmínálfa Tove Jansson. Þá er að vanda í Börnum og menningu fjallað um ýmsar nýútkomnar barnabækur.

Börn og menning, er eina íslenska tímaritið sem eingöngu fjallar um barnabókmenntir og annað menningartengt efni fyrir börn. Blaðið kemur út tvisvar á ári og ritstjóri er Þórdís Gísladóttir. Beiðni um áskrift sendist á netfangið bornogmenning@gmail.com.