20. desember 2011

Góður matur - gott líf

Ég elska matreiðslubækur og á ógrynni af þeim. Það er erfitt að standast vel teknar myndir á fallegum pappír af glitrandi makríl eða lokkandi sítrónulagköku. Sannleikurinn er samt að fæstar þessar myndir verða að veruleika í eldhúsinu hjá mér. Það eru nefnilega alltaf sömu örfáu matreiðslubækurnar sem ég elda upp úr. Er ekki svipuð staða hjá ykkur góðu lesendur?
Þær uppskriftabækur sem eru mest í höndunum á mér eru: stóra gula Nanna af því hún nær yfir allt og klikkar aldrei. The Kitchen Diaries þess frábæra matarpenna Nigels Slaters sem leiðir mann í gegnum heilt ár af matargerð. Í þeirri bók er fullt af hugmyndum að reddingum sem geta bjargað kvöldinu þegar maður nennir ekki að elda (það var samt örugglega ekki markmið höfundarins). Ég lærði reyndar að elda hjá mömmu, pabba og ömmu með því að standa á stól inni í eldhúsi og fá að hræra í pottum og taka þátt í matargerðinni, en fyrsta matreiðslubókin sem ég kynntist var Við matreiðum eftir Önnu Gísladóttur og Bryndísi Steinþórsdóttur í heimilisfræði í barnaskóla og hún er alltaf til taks fyrir íslenska heimilismatinn, kannski bara af vana. Ég bætti við nærsafnið einni belgískri þegar ég bjó þar í landi, og svo er það kverið sem geymir lykiluppskriftir fjölskyldunnar með handskrift nokkurra kynslóða. Þar lifir nostalgían í kökum og réttum sem eignaðir eru hinum ýmsu konum (og einum Sigga).


Ég fékk í hendurnar á dögunum íslenska matreiðslubók sem er svo fagurlega tekin og haganlega fram sett að vinkona mín sagðist helst vilja sleikja blaðsíðurnar. Bók sem hefur allt til að bera að geta orðið fjölskylduvinur. Þetta er Góður matur – gott líf, í takt við árstíðirnar eftir hjónin Ingu Elsu Bergþórsdóttur og Gísla Egil Hrafnsson, en sú bók hefur nú þegar verið tilnefnd til íslensku bókmenntaverðlaunanna í flokki fræðibóka. Hér er á ferðinni metnaðarfull útgáfa og miklu meira en matreiðslubók, enda vinna höfundarnir eftir hugmyndum á borð við „slow food“ og meiri nálægð við náttúruna sem snúast um að hverfa frá blindri neyslumenningu, sem treystir á stórmarkaði til að bjóða upp á jarðarber allt árið með tilheyrandi kolvetniskostnaði, til meiri meðvitundar fyrir matvælunum sem við neytum og hvaðan þau koma. Lykiláhersla er lögð á árstíðirnar og að lifa í takt við þær. Bókinni er skipt upp í kafla tileinkaða vori, sumri, hausti og vetri. Fyrsti og síðasti kaflinn er tileinkaður vetrinum, sem myndar táknræna heild þar sem hringsól tímans er undirliggjandi stef í allri bókinni. Meginefni bókarinnar er fjöldi spennandi uppskrifta, en það sem gerir hana sérstaka er hvernig uppskriftirnar blandast umfjöllun um matvæli sem eiga uppruna sinn í íslenskri náttúru og fræðslu um það sem hægt er að rækta í görðum hér á landi. Sú umfjöllun fyllir mann af sumarþrá enda freistandi á miðjum vetri að láta sig dreyma um vor og græðlinga í ilmandi mold.

Ekki er hægt að skrifa um þessa bók án þess að fjalla sérstaklega um myndirnar. Gísli Egill hefur tekið myndir fyrir tímaritið Gestgjafann auk fjölda matreiðslubóka, en í þessari bók er áberandi persónulegur stíll yfir myndunum. Þarna eru ekki bara slefhvetjandi myndir af mat heldur líka af íslenskri náttúru og svo fjöldi mynda af fjölskyldu Ingu og Gísla sem gerir bókina persónulega og styður við boðskap hjónanna um matargerð sem fjölskylduvænan lífstíl.

Það eina sem ég get fundið að bókinni er vöntun á nákvæmu efnisyfirliti. Það er örstutt efnisyfirlit í byrjun bókar og svo yfirlit uppskrifta í lok bókar en ég hefði viljað fá kaflaheitin listuð. Hér stangast líklega á fagurfræði hönnunar og þráhugi minn á efnisyfirlitum (það er mikil gleði sem hægt er að hafa af góðum efnisyfirlitum í matreiðslubókum).

Það er ýmislegt sem fjallað er um í Góður matur – gott líf sem ég hafði aldrei prófað að gera, eins og að bragðbæta edik. Hef hingað til bara keypt slíkt í búðum en „Kryddað krækiberjavínedik“ (110) hljómar stórfenglega, kryddað með negul, allrahanda, engifer og einiberjum og ég á einmitt lausfryst krækiber frá því í haust!

1 ummæli:

Þorsteinn sagði...

Það er einmitt rétt að mann langar til að sleikja síðurnar! En gallinn við þessa bók er náttúrulega að það er engin leið til að uppfylla rosalegar kröfur bókarinnar til manns nema maður sé forríkur og eigi einhverskonar ræktunarspildu út á landi. Ég fyllist stundum kommúnískri stéttaöfund þegar ég les hana.