Ein af litríkustu jólabókunum þetta árið er án efa húsráðakver Kitschfríðar Kvaran. Það er litríkt í bæði eiginlegri og óeiginlegri merkingu. Annars vegar eru blaðsíðurnar fullar af appelsínugulum og fjólubláum retrómunstrum og kitsch myndum af hamingjusömum húsmæðrum og fullkomnum fjölskyldum. Og hins vegar er ekki hægt að segja annað en að frúin sú sem bókina tók saman sé ansi litrík og margradda.
Það er bókin líka – margradda alltsvo. Í henni er að finna þrenns konar texta. Uppistaða bókarinnar eru auðvitað húsráðin en inn á milli þeirra eru annars konar ráð, svo sem varðandi umgengni við eiginmenn eða megranir, sem eru augljóslega ekki hugsuð sem annað en skemmtiefni. Þau eru yfirleitt vel aðskilin frá öðru efni og enginn vandi að þekkja þau úr. Í bland við þetta eru svo tilvitnanir í ýmis bjargræðisrit ætluð konum sem gefin voru út allt frá þriðja til sjöunda áratugs síðustu aldar. Það er vel til fundið að stinga þeim þarna inn á milli til að gefa karakter Kitschfríðar nauðsynlegan trúverðugleika. Því það kemur auðvitað í ljós við þann lestur að þyki einhverjum frúin afturhaldsöm er hún hátíð miðað við þær kvaðir sem í raun voru lagðar á konur á sínum tíma.
Það sem kemur mér mest á óvart þegar ég glugga í kverið er að húsráð eru aldeilis ekki eins úreld fyrirbæri og ég hélt. Að vísu væri sennilega ómögulegt að gefa svona bók út í dag nema pakka henni inn í þær grín- og glensumbúðir sem Kitschfríður óneitanlega er. En það breytir því ekki að mörg ráðanna eru góð og gild. Ég rakst alla vega á eitt og annað sem við fjölskyldan beitum hér heima fyrir án þess að ég hafi nokkurn tímann leitt hugann að því að þetta væru „húsráð.“ Flest eigum við jú heima einhvers staðar, borðum og jafnvel eldum mat, klæðumst fötum sem við þvoum hugsanlega af og til og ættum því að hafa not fyrir gagnlegar ábendingar varðandi þetta allt. Ég sé það líka þegar ég renni yfir kverið að húsráðin hafa aldrei horfið úr samfélaginu, þau skiptu bara um nafn á einhverjum tímapunkti. Núna heita þau meðal annars spjallþræðir á Barnalandi, spurt og svarað í Gestgjafanum eða heilsudálkar tískutímarita.
Það er svo sem ekkert skrýtið að húsráðahefðin hafi horfið með hinni heimavinnandi húsmóður. Til að konur ættu að hafa frelsi til að fara út á vinnumarkaðinn þurfti auðvitað að slá striki yfir hugmyndina um óaðfinnanlegt heimili og skinkustykki með ananas- og kokteilberjasrkreytingum í glansandi hreinum ofni. En þegar ég renni yfir húsráð bókarinnar virðast mér mörg þeirra einmitt miða að því að einfalda verkin, spara tíma og komast hjá óþarfa vinnu í amstri dagsins. Þótt Kitschfríður gefi sig út fyrir að vera af gamla skólanum sýnist mér hún svei mér þá ansi nútímaleg í hugsun. Hún talar kannski um að það sé skylda konunnar að dekra við eiginmanninn og vera með gljáfægð gólf en innst inni held ég að hún meini það ekki. Innst inni vill hún bara hjálpa mér í hversdagsstreðinu. Þau eru nefnilega ekki vitund köld kvennaráðin, bara hlý og elskuleg.
1 ummæli:
Ég hef ekki lesið bókina en nafnið Kitschfríður fer algerlega þversum í mig.
ÞG
Skrifa ummæli