29. desember 2011
Á himni blikar stjörnufjöld
Ég þekki ekki söguna en einhvern tíma hefur sá siður komist á að ritdómarar í fjölmiðlum gefi bókum einkunnir, gjarnan á stjörnuformi. Hið sama tíðkast í umfjöllun um kvikmyndir, leiksýningar og hljómplötur. Kannski megum við eiga von á stjörnugjöf fyrir myndlistarsýningar innan tíðar, eða kannski tíðkast slíkt einhvers staðar nú þegar án þess að ég hafi rekist á það. Hvaða grundvöllur er fyrir stjörnugjöf í listum?
27. desember 2011
Af tímaritinu Sögu, temynntum dreifbýlismeyjum, íbenholtlitaðri bládís, fólki með blátt blóð og fleiru sem Jakob Frímann man
Jakob hefur frá mörgu að segja enda er bókin ekkert smákver heldur tæpar fjögurhundruð síður og spannar líf Jakobs og störf frá fæðingu. Allir vita örugglega hver Jakob Frímann Magnússon er, mér finnst hann allavega hafa verið mjög áberandi alla mína ævi. Það kemur líka fram í bókinni að hann er hvorki hlédrægur né nístandi sjálfsgagnrýninn, grobbsögur og sjálfshól má víða finna. Bútar í upphafi bókarinnar, þar sem lýst er bernsku Jakobs hjá ömmu og afa minntu mig á Sól í Norðurmýri, aðra endurminningabók sem Þórunn á hlutdeild í, en þegar bernskan er liðin tekur rödd aðalsöguhetjunnar við, eins og maður kannast við hana úr fjölmiðlum og bíómyndum, og að því leyti má segja að bókin sé vel heppnuð, mér fannst ég bókstaflega heyra málróm Jakobs við lesturinn.
26. desember 2011
Jólafixið
Eitt skemmtilegasta jólaverk sem ég þekki er smásagan / stuttmyndin The Junky´s Christmas, sem ég hef reyndar aldrei séð í Ríkissjónvarpinu. Smásagan er eftir mann sem maður hefði varla tengt við jólalega tjáningu frekar en...tjah, Bob Dylan eða Guðberg Bergsson, það er bandaríska rithöfundinn William S. Burroughs.
24. desember 2011
Bráðskemmtileg barnabók um dauðann
Þetta er óvenjuleg bók – hún fjallar um Bíbí sem býr með mömmu sinni, pabba og gamla, síprumpandi hundræksninu Mónu í borg í Hollandi. Pabbi Bíbíar er læknir og fer reglulega til stríðshrjáðra landa til að starfa sem einhvers konar læknir-án-landamæra og þegar hann fer í enn einn túrinn eru Bíbí og mamma auðvitað ansi kvíðnar um að eitthvað komi fyrir hann. Eftir samtal við mömmu um hversu litlar líkur séu í raun á að eitthvað komi fyrir pabba verður Bíbí gríðarlega upptekin af „líkum“ og hvernig megi minnka þær eða auka. Það eru litlar líkur á því að barn eigi dáinn pabba – en það eru enn minni líkur á því að barn eigi bæði dáinn pabba og dána mús – og næstum því útilokað að eiga dáinn pabba, dána mús OG dáinn hund. Bíbí ákveður að reyna að minnka líkurnar á því að eitthvað komi fyrir pabba og um það snýst eiginlega þessi saga.
Fegursta líkið
Ég var grínlaust búin að hlakka frekar mikið til að þessi bók kæmi út. Ég hef heyrt Pál fjalla um efnið, meðal annars á bráðskemmtilegu málþingi um Jón Sigurðsson á Skagaströnd síðasta haust, og það verður að segjast að þessi bók lítur allavega út fyrir að vera miklum mun skemmtilegri og ferskari en Jónsbókin sem fylgdi Skírni um daginn (Jón Sigurðsson – hugsjónir og stefnumál). Kannski er það bara vegna þess að mér þykir Jón Sigurðsson sem þjóðhetja og táknmynd miklu áhugaverðari en hugsjónir og stefnumál Jóns í lifanda lífi – þarf að ræða það mikið frekar? Eða jú, það er eins gott að hægt sé að ræða það frekar, til að prófessorinn í Jónsembættinu sem Alþingi hefur prangað inn á Háskóla Íslands hafi nú eitthvað að gera þar til hann verður emeritus.
21. desember 2011
Óskalistinn
20. desember 2011
Góður matur - gott líf
Þær uppskriftabækur sem eru mest í höndunum á mér eru: stóra gula Nanna af því hún nær yfir allt og klikkar aldrei. The Kitchen Diaries þess frábæra matarpenna Nigels Slaters sem leiðir mann í gegnum heilt ár af matargerð. Í þeirri bók er fullt af hugmyndum að reddingum sem geta bjargað kvöldinu þegar maður nennir ekki að elda (það var samt örugglega ekki markmið höfundarins). Ég lærði reyndar að elda hjá mömmu, pabba og ömmu með því að standa á stól inni í eldhúsi og fá að hræra í pottum og taka þátt í matargerðinni, en fyrsta matreiðslubókin sem ég kynntist var Við matreiðum eftir Önnu Gísladóttur og Bryndísi Steinþórsdóttur í heimilisfræði í barnaskóla og hún er alltaf til taks fyrir íslenska heimilismatinn, kannski bara af vana. Ég bætti við nærsafnið einni belgískri þegar ég bjó þar í landi, og svo er það kverið sem geymir lykiluppskriftir fjölskyldunnar með handskrift nokkurra kynslóða. Þar lifir nostalgían í kökum og réttum sem eignaðir eru hinum ýmsu konum (og einum Sigga).
Milli nándar og næðis
18. desember 2011
Pólitík bleiku slaufunnar
Öll þekkjum við einhvern sem hefur um lengri eða skemmri tíma glímt við krabbamein. Þessi sjúkdómur, eða sjúkdómaflokkur væri líklega réttara að setja, dregur um 7 milljónir manna til dauða á ári hverju. Hér væri hægt að fara ítarlega í ýmsa tölfræði en ég ætla að sitja á mér og benda þess í stað á mjög áhugaverða bók um sögu krabbameins, sem þó er ekki umfjöllunarefni þessa pistils - The Emperor of All Maladies: A Biography of Cancer eftir lækninn Siddhartha Mukherjee en hún fékk Pulitzer verðlaunin í sínum flokki fyrr á þessu ári.
Október var alþjóðlegur krabbameinsvarnarmánuður og almenningi bauðst með ýmsum leiðum að styrkja málefnið. Hægt var að kaupa bleikar hrærivélar, bíla, snyrtivörur - jafnvel áfengi og sælgæti og leggja þannig rannsóknum á krabbameini lið. Svo var auðvitað hægt að kaupa bleiku slaufuna sjálfa til þess að hafa í barminum, og hinir efnameiri gátu fjárfest í demantsskreyttri útgáfu hennar. Sá sami hópur gat líka sótt ýmsar samkomur vestanhafs á borð við sérstaka góðgerðarkvöldverði þar sem miðinn kostaði formúgur.
Góðir lesendur
Bókaspjall um flökkubókmenntir og Götumálara Þórarins Leifssonar
KS: Ég var búin að hlusta á fínt viðtal druslubókadömunnar Þorgerðar E. Sigurðardóttur við Þórarin í Víðsjá áður en ég las bókina, og bókin kom mér dálítið á óvart eftir að hafa heyrt viðtalið – og líka bara eftir að hafa lesið aftan á kápuna. Þórarinn er augljóslega að skrifa inn í hefð flökku- eða ferðabókmennta. Hann nefnir sjálfur Dagbók þjófs eftir Jean Genet í viðtalinu, annars staðar sá ég að teikningarnar hans í bókinni vísa til Góða dátans Svejk, en svo má líka nefna bækur á borð við On the Road eftir Jack Kerouac. Það er verið að gefa borgaralegu líferni fingurinn, reglubundnu hversdagslífi með vinnu níu til fimm og svo framvegis, með því að flakka um, vinna sér inn pening eftir hentisemi, vera í tilviljanakenndum félagsskap hins og þessa fólks. Það sem ég fílaði ekki síst er að Þórarinn er ekkert að rómantísera þetta, það eru engir snillinga- eða hetjukomplexar í gangi eða háfleygar sjálfsánægðar vangaveltur um það hvernig hann hafnar hinu smáborgaralega hugarfari. En það kom mér á óvart hvað hann gengur langt með það; ég segi ekki að frásögnin sé steríl en stíllinn er rosalega látlaus, það er sagt frá hlutum eins og heróínneyslu og hættulegum villum á marokkóskum fjöllum í nákvæmlega sama tóninum og sagt er frá dvöl á virðulegum gistiheimilum. Frásögnin rennur þess vegna einkennilega ljúflega miðað við hversu óvenjulegt frásagnarefnið er – hann gerir hið óvenjulega venjulegt. (Þetta hefur skapað fyndinn kontrast í mörgum viðtölum og umfjöllun um bókina, þar sem blaðamaðurinn er að jesúsa sig yfir viðskiptum Tóta við lögregluna og eiturlyfjaneyslu og útigangi og reyna að gíra þetta upp í svakalega dramatík þegar textinn sjálfur gerir frekar í því að tóna hana niður. Enda sagði Þórarinn í fyrrnefndu Víðsjárviðtali að hann hefði jafnvel verið að pæla í að sleppa t.d. heróínneyslunni svo þetta færi ekki að minna á bækur með uppeldisboðskap eins og hann hefði fengið að gjöf á unglingsárum sínum.)
17. desember 2011
maður verður til og maður deyr osfrv.
í fyrstu mikil spenna fyrir komandi leyndardómi
þá taktur fastur og endurtekinn riþmi
þar sem hið nýja kemst í gamlan vana
inn og út þar til á andartaki springið þið
uppgötvið í augnablik fegurðina í heiminum
liggið svo í lakinu með sígó að spúa í hringi
aftur heima
maður fer inn í Bónus og aftur út
kveikir og slekkur á sjónvarpinu
rænir flugvél og flýgur henni inn í skýjaklúf
maður verður til
og maður deyr
osfrv.“ (18)
16. desember 2011
Smábækur en ekki smábarnabækur
Í Popular Hits II er Hugleikur samur við sig: svartur húmor túlkaður með einföldum teikningum af fólki í starfi og leik. Eins og titillinn gefur til kynna byggir bókin á vinsælum lögum. Hugleikur tekur þarna ýmist titla vinsælla laga frá ýmsum tímabilum eða fræga textabúta úr þeim og túlkar á sinn hátt. „Love Cats“ er til dæmis túlkað með mynd af fremur ókræsilegri konu í hægindastól umkringdri köttum, eða því sem á góðri íslensku kallast crazy catlady. Eins og Hugleiks er von og vísa eru sumar myndirnar ögrandi eða í dónalegri kantinum. Sjálfri finnst mér þetta stórskemmtileg bók og ég mæli með henni sem tækifærisgjöf fyrir erlenda vini, svona í staðinn fyrir hinn klassíska harðfisk og brennivín. Þó er hún líklega ekki heppileg fyrir viðkvæmna, sumt fólk kann jú ekki að meta kaldhæðni.
Generalizations about nations er þýðing á bókinni Alhæft um þjóðir sem kom út í hittifyrra. Á hverri blaðsíðu er alhæfing um einhverja þjóð skemmtilega myndskreytt. Teikningar Lóu eru margslungnar og fullar af sniðugum smáatriðum og vísunum og mér finnst þær drepfyndnar (og flottar!), og alhæfingarnar sem fylgja þeim líka. Þarna má til dæmis finna alhæfingar á borð við „Finnish men find it very uncomfortable when they run into their acquaintances“, „Greeks are very susceptible to fads“ og „Columbians have a hard time falling asleep“ (enda uppfullir af kaffi!). Bókinni er skipt í kafla á landfræðilegum grunni: Norður-Evrópa, Suður-Evrópa, Austur-Evrópa, Asía, Norður-, Suður- og Mið-Ameríka, Eyjaálfa og Afríka. Eins og ég hef þegar sagt finnst mér bókin drepfyndin en eiginlega er full ástæða til að endurtaka það. Mér finnst þessi bók brjálæðislega fyndin og ég get skoðað hana aftur og aftur. Í hvert skipti tek ég eftir einhverju nýju á þeim myndum sem ég skoða. Persónulega höfðar bók Lóu meira til mín en bók Hugleiks en það er sjálfsagt smekksatriði. Alla vega mæli ég með því að allir kaupi þessa bók og gefi erlendum vinum, ja, eða bara til að eiga sjálfir. Hið sama gildir og um bók Hugleiks að þetta er ekki bók fyrir þá sem ekki kunna að meta kaldhæðni (og slíkt fólk er vissulega til) en ólíkt Hugleiksbókinni er hún þó laus við dónamyndir (nema fólki finnist dónó að hafa mynd af einhverjum á klósettinu eða pari í sleik).
Hann fékk bók en hún fékk nál og tvinna ...
Meðal bókanna sem flokkaðar eru fyrir hana eru sama uppeldishandbók, ævisaga og sjálfshjálparbók og ætlaðar eru körlunum, en þar eru líka bækur um handavinnu, Borða, biðja, elska eftir Elizabeth Gilbert, bók um förðun og spennusaga eftir Anne Holt. Samkvæmt þessu virðist ekki sérstaklega gert ráð fyrir því að konur hafi áhuga á Vesturförum Vilhelms Mobergs, veiði, leiðinni til ríkidæmis eða bókum um listamenn, og karlar eru tæplega taldir líklegir til að hafa áhuga á Húsráðakveri frú Kitschfríðar eða bókum eftir konur almennt.
Hvað finnst lesendum um þetta? Er það einhvers konar forræðishyggja þegar starfsfólk fyrirtækis tekur að sér að segja fólki hvaða bókum það eigi að hafa áhuga á út frá kyni?
15. desember 2011
andartak í lífi þorpsbúa
Tilnefndar til Fjöruverðlauna
Jarðnæði eftir Oddnýju Eir Ævarsdóttur, Kanill eftir Sigríði Jónsdóttur, Jójó eftir Steinunni Sigurðardóttur, Með heiminn í vasanum eftir Margréti Örnólfsdóttur, Flugan sem stöðvaði stríðið eftir Bryndísi Björgvinsdóttur, Gegnum glervegginn eftir Ragnheiði Gestsdóttur, Ríkisfang: Ekkert eftir Sigríði Víðis Jónsdóttur, Nútímans konur: Menntun kvenna og mótun kyngervis á Íslandi 1850-1903 eftir Erlu Huldu Halldórsdóttur og Mannvist. Sýnisbók íslenskra fornleifa eftir Birnu Lárusdóttur. Hér fyrir neðan er mynd af þeim sem eru tilnefndar eða þeim sem tóku við tilnefningum fyrir þeirra hönd.
14. desember 2011
Verður vondi kallinn endilega að vera með ör í andlitinu?
Stjarna Strindbergs er s.s. ein af þessum bókum sem vekur svolitlar væntingar. Á kápunni stendur að höfundur hennar, Jan Wallentin, sé svar Svía við Dan Brown. Ég hef lesið tvær eða þrjár bækur eftir Dan Brown og mér fannst þær fínar til síns brúks. Þær héldu mér við efnið og mig langaði til þess að klára þær og komast til botns í plottinu, þó mig hafi reyndar líka langað til þess að rífa í hárið á sumum sögupersónum og segja þeim að hætta að vera svona ógeðslega fyrirsjáanlegar stereótýpur.
