15. desember 2016

Setur allt á hvolf og gerir allt svo sýnilegt og berskjaldað: Viðtal við Elínu Eddu

Kjarni epla
er harður.
Kjarni lífsins
er harðari.
Þess vegna
á að bíta laust í kring
og mæta hörðu með mýkt.

Tennur vita
margt.

Þær kenna mér
eitt og annað:

Bíta saman.

Stefnan er
einhvers staðar
á milli okkar.

Ljóðið Stefnuleit er að finna í nýlegri ljóðabók skáldsins Elínar Eddu, Hamingjan leit við og beit mig, sem kom út hjá Meðgönguljóðum í haust (en þess má geta að Elín Edda stundar nám í grafískri hönnun við Listaháskóla Íslands og hefur líka gert stórfallegar bókakápur fyrir Partus, yfirútgáfu Meðgönguljóða). Druslubækur og doðrantar tóku Elínu Eddu tali um nýju bókina hennar.

Sæl Elín Edda, til hamingju með nýju bókina! Þú hefur gefið út tvær bækur áður – myndasögurnar Gombra og Plöntuna á ganginum (sem Salka skrifaði um hér). Var það öðruvísi reynsla að gefa út ljóðabók? 

Sæl Kristín Svava og kærar þakkir fyrir.

 Já, það var svolítið öðruvísi. Ég gaf líka myndasögurnar út hjá Nóvember, sem er myndasöguútgáfa sem við Elísabet Rún, systir mín, rekum. Plöntuna á ganginum skrifaði ég og teiknaði með Elísabetu og við sáum sjálfar um allt í tengslum við útgáfuna. Gombri er síðan hugarfóstursonur minn sem varð að mjög persónulegu verki, myndasögunni Gombra.

Ljóðabókin Hamingjan leit við og beit mig finnst mér agaðri að forminu til. Ég hugsaði líka ekki um útlit hennar. Mér fannst að vissu leyti erfiðara að koma fram sem ljóðskáld. Ég leyndi því t.d. lengi að ég væri að skrifa ljóð.

Og er ljóðagerðin öðruvísi en mynd- og myndasögulistin – ertu að nota sömu stöðvarnar í heilanum? Hefurðu verið lengi að skrifa ljóð? 

Mér finnst hugmyndirnar koma frá stað sem ég kalla undirmeðvitundina. Ég treysti mikið á hana. Textinn í myndasögunum kemur yfirleitt eins og ljóðin. Undirmeðvitundin veit hvað ég er að bralla hverju sinni og frá henni koma textar við myndir eða ljóð.

Mér finnst myndirnar sem ég geri oft byggðar á tilraunastarfsemi og mistökum. Myndlistin er meira tengd líkamanum.

25. nóvember 2016

Að veigra sér ekki við að vera viðkvæmur og opinskár: Viðtal við Jónu Kristjönu Hólmgeirsdóttur

veröldin hverfur
bak við snjóþekju
á gluggum

hverfa bílar
hverfa strætóskýli

í takt við vindinn
dansa blýantar
á hvítum pappír

hverfa götur
hverfur fólk

eftir örskamma stund
boða ljóðin brottför
upp til skýjanna

Í byrjun október komu út þrjár nýjar ljóðabækur í seríunni Meðgönguljóð undir merkjum forlagsins Partusar, sem er að verða einn afkastamesti ljóðaútgefandi landsins. Ein af þessum bókum er Skýjafar eftir Jónu Kristjönu Hólmgeirsdóttur sem hefst á ljóðinu hér í upphafi: För. Druslubækur og doðrantar tóku þetta nýbakaða ljóðskáld rafrænu tali á dögunum.

Sæl Jóna Kristjana og til hamingju með nýju bókina! Skýjafar er þín fyrsta ljóðabók hefurðu verið að skrifa ljóð lengi? 

Sæl Kristín Svava, þakka þér kærlega fyrir og takk fyrir að taka mig í viðtal. Ég held ég hafi fengið virkilegan áhuga á ljóðaskrifum þegar ég var unglingur, svona ellefu, tólf ára, en ég hef skrifað allskyns texta síðan ég var stelpa. Þegar ég var fimm eða sex ára fengum við tölvu á heimilið og ég varð alveg heilluð af Microsoft Word. Eftir það þurftu foreldrar mínir lítið að hafa fyrir mér, held ég.

Skrifarðu líka annars konar texta? Hvað er það við ljóðformið sem höfðar til þín? 

Ég er í BA-námi í íslensku HÍ með ritlist sem aukagrein og námið mitt snýst því mikið um að skrifa. Þar fæ ég tækifæri til að skrifa smásögur, örsögur, ljóð og jafnvel leiktexta, en líka ritgerðir og annan hagnýtan texta og mér finnst það ekki síður skemmtilegt. Ég hef prófað að skrifa smásögur og byrjaði á mörgum skáldsögum þegar ég var yngri en kláraði þær aldrei. Mér finnst ég hafa meira frelsi þegar ég skrifa ljóð, þar er ekki gerð krafa um söguframvindu eða lógik. Ég hef alltaf verið afspyrnu léleg í því að fylgja þræði og heillast t.d. meira af myndvísi og góðri persónusköpun í skáldsögum en hasarspennandi söguþræði. Eitt ljóð getur verið heimur út af fyrir sig. Þess vegna heilla ljóðin mig.

22. nóvember 2016

Sprækir bangsafeðgar gleðja fullorðna og börn!

Þriðja kvöldið í röð er ég beðin um að lesa “skemmtilegu bókina um bangsana” og það er auðsótt mál því þótt ég verði mögulega orðin örlítið leið á bókinni eftir þrjátíu skipti í viðbót er enn nóg að skoða og margt nýtt til að taka eftir við hvern lestur.

Nú fyrir jólin gefur hið glænýja bókaforlag Angustúra út stórskemmtilega barnabók eftir hinn franska Benjamin Chaud. Bókin ber nafnið Bangsi litli í sumarsól og það er Guðrún Vilmundardóttir (sem einnig var að stofna nýtt bókaforlag – Benedikt, allt að gerast í bókaforlaga bransanum) sem þýðir yfir á hið ástkæra ylhýra. Chaud þessi er margverðlaunaður barnabókahöfundur og hefur gert nokkrar bækur um spræku bangsa-feðganna sem eru aðalsöguhetjurnar í Bangsa litla í sumarsól. Sú fyrsta þeirra, Une chanson d'ours (sem mætti þýða sem Söngur bjarnarins) spratt upp úr óperuplakati sem Chaud var fenginn til að teikna og hefur hún notið gríðarlegra vinsælda og verið þýdd á yfir 20 tungumál. Í skemmtilegu viðtali sem lesa má hér segist höfundurinn teikna margar litlar myndir, litlar sögur og raða þeim svo saman í eins og púsluspili. Það liggur því í augum uppi að vinnan við hverja mynd hlýtur að vera gríðarleg og sjálfur segir höfundurinn: „[…] sometimes I ask myself, “What possessed me to make a book with so many people and details?”… and then I draw someone I know, doing something silly in the corner of a page, and I end up laughing to myself over my work.“

11. nóvember 2016

„Þess vegna lokaði ég sársaukann inni og fór“ – af æviminningum Ástu Sigurbrandsdóttur

Bókadruslan sem hér pikkar á lyklaborð varði febrúarmánuði síðastliðnum í Sysmä, um 4 þúsund manna bæ tæpa 200 kílómetra norður af Helsinki. Þar var:

- mikið af snjó
- enn meira af trjám
- mýgrútur af sumarbústöðum niðri við
- mjög stórt stöðuvatn
- tveir veitingastaðir (sem voru lokaðir á kvöldin (þó að sennilega gegni öðru máli um sumarkvöld))
- einn bar (sem er samt eiginlega rútubiðstöð sem selur kaffi og meððí og áfengi, og var heldur ekki opinn á kvöldin)
- eitt hótel
- engir sjáanlegir ferðamenn
- reisulegt timburhús að nafni Villa Sarkia, byggt við upphaf síðustu aldar sem íbúðarhús bankastjóra bæjarins en þjónar nú hlutverki residensíu fyrir þýðendur og rithöfunda og þar sem ég hafði sem sagt fengið að dvelja um mánaðartíma
- huggulegt bókasafn
- sundlaug
- og notaleg bókabúð, þar sem var nokkuð gott úrval og útsala allan febrúar (úps).

Villa Sarkia og snjókerla.
Við komuna til Sysmä vissi ég fátt um bæinn annað en að hann er fæðingarstaður tangósöngvarans virta Olavi Virta, og svo hafði ég líka haft spurnir af því að þarna hefði um hálfrar aldar skeið búið íslensk kona að nafni Ásta Sigurbrandsdóttir og að ævisaga hennar hefði komið út á Íslandi. Þetta vakti áhuga minn, eins og tengingar milli þessara tveggja landa gera reyndar almennt, enda bjó ég sjálf í Finnlandi og kem þangað reglulega – og svo eru Íslendingar heldur ekki á hverju strái í finnskum smábæjum eða í borgunum heldur ef út í það er farið, miðað við t.d. í hinum norrænu löndunum: árið 2011 voru tíu þúsund stykki búsett í Danmörku samkvæmt Þjóðskrá, tæp sjö þúsund í Svíþjóð og álíka í Noregi, en tvö hundruð og sex í Finnlandi.
           
Ég vonaðist sem sagt til þess að fá meira að heyra um Ástu Sigurbrandsdóttur og hennar sögu þarna í Sysmä, og sjá: þegar ég hafði dvalið í Villa Sarkia í tæpa viku var póstkorti stungið inn um bréfalúguna.

8. nóvember 2016

Þessa stund sem við eigum: Ingibjörg Haraldsdóttir látin

Núna

Einhverntíma seinna
koma þeir eflaust
með tækin sín
að snuðra í rústunum

verða margs vísari
um okkur:
þetta undarlega fólk
fyrri tíma

eflaust verða tækin þeirra
fullkomin, þekking þeirra
óskeikul

aldrei finna þeir samt
það sem máli skiptir:
þessa stund sem við eigum
núna


(Höfuð konunnar, 1995)

21. október 2016

Ljóðskáldið er ljón sem öskrar á heiminn

Elgtanaður handrukkari kemur úr fangelsi og ræður sig í vinnu á elliheimili. Þar kynnist hann gömlum hrotta á lokametrunum og saman halda þeir til Hafnar í Hornafirði til að gera út um gamla skuld. Á leiðinni borða þeir pylsur, taka tuddalega lyftingaæfingu á Kirkjubæjarklaustri, sofa hjá norskum túristamæðguskvísum, eru lamdir af færeyskri áhöfn, hjálpa bæjarstýru sem er með bakið upp við vegg og að endingu deyr sá yngri – sá eldri urðar hann í Skógafossi. Að því loknu brotnar hann niður, í frumeindir.

