24. maí 2012

Skáld og draugar í Lissabon

Saramago á gæðastund í garðinum.
Það hljómar ef til vill eins og einhver tegund masókisma að fyrsta bókin sem ég tók upp eftir að ég lauk þessari hrútleiðinlegu ferðabók eftir José Saramago (en kiljan sú hefur síðustu vikur þjónað þeim tilgangi að drepa ógeðslegar pöddur sem fylgdu vorinu í Lissabon) hafi verið önnur bók eftir sama höfund, Árið sem Ricardo Reis dó (O ano da morte de Ricardo Reis). Hana hafði ég hins vegar lesið áður og vissi því að hverju ég gekk, en af þeim þremur bókum sem ég hef lesið eftir Saramago er ég langsamlega hrifnust af henni. Blinda fannst mér fín en grundvallarkonseptið í henni var svo fyrirferðarmikið, það féllu öll vötn til blindunnar; í Árinu sem Ricardo Reis dó er sagan lausari í reipunum og höfundurinn leyfir sér fleiri ólíkindalega og ánægjulega útúrdúra.

Lesendur portúgalska ljóðskáldsins Fernando Pessoa kannast eflaust flestir við nafn Ricardo Reis. Eins og hæfir manni sem varð svo tíðrætt um sjálfið átti Pessoa sér fjölmörg yrkjandi hliðarsjálf sem hann gaf nöfn, persónueinkenni og æviatriði. Eitt af frægustu hliðarsjálfum hans var læknirinn Ricardo Reis, sem skrifaði löng, heimspekileg ljóð, en hann er aðalsöguhetjan í þessari skáldsögu Saramago. Hún gerist í Lissabon frá því í desemberlok 1935 fram á sumarið 1936, og hefst þar sem Ricardo Reis kemur siglandi frá Rio de Janeiro með gufuskipinu Highland Brigade eftir sextán ára dvöl í Brasilíu, en honum hafa borist þær fregnir að Fernando Pessoa sé látinn.

Þegar Ricardo Reis kemur til Lissabon sest hann að á Hótel Bragança. Hann hrífst af Marcendu, lögfræðingsdóttur með visinn handlegg sem dvelur á hótelinu meðan hún leitar sér lækninga í borginni, en byrjar á sama tíma að sofa hjá Lídiu, þjónustustúlku á hótelinu. Stuttu eftir að hann kemur til borgarinnar byrjar draugur Fernando Pessoa einnig að heimsækja hann frá sínum nýja dvalarstað í Prazeres-kirkjugarðinum. Eftir þriggja mánaða dvöl er Ricardo Reis kallaður í dularfulla yfirheyrslu hjá lögreglunni og eftir það virðist sem honum sé fylgt eftir af lögreglumanninum Victori, en af honum er svo megn lauklykt að hann verður að gæta sín á að haga staðsetningu sinni eftir vindátt svo þeir sem hann veitir eftirför þekki hann ekki á lyktinni. Eftir samskipti sín við lögregluna er Ricardo Reis ekki lengur vært á hinu virðulega Hótel Bragança svo hann leigir sér íbúð með húsgögnum og um tíma leysir hann af hjartalækni í nágrenninu. Hann íhugar ýmsa möguleika; að snúa aftur til Brasilíu, að koma sér upp læknastofu í Lissabon, en smám saman sekkur hann niður í nær algjört aðgerðaleysi, lokar sig af í íbúðinni og sefur heilu og hálfu dagana.


Pessoa stikar um götur
Lissabon - dauður eða lifandi?
Fræg ljóðlína eftir Ricardo Reis sem Saramago vitnar oft til í bókinni hljóðar svo: „Vitur er sá sem gerir sér sjónarspil heimsins að góðu“. Þetta er eins konar stefnuyfirlýsing Ricardo Reis; hann kýs frekar að vera áhorfandi að heiminum en þátttakandi í honum. Hann er skáldið sem fylgist með, menntamaðurinn sem er fyrir ofan og utan samfélagið.

Á sama tíma og Ricardo Reis dregur sig smám saman í hlé frá umheiminum lýsir bókin á lúmskt óhugnanlegan hátt uppgangi fasismans í Evrópu. Í Portúgal er Salazar kominn til valda, umsvif leynilögreglunnar aukast, ungir menn ganga unnvörpum í æskulýðsfylkingu einræðisins og stofnað er þjóðvarðlið í anda svartstakka. Á Spáni er borgarastyrjöldin í uppsiglingu og um tíma fyllist Hótel Bragança af ríkri spænskri yfirstétt með demanta á hverjum fingri á flótta undan rauðu hættunni. Hitler er á faraldsfæti á meginlandinu, Mussolini berst hetjulega við þá „ógn við vestræna siðmenningu“ sem er Eþíópía. Öllu þessu lýsir Saramago á kaldan og íronískan hátt, en Ricardo Reis les blöðin og ræðir málin við Lídiu og hinn framliðna Fernando Pessoa. Lídia hallast að kommúnisma eins og bróðir hennar sjóliðinn. Fernando Pessoa var þjóðernissinni á sinni tíð en í bókinni virðist dauðinn hafa gert hann nokkuð kaldhæðinn í þeirri afstöðu sinni. Sjálfur er Ricardo Reis yfirlýstur konungssinni en forðast greinilega að taka skýra afstöðu; Lídia sakar hann um að tala upp úr dagblöðunum.

