5. desember 2008

Ástaraldin

Það er dálítið hryggilegt þegar góðar bækur týnast eða ná ekki verðskuldaðri athygli. Því miður gerist slíkt býsna oft, hérlendis er jólabókaflóðið hugsanlega ákveðinn sökudólgur; margar bækur koma út á mjög stuttum tíma. Mig grunar að ein bók sem kom út árið 2004 hafi sokkið í flóðið og ekki ratað til jafn margra og mér finnst að hefðu átt að lesa hana. Bókin heitir í íslenskri þýðingu Ástaraldin og er eftir Hollendinginn Karel van Loon en bókin var metsölubók í Hollandi og eftir henni var gerð bíómynd sem meira að segja var sýnd hérlendis, því miður fór hún framhjá mér.

Sögusvið bókarinnar er Holland nútímans. Armin Minderhout á 13 ára son með konu sem dáið hefur tíu árum áður. Hann langar að eignast annað barn með nýrri konu en í ljós kemur að hann er með sjaldgæfan litningagalla (XXY) og hefur verið ófrjór alla ævi. Armin Minderhout neyðist til að spyrja sjálfan sig margra erfiðra spurninga. Hann þarf að endurskoða ævi sína, sambandið við barnsmóðurina og myndina sem hann geymir af henni. Hversu vel þekkir maður sína nánustu? Hvaða máli skipta DNA-keðjurnar? Einnig hefst örvæntingarfull leit að mögulegum líffræðilegum föður sonarins. Lesendur fá að heyra af sjálfseyðingu og innri baráttu sem átti sér stað eftir dauða konunnar og sálarflækjurnar ýfast upp eftir vissuna um ófrjósemina.
Ástaraldin minnir á vissan hátt á skandinavískar raunsæisskáldsögur 7. og 8. áratugarins en einnig má líkja aðalpersónunni við karlmenn í bókum Hanif Kureishis þótt Armin eigi skilið miklu meiri samúð en margir karlmenn í verkum Kureishis. Og svo má sjá klassíska drauga á sveimi; um sögusvið þessarar nútímalegu skáldsögu læðast bæði Ödípus og Jesús Kristur.

Ástaraldin er reykmettuð sál-/líffræðileg saga með ávaxta- og áfengisbragði. Saga um hvernig er að elska og missa, deyja smávegis en rísa svo aftur upp og halda áfram að lifa. Þessi bók er of áhrifarík og áhugaverð til að hún eigi skilið að vera alveg týnd og gleymd. Ég sá eintak í hillu Góða hirðisins um daginn. Grípið hana með ykkur ef þið rekist á hana.

2 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Já, þessi bók var bara nokkuð góð. Svo er upphafskvót bókarinnar ansi flott ef mig misminnir ekki - úr söngtexta eftir hina veraldarvönu Dolly Parton.

Þórdís Gísladóttir sagði...

Jibbí!

From the start
Most every heart
That´s ever broken
Was because
There was always
A man to blame