Eftir tæplega fjögurra mánaða síðsumars- og snemmhaustfrí snýr ljóðaviðtalaröð Druslubóka og doðranta aftur með viðtali við Halldór Laxness Halldórsson, einnig þekktan sem Dóra DNA, en hann gaf út sína fyrstu ljóðabók í fyrra: Hugmyndir: Andvirði hundrað milljónir. (Undirtitill: Lítil atvik – mikil eftirmál.) Bókin kom fyrst út hjá Tunglinu en síðan í viðbættri útgáfu hjá Bjarti. Ein hugmyndanna í bókinni er sú sem birtist hér í upphafi: Hugmynd að skáldsögu #2.

Sæll og blessaður, takk fyrir að vera til í að koma í viðtal um Hugmyndir: Andvirði hundrað milljónir! Hvaðan kemur þessi titill? Maður hugsar yfirleitt ekki um ljóð og hundrað milljónir í sömu setningunni. 

Ég er ástfanginn af hugmyndum. Því þær eru alltaf sprottnar úr engu, en geta svo breytt heiminum - eða eitthvað. Ég er hugmyndaríkur gæi og get baunað þeim út úr mér, en það geta svo sem allir kannski. Þess vegna fannst mér svo gott að staðsetja mig einhvernveginn fyrir ofan alla aðra. Mínar hugdettur eru virði milljóna – ekki þínar.

Þetta er líka tónninn í bókinni. Húsið mitt er betra en þitt. Ég elska bílinn minn meira en þú elskar bílinn þinn. Harmar mínir eru miklu dýpri og verri en þínir. Ég er sérstakari en þú, þó ég sé hræddur og einmana og ráðvilltur.

Þetta er einhvernveginn dýnamíkin í bókinni og kannski mitt helsta hugðarefni. Að berskjalda sig um leið og maður ber sér á brjóst.

16. október 2016

Morð er morð er morð

Fyrir sex árum síðan (ó, hvað tíminn flýgur) las ég og bloggaði hér um ævisögu sem hefur orðið mér óvenju eftirminnileg: Secret Historian. The Life and Times of Samuel Steward, Professor, Tattoo Artist, and Sexual Renegade eftir Justin Spring. Fyrir manneskju sem er veik fyrir bókmenntasögu, hinsegin sögu, skráningarsögu, klámsögu, húðflúrum og trega er Samuel Steward ómótstæðileg týpa; þessi maður sem var víðlesinn bókmenntaprófessor í Ohio og Chicago, gerðist svo húðflúrlistamaður á vesturströndinni, stundaði mikið kynlíf með mörgum mönnum og hélt því öllu til haga í sérstakri spjaldskrá sem kynlífsrannsakandinn Kinsey tók fagnandi (gott ef hann fékk ekki að vera fluga á vegg í einhverjum orgíum líka), og fór svo á endanum að skrifa hommaklám undir hinu lærða grískættaða höfundarnafni Phil Andros (philia = ást, andro = karlmaður).

Ég náði mér í nokkrar bækur eftir Phil Andros í Samtökunum ´78 í fyrra, þegar verið var að selja bækur af bókasafni félagsins sem var leyst upp árið 2014. Stór hluti safnsins er hins vegar kominn á Borgarbókasafn Reykjavíkur og uppi á 2. hæð á aðalsafninu í Grófinni er sérmerkt hilla með fjölbreyttu úrvali hinsegin bóka. Fyrir tveimur vikum sá ég þar aðra bók eftir sama höfund – reyndar undir sínu rétta nafni, Samuel Steward – sem erfitt var að taka ekki eftir, svo gul er kápan og titillinn æpandi: MURDER IS MURDER IS MURDER. Hvaða bók var þetta? Jú, að sjálfsögðu var það leynilögreglusaga með Gertrude Stein í aðalhlutverki.

5. júlí 2016

Vinur og bjargvættur almúgans: Viðtal við Lubba klettaskáld

ég gaf þér koss um daginn
engan mömmukoss
en þetta var enginn sleikur samt
hann var meira fallegur
en heitur
alls ekki of langur
og alveg passlega stuttur
ætli hann hafi ekki staðið
yfir í um fjórar sekúndur

og þú fékkst gæsahúð og alles
þannig að hann hlýtur
að hafa verið frekar góður

en samt ertu núna að reyna að
selja hann fyrir slikk á barnaland.is

Á síðasta ári leit dagsins ljós á Egilsstöðum bókaforlagið Bókstafur og þetta nýja forlag tók þátt í ljóðabókaflóðinu 2015 með tveimur bókum. Önnur þeirra er ljóðabókin Skapalón eftir hið gamalreynda austfirska klettaskáld Lubba, öðru nafni Björgvin Gunnarsson. Lubbi er viðmælandi vikunnar í ljóðskáldaviðtalaseríu Druslubóka og doðranta og ljóðið sem birtist hér í upphafi, kossinn 3, er úr nýjustu bókinni hans.

Sæll, Lubbi, takk fyrir að vera til í að koma í viðtal! Hvaðan kemur þetta nafn annars – Lubbi klettaskáld? 

Sæl Kristín Svava og þakka þér kærlega fyrir að taka þetta viðtal við mig, alltaf gaman þá sjaldan slíkt gerist.

Pabbi minn, Gunnar Finnsson gaf út hina frábæru ljóðabók ljóðmæli árið 1970. Hann notaðist við skáldanafnið gunnarr runolfr og bókina skýrði hana ljóðmæli vegna þess að áður fyrr voru yfirleitt aðeins tvö nöfn á ljóðabókum, Ljóðmæli og Kvæðakver.

1. júlí 2016

Hælið - hægur en óþægilegur andskoti

eins og auka persóna í Emil í Kattholti


Hinn sænski Johan Theorin er óvenjulegur reyfarahöfundur að sumu leyti. Fyrri bækur hans sem þýddar hafa verið á íslensku gerast allar á Ölandi – næst stærstu eyju Svíþjóðar - sumarleyfisstað sem er afskekktur og hálf yfirgefinn nema yfir sumarmánuðina, en þaðan á höfundur sjálfur ættir að rekja. Hér má nefna Hvarfið, Náttbál, Steinblóð og Haugbúa en um einhverjar þeirra fjalla ég hérna. (Þess má til gamans geta að eins og Mons Kallentoft gerir í spennusögum sínum sem ég fjalla m.a. um hér – þá helgar Theorin hverja bók einni árstíð. Ólíkt Kallentoft reynir hann þó ekki að búa til fimmtu árstíðina heldur finnur sér nýtt viðfang eftir fjórleikinn.) Sögusviðið í Hælinu – sem Ugla gaf út nú á dögunum – er smábær á vesturströnd Svíþjóðar.

Í glæpasögum Theorin fylgjumst við ekki með lögreglumönnum eða spæjurum af nokkru tagi heldur eru óbreyttir borgarar alltaf í aðalhlutverki. Í Ölands-bókunum stakk sama fólkið oft upp kollinum – t.d. gamli skipstjórinn Gerlof Davidsson sem var í aðalhlutverki í Hvarfinu en aukapersóna í sumum hinna bókanna - en hér eru allar persónur nýjar, enda sögusviðið nýtt. Annað sem einkennir bækur Theorin er hraðinn – eða öllu heldur skortur á honum. Þeim vindur hægt fram og hugnast sjálfsagt ekki öllum spennuþyrstum lesendum en mér finnst þó höfundurinn kunna þá list að vekja manni óhug betur en margir kollegar hans. Theorin er líka nokkuð lunkinn við að skapa sannfærandi persónur sem ekki allir reyfarahöfundar geta státað af. Í öllu falli hef ég aldrei staðið mig að því að hraðlesa Theorin. Svo er Hælið líka prýðilega þýtt af Elínu Guðmundsdóttur svo ekki þarf heldur að hlaupa yfir textann af því hann sé svo slæmur!!

24. júní 2016

Mig langar ekki að skrifa eitthvað svona nja-nja-nja: Viðtal við Þórdísi Gísladóttur

Fólk sem býr í heilsueflandi sveitarfélagi
þar sem börnin eru með eplakinnar,
morgunfrúr blómstra í kerjum
og bæjarskáldið skokkar á göngustíg,
fær stundum tómleikatilfinningu
og langar að stíga svo þungt til jarðar
að gangstéttarhellur molni.

Druslubækur og doðrantar seilast ekki langt yfir skammt í ljóðskáldaviðtali vikunnar: viðmælandinn er okkar eigin Þórdís Gísladóttir. Hún gaf út sína þriðju ljóðabók, Tilfinningarök, síðastliðið haust, en áður hafa komið út eftir hana ljóðabækurnar Leyndarmál annarra (2010) og Velúr (2014). Viðtalið hefst á broti úr síðasta hluta nýjustu bókarinnar, ljóðinu Til huggunar.

Hæ, Þórdís, velkomin í þetta hreinræktaða druslubókaviðtal! 

Takk og hæ, er ekki næs hjá þér þarna undir Eyjafjöllum?

Jú, það er prýðilegt, takk. Búin með Reisubók séra Ólafs Egilssonar og Önnu á Stóru-Borg og byrjuð á Fjósakona fer út í heim (það hefur nú aldeilis verið týpa) – ætli það séu einhver ljóð úr sveitinni sem maður þarf að kanna?

Þorsteinn Erlingsson fæddist á Stóru-Mörk undir Eyjafjöllum. Þú þarft að lúslesa hann, já og raula „Fyrr var oft í koti kátt“ fyrir túristana sem koma til þín á safnið.

