5. desember 2008

Börn og menning

Tímaritið Börn og menning, 2. tbl., 23. árg. 2008, er nýkomið út.
Meðal fjölbreytts efnis má nefna grein eftir Ármann Jakobsson um vinsælar bækur sem komu fyrst út á fimmta áratug síðustu aldar, greinin ber titilinn Adda trúlofast og Beverly Gray leitar að gulli; Í árdaga unglingabókanna á Íslandi. Anna Þorbjörg Ingólfsdóttir skrifar um svokallaðar skvísusögur og heitir grein hennar Dramadrottningar með beygluð og brotin hjörtu, Guðlaug Richter fjallar um nýjar bækur Jónínu Leósdóttur Kossar og ólífur og Svart og hvítt og ber grein hennar yfirskriftina Hinsegin unglingabækur um sanna vináttu, og Sigurður Ólafsson skoðar nokkrar bækur Helga Jónssonar og heitir hans innlegg Metsöluhöfundur barnanna; Afþreyingarbækur fyrir yngri borgara. Í blaðinu er einnig grein um bækur Kristínar Steinsdóttur sem gerast á Austurfirði og í Reykjavík og önnur um samkynhneigðar verur í heimi múmínálfa Tove Jansson. Þá er að vanda í Börnum og menningu fjallað um ýmsar nýútkomnar barnabækur.

Börn og menning, er eina íslenska tímaritið sem eingöngu fjallar um barnabókmenntir og annað menningartengt efni fyrir börn. Blaðið kemur út tvisvar á ári og ritstjóri er Þórdís Gísladóttir. Beiðni um áskrift sendist á netfangið bornogmenning@gmail.com.

Engin ummæli: