29. desember 2011

Á himni blikar stjörnufjöld

Stjörnuverðbólga vakti athygli margra í jólabókaflóði ársins: það varð nánast regla að ritdómarar gæfu bókum fjórar eða fimm stjörnur (af fimm mögulegum). Þrjár stjörnur þykja orðið meiriháttar diss. Þessar fjórar og fimm stjörnur eru svo óspart notaðar í auglýsingum bókaforlaga og virðist litið á þær sem einhvers konar gæðastimpil. Ég fór að velta fyrir mér hvaða áhrif þessi stjörnugjöf hefði og hver tilgangur hennar gæti mögulega verið. Og nú segi ég berum orðum hvað afgangur þessarar bloggfærslu mun snúast um: Hér verður stjörnugjöf í ritdómum rökkuð niður.

Ég þekki ekki söguna en einhvern tíma hefur sá siður komist á að ritdómarar í fjölmiðlum gefi bókum einkunnir, gjarnan á stjörnuformi. Hið sama tíðkast í umfjöllun um kvikmyndir, leiksýningar og hljómplötur. Kannski megum við eiga von á stjörnugjöf fyrir myndlistarsýningar innan tíðar, eða kannski tíðkast slíkt einhvers staðar nú þegar án þess að ég hafi rekist á það. Hvaða grundvöllur er fyrir stjörnugjöf í listum?

27. desember 2011

Af tímaritinu Sögu, temynntum dreifbýlismeyjum, íbenholtlitaðri bládís, fólki með blátt blóð og fleiru sem Jakob Frímann man

Um daginn áskotnaðist mér nýtt hefti af Sögu, tímariti Sögufélags, sem er vandað og gott tímarit. Þar má lesa umfjöllun um söluna á Búnaðarbankanum og hvernig nokkrir framámenn í Framsóknarflokknum græddu stórfé með því að misnota aðstöðu sína. Í ritinu er líka enn ein umfjöllun um Sovét-Ísland, óskalandið eftir Þór Whitehead, sem ég held að sé einn nokkurra áberandi íhaldsmanna sem finnst alveg gríðarlega miður að kalda stríðinu sé lokið. Það virðist vera nóg vinna fyrir marga að hrekja bullið í þessum mönnum, sem hafa það aðallega fyrir stafni að fletta ofan af fyrrverandi kommúnistum. Það sem ég las þó fyrst í þessu hefti voru viðbrögð ýmissra við tölvupósti þar sem því er haldið fram að þrátt fyrir umtalsverðar breytingar í ævisagnaritun og breyttar áherslur síðustu árhundruð, formtilraunir og efa um gildi hefðbundinna ævisagna, séu viðhorf til þeirra enn nokkuð hefðbundin. Vel heppnuð ævisaga er sú álitin sem er traust og yfirgripsmikil, trúverðug og í samhengi bæði stórsögulega og hið innra, hún skal vera sögð í krónólógískri röð og samúð skal vera með aðalsögupersónunni svo eitthvað sé upptalið. Spurt er hvers vegna þessi hugmynd um ævisöguna standi föstum fótum og hvaða hugmyndir búi að baki skilgreiningunni. Í lok tölvupóstsins (pósturinn er lengri en það sem ég tel upp hér að ofan) er fólk svo spurt hvað ævisaga sé í huga þess. Þessu svara á annan tug manna; sagnfræðingar, bókmenntafræðingar, guðfræðingur, ævisagnaritarar, bókmenntafræðingur og fleiri. Svörin eru margskonar og margt áhugavert í þeim sem væri efni í langa bloggfærslu, og hún kemur vonandi. En efni þessarar færslu er einmitt enn ein ævisagan, sem er ein hinna hefðbundnu íslensku, Með sumt á hreinu þar sem Jakob Frímann Magnússon lítur um öxl en Þórunn Erlu-Valdimarsdóttir skráir. Framan á bókinni er mynd af Jakobi og myndin sú vakti spurningu hjá vinkonu minni sem ég þurfti að hryggja með að væri ekki svarað í bókinni: Af hvaða æskubrunni hefur maðurinn drukkið? Jakob er að nálgast sextugt og hefur marga fjöruna sopið (og í þeim fjörum hafa ekki beinlínis verið tómir heilsudrykkir, það kemur skýrt fram í bókinni) en það sést ekki á honum á þessari mynd.

Jakob hefur frá mörgu að segja enda er bókin ekkert smákver heldur tæpar fjögurhundruð síður og spannar líf Jakobs og störf frá fæðingu. Allir vita örugglega hver Jakob Frímann Magnússon er, mér finnst hann allavega hafa verið mjög áberandi alla mína ævi. Það kemur líka fram í bókinni að hann er hvorki hlédrægur né nístandi sjálfsgagnrýninn, grobbsögur og sjálfshól má víða finna. Bútar í upphafi bókarinnar, þar sem lýst er bernsku Jakobs hjá ömmu og afa minntu mig á Sól í Norðurmýri, aðra endurminningabók sem Þórunn á hlutdeild í, en þegar bernskan er liðin tekur rödd aðalsöguhetjunnar við, eins og maður kannast við hana úr fjölmiðlum og bíómyndum, og að því leyti má segja að bókin sé vel heppnuð, mér fannst ég bókstaflega heyra málróm Jakobs við lesturinn.

26. desember 2011

Jólafixið

Eins og kunnugt er eru jólin sá tími þar sem ósentímentalasta fólk leggur sig eftir alls konar hefðum sem oft eru annað hvort væmnar eða skrítnar eða hvort tveggja. Ætli þessar hefðir séu ekki oftast tengdar mat og drykk, en sumir hafa það líka fyrir sið að lesa ákveðnar bækur eða horfa á ákveðnar bíómyndir um jólin. Einu sinni tókst mér að sögn konu nokkurrar að eyðileggja fyrir henni jólin með því að neita að lána henni eintakið af Fanny og Alexander. Ég gaf mig ekki, enda kalin á hjarta og loppin. Gott er að eiga Ríkissjónvarpið að þegar kemur að kvikmyndahefðum um jólin því það sýnir yfirleitt sömu myndirnar jól eftir jól. Hver man ekki eftir myndum á borð við Engin jól án Bassa og Jólaósk Önnu Bellu?

Eitt skemmtilegasta jólaverk sem ég þekki er smásagan / stuttmyndin The Junky´s Christmas, sem ég hef reyndar aldrei séð í Ríkissjónvarpinu. Smásagan er eftir mann sem maður hefði varla tengt við jólalega tjáningu frekar en...tjah, Bob Dylan eða Guðberg Bergsson, það er bandaríska rithöfundinn William S. Burroughs.

24. desember 2011

Bráðskemmtileg barnabók um dauðann

Vandræðalega lítið hefur nú verið lesið af jólabókunum á þessum bæ vegna anna – en þó eru einhverjar undantekningar þar á. Þegar svona lítið svigrúm var til yndislesturs lá barna og unglingabókin Minni líkur – meiri von eftir Marjolijn Hof kannski ekki beint við sem hin útvalda en einhvern veginn æxlaðist það þannig að ég las hana – og sá ekki eftir því.

Þetta er óvenjuleg bók – hún fjallar um Bíbí sem býr með mömmu sinni, pabba og gamla, síprumpandi hundræksninu Mónu í borg í Hollandi. Pabbi Bíbíar er læknir og fer reglulega til stríðshrjáðra landa til að starfa sem einhvers konar læknir-án-landamæra og þegar hann fer í enn einn túrinn eru Bíbí og mamma auðvitað ansi kvíðnar um að eitthvað komi fyrir hann. Eftir samtal við mömmu um hversu litlar líkur séu í raun á að eitthvað komi fyrir pabba verður Bíbí gríðarlega upptekin af „líkum“ og hvernig megi minnka þær eða auka. Það eru litlar líkur á því að barn eigi dáinn pabba – en það eru enn minni líkur á því að barn eigi bæði dáinn pabba og dána mús – og næstum því útilokað að eiga dáinn pabba, dána mús OG dáinn hund. Bíbí ákveður að reyna að minnka líkurnar á því að eitthvað komi fyrir pabba og um það snýst eiginlega þessi saga.

Fegursta líkið

Jón forseti allur? Táknmyndir þjóðhetju frá andláti til samtíðar eftir Pál Björnsson var tilnefnd til Íslensku bókmenntaverðlaunanna í ár í flokki fræðibóka. Og hvenær er betri tími til að rabba aðeins um Íslandssöguna en þegar maður er andvaka af eyrnaverk í vaxandi stormi klukkan fimm á aðfangadagsmorgun, vonandi að íbúfenið og sýklalyfin fari að kikka inn?

Ég var grínlaust búin að hlakka frekar mikið til að þessi bók kæmi út. Ég hef heyrt Pál fjalla um efnið, meðal annars á bráðskemmtilegu málþingi um Jón Sigurðsson á Skagaströnd síðasta haust, og það verður að segjast að þessi bók lítur allavega út fyrir að vera miklum mun skemmtilegri og ferskari en Jónsbókin sem fylgdi Skírni um daginn (Jón Sigurðsson – hugsjónir og stefnumál). Kannski er það bara vegna þess að mér þykir Jón Sigurðsson sem þjóðhetja og táknmynd miklu áhugaverðari en hugsjónir og stefnumál Jóns í lifanda lífi – þarf að ræða það mikið frekar? Eða jú, það er eins gott að hægt sé að ræða það frekar, til að prófessorinn í Jónsembættinu sem Alþingi hefur prangað inn á Háskóla Íslands hafi nú eitthvað að gera þar til hann verður emeritus.

21. desember 2011

Óskalistinn

Það er líklega full seint í rassinn gripið að setjast niður og skrifa óskalista þegar fjórir dagar eru til jóla. Ég lét raunar þau boð út ganga að ég kærði mig lítt um bókahlunka í jólagjöf. Ég verð á faraldsfæti í kringum hátíðarnar og þó íslensk menning sé mér kær þá tími ég ekki að borga undir hana yfirvigt. Þegar ég kom til Íslands í jólafrí læddist þó að mér örlítil eftirsjá. Það er eitthvað svo skringilega séríslenskt við þessa bókageðveiki sem heltekur allt í desember og það er hjartastyrkjandi að eignast örlitla hlutdeild í henni. Druslubókabloggið hefur verið minn kompás í gegnum flóðið og ég hef lítið fylgst með öðrum fjölmiðlum enda er það algjör óþarfi. Vinkonur mínar hafa ritað fjölmarga forvitnilega pistla og það sem fer hér á eftir er að stærstum hluta innblásið af blogginu. Ef einhver á eftir að kaupa jólagjöf handa mér þá gæti ég hugsað mér eftirfarandi titla.

20. desember 2011

Góður matur - gott líf

Ég elska matreiðslubækur og á ógrynni af þeim. Það er erfitt að standast vel teknar myndir á fallegum pappír af glitrandi makríl eða lokkandi sítrónulagköku. Sannleikurinn er samt að fæstar þessar myndir verða að veruleika í eldhúsinu hjá mér. Það eru nefnilega alltaf sömu örfáu matreiðslubækurnar sem ég elda upp úr. Er ekki svipuð staða hjá ykkur góðu lesendur?
Þær uppskriftabækur sem eru mest í höndunum á mér eru: stóra gula Nanna af því hún nær yfir allt og klikkar aldrei. The Kitchen Diaries þess frábæra matarpenna Nigels Slaters sem leiðir mann í gegnum heilt ár af matargerð. Í þeirri bók er fullt af hugmyndum að reddingum sem geta bjargað kvöldinu þegar maður nennir ekki að elda (það var samt örugglega ekki markmið höfundarins). Ég lærði reyndar að elda hjá mömmu, pabba og ömmu með því að standa á stól inni í eldhúsi og fá að hræra í pottum og taka þátt í matargerðinni, en fyrsta matreiðslubókin sem ég kynntist var Við matreiðum eftir Önnu Gísladóttur og Bryndísi Steinþórsdóttur í heimilisfræði í barnaskóla og hún er alltaf til taks fyrir íslenska heimilismatinn, kannski bara af vana. Ég bætti við nærsafnið einni belgískri þegar ég bjó þar í landi, og svo er það kverið sem geymir lykiluppskriftir fjölskyldunnar með handskrift nokkurra kynslóða. Þar lifir nostalgían í kökum og réttum sem eignaðir eru hinum ýmsu konum (og einum Sigga).

Milli nándar og næðis

Að leita að hinu fullkomna jafnvægi milli næðis og nándar, að finna sér sinn stað í tilverunni með fólkið sitt allt nærri en samt án þess að skerða persónulegt rými, einhvern veginn þannig mætti draga umfjöllunarefni Jarðnæðis eftir Oddnýju Eir Ævarsdóttur saman. Bókin er eins og fyrri verk hennar ofin sjálfsævisögulegum þráðum og ómögulegt að segja hvar sögumaður bókarinnar endar og Oddný sjálf tekur við. Textinn er jafnframt allur á dagbókarformi og fyrir vikið ber hann þess að vissu leyti merki að hafa ekki verið skrifaður fyrir aðra lesendur en skrásetjarann sjálfan. Vísanir í liðna atburði eða samtöl eru ekki útskýrð í þaula, forsagan er ekki gefin og persónurnar ekki kynntar neitt sérstaklega til sögunnar – ekki frekar en maður myndi almennt kynna fjölskyldu sína, vini eða elskuga til leiks í eigin hugrenningum. En um leið skilur textinn sig líka frá hefðbundnum hugmyndum um dagbókarskrif. Eðli málsins samkvæmt hefur maður jú ekki lesið margar dagbækur aðrar en sínar eigin en ég á í það minnsta erfitt með að trúa að það séu margir sem skrifi svona fallegan texta og geri vangaveltum sínum svo fáguð skil eins og raunin er í Jarðnæði.