Já, við erum einmitt með Þorsteinsstofu hér á Skógasafni, og svakalega brjóstmynd af skáldinu, hann er eins og grískur guð nema stæltari og skeggjaðri. En að nýju bókinni, hinu eiginlega umfjöllunarefni viðtalsins. Mig langaði til að byrja að spyrja þig hvaðan titillinn kemur – Tilfinningarök

Tilfinningarök er hugtak sem er búið að hringla í hausnum á mér mjög lengi. Ég held að ég hafi kynnst því í kjallaragrein eftir Vilmund Gylfason og þar kom íslensk landbúnaðarstefna við sögu. Orðið tilfinningarök er örugglega mjög ungt, á timarit.is finnast bara örfá dæmi um það fram til 1980, það eru miklu fleiri og eldri dæmi um meinta andstæðu þess; skynsemisrök. Sumir slá gjarnan hugmyndir út af borðinu með því að segja að þær byggi á tilfinningarökum og ef manneskjan sem á smá sprett í Tilfinningarökum og geymir pökkuðu íþróttatöskuna undir rúmi færi í hugræna atferlismeðferð þá yrði henni mögulega leitt fyrir sjónir að hún væri með hugsanaskekkju sem byggir á tilfinningarökum og kennt að losa sig við þessa tilfinningu og töskuna með. En svo eru margir sem segja að tilfinningarök séu góð og gild rök og að ákvarðanir sem byggðar eru á tilfinningarökum séu ekki verri en hinar sem byggja á svokölluðum skynsemisrökum. Að nota Tilfinningarök sem titil á þessa bók má segja að sé leikur við lesandann og um leið vísun í sögupersónur bókarinnar. Svo má alveg leika sér með orðið, við verðum mörg rök þegar tilfinningar eru í spilinu ...

15. júní 2016

„Er þetta fugl?“ Bókin hans Breka lesin

Ég á veglegt barnabókasafn frá æsku minni og er líka dugleg að fara í Kolaportið og finna þar eitthvað dásamlegt rarítet, löngu uppseldar bækur sem ég elskaði sem barn. Eins og margir foreldrar hef ég mjög gaman af því að kasta mér í faðm nostalgíunnar og lesa klökk fjársjóði barnæskunnar fyrir son minn – og það er hið besta mál – maður verður bara að gæta þess að fortíðarþráin komi ekki í veg fyrir að maður sjálfur sem og börnin – kynnist nýrri klassík – því hún er jú alltaf í fæðingu. Þess vegna er gott að fara oft í bókabúðirnar og á bókasöfnin og blaða í nýútgefnum barnabókum. Þetta gerðum við sonur minn um daginn og fundum afskaplega skemmtilega bók sem forlagið gaf út nú í ár eftir Hrefnu Bragadóttur sem nefnist Bókin hans Breka. Bókin er útskriftarverkefni Hrefnu úr MA-námi í barnabókamyndskreytingu í Cambridge School of Art og hefur nú þegar komið út í fjölmörgum löndum svo sem Englandi, Hollandi, Rússlandi, Kína og Nýja-Sjálandi. Þetta er fyrsta barnabók höfundar en Hrefna hefur unnið að hreyfimyndagerð fyrir sjónvarpsstöðvarnar BBC og Nickelodeon meðfram námi. Hér er hægt að lesa skemmtilegt viðtal við Hrefnu þar sem hún segir m.a. frá því að henni finnist skemmtilegast að teikna furðulegar verur sem skeri sig úr hópnum og séu dálítið óöruggar með sig. Hin viðkunnalegi Breki telst svo sannarlega til þeirra.

12. júní 2016

Nokkrar þvældar blaðsíður um það sem skiptir máli



Ég var á Akureyri um daginn og sat á spjalli við nokkrar konur um verðmæti og möguleika hins fallega listagils, þegar ein segir: „Fróði, þessi fornbókabúð – hún verður að fara. Hún er aldrei opin!“
Einmitt þetta atriði er eitt af því sem gerir Fróða hvað verðmætastan. Í samtímanum þar sem flestar vörur er hægt að fá allan sólarhringinn, hver klukkutími okkar gjarnan vel skipulagður eftir skapalónum sem nýfrjálshyggjan, tækninýjungar og hamingjukvöðin hafa lagt blíðlega yfir daga okkar svo við tókum varla eftir því. Þú hefur kannski áætlað að verja 35 mínútum af hinum átta klukkustundum þínum (hugtak yfir þær klukkustundir í sólarhringnum þegar þú ert ekki að sofa og ekki að vinna) í Fornbókabúðinni Fróða en allt skipulagið fer í vitleysu því þú getur ekki gengið að hinum þó óvenjulegu opnunartímum búðarinnar sem vísum. Þegar þú svo rambar á opna búðina þá gleymirðu stað og stund, mætir ekki í vinnuna, gleymir boðinu sem þú varst á leiðinni í, missir af löngu ákveðnum skíðadegi í Hlíðarfjalli.

Fyrr sama dag hafði ég lent í svona tíma- og aðstæðutapi. Konan mín varð að fara ein í hádegismat að fagna frumsýningardegi, sem henni þótti reyndar bara spennandi. Ég fór út úr Fróða með nokkra gripi sem fyrir mér hafa óviðjafnanlegt verðmætagildi. Fyrsta sem ég geri þegar ég kem inn í ofurhlaðna búðina er að leita í gömlum útfylltum tilefniskortum. Ég hef í mínum síðustu ferðum í Fróða komið mér upp safni sem ég dreg fram þegar mér finnst tengingin við raunveruleikann vera við það að bresta. Mig langar að deila þeim með ykkur þar sem þessi þráður er þunnur um þessar mundir en ég hef breytt nöfnunum á kortunum þó að þau séu líklega öll fyrir löngu farin að prýða veðurbarða legsteina.

Jólin 1978
Kæra Dísa! og aðrir sem hjá þér kunna að vera úr fjölskyldunni
Gleðileg jól og farsælt komandi ár
Fréttalítið héðan og fábreytt eins og vera ber á elliheimilum.
Heilsufarið sæmilegt eftir aðstæðum en þróttur minnkar.
Þökkum þér allt gott og sendum kærar kveðjur,
Erla og Davíð.


Jólin 1979
Einlægar jóla og nýárskveðjur, þökk fyrir liðin ár.
Fréttir fáar héðan af karli og kerlingu.
 – Hún lasnari innvortis uppá síðkastið – Á að fara í myndartöku.
Ekkert sést né heyrst frá Guðríði.
Innil. kveðjur frá Erlu og Davíð.

Jólin 1978
Beztu óskir um Gleðileg jól og gott og farsælt komandi ár.
Ég bankaði uppá hjá þér í sumar, en ég var 3 daga fyrir norðan. Þú hafðir skroppið
suður með Ragnheiði. Ég hringi á dyrabjölluna næst þegar ég á leið um, vona að við
sjáumst þá – með vorinu.
Kær kveðja frá mér og mínum mönnum, Dídí.

Annað merkilegt fann ég á dögunum. Gamalt tilefniskort. Á því var mynd af karli með háan hatt, rautt nef og sígarettu í hendinni. Hendurnar bentu bjóðandi eitthvert út fyrir ramma kortsins.

Textinn framan á segir:
Ef þú heldur að þú hafir aldur til…
og innan á kortinu heldur áfram:
… þá skal ég kynna þig fyrir kroppunum
….. ha! ha! …
Til hamingju

En enginn hafði fundið tilefni til að gefa kortið aðstandanda (á mörkum lögaldurs), og stendur það óútfyllt og gleymt. Óræði hláturinn hljómar lengi í höfði þess sem handleikur kortið.

Ég fann bók sem ég hef dálítið leitað að, Áróra og pabbi sem er gefin út á svipuðum tíma og gömlu konurnar skrifuðu á fallegu blómakortin hér að ofan. Eitt meginstefið í þessari dásamlegu bók er símaklefinn í hverfinu sem sögupersónurnar eru nýfluttar í. Þær standa lengi í röð til að fá að komast að í símann. Sögupersónan röltir líka margoft út í hverfisbúðina, um fimm ára stúlka. Afgreiðslufólkið þekkir hana með nafni. Íbúar í stigaganginum þar sem sögupersónurnar búa eru mjög umhyggjusamir þegar ein þeirra fer á spítala.
Ég fann líka bók í seríunni Keðjubækurnar, ljósblár rammi á kápum þeirra, um kisur, og gaf lítilli vinkonu minni. Blaðsíðurnar voru margar hverjar límdar saman og aðeins búið að lita innan í bókina.

Staðir eins og Fróði grafa undan ofurafli skipulagningar, dugnaði, skynsemi, framleiðni, stundvísi; öflunum sem rífa töfrana úr lífum okkar, beina sjónum okkar frá því sem skiptir máli. Slíkir staðir eru á hverfanda hveli. Það á vel við að taka strætisvagn yfir heiðarnar til þess eins að vona að þú sjáir opna hurðina hjá Fróða.



Gestapenni: Eva Rún Snorradóttir

10. júní 2016

Ofbeldi á Fimmtu árstíðinni



Nú nýverið kom út hjá Uglu sænski reyfarinn Fimmta árstíðin eftir Mons Kallentoft – enda sumarið handan við hornið og þá fara líkin (þau prentuðu) jafnan að hlaðast upp. Fimmta árstíðin er fimmta bókin í flokknum um Malin Fors og félaga hennar á lögreglustöðinni í Linköping og ég hef lesið allar hinar - sem hverfast einmitt um árstíðirnar fjórar – Þorgerður skrifar um Vetrarblóð hér. Mér finnst Mons svolítið búinn að mála sig út í horn með tema og nafnið Fimmta árstíðin gengur ekki fullkomlega upp en samkvæmt bókinni vísar það (m.a.) til þess tímabils þegar sumarið er næstum komið en samt verður kalt og rignir og fólk veit ekki hvernig það á að klæða sig...nú veit ég ekki hvernig þetta er í Svíþjóð en hér á Íslandi heitir þetta bara vor. Nánari rannsókn á veraldarvefnum leiðir svo í ljós að Mons hefur guggnað á sjöttu árstíðinni og í næstu þremur bókum um Malin er kominn nýr vinkill en þær heita eftir frumefnunum fornu: Vattenänglar, Vindsjälar og Jordstorm – sem myndi útleggjast (í klunnalegri þýðingu minni) sem Vatnaenglar, Vindsálir og Jarðstormur.

5. júní 2016

Ég hef aldrei verið hagvön í svokölluðum „raunveruleika“: Viðtal við Guðrúnu Hannesdóttur

grafin heit
rjúkandi fylgja

og blóðlifrar
í myrku skauti

stjörnurnar opna nálaraugu sín
loka þeim jafnharðan aftur

jafnvel sú birta
er mér of skær

einhver stendur
á hrímfaldi mínum
eitthvað tefur mína för

(skítug klóför
falin í snjónum)

Druslubækur og doðrantar halda áfram að birta viðtöl við ljóðskáld sem gáfu út bækur á síðasta ári. Viðmælandi vikunnar er Guðrún Hannesdóttir og ljóðið berangur sem birtist hér í upphafi er úr hennar fimmtu ljóðabók, Humátt. Bókin kom út hjá Sölku fyrir jól, en fyrir hana var Guðrún tilnefnd til Fjöruverðlaunanna 2016.

Þú gafst út þína fyrstu ljóðabók, Fléttur, árið 2007, og síðan hefur þú gefið út fjórar ljóðabækur í viðbót. Varstu löngu byrjuð að skrifa ljóð þegar Fléttur kom út eða varstu bara að byrja á því þá? Hvernig kom það til? 

Ljóðin mín fóru að spretta fram um 2005 þegar ég tók mér hlé frá barnabókaskrifum og myndskreytingum. Öll mín verk verða til af grunsamlegum skorti á ásetningi og umhugsun, eiginlega bara af einskærri ánægju og þörf til að ögra sjálfri mér í laumi. Að vísu er ég og hef alltaf verið ofurseld orðum, hrynjandi og „anda“ tungumálsins svo ég sé hátíðleg, en ég hafði þá aldrei skrifað ljóð, bara lesið þau svona eins og hver annar. En mér hafði nokkuð lengi ofboðið hvað ég var viss í minni sök um misjafnt ágæti ljóða annarra og hugsaði þá að ég hefði gott af því að reyna sjálf að yrkja, og það varð örlagaríkt, fimm ljóðabækur og sú sjötta á leiðinni, svo ekki leiðist mér þetta! Ég les mikið og skrifa mikið en hugsa ekki um sjálfa mig sem „skáld“, hvað þá „Skáld“, og leiðist heldur öll flokkunarárátta.

Þú ert líka myndlistarmaður og hefur meðal annars myndskreytt bækur sem þú hefur skrifað fyrir börn. Hvernig er það öðruvísi að gera myndir og að gera ljóð? Hvað er það við ljóðformið sem höfðar til þín? 

31. maí 2016

Nína S. frá Fljótshlíðinni til Park Avenue

Bókin um Nínu Sæmundsson, sem fæddist Jónína Sæmundsdóttir í Fljótshlíðinni árið 1892, er afskaplega fróðleg og skemmtileg og mjög tímabær. Tímabær því þrátt fyrir að hafa séð styttur eftir Nínu verð ég því miður að viðurkenna að ég þekkti ekkert til þessarar merku myndlistarkonu – og hafði ekki einu sinni hugmynd um að hún hefði hannað hina þekktu mynd sem skreytir framhlið Waldorf Astoria hótelsins við Park Avenue í New York og ber nafnið Afrekshugur. Það er skemmtileg tilviljun að bækur um tvær af okkar þekktustu myndlistakonum - nöfnunum Nínu Tryggva og Nínu Sæmundsson komi út á sama ári – en að sama skapi hefðu bækurnar um þær mátt vekja meiri athygli.

28. maí 2016

Ekki pláss fyrir þagnir og umhugsun: Viðtal við Ásgeir H. Ingólfsson

Stelpan sem vill ekki sofa hjá þér getur kennt þér að semja ljóð
Pabbi þinn getur kennt þér að semja ljóð
Yfirmaðurinn sem rak þig getur kennt þér að semja ljóð

En ekkert þeirra gerir það

Það er hins vegar strákurinn sem lamdi þig í tíunda bekk sem kenndi þér að semja ljóð

Það var hann sem kenndi þér að þú yrðir að berja til baka
Það var hann sem kenndi þér að það yrði ekki nóg
Það var hann sem kenndi þér að þú myndir samt tapa

Það var hann sem samdi þetta ljóð með blóðugum hnúunum á meðan þú lést þig dreyma um sætustu stelpuna á ballinu

Það er hann sem stendur hérna núna og les öll ljóðin sem hann fann í skólatöskunni þinni

Ljóðskáldaviðtal helgarinnar er við Ásgeir H. Ingólfsson, sem sendi frá sér sína aðra ljóðabók, Framtíðina, síðastliðið haust. Úr fyrsta hluta hennar er ljóðið Kennslubók í ljóðlist.

Hæ, Ásgeir, takk fyrir að koma í viðtal! Kennslubók í ljóðlist er eitt af mínum uppáhaldsljóðum úr bókinni. Er þetta þín sýn á ljóðlistina? Er hún þetta asnalega sem við látum berja okkur fyrir, eftir að hún hefur fundist í skólatöskunni okkar, og þurfum við þessar barsmíðar til að geta haldið ástundað hana? 

Þessi bók varð eiginlega til þegar ég frelsaðist frá minni eigin sýn. Þá er ég ekki að segja að sú sýn sé ekki þarna, hún er örugglega þarna einhvers staðar, heldur frekar að ljóðmælandinn er miklu síður „ég“ heldur en í fyrri bókinni – þessi bók er held ég að mestu laus við veigðarorð og varnagla – hún varð til þegar ég fann einhverja rödd sem ég hafði ekki fundið áður, miskunnarlausa rödd – rödd sem kom til mín á rigningarnóttu þegar megnið af bókinni varð til, ekki öll bókin en einhver grind sem ég smíðaði svo utan um.

22. maí 2016

Tilraun til að komast til meðvitundar: Viðtal við skáldasamsteypuna Skóginn

Brýst út úr líknarbelgnum
á hverjum morgni
stend nakin
og slímug

fer þannig til fundar
við tungumálið til að
rjúfa himnur
blotna í gegn

skjálfandi
gegnsósa og
gagntekin stilli ég
hrifnæmið
í botn

brýst út úr belgnum
til að laumast
skríða
aftur inn.

Síðustu fjögur ljóðskáldaviðtöl hér á druslubókasíðunni hafa verið við skáld sem hafa verið að gefa út bækur á vormánuðum 2016 en nú snúum við aftur til ársins 2015. Ein þeirra ljóðabóka sem kom út á árinu er óvenjuleg fyrir þær sakir að hún er ekki ort af einu skáldi heldur skáldasamsteypu sjö kvenna sem eiga það sameiginlegt að hafa útskrifast með MA-gráðu í ritlist frá Háskóla Íslands. Þær eru Guðrún Inga Ragnarsdóttir, Halla Margrét Jóhannesdóttir, Heiðrún Ólafsdóttir, Hrafnhildur Þórhallsdóttir, Sigurlín Bjarney Gísladóttir, Soffía Bjarnadóttir og Æsa Strand Viðarsdóttir. Ljóðasamsteypa þeirra kallast Skógurinn og vísar þar í bókartitilinn (eða öfugt): Ég erfði dimman skóg.

Sælar, takk fyrir að koma í hópviðtal! Ég erfði dimman skóg er frekar óvenjuleg ljóðabók; það er ekki á hverjum degi sem hópur skálda tekur sig saman um að skapa ljóðverk þar sem ljóðin eru aukinheldur ekki aðgreind eftir höfundi heldur renna saman í eina heild. Hvernig kviknaði þessi hugmynd?

Held að hún hafi kviknað út frá nokkrum neistum. Okkur langaði að vinna saman. Okkur langaði að skrifa. Skrifa um arf og skóg.

Kannski kom hugmyndin að bókinni  verkinu, síðast í þessu ferli, eða allt svo allt svo, akkúrat þessu verki, þegar við sáum að við áttum fullt af textum sem harmóneruðu saman.

Ég man fyrst eftir þessari hugmynd á kaffihúsi. Örugglega KaffiTár þarna í Þjóðminjasafninu. Það var rigning en ekki rok samt. Sem er sjaldgæft. En það er nóg af roki í þessum arfi. Það hlýtur að hafa verið haust. Jú, það var pottþétt haust. Eitthvað skrælnað lauf fannst þarna á botninum með kaffikorginum. Þetta var mjög gamalt lauf.

Titill bókarinnar er fenginn úr ljóðinu Madrigal eftir Tomas Tranströmer, sem birtist í upphafi bókar, og skógurinn er eins konar stef gegnum bókina  auk þess að vera nafn skáldasamsteypunnar. Skógurinn er að öðru leyti ekki fyrsta ljóðræna stefið eða efnið sem manni dettur í hug í íslensku samhengi  með fullri virðingu fyrir Hallormsstaðaskógi. Hvað var það við ljóð Tranströmers og við skóginn sem höfðaði til ykkar? 

Arfur, skógur  rætur, án þeirra verður enginn skógur.

Fyrir mína parta var það ekkert endilega skógurinn sem heillaði  nema bara þessi lína: ég erfði dimman skóg. Háskóli gleymskunnar og skyrtan á þvottasnúrunni er mér ofar í huga. En við byrjuðum að spá í þessum skógi og þessum arfi og úr því spratt þetta nú allt saman.

En við komumst samt bara að því einn daginn að við værum skógur. Við vorum að leita að leiðinni heim. Ef skáldskapur er ekki skógur þá er hann kannski sjór. Ljóðið Madrigal var eitt af því sem sameinaði okkar. Ást okkar á þessu djúpa og tæra ljóði. Þar er sagt svo fallega: „Á sama hátt er einhversstaðar í lífi okkar mikill óupplýstur kærleikur.“  Upphafssetning ljóðsins varð að okkar leiðarstefi, möntru, sannleika  og vísar langt út fyrir persónulegt líf og hefur auðvitað ekki bara með konur að gera heldur heilt mannkyn, um aldir.

17. maí 2016

Fyrst og fremst á ljóðið að vera ný sköpun: Viðtal við Elías Knörr

kraftaverk
duga aldrei
nýjar hamfarir vantar
brunahraun
hryðjuverk
stórslys
logandi engla
eða
               nýja opinberun
               sem veitir okkur leyfi
               til að drekka okkur blind
               beint úr slökkvitækinu

Á sumardaginn fyrsta síðastliðinn komu út þrjár nýjar ljóðabækur hjá Meðgönguljóðum. Druslubækur og doðrantar hafa þegar birt viðtöl við tvö skáldanna sem þar áttu bók og hér birtist viðtal við það þriðja: Elías Knörr. Nýja bókin hans heitir Greitt í liljum.

