 |
Mandela ungur og aldeilis huggulegur |
Ef frá er talið ungæðislegt dálæti mitt á hljómsveitinni ABBA þegar ég var svona sirka 12 og 13 ára þá hef ég einhverra hluta vegna aldrei náð að verða heltekin af persónudýrkun eða aðdáun á listamönnum, stjórnmálamönnum eða öðru málsmetandi fólki. Sennilega er þetta einhver karakterdefekt sem ég bara ræð ekki við, en ég hef oft öfundað fólk sem lifnar allt við og ljómar þegar það ræðir um uppáhalds rithöfundinn sinn, stjórnmálamanninn eða sjónvarpstýpuna sem það elskar þá stundina. Ég hef t.d. aldrei haft nokkurn einasta áhuga á að hitta og ræða við þá rithöfunda sem ég hef lesið mest og stúderað í það og það skiptið. Hefur alltaf fundist bara alveg nóg að lesa eftir þá góða texta og pæla í þeim á alla kanta en einhvernveginn aldrei talið að það að ræða persónulega við manneskjuna myndi bæta miklu við þá upplifun. Þetta þrátt fyrir það að vera í raun ansi forvitin og hafa gaman af að hnýsast í æfisögur, bréf og allskyns viðtöl við fólk.