Hinn norsk-danski Lars Saabye Christensen er afkastamikill rithöfundur sem heimsótti Bókmenntahátíð í Reykjavík fyrir nokkrum árum. Um helgina var byrjað að sýna á RÚV þætti eftir skáldsögunni Hálfbróðurnum, en fyrir hana hlaut hann Bókmenntaverðlaun Norðurlandaráðs árið 2002. Sú bók hefur verið þýdd á fjölmörg tungumál og hún kom út á íslensku fyrir um áratug í þýðingu Sigrúnar Kr. Magnúsdóttur. Hálfbróðurinn má enn kaupa hjá útgefanda og hún kostar minna en kók og pulsa. Önnur bók eftir Lars Saabye Christensen, Hermann, kom út á íslensku árið 2005, einnig í þýðingu Sigrúnar Kr. Magnúsdóttur, en fyrir hana fékk höfundurinn norsku kritiker-verðlaunin árið 1988. Eftir bókinni hefur líka verið gerð kvikmynd og hún hefur verið þýdd yfir á fjölmargar tungur. Ég er hrifin af Hálfbróðurnum en ekki síður hrifin af Hermanni* en hún er mun nettari bók að umfangi en Hálfbróðirinn og atburðarásin einfaldari.
Sögusviðið er Osló fyrir nokkrum áratugum. Sagan lýsir einum vetri í lífi Hermanns, drengs sem er á að giska 10 ára. Snemma í sögunni fer hann til rakara sem hættir skyndilega að klippa í miðju kafi og vill fá að tala við mömmu hann. Þarna kemur í ljós að strákurinn er kominn með blettaskalla og hann verður síðan smám saman sköllóttur.
Hermann er einn þeirra drengja bókmenntanna sem sameina það að vera barn og fullorðinn. Hann er dreyminn og utan við sig, sér hlutina frá óvenjulegum sjónarhornum og brýtur heilann um ýmislegt skondið, svo sem hvort hláturinn sé í raun sjúkdómur þar sem mamma hans segir hlátur vera smitandi. Þegar hárið fer að falla af kollinum verða annars nokkuð flókin samskipti stráksins við foreldra og skólafélaga ennþá flóknari og sömuleiðis á hann að sjálfsögðu í innri baráttu sem hlýtur að fylgja því að vera barn sem fær sjúkdóm sem veldur skalla. Hermann er samt verulega hæpið að kalla félagslega raunsæisskáldsögu sem lýsir þjáningu óhamingjusams barns og einelti og erfiðleikum í samskiptum við skilningssljóa foreldra og kennara en foreldrarnir, sem vita ekki alveg hvernig þau eiga að umgangast sköllótta drenginn sinn, eru svona dæmigert og hversdagslegt besta fólk, ósköp væn og indæl hjón, pabbinn kranastjóri og mamman starfsmaður í kjörbúð. Léttleikinn er yfir og allt um kring og bókin er á ljúfsárari kantinum.
Til hliðar við sögu Hermanns eru sagðar aðrar litlar sögur sem spegla sögu aðalpersónunnar. Þar má nefna sögu afans, sem er farlama og getur ekki stigið í fæturna, en er þrátt fyrir það að eigin sögn „frískur einsog fiskur.“ Einnig er sögð saga vinar Hermanns, sænska rónans Pantsins, sem Hermann kaupir öl fyrir og saga „konunnar með maurana“, Huldu Hansen, sem krakkarnir stríða, en hún er fötluð fyrrverandi leikkona sem hefur leikið í kvikmynd á móti sköllótta Hollywoodleikaranum Yul Brynner.
Hermann er þægileg og lestrarvæn bók. Hún er hvorki löng né beinlínis flókin og sagan er fyndin þrátt fyrir sorglegan undirtón. Húmorinn er hlýr og lágmæltur og kallar ekki fram stórkallalegan hrossahlátur. En sagan um Hermann býður lesanda líka að kafa í djúpið og velta því fyrir sér hvers vegna við kjósum að vorkenna þeim sem skera sig úr. Eftir að mamman hefur talað við skólastjórann vegna hárlossins og allir þeir sem áður stríddu Hermanni fara að vorkenna honum, verður lífið fyrst erfitt fyrir strákinn. Hver vill láta vorkenna sér? Hermann upplifir að um leið og samúðin fer að flæða yfir hann minnkar virðingin fyrir honum. Honum finnst hann beinlínis verða ósýnilegur. Þeir sem vorkenna öðrum hljóta að telja viðkomandi líða einhvern skort. Fólk álítur þann sem þarf á samúð að halda vanta eitthvað sem hinir hafa. En það er tæpast slíkt viðhorf sem viðkomandi þarf á að halda. Það sem er mikilvægast er að njóta virðingar, að fólk fái að vera nákvæmlega eins og það er þótt það kunni að skera sig úr fjöldanum. Þessu tekst Lars Saabye Christensen að koma til skila með því að segja fallega og dálítið sorglega sögu með húmor.
*Þetta blogg er raunar endurvinnsla á ritrýni sem ég skrifaði um bókina fyrir Moggann.
Engin ummæli:
Skrifa ummæli