Sæll Elías, til hamingju með bókina og takk fyrir að koma í viðtal! 

Takk fyrir mig! Það er frábært að koma sér í góðan drusluskap þó maður sé ekki ennþá búinn að yrkja doðrant.

Greitt í liljum – hvaðan kemur þessi titill? Er þetta pólitísk yfirlýsing - sprengjum upp peningakerfið með blómum? 

Hahhahah. Já og nei. Ég er frekar pólitískur þegar ég tala um ljóðagerð, mér finnst mikil andspyrna vera falin í því að yrkja og stundum segist ég vinna í antifasískri fagurfræði...en satt að segja stafar titillinn af öðrum hugmyndalegum forsendum. Greitt í liljum er einhver tilraun til að yrkja um vor og birtuna, eða frekar til að skrifa bók sem stefnir að vorinu, og það kostaði sitt! Þetta má lesa sem algjöra allegóríu (í metabókmenntalegum skilningi), því alvöru birtan skiptir reyndar ekki miklu máli og ég hata sólina innilega – og líffræðilega, því meðal annars fer mígrenið alltaf að banka á bakdyr heilans um leið og sumartíminn nálgast. En verkið er haust- og vetrarferli sem skáldið fer í gegnum í leit að ljóðum. Langt ferli, en skáldið er sannfært um að textarnir munu birtast að lokum. Veturinn kemur fram með raunverulegum árstíðartáknum á blöðunum, en í huga mér er hann ekkert annað en hugarástand samfélagsins þar sem fasismi og snobberí vilja hafa allt í sífelldu svörtu og hvítu: annaðhvort myrkur eða snjór, allt skýrt á milli og engar breytingar, því það þykir pent og fínt og öruggt...og við búum í svoleiðis hávetrarsamfélagi. En titilinn þýðir líka það sem skáldið þurfti að borga til að komast á áfangastaðinn og birta bók.

Í textunum sést líka að ég lét vetrarsortann verða að sortu. Og hvítu fannbreiðurnar geta vel verið blaðsíður. Bækur opnast einsog blóm, þess vegna greiddi ég „í“ eða „með“ liljum.

Rannsóknin sem ég gerði fyrir þessa bók er löng saga og auðvitað væri hægt að blaðra endalaust um hana...en lesturinn á að vera einfaldur og óháður persónulegu sögunum mínum.

Þetta eru mjög spennuþrungin ljóð - þegar þú talar um það í einu ljóðinu að “eitthvað / óaðskiljanlegt í / blaðsíðunni / spennist í / sundur” finnst manni eins og þú sért að lýsa því sem maður er sjálfur að lesa - og það er jafnvel manifestóblær á sumum þeirra, til dæmis í brotinu aftan á bókarkápunni: ræktum líkamann með ergi / og ræktum vopn / með líkamanum. Þú hefur talað um þessi ljóð sem andóf, ekki satt? Hvers konar andóf er það? Argt andóf, líkamlegt andóf? 

7. maí 2016

Með óróleika í hjartanu: Viðtal við Sigurbjörgu Friðriksdóttur

hvort sem þú trúir því
eða ekki
þá var það í síðustu viku
að þessi orð komu
í höfuðið á mér

takk pabbi

takk
fyrir
að deyja

þegar þú fórst
opnaðist
farvegur

Þannig hefst fyrsta ljóðabók Sigurbjargar Friðriksdóttur, Gáttatif, sem kom út hjá Meðgönguljóðum á sumardaginn fyrsta. Sigurbjörg er viðmælandi vikunnar í ljóðskáldaviðtölum Druslubóka og doðranta.

Gáttatif - þetta er góður titill, mjög ljóðrænn og margslunginn, þótt það hafi gengið illa að þýða hann yfir á ensku (Atrial Fibrillation er einhvern veginn ekki jafn þokkafullt). Hvaðan kemur þessi titill?

Orðið gáttatif kom svífandi til mín einn daginn, ég skrifaði það í svörtu skráningabókina mína og hugsaði með mér að hér væri titillinn á ljóðahandritið kominn, fannst orðið flott og lýsandi fyrir taktinn í ljóðheim bókarinnar, ljóðin koma úr öllum áttum og raðast einhvern veginn, svona óreglulega, það fannst mér allavega á þeim tímapunkti.

Það eru ákveðin þemu sem ganga gegnum bókina - dauðinn er víða nálægur, sorg og söknuður, en líka lífið og lífsgleðin. Sérðu bókina fyrir þér sem eina heild eða sem safn stakra ljóða? Eru þetta viðfangsefni sem eru þér hugleikin? 

Upphaflega sá ég bókina fyrir mér sem safn stakra ljóða. En eftir því sem á leið fóru ljóðin að pota í hvert annað. Þegar forsíðumyndin kom þá gerðist eitthvað stórkostlegt, ég fór að heyra ljóðin kallast á og mynda samhljóm. Þetta eru bernskuljóð, og þegar þau voru skrifuð var mikill óróleiki í hjarta mínu, einn daginn sló það af gleði, hinn daginn lamdi það af sorg, þetta hugarástand hefur eflaust haft áhrif. Annars er lífið, dauðinn og allt þar á milli mér hugleikið, ég kem víða við í skrifum mínum.

30. apríl 2016

Að rannsaka það hvernig við komumst í gegnum dagana: Viðtal við Evu Rún Snorradóttur

Stundum, sérstaklega ef ég hef verið að hjálpa Dagnýju, haldið á henni, þurrkað af henni gubbið, huggað hana, er ég hrædd um að verða skrumskæling á þessari prúðu stúlku. Að ég missi sjónar á handritinu, eða það vanti í það kafla. Ég óttast að það sjáist í gegnum mig. Að ég líkist meira og meria Hrefnu leikfimikennara. Í skærbleikum krumpugalla og pinnaskóm, alltaf að skamma okkur fyrir að reykja, allar, líka þær sem reykja ekki, hún sjálf eitt þykkt lyktandi reykský og allir hafa séð hana, bleika klessu bak við skúrinn á skólalóðinni, reykjandi af losta. Hún býr í raðhúsunum og veit sennilega ekki hversu langt sést frá svölum blokkanna. Við nennum ekki lengur að svara henni, það vita allir að þetta er leikrit sem hún virðist þurfa að leika. Kannski var þetta hlutverk eitt sinn mikilvægt skálkaskjól fyrir hana gegn veðrum og vindum lífsins, sem hætti svo að virka, en nú kemst hún ekki út úr því.

Þetta er brot úr ljóðinu Leikritin sem við leikum úr splunkunýrri ljóðabók Evu Rúnar Snorradóttur, Tappi á himninum, sem kom út hjá Bjarti um síðustu helgi. Ljóðaviðtalafulltrúi Druslubóka og doðranta mætti í útgáfuhófið, fjárfesti í bókinni, las hana í einum rykk – og tók viðtal við höfundinn.

Ég var mjög glöð að sjá Tappa á himninum titlaða sem ljóðabók – það þýddi að ég gat kippt þér inn í þessa viðtalaseríu! – en það er alls ekki sjálfsögð flokkun. Þetta eru stuttir textar sem eru töluvert efnislega tengdir og hefði allt eins verið hægt að kalla örsögur, smásögur, sagnasveig, jafnvel nóvellu eða skáldsögu. Hvers vegna ljóðabók?

Sko, ég skrifaði þetta bara alveg eins og það kom til mín. Ég vissi svo ekkert hvað þetta var. Sendi þetta til útgefandans og þeim þótti þetta vera ljóðabók. Og ég var bara sátt við þá sýn. Ég vildi bara að bókin fengi rými til að vera til á sínum forsendum. Mér þykir alveg ferlegt hvað form geta verið afmarkandi og skemmt upplifunirnar og umræður á verkum. Stundum eru til dæmis alveg frábærar skáldsögur sem fá mikið umtal fyrir að vera of stuttar. Ef að sviðsverk er skráð sem leiksýning er það oft metið út frá mjög ströngum ramma, þó hann eigi alls ekki við. Ég upplifi ljóðið vera opnasta formið. Þú ferð með minnstu afmarkanirnar með þér þegar þú byrjar að lesa ljóð. Ég tala annars bara um þetta sem bók.

25. apríl 2016

Hús búa í mönnum: Viðtal við Þorvald Sigurbjörn Helgason

húsið kunnuglegt
gatan framandi
sprungin steypan
berar saumana
andlitin í glugganum
löngu horfin
glittir í það sem var skilið eftir

Síðan í febrúar hafa Druslubækur og doðrantar birt regluleg viðtöl við skáld sem gáfu út ljóðabækur á síðasta ári. Á síðustu dögum komu hins vegar út fjórar splunkunýjar ljóðabækur, þrjár hjá Meðgönguljóðum og ein hjá Bjarti, og er skáldunum hér með kippt inn í viðtalaseríuna med det samme. Fyrsti viðmælandi okkar úr þessum hópi er Þorvaldur Sigurbjörn Helgason, sem gaf út ljóðabókina Draumar á þvottasnúru hjá Meðgönguljóðum, en úr henni er ljóðið í vesturbænum sem birtist hér í upphafi.
  
Sæll Þorvaldur, takk fyrir að vera til í að koma í viðtal, og til hamingju með nýju bókina! 

Takk sömuleiðis! Ég hef aldrei áður farið í viðtal út af eigin ljóðum þannig ég tek enga ábyrgð á því ef það sem ég segi er algjört kjaftæði.

Þetta er þín fyrsta bók en þú hefur líka skrifað smásögur og ert útskrifaður af sviðshöfundabraut Listaháskóla Íslands. Hvað gera sviðshöfundar og hvernig er það frábrugðið ljóðlistinni? 

Sviðshöfundar eru stétt innan sviðslista sem er soldið illskilgreinanleg. Við gerum bæði allt og ekkert, erum miðja vegu milli þess að vera leikstjórar og performerar (en það fer náttúrulega eftir listrænni áherslu hvers og eins). Ég útskrifaðist úr Listaháskólanum sumarið 2015 og byrjaði í meistaranámi í ritlist haustið sama ár þannig ég hef aðallega einbeitt mér að skrifum undanfarið ár. Í þeim verkefnum sem ég hef unnið í sviðlistum hef ég oftast unnið með einhvern texta en það að skrifa texta fyrir svið (í víðustu merkingu þess orðs) er gjörólíkt því að skrifa ljóð. Í ljóði eru orðin það eina sem skiptir máli og textinn stendur og fellur með sjálfum sér á meðan leiktexti er miklu meira eins og leiðbeiningar og lifnar í rauninni ekki við fyrr en í sviðsetningunni.

