21. júlí 2012

Sorgarár Joan Didion

Joan Didion fyrir skömmu
Síðan snemma í vetur hef ég verið með The Year of Magical Thinking eftir Joan Didion í seilingarfjarlægð en ég réðst loks í að lesa hana í þarsíðustu viku. Bókin hefur verið lofuð og prísuð víða, hún fékk m.a. National Book Award og árið sem hún kom út (2005) var hún á lista New York Times Book Review yfir tíu bestu bækur ársins ásamt verkum eftir m.a. Murakami, Zadie Smith og Ian McEwan. Fyrir nokkrum árum sá ég umfjöllun um fyrrnefnda bók og viðtal við Joan Didion í bókmenntaþætti í sjónvarpinu og var lengi búin að hugsa mér að lesa eitthvað eftir konuna sem þykir einn merkasti höfundur Bandaríkjanna nú um stundir, einhvers staðar sá ég hana orðaða við Nóbelinn.

Joan Didion er fædd 1934 í Kaliforníu og var blaðakona við tímaritið Vogue áður en hún varð þekktur höfundur bóka (fyrsta skáldsagan, Run River kom út 1963), esseia og kvikmyndahandrita sem hún skrifaði ásamt manninum sínum John Gregory Dunne. Nefna má A Star is Born sem Barbara Streisand lék aðalhlutverkið í og Panic in Needle Park sem gerði Al Pacino fyrst frægan árið 1971 (þar lék hann heróínista og skv. Mogganum var myndin niðurdrepandi en ég hef ekki séð hana). Ég hef sem fyrr segir ekki lesið neitt eftir Joan Didion nema The Year of Magical Thinking en greinar sem ég hef rennt yfir segja bækur hennar oft fjalla um konur á krossgötum og verkin lýsa sársauka, leiðindum og niðurbroti. Didion sjálf segist skrifa undir áhrifum frá m.a. Hemingway en henni er líka líkt við t.d. Hunter S. Thompson og Marguerite Duras og í New York Times stóð að Bret Easton Ellis dái hana mikið og hafi reynt að stæla hana.*


Aftur að bókinni sem hér er til umræðu, The Year of Magical Thinking, sem ég var ekki svo hrifin af til að byrja með. Hún fór á köflum dálítið í taugarnar á mér en ég ákvað samt að klára hana (enda er bókin frekar stutt) og í lokin var ég orðin þokkalega sátt. Bókin hafði líka þau áhrif á mig að síðan ég lauk við hana, fyrir rúmri viku, hef ég reglulega velt henni fyrir mér. Ég er búin að lesa helling um Joan Didion og fjölskyldu hennar á netinu og lenti meira að segja inni á spjallrás þar sem konan var nídd niður á alla kanta og sögð kaldlyndari en Nancy Reagan (svona eru konur diskúteraðar). Og já, hún virkaði oft á mig sem narsissísk og kuldaleg, fokrík kerling; hálfgerð gaddavírsrúlla. Hins vegar finnst mér ansi gott hjá henni að vera ekkert að fela það að hún sé engin alþýðleg krúttkerling heldur bara svellköld merkjafatatýpa sem lætur ekki bjóða sér hvað sem er, hún tekur það t.d. fram í bókinni að einu sinni hafi hún þurft að sofa í hótelherbergi (það var á sjötta áratug síðustu aldar) þar sem var ekki einu sinni baðherbergi með baðkari! Hins vegar hafði ég á tilfinningunni allan tímann sem ég las The Year of Magical Thinking að einhverju mikilvægu væri haldið leyndu fyrir mér - og auðvitað er því forvitnilegasta alltaf haldið leyndu í ævisögulegum bókum.

