Úr hverju er tungumálið?
Er það gert úr holóttu konunni
sem stendur alltaf á bak við hurð
eða er það gert úr ótta?
Á meðan hún talar
viðheldur hún blekkingunni
um að hún sé heil.
Munnurinn tælir hjartað.
Orðin laðast að henni
eins og skortur.
Á meðan hún talar er annað ljóðið í fyrstu ljóðabók Öldu Bjarkar Valdimarsdóttur, Við sem erum blind og nafnlaus, sem kom út hjá JPV síðasta vor. Í kjölfar vel heppnaðs viðtals við Kára Pál Óskarsson sem birtist hér á vefnum um síðustu helgi ákváðu Druslubækur og doðrantar ehf. að halda ljóðaviðtölunum áfram og ræða við eitthvert þeirra fjölmörgu skálda sem gáfu út ljóðabækur á síðasta ári.
Sæl, Alda, takk fyrir að vera til í að koma í viðtal! Mig langaði til að spyrja þig fyrst út í titil bókarinnar – Við sem erum blind og nafnlaus. Titilljóðið er úr fjórða hluta bókarinnar af fimm, sem ber nafnið Minnisblöð óþekktu húsfreyjunnar. Í því virðist karlinum lýst sem handhafa raddar, nafns og sjónar en konan er í hlutverki þiggjanda, hún er án nafns og orða. Hvaðan kemur þetta fyrrnefnda ljóð og hvers vegna valdirðu þennan titil á bókina?
Ljóðið „Við sem erum blind og nafnlaus“ er kannski svolítið í anda annarrar kynslóðar femínisma. Konan er í sjónmáli karlsins, hún á sér ekki sína eigin rödd. Hann skilgreinir hana og gefur henni nafn. Hún speglar sjálfa sig í honum og hann gefur henni í raun sjálfsmynd. Þetta má allt tengja við rótgrónar femínískar kenningar sem passa vel við þennan hluta ljóðabókarinnar.
En ljóðið heitir samt ekki „Við sem erum blindar og nafnlausar“ því að mér þótti mikilsvert að týna ekki tilvistarlegu hugmyndinni að öll séum við í raun blind og nafnlaus. Ég vil ekki síður halda tilvistarlegu hugmyndunum á lofti en þessum femínísku og félagslegu. Hver erum við þegar það er búið að taka frá okkur nafnið og tungumálið? Ég er að vinna með það hversu upptekin við erum af yfirborði og ímyndum og tilhneigingu okkar til að þess að stimpla fólk með einföldum skilgreiningum. En ég spyr líka: Erum við nafnið okkar? Er hægt að skilgreina sjálfan sig með tungumálinu? Eigum við að leyfa öðrum að skilgreina okkur með orðum? Eða er innra með okkur einhver kjarni sem liggur handan nafnsins og handan orðanna sem við ættum kannski að einblína meira á heldur en við gerum, sem samfélag og sem manneskjur – og hvernig gerum við það? Við höfum notað tungumálið til þess að fjarlægja okkur frá hinum dýrunum, frá vistkerfinu, frá jörðinni og í því liggur hroki okkar og hugsanlegt fall.
Þú skrifar raunar víða í bókinni um tungumálið og takmarkanir þess í mannlegum og kvenlegum samskiptum. Þó ert þú, skáldkonan, búin að skrifa heila bók þar sem þú notar tungumálið, ljóðlistina, til að tala við okkur lesendur þína. Við Kári Páll Óskarsson ræddum þessa mótsagnakenndu stöðu skáldsins dálítið í síðasta viðtali sem birtist hér á síðunni. Þið eigið það sameiginlegt sem skáld að hafa varann á gagnvart því sem þó er verkfæri ykkar. Hvað finnst þér um þetta? Hefur þessi spenna sérstaka kynjapólitíska merkingu? Greinirðu kannski á milli tungumáls hversdagslegra samskipta og svo tungumáls ljóðlistarinnar?
Ég held einmitt að tungumálið sé vandmeðfarið og hægt að nota það í góðum og slæmum tilgangi. Við náum völdum í gegnum samræðulistina og þeir sem eiga auðvelt með að tileinka sér orðræðukerfi eru gjarnan valdamiklir. En oft er þessi orðræða búin til úr einhverjum tískustraumum og býr til ákveðna hjarðhegðun, sem stýrir t.d. viðhorfi okkar til náttúrunnar, samfélagsins og hvers annars. Þannig er oft ekkert sérstaklega djúp hugsun að baki því hvernig við notum tungumálið, það verður að aðferð til þess að lýsa veruleikanum burtséð frá því hvort þessi tiltekna aðferð henti eða dýpki raunverulega skilning.
Á einstaklingsbundnu plani getur þessi skilgreiningarárátta verið varasöm, hvernig við erum sífellt að koma öðrum fyrir innan ákveðins ramma. Í ljóðinu „Minningar“ ræði ég hversu hættulegt það er fyrir börn að hlusta á lítt hugsaðar skilgreiningar á sér. Við viljum gjarnan hólfa fólk niður á þægilegan máta fyrir okkur sjálf. Tungumálið er það sem bindur okkur saman og manneskjur sem hafa ekki vald á orðræðunni og eru ekki færar í samræðulistinni geta orðið útundan. Stundum hentar það okkur ekki heldur að leyfa þeim að tala. Þannig getur tungumálið verið valdbeitingartæki eins og femínisminn hefur greint svo vel og er þá notað til þess að kúga og þagga niður, viðhalda valdaleysi einstaklinga og hópa. Það er írónískt að sá þaggaði verður að læra að ná valdi á því orðræðukerfi sem hefur haldið honum niðri ef hann vill að á hann sé hlustað eða til þess að geta varið sig.
Skáldlegt tungumál á að vera tæki til þess að opna fyrir skilning, draga fram valdbeitingu, afbyggja ráðandi orðræðu og gefa minnihlutahópum rödd. Það á líka að vera leið til þess að horfa upp á nýtt. Skáldskapurinn getur þannig veitt aðhald og haft pólitískt gildi. Góður skáldskapur hristir upp í vanabundinni og vélrænni hugsun en ég tel reyndar einnig að vönduð fræði geri það líka.
Ljóðmálið í bókinni er einfalt og látlaust þótt maður hafi tilfinningu fyrir því að það sé líka mjög markvisst. Gætirðu þín meðvitað á því að skrúfa ekki upp textann eða kemur þetta bara eðlilega?
Ég fann rödd mína hratt, en ég var mér líka meðvituð um það sem ég vildi gera. Ég reyni að orða hlutina eðlilega og einfalt. Þetta er að hluta til fagurfræðileg ákvörðun. Ég er t.d. ekki svo hrifin af því að fletta orðum upp í orðabókum því þá finnst mér tungumálið geta orðið tilgerðarlegt og uppskrúfað þó að vissulega hafi ég gaman af orðgnótt annarra skálda. Í þessari ljóðabók vildi ég að ljóðin væru látlaus og auðskiljanleg a.m.k. á yfirborðinu. Það merkir samt ekki að þau geti ekki verið margræð og í sumum tilfellum getur þessi einfaldleiki kannski blekkt lesandann og gerir líklega stundum. Ljóðin eiga að vera grípandi við fyrsta lestur en þola vonandi nákvæma textagreiningu.
Stór hluti ljóðanna gerast í hversdeginum – það er verið að drekka kaffi, taka síma úr sambandi, synda, innrétta eldhús. Samt er þarna bak við önnur vídd, hversdagslegar athafnir og hugsanir eru hlaðnar merkingu. Þetta kemur vel fram í ljóðunum um dauðann, sem mér finnast ein þau fallegustu í bókinni. Þau ná einhvern veginn utan um það hvernig dauðinn er í senn hversdagslegur – „Mamma deyr klukkan fjögur / klukkan sex förum við í sund, / pabbi minn og ég“ – og „ekki af þessum heimi“, eins og er svo vel lýst í samnefndu ljóði. Hvaða augum lítur þú þetta - ertu að yrkja um hversdaginn eða eilífðina eða hvort tveggja?
Við getum hér haft í huga það sem ég sagði um að skáldskapurinn geti rifið mann út úr vélrænunni. Það er einmitt það sem gerist líka þegar einhver nákominn þér deyr. Þú ert rifin út úr hversdagsleikanum og horfir öðruvísi á umhverfi þitt. Skynjanir þínar og tímaskyn breytast og það sem þú gerir á hverjum degi, eins og fara í sund eða göngutúr verður ekki lengur venjulegt heldur merkingarþrungið. Hversdagslegustu hlutir eins og blómabeð í júnímánuði segja þér að sá sem dó er nálægur. En um leið ertu á valdi vélrænunnar, kannski vegna þess að þú ert dofin sem lýsir sér t.d. í vanaföstum sundtökunum. Eftir dauðsfall tekur líka alls kyns sjálfvirkni við, allskonar siðir og venjur tengdar andláti.
Ég held samt að ég sé ekki svo mikið að skrifa um eilífðina. „Þrjú tregaljóð um Elís“ snúast fyrir mér t.d. fyrst og fremst um auðnina sem sá látni skilur eftir sig hjá eftirlifendum, rétt eins og „Draumljóð“ gerir. Þeir tveir hlutir sem rífa okkur út úr vélrænunni eru dauðinn og ástin. Dauðinn er t.d. ávarpaður í „Deginum fyrir föstudaginn langa“, hann er þessi þú sem er fjarverandi en talað til í fyrsta hluta ljóðsins. Í þriðja hluta ljóðsins snýr ljóðmælandinn sér að svo að viðfangi ástarinnar. Dauðinn tekur á sig alls konar myndir í ljóðabókinni, hann er líka svipur sem ásækir lifendur og fylgir þeim, spegilmynd og skuggi, jafnvel sjálft táknkerfið ef við t.d. lesum lokalínur fyrsta ljóðsins í bókinni írónískt, eins og ég kýs að gera. Farvegir táknanna geta verið baneitraðir.
Þú skrifar fleira en ljóð, ekki satt? Hvað er það við ljóðformið sérstaklega sem heillar þig?
Það sem heillar mig við ljóðformið er þessi þjappaða hugsun. Mér hefur fundist prósi frekar bjóða upp á það að hugsunin springi út í margar áttir. Í ljóðum skiptir hvert einasta orð máli og eitt ljóð getur í raun rúmað það sem heil skáldsaga tekst á við. Mér finnst það vera áskorun að koma frá sér hugmyndum á jafn þéttan hátt og ljóðið býður upp á.
Þú starfar sem kennari í bókmenntafræði við Háskóla Íslands og hefur á þeim vettvangi rannsakað jafn ólíka höfunda og Jane Austen og Hallgrím Helgason. Hvernig finnst þér það fara saman að vera bókmenntafræðingur og ljóðskáld? Eru skýr mörk milli fræðimannsins og skáldsins í þér? Horfirðu til dæmis á þín eigin verk með hinum greinandi augum fræðanna?
Fræðin eiga það kannski sameiginlegt með ljóðlistinni að einkennast einmitt af samþjappaðri hugsun. Þannig finnst mér oft ekki svo mikið bil milli ljóðlistar og fræðilegra efnistaka. Að því sögðu myndi ég gjarnan vilja minnka bilið á milli fræðanna og skáldskaparins. Mér finnst þessi mörk vera spennandi og gæti vel hugsað mér að skrifa fræði sem væru skáldlegri en ég hef hingað til gert. Í skáldskapnum er meira rými, meira frelsi en í akademískum vinnubrögðum en þó tel ég fræðin ekki síður vera vettvang fyrir skapandi hugsun. Og rithöfundar þurfa á sama hátt að tileinka sér tækni og aðferðir þegar þeir skrifa. En ég á samt erfitt með að setja mín eigin ljóð í fræðilegt samhengi, kannski af því að þau standa mér of nálægt. En það merkir ekki að ég sé mér ekki meðvituð um hugsunina að baki þeim.
Hvaða ljóðskáldum öðrum ertu hrifin af, til hvaða eða hvers konar annarra skálda sækirðu innblástur og fyrirmyndir?
Ég les töluvert af ljóðum bæði íslensk og erlend. Það hjálpar hversu gríðarlega mörg góð ljóðskáld við eigum á Íslandi. Af erlendum skáldum hef ég lesið mikið og orðið fyrir áhrifum af bandarísku skáldunum, Sylviu Plath, Louise Glück, Sharon Olds, H.D. og E.E. Cummings, breska skáldinu Ted Hughes og þýsku mælandi skáldinu Paul Celan. Ég hef áhuga á játningaskáldskap og módernískri ljóðagerð almennt.
Bókin þín kom út hjá stóru forlagi, JPV, og að vori, semsagt ekki á mesta aksjóntímanum í bókaútgáfunni, en hlaut þó nokkra athygli. Hvernig fannst þér útgáfuferlið sjálft?
Ég var mjög hrifin af því að gefa út að vori og var ánægð með viðtökurnar á bókinni og þakklát fyrir það hvernig Forlagið stóð að útgáfunni. Það var afskaplega gefandi að vinna með ritstjóranum mínum, Guðrúnu Sigfúsdóttur, sem hefur mikið næmi á skáldskap.
Ætlarðu að halda áfram að skrifa og gefa út skáldskap?
Já, ég mun halda áfram að skrifa og örugglega reyna að gefa meira út. Ég myndi ekki gefa skrifin upp á bátinn þó að ég væri ekki að gefa út.
Druslubækur og doðrantar þakka Öldu innilega fyrir spjallið. Við ljúkum viðtalinu á öðru ljóði úr bókinni, hinu fyrrnefnda Ekki af þessum heimi, en fyrir það var Alda valin Háskólaskáldið í ljóðasamkeppni Stúdentablaðsins 2013 (en undirritaður fulltrúi D&D var raunar annar dómara í þeirri keppni).
Og þú gengur út um dyrnar
út úr ljósinu
fram hjá mér
fram hjá hálfnöktum trjám
fullum af sólberjum
fram hjá fuglum sem breiða út vængina
með fram visnuðum
bakka árinnar
á þriðja degi
fram hjá mér
inn í auðn þar sem hvorki er
eldur né vatn.
Engin ummæli:
Skrifa ummæli