
Slutet segir frá síðustu vikunum í lífi unglinganna Simonar og Lucindu en þau segja söguna til skiptis. Formáli hennar gerist síðla vors þegar þær fréttir berast að hinn gríðarstóri loftsteinn Foxworth stefni á jörðina, muni lenda á henni á tilteknum degi í byrjun hausts og eyða þar öllu lífi á örfáum mínútum. Hin eiginlega saga hefst svo þegar það eru 4 vikur og 5 dagar í heimsendi. Kærasta Simonar, Tilda, hefur sagt honum upp þar sem hún vill ekki vera í sambandi þessa síðustu mánuði og hann er í ástarsorg. Milli þess sem við fylgjumst með villtu líferni Simonar, sem fer eins og flestir aðrir unglingar í partý öll kvöld, lesum við skilaboð sem Lucinda sendir út í geiminn í gegnum appið #TellUs, forrit sem var sett upp í von um að einhvern tímann í framtíðinni verði til einhverjar lífverur sem muni uppgötva skilaboðin og geti þannig fræðst um lífið fyrir Foxworth.