13. desember 2008

Marilyn Monroe les Ódysseif

Borist hafa fyrirspurnir um myndina af Marilyn Monroe sem prýðir þessa síðu. Samkvæmt öruggum heimildum er hún tekin á leikvelli á Long Island um miðbik sjötta áratugar síðustu aldar af Eve Arnold. Ljósmyndarinn og leikkonan hittust til að taka fremur dæmigerðar myndir af þeirri síðarnefndu. Á meðan myndasmiðurinn tók sér hlé til að skipta um filmu í vélinni greip Marilyn niður í Ulysses eftir James Joyce, sem hún var með í handtöskunni (betra kvenfólk er oftar en ekki með bækur í dömuveskinu), og var svo niðursokkin að Eve Arnold notaði tækifærið og smellti af.

Líkt og moggalesendur vita er greinarstúfur um þessa síðu í blaðinu í dag. Fallegt ekki satt? Okkur hafa borist þakkarpóstar og hlýlegar athugasemdir og nú eru útgefendur farnir að bera í okkur víurnar. Já, já, já, það má sko gjarna slá okkur gullhamra með látum og við þiggjum alveg blákalt góðar bækur og vondar, eðalvín, ilmsölt og fleira gott ef svo ber undir, en að sjálfsögðu án nokkurra skuldbindinga. Á okkar manifestói er hvergi stafur um að ekki megi taka við gjöfum.

2 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Hér er ég eins og grár köttur.

Þórdís Gísladóttir sagði...

Hér er gráum köttum tekið fagnandi.