18. desember 2011

Pólitík bleiku slaufunnar

"Ég fæ krabbamein ef ég heyri minnst á þessa bleiku slaufu einu sinni enn" hvæsti ég á bólugrafinn unglingspilt sem bauð mér að styrkja krabbameinsrannsóknir um leið og ég borgaði fyrir matvörur vikunnar. Ég fékk samviskubit um leið og ég sleppti orðinu og muldraði afsakandi að ég hefði nú keypt bleikar ljósaperur í gær. Konan á eftir mér í röðinni starði á mig í fyrirlitningu.

Öll þekkjum við einhvern sem hefur um lengri eða skemmri tíma glímt við krabbamein. Þessi sjúkdómur, eða sjúkdómaflokkur væri líklega réttara að setja, dregur um 7 milljónir manna til dauða á ári hverju. Hér væri hægt að fara ítarlega í ýmsa tölfræði en ég ætla að sitja á mér og benda þess í stað á mjög áhugaverða bók um sögu krabbameins, sem þó er ekki umfjöllunarefni þessa pistils - The Emperor of All Maladies: A Biography of Canceeftir lækninn Siddhartha Mukherjee en hún fékk Pulitzer verðlaunin í sínum flokki fyrr á þessu ári.

Október var alþjóðlegur krabbameinsvarnarmánuður og almenningi bauðst með ýmsum leiðum að styrkja málefnið. Hægt var að kaupa bleikar hrærivélar, bíla, snyrtivörur - jafnvel áfengi og sælgæti og leggja þannig rannsóknum á krabbameini lið. Svo var auðvitað hægt að kaupa bleiku slaufuna sjálfa til þess að hafa í barminum, og hinir efnameiri gátu fjárfest í demantsskreyttri útgáfu hennar. Sá sami hópur gat líka sótt ýmsar samkomur vestanhafs á borð við sérstaka góðgerðarkvöldverði þar sem miðinn kostaði formúgur.


Góðir lesendur

Af skáldverkum Vladimírs Nabokov hef ég bara lesið Lolitu, og bara einu sinni – en ég var mjög hrifin af henni og ætla alltaf að lesa hana aftur. Af öðrum verkum Nabokovs las ég sjálfsævisöguna Speak, Memory, líka bara einu sinni. Nú er ég að lesa bókmenntafyrirlestra sem Nabokov hélt í Wellesley og Cornell háskólunum á árunum kringum 1950 og komu út á bók undir heitinu Lectures on Literature árið 1980, þremur árum eftir dauða hans. Í fyrsta fyrirlestri bókarinnar, sem birtur er undir titlinum „Good Readers and Good Writers“, staðhæfir Nabokov ýmislegt um lestur og lesendur og meðal annars þetta: „Curiously enough, one cannot read a book: one can only reread it. A good reader, a major reader, an active and creative reader is a rereader.“ Nabokov hefur verið yfirlýsinga- og alhæfingaglaður í meira lagi, bæði af eigin skrifum að dæma og annarra um hann. En auðvitað eru skáldverk lítils virði án lesenda og hressandi að minna lesendurna á að ekki bara höfundarnir heldur einnig þeir sjálfir geti verið góðir, skapandi, eða ekki.

Bókaspjall um flökkubókmenntir og Götumálara Þórarins Leifssonar

Guðrún Elsa og Kristín Svava hugsuðu sér gott til glóðarinnar þegar þeim barst nýjasta bók Þórarins Leifssonar, Götumálarinn, enda báðar miklir aðdáendur barnabóka Þórarins, Leyndarmálið hans pabba og Bókasafn ömmu Huldar, þar sem undirtónninn er oft bæði pólitískur og fullur af svörtum húmor. Götumálarinn er „fullorðinsbók“ þar sem Þórarinn segir frá ferðalögum sínu sem götumálari og flækingur á Spáni og í Marokkó þegar hann var um tvítugt og því þegar móðir hans og systir fara af stað til að leita að honum.

KS: Ég var búin að hlusta á fínt viðtal druslubókadömunnar Þorgerðar E. Sigurðardóttur við Þórarin í Víðsjá áður en ég las bókina, og bókin kom mér dálítið á óvart eftir að hafa heyrt viðtalið – og líka bara eftir að hafa lesið aftan á kápuna. Þórarinn er augljóslega að skrifa inn í hefð flökku- eða ferðabókmennta. Hann nefnir sjálfur Dagbók þjófs eftir Jean Genet í viðtalinu, annars staðar sá ég að teikningarnar hans í bókinni vísa til Góða dátans Svejk, en svo má líka nefna bækur á borð við On the Road eftir Jack Kerouac. Það er verið að gefa borgaralegu líferni fingurinn, reglubundnu hversdagslífi með vinnu níu til fimm og svo framvegis, með því að flakka um, vinna sér inn pening eftir hentisemi, vera í tilviljanakenndum félagsskap hins og þessa fólks. Það sem ég fílaði ekki síst er að Þórarinn er ekkert að rómantísera þetta, það eru engir snillinga- eða hetjukomplexar í gangi eða háfleygar sjálfsánægðar vangaveltur um það hvernig hann hafnar hinu smáborgaralega hugarfari. En það kom mér á óvart hvað hann gengur langt með það; ég segi ekki að frásögnin sé steríl en stíllinn er rosalega látlaus, það er sagt frá hlutum eins og heróínneyslu og hættulegum villum á marokkóskum fjöllum í nákvæmlega sama tóninum og sagt er frá dvöl á virðulegum gistiheimilum. Frásögnin rennur þess vegna einkennilega ljúflega miðað við hversu óvenjulegt frásagnarefnið er – hann gerir hið óvenjulega venjulegt. (Þetta hefur skapað fyndinn kontrast í mörgum viðtölum og umfjöllun um bókina, þar sem blaðamaðurinn er að jesúsa sig yfir viðskiptum Tóta við lögregluna og eiturlyfjaneyslu og útigangi og reyna að gíra þetta upp í svakalega dramatík þegar textinn sjálfur gerir frekar í því að tóna hana niður. Enda sagði Þórarinn í fyrrnefndu Víðsjárviðtali að hann hefði jafnvel verið að pæla í að sleppa t.d. heróínneyslunni svo þetta færi ekki að minna á bækur með uppeldisboðskap eins og hann hefði fengið að gjöf á unglingsárum sínum.)

17. desember 2011

maður verður til og maður deyr osfrv.

Jón Bjarki Magnússon er sennilega ekki síst þekktur fyrir starf sitt sem blaðamaður, en hann er líka ljóðskáld. Hann hefur tekið þátt í ljóðaupplestrum víðs vegar á Íslandi og erlendis, var framkvæmdastjóri útgáfufélagsins Nýhil um tíma og er nú meðal þeirra sem standa að stofnun nýrrar útgáfu, Útúr. Jón Bjarki hlaut nýræktarstyrk Bókmenntasjóðs í fyrra til að gefa út sína fyrstu ljóðabók, Lömbin í Kambódíu (og þú), og hún kom út nú á dögunum – með einhverri speisuðustu kápu jólabókaflóðsins, eftir Unu Björk Sigurðardóttur – og af því tilefni svaraði hann nokkrum mishnitmiðuðum spurningum þessarar druslubókadömu. Ég fékk líka leyfi til að birta eitt af mínum uppáhaldsljóðum úr bókinni í heilu lagi, en það er ljóðið Pæling. Það fjallar um það að ferðast um heiminn, en bókin er meðal annars innblásin af ferðalögum Jóns Bjarka um Asíu:

„að ferðast um heiminn er eins og að hafa kynmök
í fyrstu mikil spenna fyrir komandi leyndardómi
þá taktur fastur og endurtekinn riþmi
þar sem hið nýja kemst í gamlan vana
inn og út þar til á andartaki springið þið
uppgötvið í augnablik fegurðina í heiminum
liggið svo í lakinu með sígó að spúa í hringi
aftur heima
en það má svo sem líkja nær öllu við kynmök
maður fer inn í Bónus og aftur út
kveikir og slekkur á sjónvarpinu
rænir flugvél og flýgur henni inn í skýjaklúf
maður verður til
og maður deyr
osfrv.“ (18)

16. desember 2011

Smábækur en ekki smábarnabækur

Ókeibæ Kur gefa út tvær litlar bækur á ensku í ár. Önnur er Popular Hits II eftir Hugleik Dagsson og hin er Generalizations about nations eftir Lóu Hlín Hjálmtýsdóttur.

Í Popular Hits II er Hugleikur samur við sig: svartur húmor túlkaður með einföldum teikningum af fólki í starfi og leik. Eins og titillinn gefur til kynna byggir bókin á vinsælum lögum. Hugleikur tekur þarna ýmist titla vinsælla laga frá ýmsum tímabilum eða fræga textabúta úr þeim og túlkar á sinn hátt. „Love Cats“ er til dæmis túlkað með mynd af fremur ókræsilegri konu í hægindastól umkringdri köttum, eða því sem á góðri íslensku kallast crazy catlady. Eins og Hugleiks er von og vísa eru sumar myndirnar ögrandi eða í dónalegri kantinum. Sjálfri finnst mér þetta stórskemmtileg bók og ég mæli með henni sem tækifærisgjöf fyrir erlenda vini, svona í staðinn fyrir hinn klassíska harðfisk og brennivín. Þó er hún líklega ekki heppileg fyrir viðkvæmna, sumt fólk kann jú ekki að meta kaldhæðni.

Generalizations about nations er þýðing á bókinni Alhæft um þjóðir sem kom út í hittifyrra. Á hverri blaðsíðu er alhæfing um einhverja þjóð skemmtilega myndskreytt. Teikningar Lóu eru margslungnar og fullar af sniðugum smáatriðum og vísunum og mér finnst þær drepfyndnar (og flottar!), og alhæfingarnar sem fylgja þeim líka. Þarna má til dæmis finna alhæfingar á borð við „Finnish men find it very uncomfortable when they run into their acquaintances“, „Greeks are very susceptible to fads“ og „Columbians have a hard time falling asleep“ (enda uppfullir af kaffi!). Bókinni er skipt í kafla á landfræðilegum grunni: Norður-Evrópa, Suður-Evrópa, Austur-Evrópa, Asía, Norður-, Suður- og Mið-Ameríka, Eyjaálfa og Afríka. Eins og ég hef þegar sagt finnst mér bókin drepfyndin en eiginlega er full ástæða til að endurtaka það. Mér finnst þessi bók brjálæðislega fyndin og ég get skoðað hana aftur og aftur. Í hvert skipti tek ég eftir einhverju nýju á þeim myndum sem ég skoða. Persónulega höfðar bók Lóu meira til mín en bók Hugleiks en það er sjálfsagt smekksatriði. Alla vega mæli ég með því að allir kaupi þessa bók og gefi erlendum vinum, ja, eða bara til að eiga sjálfir. Hið sama gildir og um bók Hugleiks að þetta er ekki bók fyrir þá sem ekki kunna að meta kaldhæðni (og slíkt fólk er vissulega til) en ólíkt Hugleiksbókinni er hún þó laus við dónamyndir (nema fólki finnist dónó að hafa mynd af einhverjum á klósettinu eða pari í sleik).

Hann fékk bók en hún fékk nál og tvinna ...

Á síðum bókaforlaganna eru bækur gjarna flokkaðar til hægðarauka, t.d. í nýjar bækur, hljóðbækur, kennslubækur, barnabækur, spennubækur o.s.frv. Það vakti athygli ritkvenda þessarar síðu að á vef bókaforlagsins Sölku má finna flokkana fyrir hana og fyrir hann. Meðal bóka sem bent er á fyrir hann eru tvær bækur um veiði eftir Bubba, uppeldishandbók, sjálfshjálparbók, ævisaga, matreiðslubækur um grillmat og villibráð og ein matreiðslubók sérstaklega skrifuð handa karlmönnum. Það er líka bók sem nefnist Vísindin að baki ríkidæmi, bækur um listamenn og ögrandi ljósmyndabók. Allar þessar bækur eru skrifaðar af karlmönnum.

Meðal bókanna sem flokkaðar eru fyrir hana eru sama uppeldishandbók, ævisaga og sjálfshjálparbók og ætlaðar eru körlunum, en þar eru líka bækur um handavinnu, Borða, biðja, elska eftir Elizabeth Gilbert, bók um förðun og spennusaga eftir Anne Holt. Samkvæmt þessu virðist ekki sérstaklega gert ráð fyrir því að konur hafi áhuga á Vesturförum Vilhelms Mobergs, veiði, leiðinni til ríkidæmis eða bókum um listamenn, og karlar eru tæplega taldir líklegir til að hafa áhuga á Húsráðakveri frú Kitschfríðar eða bókum eftir konur almennt.

Hvað finnst lesendum um þetta? Er það einhvers konar forræðishyggja þegar starfsfólk fyrirtækis tekur að sér að segja fólki hvaða bókum það eigi að hafa áhuga á út frá kyni?

15. desember 2011

andartak í lífi þorpsbúa

 „Eitt andartak í einu“ sem nýlega kom út hjá Sölku er fyrsta skáldsaga Hörpu Jónsdóttur fyrir fullorðna. Áður hefur hún sent frá sér barnabókina „Ferðin til Samiraka“ sem fékk Íslensku barnabókaverðlaunin árið 2002, auk ljóðabókarinnar „Húsið.“
Bókin fjallar um lífið í ónefndu þorpi úti á landi. Heilmikið persónugallerí er nefnt til sögunnar en burðarás hennar er þó hin ljúfi, eilítið feitlagni Lárus (Lalli) og stúlkan Sólveig (Sóla) sem á ættir að rekja í þorpið og flyst þangað öllum að óvörum ófrísk og fremur dularfull. Sagan hverfist um þau Lalla og Sólu sem verða ástfangin, eða Lalli verður ástfanginn af henni, allt eftir því hvernig maður vill líta á málið, og hvernig þeirra saga er samofin lífi og sál þorpsins.

Tilnefndar til Fjöruverðlauna

Í gær voru níu bækur tilnefndar til Fjöruverðlaunanna - bókmenntaverðlauna kvenna. Þær eru:

Jarðnæði eftir Oddnýju Eir Ævarsdóttur, Kanill eftir Sigríði Jónsdóttur, Jójó eftir Steinunni Sigurðardóttur, Með heiminn í vasanum eftir Margréti Örnólfsdóttur, Flugan sem stöðvaði stríðið eftir Bryndísi Björgvinsdóttur, Gegnum glervegginn eftir Ragnheiði Gestsdóttur, Ríkisfang: Ekkert eftir Sigríði Víðis Jónsdóttur, Nútímans konur: Menntun kvenna og mótun kyngervis á Íslandi 1850-1903 eftir Erlu Huldu Halldórsdóttur og Mannvist. Sýnisbók íslenskra fornleifa eftir Birnu Lárusdóttur. Hér fyrir neðan er mynd af þeim sem eru tilnefndar eða þeim sem tóku við tilnefningum fyrir þeirra hönd.

14. desember 2011

Verður vondi kallinn endilega að vera með ör í andlitinu?

Þegar maður les að rétturinn á bók hafi verið seldur til yfir 20 landa, þá gerir maður ósjálfrátt ráð fyrir því að það sé eitthvað varið í hana. En að sama skapi veit maður náttúrulega líka að þó maður sé svag fyrir bestsellerum og trúi því einhvernveginn að svona mikið af fólki geti varla haft rangt fyrir sér (einsog ég á svo oft til), þá hefur maður aldeilis verið brenndur af því að kaupa bók sem útgefendur slógust um og keyptu loks fyrir morðfjár og komast svo að því að hún er varla skítsæmileg (og já þarna er ég aftur að tala um ákveðna bók sem ég las fyrir sirka ári og er ennþá megasvekkt útí og ég ætla einhverntímann að blogga um, ég held það gæti orðið þerapjútískt fyrir mig).

Stjarna Strindbergs er s.s. ein af þessum bókum sem vekur svolitlar væntingar. Á kápunni stendur að höfundur hennar, Jan Wallentin, sé svar Svía við Dan Brown. Ég hef lesið tvær eða þrjár bækur eftir Dan Brown og mér fannst þær fínar til síns brúks. Þær héldu mér við efnið og mig langaði til þess að klára þær og komast til botns í plottinu, þó mig hafi reyndar líka langað til þess að rífa í hárið á sumum sögupersónum og segja þeim að hætta að vera svona ógeðslega fyrirsjáanlegar stereótýpur.

13. desember 2011

„Maður skrifar ekki um samtímann með zetu.“

Undirrituð sendi nokkrar spurningar, um nýja bók, vinnubrögð, bókmenntaumræðu og fleira, á Hallgrím Helgason. Hann svaraði fljótt og af alkunnri ljúfmennsku og hér fyrir neðan er afraksturinn.



Til hamingju með nýju bókina, Konan við 1000°, sem tilnefnd er til Íslensku bókmenntaverðlaunanna. Þessi bók kom fyrst út í Þýskalandi og þú ert líka tiltölulega nýkominn þaðan sjálfur, eru Þjóðverjar góðir lesendur?
Já, þeir eru góðir. Þolgóðir, móttækilegir og sérlega opnir fyrir okkur kuldabúum. Og einnig mjög hláturvana. Þeim nægir alveg að fá að hlæja þrisvar á upplestrarkvöldi, þá er það „stórfengleg skemmtun“ í þeirra huga. Þeir virðast svo illu vanir. Að loknu upplestrarkvöldi í Graz bað íslensk kona Austurríkismennina að nefna þýskumælandi höfunda sem hefðu húmorinn með sér, og var svarað með þriggja mínútna langri umhugsunarþögn. Loks kom síðbúið svar: „Ja, Thomas Bernhard er nú fyndinn á sinn hátt, en hann er reyndar dauður.“

Þú skrifar gjarna „stórar“ sögur. Nýja bókin segir sögu konu, Herbjargar Maríu Björnsson, en um leið segir hún sögu 20. aldar. Hvernig hugsarðu svona bók áður en þú byrjar, ertu með rosalegt plan og veistu alveg nákvæmlega hvað þú ætlar að gera? Já og fallast þér aldrei hendur í upphafi þegar þú ert með svona stórvirki í smíðum og veist hvað þú átt fyrir höndum?
Ég er með gróft plan hausnum og tilhlökkun í kroppnum. Fyrir mér er það alltaf lúxus að fá að eyða góðum tíma með verki sem gaman er að skrifa. Fyrstu mánuðirnir eru erfiðir, þá er allt á brattann. En svo er maður búinn að stilla stílinn af, kemst á flug og getur þá flogið vel og lengi. Síðan kemur vesenið að koma sér niður á jörðina. Síðustu vikurnar eru tóm handavinna og spurning um úthald.

