5. desember 2008

Er ég kynóð? - The Housewife's Handbook on Selective Promiscuity

Á randi um kákustíga gegnis.is komust við að því að á Þjóðarbókhlöðunni má finna bók með yfirskriftina: Er ég kynóð? Okkur fannst titillinn forvitnilegur og langaði að vita hvernig kynæði lýsir sér, þannig að við ákváðum að ekki væri annað fært en að við myndum kynna okkur sögu bókarinnar og glugga í verkið. Umrædd bók er geymd á ekki ómerkari stað en í Þjóðdeildinni, þar sem gáfumenni og eigulegir sérvitringar af ýmsum kalíberum sitja lotnir með hnyklaðar brýrnar og það var ekki laust við að hjartað slægi ofurlítið örar en venjulega þegar bókavörðurinn færði okkur þessa litlu og sakleysislegu bók, hún er bundin í brúnt band með leðurkili. Minnir jafnvel á ljóðasafn eins af þjóðskáldunum.

Áður en lengra haldið og vikið að efnistökum höfundar er best að segja forvitnum lesendum aðeins frá þessari bók og merkri sögu hennar. Höfundurinn notaði dulnefnið Rey Antony og hét í raun Lillian Maxine Serett, en var einnig þekkt undir nafninu Maxine Sanini og var fimm barna móðir. Auk þess að skrifa bókina flutti hún fyrirlestra um kynlíf. Þekktust er hún fyrir fyrrnefnda bók sem heitir á íslensku Er ég kynóð? Og kom út hérlendis 1973 en ritið kom út árið 1962 í Bandaríkjunum. Bókin hefur síðan verið kölluð eitt merkara kynlífsrit Bandaríkjamanna, og hún eldist að okkar mati býsna vel.

Þessi sakleysislega bók er einnig þekkt fyrir það að hæstiréttur Bandaríkjanna dæmdi útgefandann, Ralph Ginzburg, sem lést á áttræðisaldri í hittifyrra, til fangelsisvistar fyirir útgáfu þessarar sóðabókar. Hann var sama tíma dæmdur fyrir að gefa út tímaritið Eros með nektarmyndum en einnig birti hann skopmyndir af Bandaríkjaforseta í afkáralegum stellingum svo fátt eitt sé talið. Ginzburg var einn þeirra sem áttaði sig snemma á því að kynlíf selur. Enda vissi hann jafn vel og við að um er að ræða vinsælustu þjóðaríþrótt allra þjóða, þjóðarbrota og minnihlutahópa. Við vörnina hélt Ginzburg því meðal annars fram að hlutverk kvenna í kynlífinu væri víða misskilið og að konur hefðu að sjálfsögðu sama rétt á almennilegu kynlífi og karlar. Þetta þótti siðprúðum Bandaríkjamönnum upp úr 1960 vægast sagt ekkert sniðugt. Bókin var metin alltof dónaleg, sögð algerlega án bókmenntalegs gildis og útgefandinn var sem fyrr segir sendur í fangelsi.

En nú skal vikið að efni bókarinnar Er ég kynóð? eftir Lillian Maxine Serett sem skrifaði undir dulnefninu Rey Anthony. Íslenska þýðingin kom út árið 1973 í bókaflokknum "svörtu bækurnar" sem Skemmtiritaútgáfan gaf út, en hún ku hafa verið á vegum bókaforlagsins Skjaldborgar og einbeitti Skemmtiritaútgáfan sér að bókmenntum sem iðulega hafa verið kenndar við sjoppumenningu. Þýðingin á titlinum er býsna villandi en á frummálinu heitir bókin The Housewife's Handbook on Selective Promiscuity sem mætti kannski snara sem Handbók húsmóðurinnar í sjálfvöldu fjöllyndi, en titlarnir hafa yfir sér léttan sjálfshjálparblæ. Í raun er nokkuð erfitt að flokka þessa bók, hún er skáldsaga en hinsvegar að sögn byggð á ævi höfundarins. Líklegast myndi hún samkvæmt nýjustu skilgreiningum geta talist til skáldævisagna. En hún er líka sjálfshjálparbók að því leyti að hér er verið að leiðbeina konum á kynlífssviðinu og þar er ekki skafið af hlutunum, enda má líta á bókina sem klámrit og það virðast íslensku útgefendurnir hafa gert. Á Íslandi verður þessi bók sjoppurit og hefur yfir sér tígulgosalegt yfirbragð, með svartri glanskápu og káputeikningu af glaðbeittri stúlku í faðmi karlmanns á góðri stund.