13. desember 2011
„Maður skrifar ekki um samtímann með zetu.“
Til hamingju með nýju bókina, Konan við 1000°, sem tilnefnd er til Íslensku bókmenntaverðlaunanna. Þessi bók kom fyrst út í Þýskalandi og þú ert líka tiltölulega nýkominn þaðan sjálfur, eru Þjóðverjar góðir lesendur?
Já, þeir eru góðir. Þolgóðir, móttækilegir og sérlega opnir fyrir okkur kuldabúum. Og einnig mjög hláturvana. Þeim nægir alveg að fá að hlæja þrisvar á upplestrarkvöldi, þá er það „stórfengleg skemmtun“ í þeirra huga. Þeir virðast svo illu vanir. Að loknu upplestrarkvöldi í Graz bað íslensk kona Austurríkismennina að nefna þýskumælandi höfunda sem hefðu húmorinn með sér, og var svarað með þriggja mínútna langri umhugsunarþögn. Loks kom síðbúið svar: „Ja, Thomas Bernhard er nú fyndinn á sinn hátt, en hann er reyndar dauður.“
Þú skrifar gjarna „stórar“ sögur. Nýja bókin segir sögu konu, Herbjargar Maríu Björnsson, en um leið segir hún sögu 20. aldar. Hvernig hugsarðu svona bók áður en þú byrjar, ertu með rosalegt plan og veistu alveg nákvæmlega hvað þú ætlar að gera? Já og fallast þér aldrei hendur í upphafi þegar þú ert með svona stórvirki í smíðum og veist hvað þú átt fyrir höndum?
Ég er með gróft plan hausnum og tilhlökkun í kroppnum. Fyrir mér er það alltaf lúxus að fá að eyða góðum tíma með verki sem gaman er að skrifa. Fyrstu mánuðirnir eru erfiðir, þá er allt á brattann. En svo er maður búinn að stilla stílinn af, kemst á flug og getur þá flogið vel og lengi. Síðan kemur vesenið að koma sér niður á jörðina. Síðustu vikurnar eru tóm handavinna og spurning um úthald.
Þessi bók var hinsvegar ólík öðrum því ég þurfti í raun að byrja á nýrri bók á fimmtíu síðna fresti. Bernska í Breiðafirði, Köben í stríðsbyrjun, Frísku eyjarnar, Pólskur skógur, Argentína eftir stríð, Vestfirðir um 1980 … Maður þurfti að lesa sér til og koma sér í nýjan gír á nokkurra mánaða fresti.
Það koma auðvitað alltaf örvæntingarmóment hér og þar, þegar yfirlesarinn segir að maður sé kominn út í skurð með söguna, hvar maður er búinn að spóla í tvær vikur, í því sem maður hélt vera gargandi snilld, en reyndist þá bara vera tóm drulla. Það borgar sig alltaf að hlýða yfirlesaranum, og ég geri það, alveg þar til ég sé að hann er sjálfur kominn út í skurð.
Ærlækjarbók - fyrirlestur
Erindið hefst kl. 12.15 á bókasal Þjóðmenningarhússins og stendur í um hálfa klukkustund. Handritið verður til sýnis á staðnum.
Heilagur Nikulás frá Mýru var í miklum metum meðal kaþólskra mann á Íslandi út allar miðaldir. Fjórar gerðir og brot af lífssögu hans hafa varðveist og sérstaklega er athyglisvert hve lífssaga Bergs Sokkasonar ábóta á Munkaþverá hefur orðið vinsæl, einkum að því er virðist í Þingeyjarsýslu en þaðan eru runnin a.m.k. þrjú handrit hennar frá 14. Og 15. öld. Eitt þeirra er Ærlækjarbók, AM 640 4to sem ritað er undir lok 15. aldar og hefur verið eign hálfkirkjunnar á Ærlæk uns Árni Magnússon eignaðist það í byrjun 18. aldar. Aftan við sögu Nikulás stendur latnesk tíðagerð um hinn sæla mann. Sá hluti handritsins hefur ekki upphaflega heyrt til AM 640 4to og ekki heldur íslenskar vísur um Nikulás sem þar sem þar eru skrifaðar aftan við með lagboða.
