17. desember 2008

„Ég hef verið manninum mínum ótrú“

Yfirskrift þessa pistils er fyrsta setning bókar sem einhverjir gætu kannski haldið nýlega játningasögu eða félagslegt raunsæisverk frá sjöunda- eða áttunda áratugnum. En svo er ekki, hér er um að ræða bók sem kom út fyrir meira en hundrað árum. Fyrsta setningin lýsir í rauninni ótrúlegri djörfung og skáldlegu hugrekki höfundarins, sem var þá 25 ára gömul skrifstofustúlka, en síðar varð hún skálddrottning Norðmanna. Um er að ræða Sigrid Undset, sem fæddist árið 1882 en lést 1949, og bókin sem hefst á setningunni; Ég hef verið manninum mínum ótrú, heitir Frú Marta Oulie og kom út í Osló, sem þá hét reyndar Kristjanía, árið 1907.

Framhjáhald hefur líklega aldrei verið almennt viðurkennt athæfi í okkar heimshluta, og allra síst fyrir rúmum hundrað árum þegar Sigrid Undset hóf höfundarferil sinn á því að skrifa bók um þetta viðkvæma efni. Enn þann dag í dag er Frú Marta Oulie umhugsunarverð lesning og um margt vönduð sálfræðileg stúdía. Um er að ræða fyrstupersónu frásögn í dagbókarformi. Dagbókina skrifar sögukonan á árunum 1902–1904 en sögupersónan er Marta Oulie, fjögurra barna móðir á fertugsaldri, sem heldur framhjá eiginmanni sínum Ottó, sem dvelur á berklahæli úti í sveit. Viðhaldið heitir Henrik og er besti vinur og samstarfsmaður eiginmannsins. Þau Marta og Henrik hafa meira að segja eignast barn saman, dóttur sem eiginmaðurinn heldur mest upp á af öllum börnunum. Ottó grunar ekki tvöfeldni eiginkonunnar en hugarangist og samviskubit Mörtu eru að eyðileggja líf hennar. Lesandinn gengur í gegnum sterkar tilfinningar með sögupersónunni; ást, angist, sektarkennd og sorg. Ottó deyr síðan úr tæringu og Marta giftist Henrik, en hjónabandið er óhamingjusamt, skuggi sektarkenndarinnar vofir yfir og þau fara að lokum hvort sína leið. Það má segja það ótrúlegt að þessi bók hafi verið skrifuð fyrir rúmum 100 árum, slík er einlægnin þegar fjallað er um framhjáhald aðalpersónunnar og samskipti hennar við karlmennina í lífi hennar; hún elskar þá báða.

Bókin um framhjáhald Mörtu Oulie olli víst umtali og töluverðri hneykslun og fussi meðal siðprúðra Norsara árið 1907. Hún var líka umrædd í kreðsum bókmenntamanna, enda var þarna nýstárleg samtímasaga á ferð og bókin seldist víst vel því oft eru menn til í að kaupa það sem kitlar hneykslistaugarnar. Fleiri bækur fylgdu síðan í kjölfarið, Sigrid Undset varð fræg fyrir skáldskap sinn og fékk Nóbelsverðlaunin í bókmenntum árið 1928 þegar hún var aðeins 46 ára gömul.

Frú Marta Oulie kom út í íslenskri þýðingu í ritröðinni Bókasafn Helgafells árið 1946 en um er að ræða ritröð sem ber yfirskriftina Listamannaþing og þetta er fimmta bókin í þeim flokki. Á titilsíðu kemur fram að þýðandinn sé Kristmann Guðmundsson og hann skrifar einnig inngang þar sem hann fjallar um höfundinn, ekki aðeins verk hennar, sem skáldið íslenska er töluvert hrifið af, heldur lýsir hann líka líkamlegu atgjörvi og viðmóti skáldkonunnar. En tvennum sögum fer af þessari þýðingu og menn greinir á um hvort Kristmann hafi raunverulega verið þýðandinn eða hvort hann hafi í rauninni verið að eigna sér verk annars manns. Að því verður kannski komið síðar.

Engin ummæli: