28. mars 2013

Sagan Hans (ekki Grétu) . . . af heilögu bræðralagi bókmenntafræðinnar

Druslubókum og doðröntum barst eftirfarandi pistill frá Grétu Kristínu Ómarsdóttur, háskólanema og ljóðskáldi.

Virginia Woolf var kona. Og skáld.
Ég er fyrsta árs nemi í almennri bókmenntafræði við Háskóla Íslands og sit núna skyldunámskeiðið „Bókmenntasögu“ sem allir grunnnemar þurfa að sitja ef þeir ætla sér að útskrifast með BA gráðu. Sjálf ætla ég mér að gera það og er heldur annt um þessa menntun mína, ég valdi hana jú sjálf út frá mínu áhugasviði með mína framtíð fyrir augum. Ég er líka með kynjafræði sem aukagrein og byrjaði að sitja námskeið innan hennar haustið 2011. Síðan þá hefur mikið smurst ofan á veganestið sem ég tók með mér úr grunn- og menntaskóla og ýmislegt grátt og loðið þaðan lent í ruslinu.

Í dag geri ég ekki ráð fyrir því að læra eitthvað sem ég þarf síðar að „af-læra“. Ég geri ráð fyrir því að háskóli minn og kennarar mínir fylgi stöðlum okkar upplýsta, vestræna samfélags og miðli til mín og samnemenda minna þeirri þekkingu sem til er, segi mér alla söguna — ekki bara einhliða hluta hennar. En á Bókmenntasögunámskeiðinu kemur blákaldur veruleiki nútímans mér í opna skjöldu. Þar á að vera „veitt yfirsýn yfir bókmenntasögu síðustu 4000 ára með lestri valinna meistaraverka frá Afríku, Asíu og Evrópu“ eins og stendur í námskeiðslýsingu í kennsluskrá. Nemendur lesa 25 texta og textaflokka með það að markmiði að skilja samhengi þeirra og öðlast grunnþekkingu á sögu vestrænna bókmennta, hefðinni, kanónunni. Helsta kennslugagn námskeiðsins er Sýnisbók heimsbókmennta sem Gottskálk Jensson og Hjalti Snær Ægisson ritstýra en Hjalti Snær er einnig kennari námskeiðsins þetta misserið. Þessir virðulegu kumpánar velja téð meistaraverk sem reynast öll vera eftir kynbræður þeirra, fyrir utan fjögur kvæði og þrjú kvæðabrot eftir Saffó. Einnig eru í Sýnisbókinni nokkur forn-egypsk kvæði eftir ónafngreinda eða óþekkta höfunda sem gætu vel hafa verið konur ef marka má orð Virginiu Woolf um algengt kyn hins víðförula „anonymous“ í bókmenntasögunni.


Það er svo sem engin nýlunda að karlar einoki kanónur fræðanna og eigi langflest, ef ekki öll verk innan þeirra og það er heldur engin nýlunda að karlmenn skilgreini kanónur, þ.e. leggi mælikvarðana fyrir gæði verka sem tilheyra viðkomandi grein. Það þykir í raun ekkert tiltökumál að jaðarsetja helming mannkynsins.

Þetta rótgróna kerfi kennivalds innan bókmenntahefðarinnar nefndi Helga Kress „bókmenntastofnunina“ sem er „eins og aðrar meginstofnanir þjóðfélagsins patríarkölsk, þ.e. henni er stjórnað af karlmönnum í samræmi við hugmyndafræði feðraveldisins“. Hin ágæta Sýnisbók heimsbókmennta þykir mér endurspegla hversu góðu lífi patríarkalska bókmenntastofnunin lifir árið 2013. Kynjagleraugu eru óþörf, við þurfum rétt svo að píra augun á efnisyfirlitið til að sjá hvernig feðraveldið er allsráðandi:

- Ritstjórar Sýnisbókarinnar eru báðir karlar
 - Af 25 textum og flokkum sem þar eru til sýnis eru aðeins textabrot eftir konur, teljandi á einni hendi sem hefur lent í alvarlegu vinnuslysi
- Af 31 þýðanda eru aðeins fjórar konur
- Umbrotsmenn eru karlmenn og prófarkalesarar sömuleiðis

Í formála ritstjóra áréttar Gottskálk að Sýnisbók heimsbókmennta sé ekki eiginleg bókmenntasaga heldur bókmenntasögulegt safn sýnishorna úr sérvöldum öndvegisritum. Í framhaldinu afsakar hann hvernig „það [vanti] afar margt grundvallarritið í safnið sem gott væri að hafa þar“ og saknar sárt indverskra kviða, kínverskra ljóða, japanskra miðaldabókmennta og suður-amerískra rita. En Gottskálk saknar ekki kvenna. Hann saknar ekki Enhedúönnu frá Súmer, elsta þekkta skálds sögunnar, hann saknar ekki Sulpiciu, Hypatíu frá Alexandríu, Dhuodu, Övu frá Göttweig, Christine de Pizan, Margrétar Cavendish eða Öphru Behn. Á þær er ekki minnst.