Hvenær byrjaðirðu að skrifa ljóð og hvernig kom það til að þú ákvaðst að senda handrit til Meðgönguljóða? 

12. apríl 2016

Þessi erfiða tjáning: Viðtal við Kára Tulinius

ÁSTÁ LAND AMÆR UNUM 

hegr arog skun karí
garð inum afta nvið
fjöl býli shús mitt
semu tanm íner autt

fugl inns pend ýrið
skip tast áaðd eila
meðs érná ttve röld
óupp lýst riaf mána

ísla ndég elsk aþig
enás tmín ásku nkum
oghe grum erei nnig
sönn ogán endi mrka

skóg urég leit aþín
éger ætíð þinn eins
ogat lant shaf iðog
svar tare yðim erkr 

Grasrótarútgáfan Meðgönguljóð var með öflugustu ljóðabókaútgefendum síðasta árs og gaf út einar fimm ljóðabækur (en Meðgönguljóðaserían er reyndar orðin hluti af enn stærra batteríi, Partus Press, sem einnig nær yfir smásögu- og esseyjuseríur). Þar á meðal var fyrsta sjálfstæða ljóðabók eins af stofnendum Meðgönguljóða, brot hætt frum eind eftir Kára Tulinius, en hann hefur áður gefið út ljóðabók í samstarfi við annan stofnanda seríunnar, Valgerði Þóroddsdóttur, og skáldsöguna Píslarvottar án hæfileika. Kári Tulinius er viðmælandi Druslubóka og doðranta í dag.

Sæll Kári, takk fyrir að vera til í að koma í viðtal! Þú ert ritstjóri hjá Meðgönguljóðum (ég ætti að vita það, verandi hinn ritstjórinn) og gefur með brot hættri frum eind í fyrsta skipti út sjálfstæða ljóðabók hjá útgáfunni, í ritstjórn Antons Helga Jónssonar. Hvernig var tilfinningin að vera þarna megin borðsins? Geturðu sagt okkur aðeins frá ritstjórnarfyrirkomulagi Meðgönguljóða, hvað er fengið með því og hvernig þú upplifir það sem ritstjóri annars vegar og skáld hins vegar?

Takk fyrir, Kristín, fyrir að taka við mig viðtal. Og takk fyrir að hafa komið inn í Meðgönguljóð fyrir á að giska einu ári síðan!

Eitt sem hefur verið í fyrirrúmi í starfi Meðgönguljóða frá því að við Valgerður Þóroddsdóttir og Sveinbjörg Bjarnadóttur stofnuðum þau, er samtal. Fyrsta bókin sem kom út, Þungir forsetar, var samin þannig að við Valgerður hittumst á kaffihúsum, oftast Babalú, og skrifuðum ljóðlínur. Þegar við höfðum samið sitthvora línuna, þá skiptumst við á þeim og endurskrifuðum eftir eigin höfði. Síðan endurskrifuðum við endurskriftina, og að lokum endurskrifuðum við endurskriftina á endurskriftinni á upprunalegu línunni. Þannig að hver ljóðlína var skrifuð af okkur báðum, en ekki öðru okkar, eins og hugmynd sem sprettur fram í samtali tveggja einstaklinga.

6. apríl 2016

Að nýta alla orkuna sem hjartasárin framleiða: Viðtal við Eydísi Blöndal

í gamla daga
horfði fólk á tunglið
um stjörnubjartar nætur
og hugsaði
„kannski ert þú að horfa á það líka“

í dag
horfi ég á græna punktinn
hjá nafninu þínu
og hugsa
„kannski ert þú að horfa á hann líka“

Í október síðastliðnum fjölluðu Druslubækur og doðrantar um fyrstu ljóðabók Eydísar Blöndal, Tíst og bast, sem þá var nýkomin út, en í henni er meðal annars að finna ljóðið hér á undan, harmleikur á snjallsímaöld, nr. 2. Tíst og bast hlaut þó nokkra athygli, mokseldist á ljóðabókamælikvarða og var prentuð þrisvar, enda skemmtileg bók með Reykjavíkurljóðum úr samtímanum sem ættu að höfða til margra. Eydís Blöndal er næsti viðmælandi ljóðskáldaviðtalaseríu D&D.

Hæ, Eydís, takk fyrir að koma í viðtal! Tístið í Tíst og bast er vísun í tíst eins og í Twitter, ekki satt? Má kannski líta á 140 slög sem sjálfstætt ljóðform? Ef já, af hverju að gefa út bók – er hin efnislega útgefna bók ennþá lifandi sem form? 

Hæ, Kristín! Virkilega góð spurning. Mörg ljóðanna sem ég birti í bókinni voru ekki að líta dagsins ljós í fyrsta skiptið, heldur hafði ég tweetað þeim áður. En það var í raun þegar ég birti ljóðin á Twitter sem fólk – bæði vinir og ókunnugir – fóru að hvetja mig til þess að gefa þau út. Annars hefði það aldrei hvarflað að mér. Þá hugsaði ég einmitt: „Af hverju ég ætti að gefa þetta út, af hverju er ekki nóg að hafa þetta á Twitter?“ En eftir að hugmyndin kviknaði þá gat ég ekki slökkt á henni. Bókin er vissulega full af ljóðum sem áður voru tíst, en hún er líka full af ljóðum sem ég hefði ekki fyrir mitt litla líf viljað birta á Twitter. Mögulega vegna þess að á internetinu birtir allt fólk óneitanlega bara vissa hlið af sjálfu sér, þar sem allt er í toppstandi. Svo ég ákvað að ég vildi snúa pinku upp á þetta og gefa út bók þar sem ég er alltaf með þessa grín-grímu, þótt ég sé að skrifa um eitthvað sem ætti aldrei heima í þessum grín-veruleika.

Nú eru bæði tíst og lengri ljóð í bókinni (bast?), bæði ljóð sem skipt er í línur eftir hrynjandi og prósaljóð sem oft eru mjög talmálsleg. Hvernig hugsarðu þessar ólíku gerðir ljóða? Hvað stýrir því hvernig ljóðin verða á endanum? 

Titillinn vísar til þess að ljóðin eru öll á tvist og bast, flakka á milli viðfangsefna, tilfinninga og ljóðagerða. Ég hef aldrei sett mig í neinar stellingar þegar ég skrifa ljóð, heldur skrifa ég þau bara þegar þau poppa upp í hausnum á mér og loka svo bókinni, án þess að fínpússa þau neitt frekar. Það er minn stærsti kostur og galli, vil ég meina. Margt af því sem er í bókinni er eitthvað sem ég skrifaði í tölvupósti seint um nótt eftir djammið, eitthvað sem ég hripaði niður í símann minn í strætó eða sagði við vinkonu mína á kaffihúsi. Ætlunin var aldrei að gefa út bók þar sem hvert einasta orð væri vel ígrundað, heldur vildi ég að tilfinningarnar sem fylgja því að vera ég – og aðrar konur á þrítugsaldri í Reykjavík – fengju að skína í gegn. Og mér heyrist á flestum að það hafi tekist nokkuð vel.

27. mars 2016

Allt innan fjölskyldunnar: „Biblía 21. aldarinnar“

Þann 19. október 2007 var ný biblíuþýðing, hin svokallaða „biblía 21. aldar“, kynnt fyrir Íslendingum á miðopnu Morgunblaðsins, sem þá var enn víðlesin meðal landsmanna. Þar söfnuðust saman ýmsir framámenn til að lofsama hina nýju útgáfu – biskupinn Karl Sigurbjörnsson, útgefandi hinnar nýju biblíuþýðingar fyrir hönd JPV forlags, Jóhann Páll Valdimarsson, og loks tveir nefndarmenn í þýðingarnefndum testamentanna, Sigurður Pálsson og Guðrún Kvaran. Það var auglýst að þennan sama dag skyldu eintök nýju þýðingarinnar afhent forseta, ráðherra og þingmönnum, fyrstum Íslendinga, við hátíðlega athöfn; að vanda gekk íslensk yfirstétt fyrir. Biskup lýsti því yfir að vel hefði tekist við þýðinguna, þótt hann viti að „áreiðanlega muni einhverjir hnjóta um eitthvað í þýðingunni sem þeir hefðu viljað hafa öðruvísi“.

Biskup talaði af reynslu; það var ekki vanþörf á þessari miklu opnuauglýsingu í Morgunblaðinu. Sex dögum áður hafði birst í Lesbók Morgunblaðsins (bls. 10) stórmerkileg grein eftir Jón Sveinbjörnsson prófessor og fyrrum formann þýðingarnefndar Nýja testamentisins. Þar rekur Jón atburðarásina í kringum þýðingarstarf sitt og nefndarinnar og kemur þar margt merkilegt í ljós sem hefur ekki farið hátt síðan, þótt 2007-þýðingin hafi orðið umdeild fyrir aðrar sakir. Raunar er nær ekkert minnst á deilurnar um þýðinguna 2007 í neinu af því mikla kynningarefni sem gefið var út í tilefni af 200 ára afmæli Hins íslenska biblíufélags 2015. Það hvarflar að manni að þær séu eitthvað sem Biblíufélagið vill síst minnast.

Og það skiljanlega. Jón Sveinbjörnsson rekur í greininni hvernig það var stofnað til nýju þýðingarinnar með það að markmiði að nútímavæða tungutak biblíunnar og halda uppi vísindalegum vinnubrögðum: Þýtt skyldi upp úr frummálunum hebresku og grísku og það af fræðimönnum í þeim málum. Gamla testamentið skyldi þýtt allt upp á nýtt, enda hafði það ekki hlotið endurskoðun lengi, en staðan var aðeins flóknari hvað varðaði Nýja testamentið. Með biblíuútgáfunni 1981 höfðu komið út nýjar þýðingar á guðspjöllunum og postulasögunni en bréfin og Opinberunarbókin voru gamlar þýðingar. Eðlilegast hefði verið að gera einfaldlega nýjar þýðingar á þeim og gefa þannig út vel uppfærða biblíu, en Hið íslenska biblíufélag ákvað að fara einfaldari leið: Endurskoða 1981-útgáfuna frekar en að frumþýða, og sérstaklega þá hluta 1981-útgáfunnar sem elstir voru – Pálsbréfin og Opinberunarbókina. Þrátt fyrir þessa ákvörðun var 2007-biblían allstaðar kynnt sem glæný heildarþýðing, sem var ekki allskostar rétt.

