The Burial Brothers eftir Simon Mayall er gott dæmi um slíka bók, hún kom fyrst út árið 1996 og segir frá ferð höfundarins til Suður-Ameríku. Hann býr í New York, þar sem allt gengur vægast sagt á afturfótunum og hann ákveður að breyta til. Hann kaupir notaðan líkbíl á vægu verði og heldur ásamt félaga sínum til Suður-Ameríku en stefnan er sett á kjötkveðjuhátíðina í Ríó. Þetta hljómar allt mjög vel á pappírnum, en annað kemur í ljós. Þeir þurfa að koma sér klakklaust yfir 13 landamæri, drífa yfir Andesfjöllin á hálfbiluðum bílnum, eiga við spilltar löggur, eiturlyfjaglæpona, allskonar veikindi, vöðvastæltar gleðikonur og fáránlega ódýrt kókaín. Allt þetta þurfa þeir að kljást við í hlutverki útfararstjóra, það kemur nefnilega í ljós að það er ekki hægt að ferðast um í líkbíl án útskýringa.
Það er auðvitað mikil hefð fyrir svona "road trip" bókum og þær eru oftar en ekki þrungnar merkingu, ferðalagið er þá leiðin til aukins þroska, það er jafnvel einhverskonar manndómsvígsluathöfn Ferðalagið opinberar einhvern sannleika fyrir þeim sem ferðast. Það gerist hinsvegar ekki hér, hér er ekki verið að leggja út af ferðalaginu, skuldirnar bíða einfaldlega í New York og ferðalagið hefur aðeins frestað óumflýjanlegum skuldadögum. En það er einmitt ekki síst það sem er skemmtilegt við þessa bók, hún er einfaldlega óskaplega fyndin frásögn af ferðalagi án móralíseringa og markmiða.
Engin ummæli:
Skrifa ummæli