Höfundurinn rekur hér ævi sína frá fæðingu til tæplega fertugs og er óhætt að segja að mörg kynlífsfjaran sé sopin á þessu tímabili, en sögukona giftir sig nokkrum sinnum, eignast ófá börn sem erfitt reynist að feðra, gerir ýmsar tilraunir og lendir líka ósjaldan í klandri og fordómum. Stíll bókarinnar er blátt áfram, nánast klínískur, kynfæri og kynferðisathafnir fá til dæmis oftar en ekki að halda sínum latnesku fræðiheitum. Rauði þráður bókarinnar er þó ekki beinlínis þessi kynlífsrannsóknarleiðangur sem slíkur, heldur öllu heldur sjálfsuppgötvanir höfundar og baráttan gegn fordómum samfélagsins. Þegar líða tekur á bókina uppgötvar höfundurinn að kröfur hennar til kynlífs eru líklegast meiri en gengur og gerist meðal kvenna á hennar tíma og mun meiri en fólki finnst við hæfi, en bæði þáverandi eiginmaður hennar og móðir hvetja hana til þess að leita læknis vegna þessa. Vandamál hennar liggur í því að hún vill helst njóta ásta að minnsta kosti tvisvar til þrisvar í viku, en hina eftirsóttu "útrás" fær hún hinsvegar ekki við venjulegar samfarir, til þess þarf hún svokallaða clitoris-ertingu sem maðurinn hennar er ekkert sérlega hrifinn af og sinnir engan veginn sem skyldi. Við bendum á til gamans að orðið “útrás” hefur greinilega haft aðra merkingu á þessum árum og á líklegast lítið skylt við athafnir útrásarhersins sem reikar nú eirðarlaus um heiminn á krepputímum í krumpuðum Bossjakkafötum. Þetta skeytingarleysi eiginmannsins leiðir auðvitað til endalausra ónanerínga og slíkar athafnir tekja sumir hljóta að benda til kynæðis hjá konum og þýðandinn sýnir nokkuð innsæi með því að spyrja hinnar miðlægu spurningar í titli bókarinnar – Er ég kynóð?. Meginvandamálið er sumsé að einungis fáir af hennar fjölmörgu ástmönnum eru færir um að fullnægja henni og hún spyr sig hvort skýringuna megi mögulega finna í hennar eigin kröfuhörku á kynlífssviðinu.

Og höfundurinn veltir ýmsum öðrum málum fyrir sér. Henni finnst til dæmis furðulegt að maðurinn skuli leggja svo mikla áherslu á hvatvísi og náttúrulegheit þegar kemur að kynlífsiðkan, kynlíf finnist fólki að eigi helst að stunda málalengingalaust og án undirbúnings eða hjálpartækja. Höfundurinn er ósammála þessu viðhorfi og segir meðal annars máli sínu til stuðnings:

"Fólk byggir sér hús til að loka kuldann úti, drepur dýr til að skýla sér með skinnum þeirra, framleiðir vélar, sem geta siglt á hafinu eða flogið í loftinu. Í þessum efnum ræðst maðurinn gegn náttúrunni. Hvers vegna á hann þá að halda sig fast við eitthvað náttúrulegt þegar um kynlífsvenjur er að ræða? Mér fannst það liggja í augum uppi, að allt það, sem gæti gert mér kynlífið betra og unaðsríkara, væri eðlilegt og æskilegt."

Þess má geta að þessi röksemdafærsla kemur upp í sambandi við deilur um notkunargildi sleipiefna. En hugmyndirnar hafa þó mun meira gildi og liggja til grundvallar persónulegri heimspeki höfundarins, hún telur það hreina fásinnu að láta eðlishvötina ráða. Að hennar mati er það í raun jafn mikil klisja og það að telja að kynmök í hjónabandi séu óhjákvæmlega óspennandi og bragðdauf. Það á að undirbúa kynmök af skynsamlegu viti og helst nokkra daga fram í tímann sé hægt að koma því við. Þessi nákvæmni og skipulagsárátta í tengslum við ástalífið leiðir síðan til spurningarinnar um kynæði. Er þessi árátta konunnar kannski í hæsta máta óeðlileg? Hún veltir ástinni líka heilmikið fyrir sér og kenningar hennar um hana eru fallegar, en um ástina segir hún meðal annars:

"Við tölum um að vera ástfangin - og ástsjúk. Við heyrum líka sagt: - Ég er skotin í honum, en ég elska hann ekki. Við gerum ástina að einhverju bindandi, og þess vegna finnst manni, sem verður skotinn í stúlku, að hann megi til með að kvænast henni. Annars verður hann fyrir aðkasti, tvær manneskjur mega ekki láta sér þykja vænt hvorri um aðra án þess að lenda í gininu á fjármálamaskínu þjóðfélagsins. Við ættum að ala börn okkar upp til að njóta þeirrar ábyrgðar, sem lífið leggur fullorðnu fólki á herðar, en þess í stað gerum við ábyrgðina svo fráhrindandi, að enginn fær notið hennar. Og svo höfum við allskonar lög og tilskipanir, til að þvinga fólk. Ást er sú umhyggja, sem við sýnum nýfæddu barni, sú umhyggja sem við sýnum móður okkar, sú umhyggja sem við sýnum manninum, sem við sængum hjá. Þessi þrennskonar ást er ein og söm. Við breytum aðeins á mismunandi vegu eftir þrennskonar aðstæðum Við höldum, að ástin sé mismunandi, en svo er ekki. Ástin er missterk, en um annan mun er ekki að ræða"

Það má segja að þessar hugmyndir Rey Anthony séu einnig niðurstaða bókarinnar, og þeirrar sjálfskoðunar sem þar fer fram, og svarið hlýtur því að vera, nei, hún er ekki kynóð. Ástin er að hennar mati lífsskoðun. Við elskum meira eða minna alla sem á vegi okkar verða, svona þannig séð. Ástin verður því aldrei einungis holdleg og eðlistengd en í lokaorðum bókarinnar segir hún:

"Aftur og aftur reyndi ég það, að kynlíf - sem öldum saman hefur verið talið eingöngu holdlegs eðlis - er jafnframt einn af þeim andlegu hápunktum, sem skyni gætt fólk getur náð. Því er óhætt að segja - og það var mér mikil ánægja að sannreyna - að fólkið er skapað í mynd félagslynds guðs"

Þar hafið þið það – hið svokallað kynæði er þegar öllu er á botninn hvolft frekar meinlaus sjúkdómur en hann leggst þó greinilega afar misharkalega á þá sem fyrir honum verða. Og auk þess hafa viðhorf þjóðfélagsins sitthvað að segja um alvarleika sjúkdómsins.

Þórdís og Þorgerður

Engin ummæli: