15. desember 2008

„allklúr og blautleg og hin mesta saurlífssaga“ - Þegar miðdegissögur komu fólki í tilfinningalegt uppnám.

Árið 1981 kom út á íslensku þýðing Dagnýjar Kristjánsdóttur á bókinni Praxis eftir Fay Weldon (f. 1931). Þar er líf nokkurra kynslóða kvenna í forgrunni en bókin hafði komið út á ensku 1978 og verið tilnefnd til Booker-verðlaunanna í Bretlandi. Praxis segir ævisögu konu allt frá óhamingjusamri barnæsku til fullorðinsára. Ferill hennar um ævina er vægast sagt stormasamur og viðburðaríkur. Þarna er fjallað um stöðu konunnar í samfélagi 20. aldarinnar, en sagt hefur verið að í sögu þessarar einu konu sé ævisögu margra vesturlenskra kvenna þjappað saman og margir telja Praxis til nútímaklassíkera. Sagan hefst í Brighton um 1920, en aðalpersónan er Praxis Duveen, sem einnig gengur undir mörgum öðrum nöfnum á lífsleiðinni. Praxis er meðal annars skólastúlka, vændiskona, móðir og stjúpmóðir, ástkona og eiginkona, starfsmaður auglýsingastofu, morðingi, leiðtogi og fyrirmynd kvenna, en sögunni lýkur uppúr 1970. Praxis, sem margir telja eitt af lykilverkum kvennabókmenntanna ásamt til dæmis Kvennaklósettinu eftir Marilyn French, hefur mörgum þótt bera af bókum höfundarins, sem einnig hefur komið víða við og mikið skrifað um dagana. Fay Weldon er ennþá umdeild fyrir skoðanir sínar, hún er þekkt fyrir að ögra fólki með beittum penna, svörtum húmor og skoðunum sem hún liggur aldrei á og eru oft í algjöru ósamræmi við það sem kallað er pólitísk rétthugsun.

Praxis olli fjaðrafoki og deilum á Íslandi sumarið 1981 þegar Dagný las hana sem miðdegissögu í Ríkisútvarpið. Þá skrifuðu menn gjarna í dálkinn Velvakanda í Morgunblaðinu til að tjá sig og birtum við nú nokkur sýnishorn af þeim sígilda vettvangi kverúlantanna, en bréfin birtust öll í ágústmánuði 1981:

Heiðraði Velvakandi.
Nokkrar umræður hafa orðið í dálkum þínum um miðdegissögu þá er nýlega hefur verið lokið við að lesa í útvarpinu. Er hún, eins og margir hafa þegar bent á allklúr og blautleg og hin mesta saurlífssaga. Það ætlar illa að ganga hjá bókmenntaforkólfum að draga okkur Íslendinga upp og kenna okkur að meta æðri bókmenntir, svo sem Kvennaklósettið og fleiri meistaraverk nútímasnillinga. Við höfum semsé hingað til leyft okkur að telja þær annars flokks, gefið þeim hornauga og litið á þetta sem illa hnoðaðar klámvísur. Alveg gekk það líka yfir menningarvita þegar hlustendur fúlsuðu við eyrnakonfektinu Praxis, fluttu af þessari líka englarödd og mátti alveg skilja á orðum dagskrárstjóra í viðtali við Morgunblaðið sl. sunnudag að nú hefðu íslenskir útvarpshlustendur endanlega komið upp um sinn skrælingjahátt og ómóttækilegheit fyrir nýjum útlendum menningarstraumum. Skáldsagan Praxis er nefnilega hinn sanni skilningur á manninum, loksins kominn fram í öllu sínu veldi eftir samfellt strit skáldakynslóða um þúsundir ára. Fá rithöfundar framtíðarinnar líklegast engu þar við bætt og gætu allt eins farið á eyrina strax þess vegna. En ég vil nú samt halda því fram að klám sé klám og verði aldrei annað. Vilji einhver predika að klámtugga eins og Praxis sé stórkostlegt listaverk þá er það allt í lagi mín vegna. En ég vil síður borga slíkum menningarvitum kaup og halda þeim uppi. Hefði þessi saga birst í blaði sem ég væri áskrifandi að hefði ég einfaldlega sagt því upp og ekki gert meira í málinu. En því er nú einu sinni þannig farið með Ríkisútvarpið að það hefur sína margfrægu einokun og er eitt um að miðla efni, klámi eða öðru sem því sýnist, út á öldur ljósvakans. Fólk skal því hlusta á það sem menningarklíkan þar velur til flutnings, hvort sem því líkar betur eða ver, ellegar vera útvarpslaust. Er ekki meira en kominn tími til að rekstur útvarpsstöðva verði gefinn frjáls hér á landi og útvarpsstöðum verði fjölgað? Að Ríkisútvarpið verði svipt einokun og frjálsar og heilbrigðar útvarpsstöðvar fái að taka til starfa. Þá gætu menningarvitar Ríkisútvarpsins haldið áfram að láta lesa í það sóðasögur og gælt við ónáttúru sína óáreittir, en við sem viljum ekki slíka "menningu" gætum hlustað á aðrar útvarpsstöðvar á annarri bylgju. Góðir landar. Látum ekki mata okkur á hverju sem er. Látum ekki sjálfskipaða menningarvita telja okkur trú um að ónáttúrusögur úr forarpyttum hins stóra heims séu sígild listaverk. Tökum okkur vald til að velja og hafna. Hnekkjum einokun Ríkisútvarpsins og klíkunnar sem að því stendur. Útvarpseigandi.


Viðtalið sem útvarpseigandi nefnir í greininni í Velvakanda, hafði birst í Morgunblaðinu nokkru áður, við Hjört Pálsson dagskrárstjóra, þar sem hann ræddi lestur miðdegissögunnar, sem þá hafði fengið töluverða gagnrýni. Í viðtalinu er haft eftir Hirti að hann sé ósammála gagnrýninni en skilji hana því höfundurinn lýsi: „hugsunarhætti, viðhorfum og tilfinningalífi kvenna. Bæði reynslu þeirra og afstöðu til ýmissa hluta í tilverunni, á miklu naktari og hreinskilnari hátt en maður hefur oft átt að venjast í svona sögum. Ég held að það sé fyrst og fremst það að vegna þess að í bókinni eru lýsingar og þar eru tekin fyrir viðhorf sem að hafa verið „tabú“ að tala um hingað til. Það er þess vegna sem þessi bók hefur valdið svona miklum hræringum hjá sumum hér“. Hjörtur segir söguna vekjandi og umhugsunarverða og að um sé að ræða bókmenntir sem eigi erindi. Engu að síður héldu bréfin áfram að streyma til dagblaðanna. Ekki voru þó allir neikvæðir, til dæmis fagnaði Kristján G. Arngrímsson lestri sögunnar:

Okkar sívinsæla einokunarútvarp hefur sjaldan fengið hrós frá hlustendum, enda vart von á slíku meðan efnið sem framborið er, er yfirleitt álíka fýsilegt og súr mjólk. En engum er alls varnað og Ríkisútvarpið átti virkilega góðan sprett þegar tekin var til flutnings afskaplega merkileg saga, nefnilega Praxis eftir Fay Weldon. Nú, auðvitað var ekki að sökum að spyrja: "Konur úr Vesturbænum" og fleira gott fólk sem aldrei má heyra neitt nema sveitarómantík og þvíumlíkt bull, geystist fram á ritvöllinn með skömmum og ólátum í garð útvarpsins. Einhver varð trítilóður útaf því að börnin fengju þetta yfir sig á ferðalagi í bílnum. Var ekki hægt að slökkva á útvarpinu? Annar aðili hellti sér yfir Hjört Pálsson og spurði hvort allt klámið og viðbjóðurinn væri "vekjandi", eins og hann orðaði það, og hvort það væri vekjandi að Praxis tók uppá því að stytta kornabarni aldur. Við skulum bara líta á söguna í heild: Það að Praxis kæfði barnið var alls ekki út í hött, miðað við allt sem yfir hana hafði gengið á ævinni. Barnið var mongólíti. Í framhaldi af því langar mig að minnast á setningu í bókinni: "Children who have been hurt, grow up to hurt" (ég treysti mér hreinlega ekki til að hafa þetta eftir á íslensku). Pennar sem demba niður orðum og senda bréf til þátta eins og Velvakanda, þyrftu stundum að athuga sinn gang áður en þeir pósta ritverk sín, til dæmis að hugleiða aðeins það sem þeir skrifa um. Ef einhver þeirra sem skammast hefur útaf sögunni hefur hug á að kynna sér hana nánar þá má fá hana víða í enskri útgáfu. Það er mikið til í orðum Hjartar Pálssonar, að segan er vekjandi, frábærlega vel skrifuð og vel þýdd. Hafi útvarpið þakkir fyrir og vonandi fer það ekki að hlaupa eftir ruglukollum sem ekkert vilja heyra nema rugl um Óla og Ásu sem fara upp í sveit til afa og ömmu, læra að mjólka beljur, kveða rímur og allt það. Kristján G. Arngrímsson

Þessu bréfi Kristjáns var svarað, kona hringir daginn eftir í Velvakanda og segir:

Ég er víst ein af þeim sem trassa hlutina því ég ætlaði fyrir löngu að vera búin að hafa samband við Velvakanda og lýsa óánægju minni með útvarpssöguna Praxis. Bréfið frá Kristjáni í gær, þar sem þessari sögu er hrósað uppúr öllu valdi ýtti við mér og mig langar að segja mína skoðun. Mig undraði stórlega að nokkur skyldi finna hvöt hjá sér til að þýða svona leiðinlegt og ljótt lesefni, og enn meir að fá þetta svo lesið yfir fólk um hábjartan dag í Ríkisútvarpinu. Öll mín fjölskylda og allir mínir kunningjar eru sammála um að þessi óþverrasaga átti ekkert erindi í útvarpið.

Nokkrum dögum síðar hefur annar hlustandi samband við Velvakanda og mótmælir konunni með þessum orðum:

Það var einhver kona sem tjáir sig um það í Velvakanda síðastliðinn föstudag að henni finnist Praxis óþverra saga og ekkert erindi hafi átt til okkar. Ég vildi bara koma því á framfæri að mér þótti sagan góð og eiga erindi til okkar. Hún lýsir mjög vel staðreyndum lífsins, bæði fyrr og nú. Útvarpið ætti að flytja meira af svona efni, því það er ekki bara gamalt fólk sem hlustar á útvarp. Semsé þetta er góð saga og mættu koma fleiri.

Þannig kölluðust menn á á síðum Morgunblaðsins í ágústmánuði 1981 vegna miðdegissögunnar Praxis. Ljúkum þessum pistli um dagblaðaumfjallanir um bókina á bút úr löngu bréfi Þrándar nokkurs í Götu:

Ekki heyrði ég nema fáa lestra af útvarpssöguni Praxis og hafði þó nokkra skemmtun af, þó óneitanlega væri orðbragðið á stundum full klúrt. Það er kannski allt í lagi að láta lesa svona sögu í útvarp en þó held ég að fjölmiðlar megi vara sig á að ánetjast klámefni um of. Klámhundar fyrirfinnast nefnilega í öllum stofnunum og í kring um þær, og þeir eru vísir til að færa sig upp á skaftið um leið og þeir sjá sér það fært. Varðandi þessa sögu held ég að menningarvitum útvarpsins hafi orðið fótaskortur, þó þeir vilji auðvitað ekki viðurkenna það.Framvegis ættu þeir að vera reynslunni ríkari, jafnvel Ríkisútvarpið hefur sín takmörk og getur ekki boðið fólki upp á hvað sem er. Þegar klám og sóðaorðbragð er annars vegar er áreiðandlega best að setja sér skýr mörk og standa við þau, því varla hefur slíkur kjaftháttur neitt listgildi í sjálfum sér, eða hvað? Þrándur í Götu

Þórdís og Þorgerður

1 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Praxis er algjör snilld.