IBBY (skammstöfun fyrir International Board on Books for Young People) er alþjóðlegur félagsskapur áhugafólks sem vill efla barnamenningu, ekki síst með útbreiðslu vandaðra bóka fyrir börn og unglinga. Á Íslandi er starfandi öflug IBBY-deild, sem stendur fyrir fjölbreyttum viðburðum tengdum barnamenningu. IBBY á Íslandi er aðili að nýstofnuðu barnabókasetri við Háskólann á Akureyri, samtökin veita árlega svokallaðar Vorvinda-viðurkenningar fyrir barnamenningarstarf og einnig veitir IBBY á Íslandi reglulega verðlaunin Sögustein, einhverjum þeim sem auðgað hefur íslenskar barnabókmenntir með höfundarverki sínu. Þá gefa IBBY-samtökin á Íslandi út tímaritið Börn og menning, sem er veglegt alþýðlegt fræðirit og eina íslenska tímaritið sem fjallar eingöngu um barnamenningu, en blaðið kemur út vor og haust.
Fyrir nokkrum dögum kom vorhefti Barna og menningar 2012 inn um lúguna og þar er fullt af áhugaverðu efni. Framan á blaðinu er mynd eftir bandaríska myndabókahöfundinn Richard Scarry sem kallast á við grein Sölku Guðmundsdóttur inni í blaðinu undir yfirskriftinni „Vaknað í Erilborg“. Þar koma persónur Scarrys mjög við sögu ásamt ættingjum þeirra úr Næturbók Mauri Kunnas og persónum úr ýmsum öðrum gamalkunnum barnabókum.
Sýnir færslur með efnisorðinu Börn og menning. Sýna allar færslur
Sýnir færslur með efnisorðinu Börn og menning. Sýna allar færslur
18. maí 2012
16. nóvember 2011
Skrímsli í Börnum og menningu
Hausthefti Barna og menningar kemur út í vikunni. Blaðið er í þetta sinn helgað litla og stóra skrímslinu hennar Áslaugar Jónsdóttur, bókagerðarkonu, en sex bækur um þau hafa þegar komið út í samstarfi við norrænu höfundana Kalle Güettler og Rakel Helmsdal. Kristín Ragna Gunnarsdóttir teiknari og bókmenntafræðingur fjallar um myndmál í skrímslabókunum og Helga Birgisdóttir doktorsnemi í íslenskum bókmenntum tekur fyrir skrímsli og ótta. Í blaðinu er einnig viðtal Helgu Ferdinandsdóttur druslubókadömu og ritstjóra Barna og menningar við Áslaugu Jónsdóttur um tilurð litla og stóra skrímslisins og óvenjulegt samstarf þriggja höfunda. Skrímslin eru á leiðinni upp á svið Þjóðleikhússins í vetur og segir Áslaug frá því hvernig þessar loðnu verur hafa tekið í það brölt.
Af öðru efni í blaðinu má nefna grein Brynhildar Heiðar- og Ómarsdóttur um Gríshildi góðu, kvenhetju úr íslenska sagnaarfinum og nafnleysi kvennanna sem héldu þeim arfi á lofti. Þá er að vanda fjallað um nýútkomnar bækur í blaðinu og má þar nefna grein Guðrúnar Elsu Bragadóttur um Fluguna sem stöðvaði stríðið eftir Bryndísi Björgvinsdóttur sem hreppti Íslensku barnabókaverðlaunin á dögunum. Einnig er uppfærsla Borgarleikhússins á Galdrakarlinum í Oz leikrýnd af Sigurði H. Pálssyni.
Af öðru efni í blaðinu má nefna grein Brynhildar Heiðar- og Ómarsdóttur um Gríshildi góðu, kvenhetju úr íslenska sagnaarfinum og nafnleysi kvennanna sem héldu þeim arfi á lofti. Þá er að vanda fjallað um nýútkomnar bækur í blaðinu og má þar nefna grein Guðrúnar Elsu Bragadóttur um Fluguna sem stöðvaði stríðið eftir Bryndísi Björgvinsdóttur sem hreppti Íslensku barnabókaverðlaunin á dögunum. Einnig er uppfærsla Borgarleikhússins á Galdrakarlinum í Oz leikrýnd af Sigurði H. Pálssyni.
16. maí 2011
Börn og menning