Þvert á vaxandi vitund, þvert á niðurstöður póststrúktúralískra rannsókna og femínískrar gagnrýni á útilokandi og takmarkandi hefðaveldi bókmenntakanónunnar er konum enn meinaður aðgangur, ritskoðun kynjamismunar fortíðarinnar er enn við lýði. Bókmenntir kvenna skipta ekki máli, sögu kvennavitundar og reynsluheims kvenna er haldið fyrir utan vitundasögu, hugmyndasögu og bókmenntasögu mannkyns allt fram á okkar tíma.

Það er gömul tugga að sigurvegararnir skrifi söguna, og í þessu tilfelli eru sigurvegararnir tvímælalaust karlmenn, þeirra er arfleiðin, þeirra er bókmenntasagan. En mér er spurn — hver er ávinningur þeirra fræðimanna og kennara nútímans sem halda áfram að segja þá sögu og kenna hana af sannfæringu, þrátt fyrir að vita vel hversu takmörkuð hún er? Hvers vegna halda þeir áfram að þegja yfir bókmenntum kvenna eins og þær séu ekki til, eins og þær skipti ekki máli? Hvað eru þeir að verja annað en vald sitt yfir afbakaðri heimsmynd?

Fyrir einum 36 árum skrifaði Helga Kress grein um kvennarannsóknir í bókmenntum og sagði þar frá því hvernig kvenstúdentar í bókmenntum á 7. og 8. áratugnum „vöknuðu upp við þann vonda draum að kvenrithöfundar voru alls ekki með í námsefni þeirra, fundust ekki á námskrám og var sjaldan getið í bókmenntasögum...“ 36 árum síðar erum við enn „snoozandi“ í sömu martröðinni. Sér er nú hvert vöðvaminnið!

Á þessu meðvitundarleysi nærist hefðin og festist æ kyrfilegar í sessi eftir því sem keflið gengur óhindrað í arf milli kynslóða, frá Virgli til Dantes, Boccaccio til Chaucers, frá Gottskálki til Hjalta. Þeir haldast þéttingsfast í hendur pörupiltarnir og skiptast á orðsnilld, vitna hver í annan, byggja á og leika sér með einkahúmor þessa innsta hrings há- og heimsbókmennta þar sem engar stelpur eru leyfðar, liggaliggalá! En eins óskemmtilegt og það er að vera lokuð úti er hugsanlega enn verra að vera lokaður inni, eins og Virgina Woolf sagði svo snilldarlega. Það eru nefnilega ekki bara konur sem líða fyrir karlaveldið, kvenstúdentar eru ekki þeir einu sem eru skyldugir til að þekkja skakka mynd og fá aðeins hálfa sögu til að byggja alla áframhaldandi menntun sína á. Innsti hringur heimsbókmenntanna herðir að báðum kynjum og takmarkar skilning þeirra.

Bókmenntasagan eins og hún er kennd á þessu annars ágæta námskeiði tekur ekki mið af breyttum tímum og aukinni þekkingu á fortíðinni eða þeim mynstrum og valdakerfum sem grundvalla menningarlegan og samfélagslegan veruleika okkar. Við gerð Sýnisbókarinnar er einnig virt að vettugi 23. grein laga nr. 10/2008 um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla, en þar kveður á um að kennslu- og námsgögn skulu þannig úr garði gerð að kynjum sé ekki mismunað.

Ég ætla mér ekki að lögsækja kennara mína en ég hvet þá eindregið til að rísa úr rekkju, leggja frá sér Óvídus eitt augnablik og opna dyrnar, bæði til að lofta út eftir langan svefn og til þess að hleypa okkur stelpunum inn. Ég hvet þá sem völdin hafa til að slíta hlekk í þröngri keðju bókmenntakanónunnar og stækka hringinn, okkur öllum til góða.

-Gréta Kristín Ómarsdóttir

11 ummæli:

Þorsteinn sagði...

Haha, þetta mun valda fjaðrafoki! Frábær grein. Mér finnst mjög áhugavert að Saffó skuli vera þarna ein (nafngreindra) kvenna. Það trend er nefnilega 2600 ára gamalt; til Saffóar hefur verið gripið sem einu konunnar í karlaheimi bókmenntanna næstum frá því hún var uppi sjálf. (Ég stenst ekki freistinguna um að plögga BA-ritgerðinni minni um efnið: http://hdl.handle.net/1946/13574)

Unknown sagði...

meira gréta á internetinu, minna ekki gréta á internetinu!

Unknown sagði...

Takk, Meistari Gréta Kristín Ómarsdóttir, fyrir að segja og sjá það sem við hin vildum að við hefðum sagt og séð svo miklu fyrr.

Kristín Svava sagði...

Takk fyrir góða grein, Gréta!

Nú hefur títtnefndur kennari Bókmenntasögunnar plöggað þessari grein. Ég velti fyrir mér hvort honum þyki nægja að ástríðufullir nemendur fái að rasa út á kvennablogginu okkar, eða hvort gagnrýni af þessu tagi hafi nokkur áhrif á sýnisbókmenntirnar eða kennsluna í bókmenntafræðinni yfirhöfuð?

Finnur sagði...

Góð grein og greinilega þörf.

Salka Guðmundsdóttir sagði...

Þúsund þakkir fyrir þessa grein.
"Bókmenntasagan eins og hún er kennd á þessu annars ágæta námskeiði tekur ekki mið af breyttum tímum og aukinni þekkingu á fortíðinni eða þeim mynstrum og valdakerfum sem grundvalla menningarlegan og samfélagslegan veruleika okkar." Þetta er einmitt málið, þrátt fyrir gjörbreyttan skilning á valdakerfum og því hvernig kanónan mótast er eins og allt batteríið sé mörgum skrefum/áratugum á eftir. Óþolandi alveg hreint.

Erla Elíasdóttir Völudóttir sagði...

Ekkert smá þarft pot í stofnunina, ætti að vekja hlutaðeigendur til þó ekki væri nema umhugsunar. Frábær punktur líka með vafasamt stöff sem þarf að aflæra, maður hefði getað haldið svoleiðis liðna tíð á háskólastigi.

Ég var sjálf í þessu sama námskeiði, nýskriðin úr menntó fyrir hátt í áratug síðan, og eins mikið og svona skekkja myndi stinga mig í dag man ég ekki eftir að hafa veitt þessu sérstaka athygli þá - ef ég hugsa til baka voru allskonar konur og textar þeirra hér og þar í náminu almennt, en það er rétt að þær voru einmitt fjarri í þessu námskeiði, sem þó á að spanna heimsbókmenntirnar. Sem er fáránlegt, og mér í dag finnst næstum jafnfáránlegt að hafa ekki séð það þá... var greinilega samdauna stofnuninni jafnvel meir en ég hefði haldið.

Arngunnur Árnadóttir sagði...

frábær grein!

21 stafir sagði...

Nú er ég forvitinn... Hvað með Murasaki Shikabu? Hún skrifaði Söguna af Genji, sem má teljast fyrsta skáldsagan. Er hún ekki þarna?

Unknown sagði...

Frábær hugvekja og það árið 2013. Er þetta ekki örugglega að gerast í HÍ á 21. öldinni? Jahérna...

Þorsteinn Þorsteinsson sagði...

Mér finnst umræðan lýsa nokkru óraunsæi. Jafnvel framsóknarmenn eru meiri realistar, þeir eru farnir að viðurkenna að við getum ekki afnumið verðtrygginguna aftur í tímann. Og við sem nú lifum við upphaf 21. aldar getum ekki breytt sögu mannkyns á liðnum árþúsundum, jafnvel ekki á síðustu öldum. Þó okkur þyki það miður verðum við að bíta í það súra epli að Kafka, Jóna Thoroddsen og Halldóra Laxness voru karlmenn. Nokkur huggun er þó að sumir bestu prósahöfundar okkar á síðustu öld voru konur: Málfríður Einarsdóttir, Svava Jakobsdóttir, Jakobína Sigurðardóttir, og konur eru nú á meðal bestu skálda okkar og rithöfunda. Heimur batnandi fer.