IBBY (skammstöfun fyrir International Board on Books for Young People) er alþjóðlegur félagsskapur áhugafólks sem vill efla barnamenningu, ekki síst með útbreiðslu vandaðra bóka fyrir börn og unglinga. Á Íslandi er starfandi öflug IBBY-deild, sem stendur fyrir fjölbreyttum viðburðum tengdum barnamenningu. IBBY á Íslandi er aðili að nýstofnuðu barnabókasetri við Háskólann á Akureyri, samtökin veita árlega svokallaðar Vorvinda-viðurkenningar fyrir barnamenningarstarf og einnig veitir IBBY á Íslandi reglulega verðlaunin Sögustein, einhverjum þeim sem auðgað hefur íslenskar barnabókmenntir með höfundarverki sínu. Þá gefa IBBY-samtökin á Íslandi út tímaritið
Börn og menning, sem er veglegt alþýðlegt fræðirit og eina íslenska tímaritið sem fjallar eingöngu um barnamenningu, en blaðið kemur út vor og haust.
Fyrir nokkrum dögum kom vorhefti
Barna og menningar 2012 inn um lúguna og þar er fullt af áhugaverðu efni. Framan á blaðinu er mynd eftir bandaríska myndabókahöfundinn Richard Scarry sem kallast á við grein Sölku Guðmundsdóttur inni í blaðinu undir yfirskriftinni „Vaknað í Erilborg“. Þar koma persónur Scarrys mjög við sögu ásamt ættingjum þeirra úr
Næturbók Mauri Kunnas og persónum úr ýmsum öðrum gamalkunnum barnabókum.
Grein Sölku, er byggð á erindi sem haldið var í bókakaffi (fastur liður í starfsemi IBBY eru þematengdar smáráðstefnur á kaffihúsum) í vetur, en þar var yfirskriftin
Nostalgía. Salka tekur skemmtileg dæmi af upplifunum úr eigin lífi og bendir réttilega á að bækur sem börn lesa hafa áhrif á veruleikaskynið á fullorðinsárum, hliðarheimar barnabókanna gefa lesendum færi á að upplifa raunveruleikann á súrrealískan, rómantískan, ævintýralegan og óvæntan hátt. Önnur grein í blaðinu fjallar um nostalgíu og yndislestur. Hún er eftir Jónínu Leósdóttur og hefur yfirskriftina „Aldinmauk og límonaði.“ Þar lýsir Jónína meðal annars langdvölum sínum á sjúkrahúsi þegar hún var barn og hvernig hún gleypti í sig fjölbreyttar bókmenntir og það eru ekki aldeilis tómar krúttbækur sem hún rifjar upp í greininni.
Helga Birgisdóttir á tvær greinar í blaðinu, önnur fjallar um skólabókasöfn og nauðsyn þess að hvatt sé til og stutt markvisst við yndislestur barna strax frá bernskuárum, en fram kemur að ýmiss konar misbrestur er á því. Þarna koma áhugaverðar upplýsingar um lestur barna fram, m.a. lesa 21% 15-16 ára unglinga aldrei bækur að nauðsynjalausu og 57% nemenda í 10. bekk gæti hugsað sér að hætta að lesa bækur. Hin grein Helgu er skrifuð í samvinnu við Sigríði Láru Sigurjónsdóttur, þar fjalla þær um
Önnu í Grænuhlíð, yfir hundrað ára gamla bók Lucy Maud Montgomery, en sú bók kemur innan skamms út í óstyttri þýðingu. Gamla íslenska útgáfan, sem er margföld metsölubók og hefur verið prentuð aftur og aftur, er stytt og eiginlega endursamin ef marka má greinina. Ég fékk vægt áfall þegar ég las að íslenski þýðandinn hefði ekki bara skorið bókina niður um marga kafla heldur hefði hann, upp á eigin spýtur, breytt bókinni þegar hann ákvað að láta Önnu sættast við Gilbert. Í frumtextanum er víst allt annað uppi á teningnum.
Að venju er fjallað um nýjar barnabækur og leiksýningar í
Börnum og menningu. Sigurður H. Pálsson skrifar um leiksýningarnar um
Litla skrímslið og stóra skrímslið og veglega er fjallað um
Rökkurhæðabækurnar,
Með heiminn í vasanum og
Hávamál. Svo er líka í blaðinu viðtal ritstjórans, Helgu Ferdinandsdóttur, við Oddnýju Sturludóttur borgarfulltrúa, um barnamenningarstarf á vegum Reykjavíkurborgar og Arngrímur Vídalín gagnrýnir íslensku barnabókaverðlaunin í pistli með yfirskriftina
Mér finnst ...
Allir sem hafa áhuga á barnabókmenntum og barnamenningu yfir höfuð ættu að lesa
Börn og menningu. Áskriftarbeiðnir (sem gera fólk jafnframt að félögum í IBBY) má senda á bornogmenning@gmail.com. Síðast þegar ég vissi kostaði minna en 3000 krónur á ári að vera félagi.
Engin ummæli:
Skrifa ummæli