
Fyrr í sumar fékk Stieg Larsson bresk bókmenntaverðlaun fyrir Karla sem hata konur. Bókin, sem á ensku kallast The girl with the dragon tattoo, fékk British Book Awards sem glæpasaga ársins. Meðal annarra British Book Awards-verðlaunahafa er Barack Obama sem fékk viðurkenningu fyrir æskuminningarnar Dreams from my father.
Danska forlagið Modtryk, sem gefur út bækur Stiegs, græðir auðvitað á tá og fingri enda hafa 1,3 milljónir eintaka af bókum hans selst á dönsku. Politiken hafði það eftir forleggjaranum um daginn að gróðinn væri svo mikill að forlagið ætlaði að stofna sérstakt barnabókasysturforlag og nota hluta af millenium-peningunum til að gefa út barnabækur. Gott mál!

Og nú eru víst þrjár bækur UM Stieg Larsson á leiðinni og margir bíða áreiðanlega spenntir eftir þeim. Blaðamaðurinn og rithöfundurinn Kurdo Baksi (hann kemur fyrir í eigin persónu í þriðju bókinni) vinnur að bók sem á að koma fljótlega út hjá Norstedts í Svíþjóð. Sú bók hefur vinnuheitið Vinur minn Stieg. Þar segir höfundurinn frá góðum og slæmum hliðum Stiegs og langvarandi vináttu þeirra tveggja. Forleggjari bókaforlagsins Ordfront, Jan-Erik Pettersson, vinnur líka að bók um Stieg Larsson, það verk á að vera hefðbundin ævisaga byggð á heimildum. Loks er sambýliskonan, Eva Gabrielsson, sem fær ekki krónu af öllum peningunum sem flæða inn, líka að skrifa bók en hún vill ekki ræða hana í bili.
3 ummæli:
ætli maður verði ekki að kaupa bókina hennar Evu...svona rétt til að létta á samviskubitinu yfir að hafa verið að styrkja þessa Deliverance-legu feðga...
Einmitt það sem mér datt í hug!
Eins og þeir sögðu svo ,,hnyttilega" í þættinum góða þá hefur hún Eva ekki pung eins og þeir ... að láta svona lagað út úr sér!
GK
Skrifa ummæli