Vorhefti Barna og menningar árið 2011 kemur út í vikunni. Í ritinu eru þrjár greinar um múmínálfabækurnar eftir Tove Jansson; Erna Erlingsdóttir, íslenskufræðingur, fjallar um skáldsöguna Seint í nóvember, Sirke Happonen, kennari við Háskólann í Helsinki, skrifar um dansinn sem tjáningu persóna í múmínálfabókunum og Dagný Kristjánsdóttir, prófessor við Háskóla Íslands, skrifar grein með yfirskriftina Múmínálfarnir og hamskiptin. Af öðru efni má nefna umfjöllun Elinu Druker, kennara við Stokkhólmsháskóla, um nýja strauma í myndlýsingum sænskra barnabóka og einnig skrifa Gerður Kristný, Hallgrímur J. Ámundason, Rúnar Helgi Vignisson, Arndís Þórarinsdóttir, Brynja Baldursdóttir og Þórdís Gísladóttir greinar í blaðið um fjölbreytileg efni, auk þess sem í því má finna fréttir af öflugu starfi IBBY-samtakanna.
Börn og menning kemur út vor og haust og er þetta 26. árgangurinn. Það er alþýðlegt fræðirit um barnamenningu og eina íslenska tímaritið sem eingöngu fjallar um þann geira menningarinnar sem snýr sérstaklega að börnum.
Börn og menning er gefið út af IBBY á Íslandi, sem er skammstöfun fyrir International Board on Books for Young People, en það eru alþjóðleg samtök sem stofnuð voru 1953 og starfa nú í sjötíu löndum. Markmið samtakanna er að vinna í anda stofnandans, Jellu Lepman, sem áleit að góðar barnabækur gætu byggt brú á milli þjóða heims og miðlað fróðleik og skilningi milli ólíkra menningarsamfélaga. IBBY á Íslandi hefur starfað frá árinu 1985.
Ritstjóri Barna og menningar er Þórdís Gísladóttir en aðstoðarritstjóri er Helga Ferdinandsdóttir, sem tekur alfarið við ritstjórninni frá og með haustheftinu 2011.
3. nóvember 2010
Börn og menning - hausthefti 2010

Blaðið er að þessu sinni helgað bókmenntum. Tveir höfundar, Brynhildur Þórarinsdóttir og Friðrik Erlingsson, skrifa um miðlun íslenskra fornbókmennta til íslenskra barna, grein Brynhildar ber yfirskriftina Bókmenntaverkfræði og samgöngubækur en grein Friðriks heitir Þruma úr heiðskíru lofti. Í blaðinu eru einnig greinar um nýlega útkomnar barnabækur; Guðrún Elsa Bragadóttir skrifar um nýlega útgáfu af Spóa eftir Ólaf Jóhann Sigurðsson, Kristín Svava Tómasdóttir um Núll Núll 9 eftir Þorgrím Þráinsson, Brynja Baldursdóttir fjallar um Hetjur, eftir Kristínu Steinsdóttur og Þórey Mjallhvít H. Ómarsdóttir um Illa kall efti Svein Nyhus og Gro Dahle og Þórey Mjallhvít hannar einnig kápu Barna og menningar í þetta skiptið.
Hægt er að gerast félagi í IBBY-samtökunum og jafnframt áskrifandi að Börnum og menningu með því að senda póst á bornogmenning@gmail.com.
8. apríl 2010
Barnabækur vítt og breitt
Forsíða blaðsins er auðkennismynd barna- og unglingabókmenntahátíðarinnar Myndir úti í mýri, sem haldin verður í Norræna húsinu síðar í mánuðinum, en Áslaug Jónsdóttir hefur hannað myndina. Mýrarhátíð er nú haldin í fimmta skipti síðan 2001 en um er að ræða alþjóðlega bókmenntahátíð helgaða barna- og unglingabókmenntum og þema hátíðarinnar í ár er myndskreyttar bækur og tengsl mynda og texta. Helgina 24.-25. apríl verður Norræna húsið lagt undir opna dagskrá, fyrri daginn verður vöngum velt yfir fræðilegum atriðum, en þá munu fjórir fræðimenn og myndskreytar frá jafnmörgum löndum fjalla um tengsl texta og mynda í barnabókmenntum, en á sunnudeginum verður dagskrá fyrir börn, sem hefst kl. 11 með heimsókn Fíusólar, en síðan kynna íslenskir og erlendir höfundar verk sín og allt verður túlkað eða lesið á íslensku. Allir áhugasamir eru hvattir til að kynna sér málið á myrin.is, endanleg dagskrá dettur fljótlega inn á síðuna. Þarna má líka lesa heilmikið um gestina, en þeirra á meðal eru heimsfrægir höfundar og myndskreytar, nefna má Wolf Erlbruch sem skrifaði söguna um Moldvörpuna sem vildi vita hver skeit á hausinn á henni og Sven Nordqvist höfund bókanna um Pétur og köttinn Brand.
Ungir sem aldnir sem áhuga hafa á barnabókmenntum og myndlýsingum barnabóka eru hvattir til að taka helgina 24.-25. apríl frá og það má strax byrja að hlakka til.
P.S. Hægt er að panta áskrift að Börnum og menningu með því að senda línu á netfangið bornogmenning@gmail.com.
22. október 2009
Börn og menning - hausthefti 2009