Tilnefningar til Fjöruverðlaunanna
Þrjár nefndir, skipaðar bókmenntahugsjónakonum, hafa undanfarið setið við og lesið mikinn fjölda bóka. Tilnefnd verða níu verk; þrjú skáldverk fyrir fullorðna, þrjú fyrir börn og unglinga og þrjú fræðirit. Verðlaunin fyrir eina bók í hverjum flokki verða svo veitt í febrúar 2012.
Fjöruverðlaunin voru fyrst veitt árið 2007, en síðast hlutu Agniezka Nowak og Vala Þórsdóttir verðlaun fyrir tvítyngdu barnabókina Þankagöngu, Kristín Steinsdóttir fyrir skáldsöguna Ljósu og Kristín Loftsdóttir fyrir fræðiritið Konuna sem fékk spjót í höfuðið.
Upplestur í boði Stínu
Fram koma: Guðbergur Bergsson, Kristín Ómarsdóttir, Hallgrímur Helgason, Kormákur Bragason, Kristín Eiríksdóttir, Kristín Svava Tómasdóttir og Kári Tulinius verður kynnir.
Tímaritið Stína hefur komið út tvisvar á ári síðan 2006. Í ritstjórn eru Guðbergur Bergsson, Kristín Ómarsdóttir, Hallgrímur Helgason og Kormákur Bragason. Vefsíða Stínu er stinastina.is.
11. desember 2011
Bókasöfn á gististöðum 10, og tvær bækur um mýs
Í Skelinni er margt bóka þótt ég hafi reyndar komið með svo mikið af bókum með mér að ég hafi ekki nýtt mér þær sem fyrir voru neitt að ráði. Fletti reyndar í nokkrum matreiðslubókum frá 9. áratugnum, sem er genre sem ég finn mig eiginlega knúna til að fjalla um síðar í sérstakri færslu (dæmi: hakkhringur, bakaður í kökuformi). Helsta einkenni bókakostsins í húsinu er sennilega fjölbreytnin, sem sést ágætlega á þessari mynd sem ég tók af handahófi af bókaröð í gluggakistu:
Börn sem hlusta og horfa
Agalega góð bók! |
Matthew Kneale, sposkur |
9. desember 2011
Fegurð og forgengileiki í „Farandskuggum“
Þetta er örstutt bók og textinn almennt mjög knappur en þeim mun meira liggur milli línanna svo hún er lengri – eða í öllu falli meiri en summa blaðsíðanna segir til um. Farandskuggar er ljóðræn en um leið mjög aðgengileg og auðlesin (alltaf finnur maður sig knúinn til að taka fram að ljóðrænar bækur séu ekki torræðar eða tilgerðarlegar eins og það sé eitthvað einkenni á ljóðum).
Sögumaður rekur lífshlaup móður sinnar – eða öllu heldur reynir að púsla því saman úr minningarbrotum og hálfkveðnum vísum. Þetta er þó alls ekki ævisaga í hefðbundnum skilningi – sögumaður heimsækir móður sína á elliheimili og þegar hann nær sambandi við hana (sem er ekki alltaf) reynir hann að spyrja hana út í atburði liðinna tíma en dregur jafnframt upp myndir úr æsku sinni. Úr þessum brotakenndu minningum skýrist smám saman myndin af móðurinni þótt hún verði alltaf ófullkomin og óskýr – bæði fyrir sögumann og lesanda. Brotin draga auðvitað ekki bara upp mynd af móðurinni heldur er þetta ansi mögnuð lýsing af Íslandi liðinna tíma með tilheyrandi fátækt og erfiðleikum sem setja kreppuna og hrunið í dálítið annað samhengi. Þetta voru tímar þar sem þurfti iðulega að leysa upp fjölskyldur og senda börn til vandalausra.