Ricardo Reis heldur líka fjarlægð frá konunum tveimur, Lídiu og Marcendu. Í þeim samskiptum sjáum við hans breyskustu og óviðkunnanlegustu hliðar. Þegar hann talar við Marcendu fylgir hann siðareglum þeirrar stéttar sem þau tilheyra bæði; þau skiptast á bréfum, þéra hvort annað, halda yfirleitt háttvísri fjarlægð. Samræður þeirra eru háfleygar og stundum hálfþvingaðar. Hann yrkir til hennar ljóð um að sakna sumars sem er enn ekki liðið. Í rauninni efast hann stöðugt um að hann sé í raun og veru hrifinn af henni en er samt alltaf eitthvað að lufsast í kringum hana með ljóðrænar kenndir og lindarpenna.

Ricardo Reis lætur sér ekki detta í hug að yrkja ljóð til þjónustustúlkunnar Lídiu. Þó er nafn hennar komið frá músunni Lídiu sem Fernando Pessoa orti til í nafni Ricardo Reis á sínum tíma; konu sem var aðeins til sem fjarlæg, ljóðræn ímynd. Lídia Saramagos er ekki mjög músuleg, þvert á móti er hún nálæg og líkamleg persóna og einmitt í krafti þess verður til ákveðin nánd milli hennar og Ricardo Reis. Félagslega eru þau ekki jafningjar – hún þérar hann alltaf, hann þúar hana – en að nokkru leyti hefur Lídia meira frelsi í samskiptum sínum við Ricardo Reis en Marcenda; meydómur þjónustustúlku er ekki jafn dýrmætur og meydómur lögfræðingsdóttur. Eftir að Ricardo Reis flytur af hótelinu fer Lídia reglulega heim til hans til að sofa hjá honum og þrífa hjá honum í leiðinni, eða þrífa hjá honum og sofa hjá honum í leiðinni. Hann hefur ekki áhyggjur af því að vera búinn að raka sig eða setja á sig bindið þegar hún kemur í heimsókn, samræður þeirra eru afslappaðar og heimilislegar. Lídia er sennilega sterkasta persóna bókarinnar, það er næstum því hetjublær yfir henni; hún er greind, sjálfstæð, dugleg, góð, hugrökk og réttsýn. Þótt Ricardo Reis meti hana lengi vel ekki að verðleikum gerir Saramago það greinilega og hún lætur doktorinn ekki eiga neitt inni hjá sér.

Styttan af risanum Adamastor á Santa
Catarina-hæðinni. Það er skemmtilegasti
útsýnisstaðurinn í Lissabon, eins og
þessir ungu piltar vita.
Árið sem Ricardo Reis dó er kirfilega staðsett í portúgalskri sögu og bókmenntum. Ekki einungis er Fernando Pessoa og höfundarverk hans miðlægt í frásögninni heldur einnig önnur stórskáld Portúgala, til dæmis 16. aldar skáldið Luís de Camões. Sá er nálægur bæði í efni og anda; til dæmis hefst bókin og endar á vísun í söguljóð hans Os Lusíadas, og Ricardo Reis gengur oft framhjá styttunni af skáldinu á samnefndu torgi, sem og hinni svipljótu en sjarmerandi styttu af risanum Adamastor, sem er persóna í Os Lusíadas. Þótt það sé alls ekki nauðsynlegt er mjög gaman að lesa bókina meðan eða eftir að maður hefur verið í Lissabon og rekja sig um söguslóðirnar í Chiado-hverfinu. Bókin hafði meira að segja óþarflega mikil áhrif á hugmyndir mínar um borgina; allan fyrri helming bókarinnar rignir eins og hellt sé úr fötu og Ricardo Reis er alltaf rennandi blautur í fæturna, svo ég gætti þess sérstaklega að taka með mér anorakk, regnhlíf og gúmmístígvél, sem ég notaði svo varla nokkurn tímann enda veturinn 2012 sá þurrasti í langan tíma. Svona er að láta veturinn 1936 villa sér sýn.

Engin ummæli: