20. febrúar 2011

Friðlausir hvíldardagar

Ég var að klára að lesa fyrstu skáldsögu Braga Ólafssonar, Hvíldardaga, sem kom út hjá Bjarti árið 1999.

Bókin fjallar um mann (hvers nafns er ekki getið) sem vinnur á lager, en hefur verið skikkaður af yfirmanni sínum til að taka þriggja mánaða sumarfrí sem hann á inni. Hann hefur í raun engin plön fyrir sumarfríið, en honum dettur í hug einn laugardag að fara í Heiðmörk, aðallega vegna þess að hann fær samviskubit yfir því að hafa logið því að frænku sinni sem vildi bjóða honum í mat, að hann væri að fara út á land. Hann er ekki kominn lengra en á Hringbrautina þegar bíllinn hans bilar, þannig að hann hættir við ferðina. Svona reynist líf hans að miklu leyti vera – það er alltaf eitthvað að gerast, eitthvað eða einhver sem hefur ófyrirsjáanleg áhrif á líf hans þegar hann vill raunverulega bara fá að vera. Vera í friði, vera til.

Bók Braga er bæði fyndin og erfið. Við fylgjumst með viku í lífi aðalpersónu og frásögnin er í fyrstu persónu þannig að við kynnumst bæði því sem hann gerir og hugsar. Mér fannst ég oft skilja þennan mann vel, ég fann jafnvel til með honum, en á sama tíma þoldi ég hann ekki. Lesandi fær að sjá í honum alla þessa smávægilegu og hlægilegu galla sem ég held að allir hafi upp að vissu marki, en eru svo fáránlegir að við viljum ekki að aðrir komist að því að við höfum þá. Hann hugsar til dæmis óþarflega mikið um það hvað aðrir séu að hugsa, eyðir töluverðum tíma í langa og ítarlega dagdrauma um það hvernig það væri að þekkja fólk sem hann þekkir ekki og hann á erfitt með að taka einfaldar ákvarðanir. Hann segir meinlausar lygar til að komast hjá því að hitta fjölskyldu sína og eyðir mikilli orku í það að komast hjá því að gera hluti, en endar auðvitað á því að eyða meiri tíma og orku í undanbrögð og fresti heldur en það hefði tekið að gera hlutinn bara strax. En það eru þessi smávægilegu, hlægilegu atriði sem eru uppistaðan í aðalsögupersónu og í raun meginefni bókarinnar. Og maður hlær og engist um til skiptis.

Annars fannst mér bara mjög gaman að lesa þessa bók Braga, mér fannst alveg fáránlegt að hafa ekki lesið neina af skáldsögum hans eftir að ég sá leikritið Hænuungana (sem er einmitt líka eftir hann) um daginn og skemmti mér konunglega. Ég held ég lesi fleiri.

P.s. Ég er nýbúin að kynnast svokölluðum tumblr-síðum og mér finnst vel við hæfi að linka á eina slíka á þessu bloggi: http://womenreading.tumblr.com/

Guðrún Elsa

4 ummæli:

Guðrún Elsa sagði...

Úff, manni líður samt svolítið eins og perra að skoða allar þessar myndir af fallegum konum að lesa. Olivia de Havilland, Joan Fontaine og Marylin og Rita.

En það er kannski bara ég.

Þórdís sagði...

Samkvæmisleikir er besta bók Braga sem ég hef lesið. Ég er ekki búin með þá sem kom út fyrir jólin en hef lesið allar aðrar, held ég.

Guðrún Elsa sagði...

Ókei, ég hlakka til að lesa hana. Ég er allavega komin á bragðið.

Maður hlær og engist um til skiptis | Vefur Braga Ólafssonar rithöfundar sagði...

[...] Sjá umfjöllun í heild sinni. [...]