Jón var skipaður formaður þýðingarnefndar Nýja testamentisins árið 2001, en með honum þar sátu Guðrún Kvaran og Árni Bergur Sigurbjörnsson, sonur Sigurbjörns Einarssonar fyrrverandi biskups og bróðir Karls Sigurbjörnssonar þáverandi biskups. Árni Bergur veiktist síðan og við tók af honum bróðir hans, Einar Sigurbjörnsson. Sú ætt var vel tengd ferlinu: Sá sem skipaði þýðingarnefndina var formaður Hins íslenska biblíufélags, sem var enginn annar en þriðji bróðirinn, biskupinn Karl Sigurbjörnsson. Boðleiðirnar voru því stuttar milli kirkju, Biblíufélags og þýðingarnefndar.

19. mars 2016

Umfjöllun um kvenlíkamann er ennþá pólitísk: Viðtal við Vilborgu Bjarkadóttur

allir vilja snerta kúluna

leggja blessun sína yfir lífið
leggja blessun sína yfir barnið

stundum koma gamlar konur
og tárfella - hugsa
um börnin sín
þegar þau voru nýfædd

Þetta ljóð er úr einni af hinum fjölmörgu „fyrstu ljóðabókum“ sem komu út á Íslandi í fyrra. Bókin heitir Með brjóstin úti, höfundurinn heitir Vilborg Bjarkadóttir og þetta er semsé hennar fyrsta bók en hún hefur áður starfað við myndlist. Líkt og Þórður Sævar Jónsson, sem var hér í viðtali síðast, mun Vilborg verða meðal upplesara í ljóðapartíi Samfélags ungra skálda (SUS) sem hefst á Gauknum í Tryggvagötu í kvöld klukkan 20:00. Druslubækur og doðrantar gáfu sig á rafrænt tal við Vilborgu í vikunni.

Hæ Vilborg, takk fyrir að vera til í að koma í viðtal! 

Takk fyrir að bjóða mér í viðtal!

Ljóðin í Með brjóstin úti fjalla um sameiginlega vegferð móður og barns frá getnaði og fram yfir fæðingu. Bókin hefur sterka heildarmynd og fjallar um tilurð nýrrar manneskju sem hluta af hringrás, frá því eggjastokkarnir klingja í fyrsta hlutanum Upphafið, líkami móðurinnar tekur breytingum í Hamskiptunum, klippt er á naflastrenginn í Nýburanum - og að lokum er móðirin, ljóðmælandi, byrjuð aftur á blæðingum, tunglið er aftur orðið fullt og „á sérhverri mínútu fæðast / óteljandi börn í sama stjörnumerkinu“. Hefurðu verið að skrifa ljóð lengi?

Já, líkt og fleiri notaði ég ljóðagerð mikið á þerapískan hátt á gelgjunni. Þegar mér fannst enginn skilja mig og fann hræringar innra með mér, sem ég vissi ekki hvað ég ætti að gera við, þá orti ég ljóð. Þannig varð ljóðið leið fyrir mig til að komast í gegnum unglingsárin og finna tilfinningum mínum farveg. Það má segja að ég hafi fjarlægst ljóðið eftir tvítugt þegar ég var í Listaháskólanum því þá var ég spenntari fyrir sagnaforminu. En mér finnst eins og ég sé núna að uppgötva ljóðið aftur - en á nýjum forsendum.

14. mars 2016

Ljóð geta staðið og fallið með einu orði: Viðtal við Þórð Sævar Jónsson

ek yfir pípuhliðið framhjá
skaftafellsskiltinu þegar tor
kennilegt hljóð rýfur þögnina
ekki ósvipað því þegar aurskriða
fellur eða tré rifnar upp með rótum
lít í baksýnisspegilinn og sé að malbikið
hefur tekið á rás og vefst nú upp einsog
papýrusrolla og á augabragði verður allt svart
og ég fyllist djúpri
innilokunarkennd

Á síðasta ári gaf grasrótarútgáfan Meðgönguljóð út fimm nýjar ljóðabækur. Ein þeirra var Blágil eftir Þórð Sævar Jónsson og úr henni er ljóðið sem birtist hér á undan, bíltúr. Druslubækur og doðrantar halda ljóðskáldaviðtölum sínum áfram og ræða nú við Þórð Sævar um fyrstu bókina hans og framhaldið.

Sæll, Þórður! Eins og í viðtalinu við Öldu hérna í síðustu viku langaði mig að byrja á að spyrja þig út í titilinn á bókinni, Blágil. Er þetta eitthvert ákveðið gil, raunverulegt eða ímyndað? 

Sæl og blessuð! Þegar ég vann sem landvörður á Lakagígum sumarið 2013 bjó ég í Blágiljum. Þar lifði ég einsog blóm í eggi í tæpar tíu vikur. Sannast sagna átti ég í talsverðum vandræðum með titilinn, ég var búinn að fá þónokkrar misgáfulegar hugmyndir áður en mér duttu Blágil í hug. Annars er ég ósköp ánægður með útkomuna, svona eftir á að hyggja, Blágil er fallegt orð, látlaust og myndrænt, og það hefur auðvitað þessa persónulegu skírskotun.

Hefurðu verið að skrifa lengi? Það er mikill heildarbragur á bókinni, sástu hana fyrir þér sem eitt heildarverk frá upphafi? Sums staðar eru tvö ljóð á síðu - er það vegna þess að þú varst með fleiri ljóð sem þú vildir birta en blaðsíðurnar eru í Meðgönguljóðabók eða er það partur af heildarpælingunni?

Ég byrjaði að fikta við ljóðagerð af einhverju ráði þegar ég byrjaði í MR. Ætli flest ljóðin séu ekki skrifuð á sirka tveggja ára tímabili, sem hlýtur að teljast tiltölulega stuttur tími, a.m.k. í stóra samhenginu! En svo slæddust auðvitað inn eitt og eitt ljóð meðan á ritstjórnarferlinu stóð. Okkur Kára (ritstjóranum mínum) var ofarlega í huga að bókin yrði heilsteypt, að það væri gegnumgangandi rauður þráður í henni. Blaðsíðurnar í meðgöngubókunum eru af skornum skammti, þannig að ég brá á það ráð að smella sumsstaðar tveimur ljóðum á sömu síðuna, einfaldlega til að nýta plássið til hins ítrasta!

Ljóðin í Blágiljum eru náttúruljóð. Þú vitnar raunar í Kristján Fjallaskáld í upphafi: „Náttúran er ávallt eins / aldrei sér hún breytir“. Það eru sennilega fáar tegundir ljóða sem koma með jafn mikinn „pakka“ og náttúruljóð, nema kannski ástarljóð. Hvernig fannst þér að takast á við þetta form? Fannst þér hefðin íþyngjandi eða inspírerandi eða hugsaðirðu kannski ekkert um hana í samhengi við þín eigin ljóð? Er náttúran þér sérstaklega hugleikin sem umfjöllunarefni eða er tilviljun að þín fyrsta bók skyldi fjalla um hana?

9. mars 2016

Plöntur, landakort og einmana sálir

Í handahófskenndu grúski á Borgarbókasafninu rakst ég nýlega á íslenska bók sem vakti forvitni mína og fékk að fljóta með heim. Plantan á ganginum kom út í hittifyrra og er fyrsta bók systranna Elínar Eddu og Elísabetar Rúnar Þorsteinsdætra. Þær systur eru báðar teiknarar og saga þessi varð fyrst til sem vefmyndasaga í nokkrum köflum en kom svo út sem grafísk nóvella. Hér má lesa örlítið um bókina og meðal annars horfa á myndband um tilurð hennar. Ég kom sumsé að bókinni "kaldri" og las hana án þess að vita nokkuð um höfundana eða söguna, og var verulega heilluð. Það kom mér þar af leiðandi mjög á óvart þegar ég fletti upp systrunum og komst að því að þær voru báðar á menntaskólaaldri þegar sagan varð til.

Plantan á ganginum fjallar hins vegar ekki um ungt fólk heldur skyggnumst við inn í reykvískt hús þar sem búa tvær fremur einmana, miðaldra sálir, Geirþrúður og Örvar Þór. Geirþrúður starfar í ræktunarstöð og hvers kyns plöntur eru hennar líf og yndi, Örvar vinnur hjá Póstinum og ástríða hans í lífinu er landafræði heimsins, þótt sjálfur hafi hann aldrei ferðast utan landsteinanna. Hvorugt þeirra er sleipt í félagslegum samskiptum og þau hafa leitað skjóls í áhugamálum sínum. Á baksíðu bókarinnar er eftirminnileg mynd sem lýsir vel aðstæðum Geirþrúðar og Örvars í upphafi bókar, þar sem þau standa í sitt hvorum glugganum, sitt í hvorri íbúðinni, og stara út í loftið. Það sem verður kveikjan að samskiptum þeirra á milli er fágæt planta sem Geirþrúður stillir upp á ganginum í sameigninni og verður Örvari ástæða til að senda passív-agressívt nágrannabréf eins og svo margir kannast við úr fjölbýlishúsum. Geirþrúður hins vegar tekur þann pól í hæðina að svara honum einlæglega og útskýra ástríðu sína fyrir plöntulífi. Upphefjast bréfaskriftir á milli nágrannanna og smám saman myndast tenging sem verður þeim báðum hjartfólgin. Bæði lifa þau lífinu í þröngum ramma og stærsta spurningin er hvort þau megni að koma sér út úr þeim ramma og láta drauma sína rætast.