Quintana Roo, John Gregory og Joan
Bókin lýsir árinu sem leið eftir að John Gregory Dunne, eiginmaður Didion, lífsförunautur og samstarfsmaður í rúma fjóra áratugi, dó skyndilega. Þegar það gerist, þann 30. desember 2003, eru þau nýkomin heim af sjúkrahúsi þar sem dóttir þeirra á fertugsaldri liggur í dái milli heims og helju eftir að hún fékk flensu sem þróaðist út í lungnabólgu. Joan er að taka til kvöldsnarl og John situr fyrir framan arineldinn og það glamrar í klökunum í viskíglasinu þegar hann dettur skyndilega dauður niður í íbúðinni þeirra í New York. Bókin lýsir dauðastundinni af nákvæmni og því sem á eftir fylgdi næsta árið. Didion lýsir því hvernig hún upplifir sorgina og söknuðinn eftir John og rifjar eitt og annað upp úr lífi þeirra og segir dálítið frá veikindum dótturinnar. Í bókinni er aftur og aftur komið að því hversu lífið breytist gjarna á snöggu augabragði og að dauðinn komi alltaf á óvart. John Gregory Dunne var búinn að vera hjartasjúklingur í áratugi, hann var með gangráð og á áttræðisaldri en samt kom dauði hans eiginkonunni í algjörlega opna skjöldu. Árið eftir las Didion fjölda greina og bóka sem tengjast sjúkdómum og sorg, sem hún vitnar í í bókinni, hún lýsir viðbrögðum sínum og hvernig hún bjóst alltaf við að John kæmi aftur þó að hún hafi vitað að hann var dáinn, erfiðleikunum við að láta frá sér fötin hans, hvernig hún reyndi að forðast ýmsa staði sem minntu hana á hann. Hún segir líka frá framkomu fólks úti í samfélaginu við sig, bæði heilbrigðisstarfsfólks og vina.

Joan Didion pósar með sígó í bíl í Kaliforníu
Joan Didion skrifar mjög ósentimental stíl og það fannst mér heillandi (þó að hún sem persóna færi á köflum í taugarnar á mér) og oft finnst mér hún mjög skörp þó að hún alhæfi of oft fyrir minn smekk um hvernig fólki líður í einhverjum aðstæðum. Mér finnst eins og hún sé í raun að lýsa því í bókinni hvernig hún varð léttklikkuð eftir dauða mannsins síns, en svoleiðis hegðun er alveg samþykkt ef fólk er syrgjandi, t.d. vill hún ekki henda skónum hans því hún hugsar með sér að hann þurfi á þeim að halda þegar hann komi til baka. Ég get samt ekki sagt að ég hafi vorkennt henni við lesturinn og vorkunn er hún auðvitað ekkert að sækjast eftir, styrkur bókarinnar liggur raunar í því að Didion er svo mikill nagli. The Year of Magical Thinking hefur víða verið flutt sem einleikur, sú fyrsta sem fór í hlutverk Joan var Vanessa Redgrave, það var 2007 og verkið var sett upp í leikhúsi á Broadway. Þess má geta að um það leyti sem The Year of Magical Thinking kom út dó Quintana Roo, ættleidd dóttir Didion og Dunne (að sögn slúðurspjallsíðnanna úr alkohólisma en móðirin nefnir það víst ekki) og um dauða hennar skrifaði Didion bókina Blue Nights, ég efast um að ég lesi hana - en útiloka það samt ekkert.

*... there is a reason that the young Bret Easton Ellis admired Didion to the point of imitation, and it wasn't just an aesthetic admiration. She wrote so well about the empty lives of monied and celebrated California people because she was one of them, and not so free from their defining self-absorption as she may have believed.

3 ummæli:

Kári Tulinius sagði...

Ég hef ekki lesið The Year of Magical Thinking, en ég hef lesið tvær eldri bóka henna, Slouching Towards Bethlehem og The White Album. Báðar eru söfn ritgerða og tímaritsgreina sem hún skrifaði. Þær fjalla um Bandaríkin í víðu, en jafnframt persónulegu samhengi, sú fyrri um Bandaríki sjöunda áratugarins, en áttunda áratugarins í þeirri seinni. Báðar eru frábærar, en sú fyrri er reyndar alveg í sérflokki.

Þórdís Gísladóttir sagði...

Já, ég las einmitt að hún þætti skarpur rýnir á amerískt samfélag.

Sigfríður sagði...

Þessa verð ég að lesa. Hef aldrei spáð í að Joan Didion gæti verið eitthvað fyrir mig, en svona er nú D&D nauðsynlegur vettvangur!