Börn og menning kemur út tvisvar á ári en það er eina íslenska tímaritið sem tekur eingöngu til umfjöllunar menningartengt efni fyrir börn. Blaðið er gefið út af IBBY á Íslandi, sem er félagsskapur áhugafólks sem vill efla barnamenningu.
Ritstjóri Barna og menningar er Þórdís Gísladóttir. Beiðni um áskrift má senda á bornogmenning@gmail.com.
16. apríl 2009
Börn og menning á leiðinni

Meðal efnis má nefna stórskemmtilega grein Lönu Kolbrúnar Eddudóttur um teiknimyndapersónuna Tinna og höfund hennar Hergé. Arndís Þórarinsdóttir skrifar athyglisverða grein um Ljósaskipta-bækur Stephenie Meyer, sem eru umdeildar en hafa slegið í gegn og sú fyrsta kom út á íslensku fyrir skömmu. Tvær snjallar dömur sem skrifa á þessa síðu, þær Þorgerður E. Sigurðardóttir og Maríanna Clara Lúthersdóttir eiga greinar í blaðinu; grein Þorgerðar fjallar vítt og breitt um bækur sem höfða jafnt til yngri sem eldri lesenda en grein Maríönnu fjallar um bókina Strákurinn í röndóttu náttfötunum, sem tilheyrir flokki svokallaðra helfararbókmennta. Svo er auðvitað allskonar annað skemmtilegt efni í blaðinu, t.d. umfjöllun um nýlegar barnabækur, leikhús fyrir börn og ljósmyndasýningu í Þjóðminjasafninu.
Börn og menning, sem gefið er út af Íslandsdeild IBBY-samtakanna, kemur út vor og haust. Áskrift fyrir einstaklinga kostar 2800 krónur á ári og hægt er að gerast áskrifandi með því að senda póst á netfangið bornogmenning@gmail.com eða gera vart við sig í athugasemdakerfinu hér fyrir neðan.
5. desember 2008
Börn og menning

Meðal fjölbreytts efnis má nefna grein eftir Ármann Jakobsson um vinsælar bækur sem komu fyrst út á fimmta áratug síðustu aldar, greinin ber titilinn Adda trúlofast og Beverly Gray leitar að gulli; Í árdaga unglingabókanna á Íslandi. Anna Þorbjörg Ingólfsdóttir skrifar um svokallaðar skvísusögur og heitir grein hennar Dramadrottningar með beygluð og brotin hjörtu, Guðlaug Richter fjallar um nýjar bækur Jónínu Leósdóttur Kossar og ólífur og Svart og hvítt og ber grein hennar yfirskriftina Hinsegin unglingabækur um sanna vináttu, og Sigurður Ólafsson skoðar nokkrar bækur Helga Jónssonar og heitir hans innlegg Metsöluhöfundur barnanna; Afþreyingarbækur fyrir yngri borgara. Í blaðinu er einnig grein um bækur Kristínar Steinsdóttur sem gerast á Austurfirði og í Reykjavík og önnur um samkynhneigðar verur í heimi múmínálfa Tove Jansson. Þá er að vanda í Börnum og menningu fjallað um ýmsar nýútkomnar barnabækur.
Börn og menning, er eina íslenska tímaritið sem eingöngu fjallar um barnabókmenntir og annað menningartengt efni fyrir börn. Blaðið kemur út tvisvar á ári og ritstjóri er Þórdís Gísladóttir. Beiðni um áskrift sendist á netfangið bornogmenning@gmail.com.
Gerast áskrifandi að:
Færslur (Atom)