Þessi bók var hinsvegar ólík öðrum því ég þurfti í raun að byrja á nýrri bók á fimmtíu síðna fresti. Bernska í Breiðafirði, Köben í stríðsbyrjun, Frísku eyjarnar, Pólskur skógur, Argentína eftir stríð, Vestfirðir um 1980 … Maður þurfti að lesa sér til og koma sér í nýjan gír á nokkurra mánaða fresti.

Það koma auðvitað alltaf örvæntingarmóment hér og þar, þegar yfirlesarinn segir að maður sé kominn út í skurð með söguna, hvar maður er búinn að spóla í tvær vikur, í því sem maður hélt vera gargandi snilld, en reyndist þá bara vera tóm drulla. Það borgar sig alltaf að hlýða yfirlesaranum, og ég geri það, alveg þar til ég sé að hann er sjálfur kominn út í skurð.

Ærlækjarbók - fyrirlestur

Miðvikudaginn 14. desember flytur Sverrir Tómasson erindið: ,,Bið fyrir mér dándikall". Nikulás saga og Nikulás tíðir í Ærlækjarbók: AM 640 4to í erindaröð um handrit úr safni Árna Magnússonar í tilefni upptöku þess á varðveisluskrá UNESCO ,,Minni heimsins".

Erindið hefst kl. 12.15 á bókasal Þjóðmenningarhússins og stendur í um hálfa klukkustund. Handritið verður til sýnis á staðnum.

Heilagur Nikulás frá Mýru var í miklum metum meðal kaþólskra mann á Íslandi út allar miðaldir. Fjórar gerðir og brot af lífssögu hans hafa varðveist og sérstaklega er athyglisvert hve lífssaga Bergs Sokkasonar ábóta á Munkaþverá hefur orðið vinsæl, einkum að því er virðist í Þingeyjarsýslu en þaðan eru runnin a.m.k. þrjú handrit hennar frá 14. Og 15. öld. Eitt þeirra er Ærlækjarbók, AM 640 4to sem ritað er undir lok 15. aldar og hefur verið eign hálfkirkjunnar á Ærlæk uns Árni Magnússon eignaðist það í byrjun 18. aldar. Aftan við sögu Nikulás stendur latnesk tíðagerð um hinn sæla mann. Sá hluti handritsins hefur ekki upphaflega heyrt til AM 640 4to og ekki heldur íslenskar vísur um Nikulás sem þar sem þar eru skrifaðar aftan við með lagboða.

Tilnefningar til Fjöruverðlaunanna

Miðvikudaginn 14. desember kl. 17.30, verður tilkynnt í Borgarbókasafninu við Tryggvagötu hvaða bækur eru tilnefndar til Fjöruverðlaunanna - bókmenntaverðlauna kvenna. Allir áhugasamir eru velkomnir á meðan húsrúm leyfir.

Þrjár nefndir, skipaðar bókmenntahugsjónakonum, hafa undanfarið setið við og lesið mikinn fjölda bóka. Tilnefnd verða níu verk; þrjú skáldverk fyrir fullorðna, þrjú fyrir börn og unglinga og þrjú fræðirit. Verðlaunin fyrir eina bók í hverjum flokki verða svo veitt í febrúar 2012.

Fjöruverðlaunin voru fyrst veitt árið 2007, en síðast hlutu Agniezka Nowak og Vala Þórsdóttir verðlaun fyrir tvítyngdu barnabókina Þankagöngu, Kristín Steinsdóttir fyrir skáldsöguna Ljósu og Kristín Loftsdóttir fyrir fræðiritið Konuna sem fékk spjót í höfuðið.

Upplestur í boði Stínu

Annað kvöld, 14. desember, kl. 20 verður upplestrarkvöld til að fagna útkomu nýs heftis tímaritsins Stínu. Upplesturinn verður í Nýlistasafninu á Skúlagötu 28 í Reykjavík. Léttar veitingar verða í boði.

Fram koma: Guðbergur Bergsson, Kristín Ómarsdóttir, Hallgrímur Helgason, Kormákur Bragason, Kristín Eiríksdóttir, Kristín Svava Tómasdóttir og Kári Tulinius verður kynnir.

Tímaritið Stína hefur komið út tvisvar á ári síðan 2006. Í ritstjórn eru Guðbergur Bergsson, Kristín Ómarsdóttir, Hallgrímur Helgason og Kormákur Bragason. Vefsíða Stínu er stinastina.is.

11. desember 2011

Bókasöfn á gististöðum 10, og tvær bækur um mýs

Liðnir eru nú nokkrir mánuðir frá síðustu færslunni í flokknum Bókasöfn á gististöðum, enda minnkar flakkið á fólki oft umtalsvert yfir vetrarmánuðina. Ég brá hins vegar undir mig betri fætinum í desemberbyrjun og eyddi heilli netlausri viku á Ströndum, sem gestur í hinu ágæta lista- og fræðimannahúsi Skelinni á Hólmavík. Þar svamlaði ég í heitum potti og dagskrá Ríkisútvarpsins til skiptis, tók þátt í jólaleik kaupfélagsins og gleymdi að kaupa rækjurnar frá Hólmadrangi, sem annars er algjört möst.

Í Skelinni er margt bóka þótt ég hafi reyndar komið með svo mikið af bókum með mér að ég hafi ekki nýtt mér þær sem fyrir voru neitt að ráði. Fletti reyndar í nokkrum matreiðslubókum frá 9. áratugnum, sem er genre sem ég finn mig eiginlega knúna til að fjalla um síðar í sérstakri færslu (dæmi: hakkhringur, bakaður í kökuformi). Helsta einkenni bókakostsins í húsinu er sennilega fjölbreytnin, sem sést ágætlega á þessari mynd sem ég tók af handahófi af bókaröð í gluggakistu:

Börn sem hlusta og horfa

Þegar saga er sögð skiptir að sjálfsögðu máli hver segir hana, hvort sem hún er skáldskapur eða upplifun úr raunveruleikanum. Sjónarhornið litar frásögnina, bæði efnislega og stílrænt. Mér finnst oft mjög gaman að lesa höfunda sem eru meðvitaðir um þetta og leika sér með hlutdrægni sögumannsins eða forsendur hans til að skilja atburði. Af vinsælum, nýlegum skáldsögum sem stíla inn á þessa nálgun má nefna Atonement eftir Ian McEwan, þar sem telpan Briony mistúlkar og misskilur atburði á afdrifaríkan hátt; hún er barn sem túlkar það sem hún sér og heyrir út frá eigin hugarheimi, fyrirfram gefnum skoðunum og ákveðnum barnaskap. Ég hef áður minnst á bókina English Passengers eftir Matthew Kneale hér á blogginu, en hún nálgast hlutdrægni sögumannsins á annan hátt; sagan er sögð af ótal röddum og sjónarhorn hverrar persónu litast af persónuleika, fordómum, stétt, staðsetningu og persónulegri upplifun.
Agalega góð bók!


Hinn stórskemmtilegi höfundur Kneale hefur skrifað sjö skáldsögur og í þeirri nýjustu, When We Were Romans (sem reyndar er frá 2008), leikur hann sér með sjónarhorn barnsins en á aðeins annan hátt en Ian McEwan. Röddin er alltaf barnsins og Kneale býr til ótrúlega sannfærandi gegnumgangandi sjónarhorn. Sögumaðurinn er hinn níu ára gamli Lawrence, sem býr með einstæðri móður og lítilli systur. Lawrence er í verndarahlutverki gagnvart mæðgunum, hefur ákveðið að hann þurfi að halda fjölskyldunni gangandi, og strax frá upphafi skynjar lesandinn að eitthvað er ósagt og útgáfa Lawrence af veruleikanum er að einhverju leyti bjöguð.
Matthew Kneale, sposkur

9. desember 2011

Fegurð og forgengileiki í „Farandskuggum“

Hingað til hef ég aðallega tengt Úlfar Þormóðsson við hnausþykka sögulega doðranta eins og skáldævisögu hans um Hallgrím Pétursson en eins og segir réttilega á bókarkápu þá kemur nýjasta verk hans, Farandskuggar, á óvart.

Þetta er örstutt bók og textinn almennt mjög knappur en þeim mun meira liggur milli línanna svo hún er lengri – eða í öllu falli meiri en summa blaðsíðanna segir til um. Farandskuggar er ljóðræn en um leið mjög aðgengileg og auðlesin (alltaf finnur maður sig knúinn til að taka fram að ljóðrænar bækur séu ekki torræðar eða tilgerðarlegar eins og það sé eitthvað einkenni á ljóðum).

Sögumaður rekur lífshlaup móður sinnar – eða öllu heldur reynir að púsla því saman úr minningarbrotum og hálfkveðnum vísum. Þetta er þó alls ekki ævisaga í hefðbundnum skilningi – sögumaður heimsækir móður sína á elliheimili og þegar hann nær sambandi við hana (sem er ekki alltaf) reynir hann að spyrja hana út í atburði liðinna tíma en dregur jafnframt upp myndir úr æsku sinni. Úr þessum brotakenndu minningum skýrist smám saman myndin af móðurinni þótt hún verði alltaf ófullkomin og óskýr – bæði fyrir sögumann og lesanda. Brotin draga auðvitað ekki bara upp mynd af móðurinni heldur er þetta ansi mögnuð lýsing af Íslandi liðinna tíma með tilheyrandi fátækt og erfiðleikum sem setja kreppuna og hrunið í dálítið annað samhengi. Þetta voru tímar þar sem þurfti iðulega að leysa upp fjölskyldur og senda börn til vandalausra.

8. desember 2011

Heyr þú barna þinna kvak

Undanfarin kvöld hefur kvöldlesturinn hjá okkur 7 ára dóttur minni verið Söngur Guðsfuglsins. Sagan af unganum sem vissi ekki til hvers fuglar voru eftir Ísak Harðarson með myndum eftir Helga Þorgils Friðjónsson. Aftan á bókarkápunni er talað um þessa sögu sem ævintýri sem á erindi til barna á öllum aldri. Bókin fjallar um þrjár kynslóðir þrasta í Hljómskálagarðinum og hugleiðingar þeirra um tilgang lífsins.

Lesturinn var mér bæði ánægjulegur og erfiður.

7. desember 2011

Eitt andartak í einu

Nýlega kom skáldsagan Eitt andartak í einu, eftir Hörpu Jónsdóttur, út hjá bókaforlaginu Sölku. Aftan á bókinni segir:
Á sólbjörtum laugardagsmorgni birtist ófrísk stúlka í sjávarplássi úti á landi. Lárus, borinn og barnfæddur í firðinum, er beðinn um að taka á móti henni á flugvellinum. Þorpsbúar komast smám saman að misjafnri fortíð þessarar hæglátu stúlku; þeir fylgjast með glímu hennar við lífið og áður en yfir lýkur er örlög hennar samofin lífi fólksins í plássinu og þá sérstaklega Lárusi.



Höfundurinn, sem býr í Vík í Mýrdal, fékk nokkrar spurningar sendar í tölvupósti:


6. desember 2011

Þegar öllu er á botninn hvolft

Tíu ára fann ég upp í hillu hjá pabba gamla gula vasabrotsbók, bandið hélt henni varla saman lengur og ég man að prentlyktin var það sterk að mig kitlaði í nefið, en á kápunni voru gauksklukkur og það var nóg til að fanga athygli mína. Agatha Christie sleppir ekki svo auðveldlega hendinni af þeim ungu lesendum sem hún nær á sitt vald.

5. desember 2011

Bókamerki

Fyrir skömmu birtist athyglisverður pistill hér á Druslubókum og doðröntum þar sem fjallað var um stellingar við lestur uppi í rúmi. Meðan ég renndi yfir greinina og stórfróðlegar umræðurnar fór ég að velta fyrir mér lestrarvenjum mínum á kvöldin og áttaði mig þá á að enn var svigrúm til mikilvægra rannsókna í kringum efnið. Nefnilega: hvað gerir maður þegar maður er búinn að liggja dágóða stund í læstri hliðarlegu og njóta góðrar bókar en finnur augnlokin þyngjast og ákveður að nóg sé komið í bili? Maður leggur jú frá sér bókina en hvernig fullvissar maður sig um að maður finni sömu blaðsíðu hratt og örugglega þegar maður tekur til við lesturinn að nýju?

4. desember 2011

Rökkurhæðir - Óttulundur

Bókakápan er flott.
Óttulundur, eftir Mörtu Hlín Magnadóttur, er önnur bókin í Rökkurhæðaseríunni (Hildur Knútsdóttir fjallaði um fyrstu bók seríunnar, Rústirnar, hér). Hún fjallar um hina fimmtán ára gömlu Vigdísi, sem fer að sjá og upplifa undarlega hluti heima hjá ömmu sinni, þar sem hún á sitt annað heimili á meðan móðir hennar er erlendis. Í ofanálag kemst hún smám saman að því að fullorðna fólkið hefur leynt hana einhverju alla hennar ævi og fyllist þá löngunar til að komast að leyndarmálinu og púsla saman brotunum upp á eigin spýtur.

