7. desember 2018

Sveinarnir, rannsóknin og miðlunartillaga mömmu


Þegar ég var lítil neitaði ég algerlega að taka þátt í því að lokka hrekkjótta karla inn í svefnherbergið mitt. Þrátt fyrir möguleika á mandarínum. Miðlunartillaga mömmu var að skórinn sem allt snérist um færi upp í glugga í stofunni og ég lokaði hurðinni vel inn til mín. Ef mamma vildi hætta á að fá einhverja leppalúða í heimsókn þá var það hennar mál. Þetta situr svo fast í mér að krakkarnir mínir hafa aldrei verið spurð að því hvort þau vilji hafa skóinn úti í glugga hjá sér. Þeir eru bara í stofunni.

Þjóðfræðingurinn Benný Sif Ísleifsdóttir tekur sitt fyrsta jólabókaflóð með áhlaupi. Hún er með tvær bækur í ár, annars vegar skáldsöguna Grímu sem hún hlaut nýræktarstyrk frá Miðstöð íslenskra bókmennta fyrir og hins vegar barnabókina Jólasveinarannsóknin sem fjallar einmitt um samviskuspurninguna um skóinn, traustið og foreldrana. 

Jólasveinarannsóknin er spennandi og skemmtileg frásögn sem ætti að höfða til ungra krakka sem eru með skó úti í glugga. Henni er skipt upp í 13 kafla sem hver er mátulegur að lengd fyrir kvöldlestur þá þrettán daga sem jólasveinarnir eru á gluggunum. Og minnir þannig á klassískar jólasveinabækur eins og Jólasveinana eftir Iðunni Steinsdóttur og Búa Kristjánsson. Jólasveinarannsóknin er þó kirfilega staðsett í nútímanum og söguhetjurnar Baldur, Elías og Hjörtur notfæra sér snjalltæki þegar þeir reyna að veiða jólasveina, eitthvað sem allir á Íslandi ættu mögulega að vera búnir að tileinka sér eftir fréttir síðustu viku!

Það er stóra spurningin sem hefur brunnið á íslenskum börnum: „jólasveinar eða foreldrar?“ sem strákarnir eru að reyna að svara. Strákarnir gera sér algerlega grein fyrir því að það verður að vera óyggjandi sönnun og helst myndskeið því þá kemst maður í Krakkafréttirnar og verður frægur. Benný fléttar inn í fjöruga frásögnina umfjöllun um örugga notkun á snjalltækjum og þá sérstaklega hvort það sé í lagi að taka upp og dreifa myndum af fólki, þó að það séu jólasveinar, án þess að spyrja um leyfi. Það tekst nokkuð vel til með að opna augu ungra lesenda fyrir þessu mikilvæga málefni án þess að Benný missi niður dampinn í frásögninni, sem betur fer, því fátt er leiðigjarnara en umvandanir og puttar á lofti í barnabókum.

Það er frábært að skrifa bækur sem höfða sérstaklega til stráka og mikið hefur verið rætt um vöntunina á slíku efni. Það er nokkur galli hvað stelpur koma lítið við sögu í Jólasveinarannsókninni. Þær eru tvívíðir óþolandi bekkjarfélagar í fjarlægð og hafa ekki mikil áhrif á frásögnina fyrr en í blálokin – en koma þá sannarlega sterkar inn. Bók sem höfðar til stráka þarf samt ekki endilega að þýða bók án stelpna.

Skemmtilegar myndir eftir Elínu Elísabetu Einarsdóttur prýða Jólasveinarannsóknina en mér fannst samspil mynda og texta ganga vel upp og styðja hvort annað.

Nú nálgast fyrsti jólasveinninn byggðir og ég hlakka til að eiga lestrarstund með stráknum mínum og Jólasveinarannsókninni á hverju kvöldi til jóla. En fyrst munum við setja skóinn út í gluggann.
Í stofunni.

1 ummæli:

urgent loan sagði...

BUSINESS LOAN PERSONAL LOAN HERE APPLY NOW WhatsApp +918929509036 financialserviceoffer876@gmail.com Dr. James Eric