Aðferðin sem Elín og Elísabet beita er áhugaverð; þær teikna á víxl og hafa að flestu leyti ólíkan stíl og tækni, en það er engu að síður sterk samfella í sögunni þannig að lesandinn flæðir óhindrað gegnum söguna og hættir fljótlega að taka eftir því þegar skipt er um teiknara, eða þannig var því að minnsta kosti farið með mig. Plantan á ganginum hefur ljúfsáran, nærgætinn og verulega sjarmerandi tón, persónurnar eru skemmtilegar og takturinn í frásögninni sannfærandi. Elín og Elísabet nota myndasögumiðilinn á frjóan hátt eins og sést m.a. á uppbyggingu ramma og samspili texta og mynda. Myndheimurinn er úthugsaður og fjölbreyttur. Í stuttu máli sagt kolféll ég fyrir þessari íslensku myndasögu og er ekki frá því að hún sé meðal þess besta sem gert hefur verið í þeim geira hérlendis. Það verður því vægast sagt spennandi að fylgjast með áframhaldandi verkum Elínar og Elísabetar.

Áhugasömum er bent á forkunnarfagra heimasíðu Elínar Eddu og þar kemur meðal annars fram að ný myndasaga, Gombri, er væntanleg á næstu vikum. Ég ætla sannarlega að tryggja mér eintak af henni. Og hér má lesa pistil um íslenska myndasagnagerð eftir Grétu Sigríði Einarsdóttur þar sem meðal annars er rætt við Elísabetu Rún. Plantan á ganginum kom aðeins út í 71 eintaki en hana er sem fyrr segir hægt að finna á Borgarbókasafninu og ég mæli með því að unnendur góðra myndasagna leiti hana uppi þar.

6. mars 2016

Það sem rífur okkur út úr vélrænunni: Viðtal við Öldu Björk Valdimarsdóttur

Úr hverju er tungumálið? 

Er það gert úr holóttu konunni 
sem stendur alltaf á bak við hurð 
eða er það gert úr ótta? 

Á meðan hún talar 
viðheldur hún blekkingunni 
um að hún sé heil. 

Munnurinn tælir hjartað. 

Orðin laðast að henni 
eins og skortur. 

Á meðan hún talar er annað ljóðið í fyrstu ljóðabók Öldu Bjarkar Valdimarsdóttur, Við sem erum blind og nafnlaus, sem kom út hjá JPV síðasta vor. Í kjölfar vel heppnaðs viðtals við Kára Pál Óskarsson sem birtist hér á vefnum um síðustu helgi ákváðu Druslubækur og doðrantar ehf. að halda ljóðaviðtölunum áfram og ræða við eitthvert þeirra fjölmörgu skálda sem gáfu út ljóðabækur á síðasta ári.

Sæl, Alda, takk fyrir að vera til í að koma í viðtal! Mig langaði til að spyrja þig fyrst út í titil bókarinnar – Við sem erum blind og nafnlaus. Titilljóðið er úr fjórða hluta bókarinnar af fimm, sem ber nafnið Minnisblöð óþekktu húsfreyjunnar. Í því virðist karlinum lýst sem handhafa raddar, nafns og sjónar en konan er í hlutverki þiggjanda, hún er án nafns og orða. Hvaðan kemur þetta fyrrnefnda ljóð og hvers vegna valdirðu þennan titil á bókina? 

Ljóðið „Við sem erum blind og nafnlaus“ er kannski svolítið í anda annarrar kynslóðar femínisma. Konan er í sjónmáli karlsins, hún á sér ekki sína eigin rödd. Hann skilgreinir hana og gefur henni nafn. Hún speglar sjálfa sig í honum og hann gefur henni í raun sjálfsmynd. Þetta má allt tengja við rótgrónar femínískar kenningar sem passa vel við þennan hluta ljóðabókarinnar.

29. febrúar 2016

Sögunni er alls ekki lokið: Viðtal við Kára Pál Óskarsson

stóri g var fjarstaddur
en heilagur andi á stjákli
margnotuð orð reyndust nothæf
um hríð
myrkur kuldi eldur
straumurinn rofnaði
ég er í þvögunni miðri
en samt til hliðar
fyrst sætt bragð
síðan beiskt
gluggi opnast
gluggi lokast
troðið aftur í hversdaginn
hægt en örugglega létu dagarnir sína nýfengnu liti
hægt en örugglega gömlu fleygarnir reknir á milli
óbærilegt
ormur í heilanum
eins langt aftur og ég man
tungumál óvinarins
allsstaðar
eins og táragashylki
í gluggalausum klefa

Ljóðið Mannshöfuð er nokkuð góð fæða fyrir orma er úr splunkunýrri ljóðabók eftir Kára Pál Óskarsson, Ekkert tekur enda. Bókin kom út á dögunum hjá forlaginu Deigma, hún er komin í verzlanir og það er óhætt að mæla með því að ljóðaunnendur tryggi sér eintak. Þetta er þriðja bók Kára Páls, en hann hefur áður gefið út Með villidýrum hjá Nýhil árið 2008 og Oubliette sem kom út hjá Nykri 2007. Útsendari Druslubóka og doðranta tók viðtal við Kára í tilefni af útgáfu nýju bókarinnar.

  
Til hamingju með bókina! Ekkert tekur enda er þín þriðja ljóðabók, síðast gafstu út Með villidýrum árið 2008. Það eru ákveðin stef sem má sjá í báðum þessum bókum; pælingar um vald og ofbeldi og valdaleysi, um „sársauka annarra“ og það að þola, fylgjast með og taka afstöðu gegn misrétti og kúgun og hverju ef nokkru er hægt að áorka með því. Það sem er sérstaklega áberandi í nýju bókinni er áherslan á tungumálið sjálft og hlutverk þess í þessu valdakerfi - eða eins og þú hefur eftir sitúasjónistunum: „Orð vinna, í þágu hins ríkjandi skipulags lífsins.“ Hvernig getur ljóðskáld tekist á við það að verkfæri þess, tungumálið, er jafnframt alltumlykjandi „tungumál óvinarins“?

21. febrúar 2016

Franskur glaðningur í myndasöguformi

Á dögunum áskotnaðist mér sérlega áhugaverður gripur - franska myndaskáldsagan You Are There eftir þá Jacques Tardi og Jean-Claude Forest. Ég sumsé eignaðist hana í enskri þýðingu Kim Thompson en enska útgáfan kom út hjá Fantagraphics Books fyrir nokkrum árum, forlagi sem hefur gefið út gríðarlega mikið af góðum myndasögum, bæði seríum og stökum bókum. Mér til ævarandi skammar hafði ég aldrei heyrt af þessari tilteknu bók en kannaðist aftur á móti við Jacques Tardi sem er með þekktari teiknurum Frakka. Franska myndasöguhefðin er að sjálfsögðu stórmerkilegt form og Tardi skipar mikilvægan sess í þeirri menningu. Hann er fæddur árið 1946 og þekktastur fyrir sögurnar um Adèle Blanc-Sec, sem hafa notið gríðarlegra vinsælda í hinum frönskumælandi heimi og víðar. Á íslensku kom fyrsta sagan í seríunni um hina knáu Adèle út árið 1978 hjá Iðunni og kallaðist Birna og ófreskjan, í stíl við nafnaþýðingar þess tíma.

Jean-Claude Forest sem lést undir lok síðustu aldar var þekktastur fyrir sögur af allt annars konar kvenhetju - vísindaskáldsagnapersónunni Barbarellu. Hér eru þeir félagar þó á allt öðrum slóðum. You Are There, sem á frummálinu nefnist Ici Même og kom út í Frakklandi árið 1979 sem sería, mætti líklega helst kenna við absúrdismann; sögusviðið er landsvæðið Mornemont sem áður heyrði undir There-ættina sem hefur þó þegar sagan hefst tapað öllum eignarrétti sínum til gráðugra granna - fyrir utan veggina sem skilja að garða og hús. Eini eftirlifandi afkomandinn, Arthur There, er nú orðinn að tollheimtumanni sem gengur um veggina og hirðir toll af þeim sem fara um hliðin í veggjunum. Hann er hæddur og hataður af flestum íbúum Mornemont og á sjaldnast raunveruleg samskipti við aðra en skipstjóra fljótabáts sem siglir með vörur til Mornemont yfir stöðuvatnið sem lokar svæðið af. Hann fyllist þó óttablandinni hrifningu af Julie Maillard, dóttur ógeðfelldra hjóna, og samband þeirra verður þungamiðja í sögunni. Á sama tíma fylgjumst við með forseta landsins búa sig undir að missa völdin í yfirvofandi kosningum og lesandinn áttar sig fljótt á því að Arthur There og nágrannar hans eiga á hættu að verða leiksoppar valdastéttarinnar - peð á borði þeirra sem gera hvað sem er til að bjarga eigin skinni.

21. janúar 2016

Örvænting húsmóður í Ölpunum

Hausfrau, eftir Bandaríska skáldið og bókmenntaprófessorinn Jill Alexander Essbaum, kom nýlega út í íslenskri þýðingu Guðna Kolbeinssonar með titilinn Fram hjá. Þessi bók, sem kom út á frummálinu fyrir tæpu ári síðan, hefur greinilega slegið í gegn því leitarvélin segir mér að hún hafi verið þýdd á mörg tungumál, sé tilnefnd til Pen-verðlaunanna, það er búið að skrifa mjög mikið um hana og henni er gjarna líkt við Madame Bovary og Önnu Kareninu. Ég hef aldrei lesið síðarnefndu bókina og Madame Bovary las ég fyrir tuttugu og fimm árum og hafði lítið gaman af og gleymdi henni fljótt, svo ég er ekki dómbær um hvort umtalsverð líkindi eru til staðar. En aðalpersóna Hausfrau heitir að minnsta kosti Anna eins og persóna Tolstoys og hún er að drepast úr leiðindum eins og frú Bovary.

Anna er 37 ára gömul amerísk kona sem hefur búið í næstum áratug í smábænum Dietlikon í Sviss með Bruno, hálfblóðlausum eiginmanni og bankamanni, og börnunum þremur. Svissneskar lestir eru alltaf á áætlun, Alparnir gnæfa yfir og Önnu leiðist. Hún hefur ekkert lært í tungumálunum sem töluð eru á svæðinu og er vinalaus. Anna hefur haldið framhjá eiginmanninum með amerískum manni sem átti skamma dvöl í Sviss og hann er blóðfaðir yngsta barnsins, Polly Jean. Þegar hún byrjar á þýskunámskeiði finnur hún sér skoskan elskhuga og einnig heldur hún fram hjá með fjölskylduvini.