8. desember 2011
Heyr þú barna þinna kvak
Lesturinn var mér bæði ánægjulegur og erfiður.
7. desember 2011
Eitt andartak í einu
Á sólbjörtum laugardagsmorgni birtist ófrísk stúlka í sjávarplássi úti á landi. Lárus, borinn og barnfæddur í firðinum, er beðinn um að taka á móti henni á flugvellinum. Þorpsbúar komast smám saman að misjafnri fortíð þessarar hæglátu stúlku; þeir fylgjast með glímu hennar við lífið og áður en yfir lýkur er örlög hennar samofin lífi fólksins í plássinu og þá sérstaklega Lárusi.
Höfundurinn, sem býr í Vík í Mýrdal, fékk nokkrar spurningar sendar í tölvupósti:
6. desember 2011
Þegar öllu er á botninn hvolft
5. desember 2011
Bókamerki
4. desember 2011
Rökkurhæðir - Óttulundur
Bókakápan er flott. |
3. desember 2011
Lögreglumál í Jórvíkurskíri
Bækurnar hafa fengið nýtt lúkk í tilefni af sjónvarpsþáttunum |
Peter Robinson |
2. desember 2011
Meira af bókamessu í Helsinki: Innflytjendabókmenntir, hvítflibbaglæpasögur, Hugleikur Dagsson og Don Rosa
Totti-sviðið er nefnt eftir Totti, kisanum hennar Edith Södergran. |
1. desember 2011
Fagurbókmenntatilnefningar
Konan við 1000 gráður e. Hallgrím Helgason
Jarðnæði e. Oddnýju Eir Ævarsdóttur
Allt með kossi vekur e. Guðrúnu Evu Mínervudóttur
Jójó e. Steinunni Sigurðardóttur
Hjarta mannsins e. Jón Kalman Stefánsson
Druslubókadömur voru að sjálfsögðu með útsendara á staðnum og skutluðu inn fréttunum um leið og þær bárust.
Fleiri tilnefningar
Tilnefningar til þýðingaverðlaunanna
Tilnefningar til íslensku þýðingaverðlaunanna voru tilkynntar rétt í þessu. Druslubókadömur eru að sjálfsögðu með útsendara á staðnum og skúbba nýjustu fréttum.
Andarsláttur e. Hertu Muller í þýðingu Bjarna Jónssonar
Fásinna e. Horacio Castellanos í þýðingu Hermanns Stefánssonar
Regnskógabeltið raunamædda e. Claude Lévi-Strauss í þýðingu Péturs Gunnarssonar
Reisubók Gúllívers e. Jonathan Swift í þýðingu Jóns St. Kristjánssonar
Tunglið braust inn í húsið e. ýmsa höfunda í þýðingu Gyrðis Elíassonar
Bölvuð jákvæðnin
Á dögunum keypti ég aðra og nýrri bók eftir Barböru Ehrenreich í sænskri þýðingu, yfirskrift hennar er Gilla läget. Hur allt gick åt helvete med positivt tänkande, en ég hafði áður gluggað í bókina í enskri útgáfu með titilinn Bright Sided. How the relentlesss promotion of positive thinking has undermined America (ég held að sama bók hafi líka komið út með titilinn Smile or Die). Þessa bók las ég í flugvél í gær og finnst hún áhugaverð og mikilvæg. Upphaf þess að höfundurinn skrifaði bókina má rekja til þess að hún fékk brjóstakrabbamein og blöskraði í kjölfarið hjal fólks um að hún yrði að vera jákvæð ef henni ætti að batna og hún fór að rannsaka markvisst jákvæðnivítið sem við fýlupúkarnir þurfum að búa í hvort sem okkur líkar betur eða verr.