3. desember 2011

Lögreglumál í Jórvíkurskíri

Bækurnar hafa fengið nýtt lúkk í tilefni af sjónvarpsþáttunum
Meðal krimmahöfunda eru margir kallaðir en fáir útvaldir. Ég hef verið ákafur reyfaralesandi frá því ég kynntist Agöthu Christie í páskafríinu þegar ég var 13 ára - einhver besta lestrarminning bernskunnar er að liggja uppi í sófa, maula páskaegg og gleypa í mig hverja Agöthuna á fætur annarri. Síðan hef ég lesið ógrynnin öll af glæpasögum og m.a.s. þýtt nokkrar. Hins vegar er ég nokkuð kræsin á krimma (eins og bókmenntir yfirhöfuð) og hef t.d. tekið eftir því að breskar og evrópskar glæpasögur höfða yfirleitt meira til mín en bandarískar. Eins er ég lítið spennt fyrir hasarbókmenntum þar sem mikið fer fyrir byssum, sprengjum og bílaeltingaleikjum. Rómantískar spennusögur eru ekki flokkur sem ég sækist í, né heldur bækur með dulrænu ívafi, nema þær séu sérstaklega góðar. Ég er spenntust fyrir góðri fléttu, persónusköpun sem er ekki alveg marflöt, og ekki er verra ef einhvers slags þjóðfélagsádeila er með í för. Eftirlætishöfundurinn minn - í heiminum, ekki bara í glæpasagnageiranum - er hin breska Kate Atkinson, sem hefur náð alveg nýju tvisti á glæpasöguna en einnig skrifað annars konar bækur. Í uppáhaldi núna er líka Shardlake-flokkurinn eftir C. J. Sansom, en Maríanna Clara druslubókadama fjallaði um hann fyrr á árinu.



Peter Robinson
Síðasta árið hef ég lesið þónokkrar bækur úr Inspector Banks-bókaflokknum eftir Peter Robinson, en heimasíðu hans má finna hér.

2. desember 2011

Meira af bókamessu í Helsinki: Innflytjendabókmenntir, hvítflibbaglæpasögur, Hugleikur Dagsson og Don Rosa

Totti-sviðið er nefnt eftir Totti, kisanum hennar Edith Södergran.
Ég hef áður bloggað um bókamessur haustsins í Turku og Helsinki. Helsinkimessan fór fram í nóvemberlok, stóð yfir frá fimmtudegi til sunnudags og ég var á staðnum föstudag og laugardag. Í fyrri færslu (þar sem m.a. var fjallað um Rosu Liksom, en í gær var tilkynnt að hún hefði hlotið Finlandia-verðlaunin fyrir nýju skáldsöguna sína!) náði ég ekki einusinni að fara í gegnum allar impressjónir föstudagsins og tek því upp þráðinn hér innanum finnskar mysteríuskáldsagnamæðgur, yngri og eldri ljóðskáld, sænskar femínismamyndasögur og fleira.

1. desember 2011

Fagurbókmenntatilnefningar

Tilnefningar til íslensku bókmenntaverðlaunanna, fagurbókmenntir:

Konan við 1000 gráður e. Hallgrím Helgason


Jarðnæði e. Oddnýju Eir Ævarsdóttur


 Allt með kossi vekur e. Guðrúnu Evu Mínervudóttur
 Jójó e. Steinunni Sigurðardóttur

















Hjarta mannsins e. Jón Kalman Stefánsson












Druslubókadömur voru að sjálfsögðu með útsendara á staðnum og skutluðu inn fréttunum um leið og þær bárust.

Fleiri tilnefningar

Tilnefningar til íslensku bókmenntaverðlaunanna í flokki fræðibóka:

Morkinskinna I-II










Jón forseti allur? e. Pál Björnsson

 Góður matur - gott líf e. Gísla Egil Hrafnsson og Ingu Elsu Bergþórsdóttur

Ríkisfang: Ekkert e. Sigríði Víðis Jónsdóttur
















Landnám e. Jón Yngva Jóhannsson

Tilnefningar til þýðingaverðlaunanna


Tilnefningar til íslensku þýðingaverðlaunanna voru tilkynntar rétt í þessu. Druslubókadömur eru að sjálfsögðu með útsendara á staðnum og skúbba nýjustu fréttum.


Andarsláttur e. Hertu Muller í þýðingu Bjarna Jónssonar










Fásinna e. Horacio Castellanos í þýðingu Hermanns Stefánssonar

Regnskógabeltið raunamædda e. Claude Lévi-Strauss í þýðingu Péturs Gunnarssonar
Reisubók Gúllívers e. Jonathan Swift í þýðingu Jóns St. Kristjánssonar
Tunglið braust inn í húsið e. ýmsa höfunda í þýðingu Gyrðis Elíassonar

Bölvuð jákvæðnin

Fyrir nokkrum árum las ég Nickel and Dimed eftir Barböru Ehrenreich þar sem blaðakonan ameríska segir frá því hvernig hún wallraffaði í láglaunastörfum víðsvegar um Bandaríkin og tókst engan veginn að lifa af laununum sínum þótt hún væri í mörgum vinnum samtímis. Það var ekki beinlínis neitt sem kom mér sérstaklega á óvart í bókinni, hún lýsir misrétti og ömurlegri meðferð sem tíðkast á vinnandi láglaunafólki allt í kringum okkur og sýndi fram á að það er ekki nóg að vera „dugleg“ til að geta séð fyrir sér. Hún benti líka á að „ófaglærð störf“ eru í raun ekki til. Í störfunum sem Barbara réði sig í, hvort sem það voru umönnunarstörf, ræstingar eða afgreiðsla í verslun, þurfti hún alltaf að læra og kunna töluvert sem tengdist því sem hún gerði hverju sinni. Starfsfólkinu var hins vegar yfirleitt ekki kennt neitt heldur bara hent út á gólf og sagt að gera þetta eða hitt. Þetta könnumst við sem höfum unnið svokölluð ófaglærð störf alveg við.

Á dögunum keypti ég aðra og nýrri bók eftir Barböru Ehrenreich í sænskri þýðingu, yfirskrift hennar er Gilla läget. Hur allt gick åt helvete med positivt tänkande, en ég hafði áður gluggað í bókina í enskri útgáfu með titilinn Bright Sided. How the relentlesss promotion of positive thinking has undermined America (ég held að sama bók hafi líka komið út með titilinn Smile or Die). Þessa bók las ég í flugvél í gær og finnst hún áhugaverð og mikilvæg. Upphaf þess að höfundurinn skrifaði bókina má rekja til þess að hún fékk brjóstakrabbamein og blöskraði í kjölfarið hjal fólks um að hún yrði að vera jákvæð ef henni ætti að batna og hún fór að rannsaka markvisst jákvæðnivítið sem við fýlupúkarnir þurfum að búa í hvort sem okkur líkar betur eða verr.