|
Totti-sviðið er nefnt eftir Totti, kisanum hennar Edith Södergran. |
Ég hef áður bloggað um bókamessur haustsins í
Turku og
Helsinki. Helsinkimessan fór fram í nóvemberlok, stóð yfir frá fimmtudegi til sunnudags og ég var á staðnum föstudag og laugardag. Í
fyrri færslu (þar sem m.a. var fjallað um
Rosu Liksom, en í gær var
tilkynnt að hún hefði hlotið Finlandia-verðlaunin fyrir nýju skáldsöguna sína!) náði ég ekki einusinni að fara í gegnum allar impressjónir föstudagsins og tek því upp þráðinn hér innanum finnskar mysteríuskáldsagnamæðgur, yngri og eldri ljóðskáld, sænskar femínismamyndasögur og fleira.
|
Anna, spyrill, Eppu |
Finnsku mæðgurnar Eppu og Anna Nuotio gáfu nýlega út bókina
Tuplana, kiitos! (
Tvöfaldan, takk!) Eppu hefur skrifað allnokkrar bækur ein, sagðist allajafna vandlát á samstarfsfólk en lét vel af þessu fyrsta samstarfsverkefni þeirra dótturinnar (þótt hún kæmi líka með svona fimm djókskotin komment um hvað dóttirin hefði verið fyrirhafnarsamur unglingur), en þær búa reyndar sín í hvoru landi og bókin því að miklu leyti unnin gegnum Skype. Samvinnuskriftum almennt lýsti hún, í samanburði við venjubundinn einyrkjabúskap rithöfundarins, með þeirri ofurfinnsku líkingu að það minnti á að stinga sér í kalda vök – hressti, bætti og kætti... Spyrillinn viðraði þá kenningu sína að innihald finnskra glæpasagna væri yfirleitt ¾ um glæpi og ¼ um fólk, en í sænskum glæpasögum væri því öfugt farið – glæpasaga mæðgnanna væri hinsvegar frekar í ætt við þær sænsku, með mannleg samskipti í forgrunni. Anna vildi reyndar meina að sagan væri ekkert glæpasaga, heldur mysteríuskáldsaga.
|
Jens Lapidus |
Svíinn Jens Lapidus skrifar hinsvegar óumdeilanlega glæpasögur, að eigin sögn í gagnorðum og harðsoðnum stíl að hætti James Elroy. Ég hef ekkert lesið eftir Lapidus og er ekkert viss um að ég geri það, en viðtalið var ágætt. Hann hefur starfað sem verjandi grunaðra glæpamanna, sækir því í eigin reynsluheim við skriftirnar og sagðist hafa mikinn áhuga á glæpadýnamík innan stéttasamfélagsins í Svíþjóð – hverjir hafi yfir „menningarlegu kapítali“ að ráða, og vildi meina að lesendum þættu hvítflibbaglæponar áhugaverðara umfjöllunarefni en lægra settir. Að lokum kvaðst hann hafa það eftir áreiðanlegum lögregluheimildum að í vistarverum ungra, sænskra glæpamanna mætti yfirleitt treysta á að finna annars vegar plakat af Al Pacino í Scarface og hinsvegar bækur eftir Jens Lapidus. Þetta með Scarface hljómar næstum of klisjukennt til að vera satt, en hver veit...
|
Þessi töluðu um innflytjendabókmenntir. |
Næst náði ég í skottið á finnlandsænskum pallborðsumræðum um innflytjendabókmenntir. Þar var m.a. rætt hvort búferlaflutningar Finnlandssvía til Svíþjóðar settu fólk í flokk innflytjenda, eða væru bara „venjulegir“ flutningar – sem snertir ímynd Finnlandsvía sem „á jaðrinum“ í bæði Svíþjóð og Finnlandi, og þar með jaðarsetningu og tvöfalda (eða kannski tvisvar sinnum hálfa?) sjálfsmynd og/eða ímynd finnlandssænskra rithöfunda. Finnskumælandi Finnar hafa tilhneigingu til að fordæma Finnlandssvía sem snobbaða og fína með sig og vissulega var það einhverntíma svo að fínna fólk Finnlands talaði sænsku og henni var hampað sem menningarmáli allrar þjóðarinnar, þótt aðeins minnihluti hefði hana að móðurmáli. Finnlandssvíar í dag eru hinsvegar álíka venjulegt fólk og aðrir Finnar. Hinir finnskumælandi eiga þannig til að fókusera á sænska hlutann í þjóðerni Finnlandssvía, en flytji þeir til Svíþjóðar teljast þeir auðvitað finnskir en ekki sænskir. Hvað sem öðru líður fá ó-innfæddir höfundar í hvaða landi sem er oftar en ekki á sig „innflytjendabókmennta“-stimpil – reiknast fyrst og fremst sem innflytjendur og því næst rithöfundar – sem einnig getur falið í sér pressu á viðkomandi um að fjalla eitthvað sérstaklega um mál tengd innflytjendum, vera pólitískur og svo framvegis.
|
Katajavuori, Snellman, Oksanen og bækur |
Eistland var þemaland bókamessunnar í ár en einhvernveginn fór það svo að ég sá ekki nokkurn einasta af öllum Eistlandstengdu viðburðunum. Þegar hér var komið sögu leit ég þó inn á umræður um stjórnmálasögu Eistlands, hlustaði aðeins á fjóra miðaldra með bindi mala um stjórnarskrár og forsetavald og þróun þingheims í Finnlandi versus Eistlandi, áður en ég gafst upp og hélt á ljóðaupplesturinn við hliðina. Þar voru samankomnar í pallborði skáldkonurnar Aulikki Oksanen, Anja Snellman og Riina Katajavuori sem ræddu mörk ljóðmáls og prósa, sjálfhverfu og spegilmyndir og fleira. Katajavuori sagði að skáldsagan kynni að hafa eins konar konungsstatus í ríki skáldskaparins, en ljóðið væri þá drottningin; formið sem allt passaði í, sem ræktaði málið og andann. Þær lásu allar uppúr nýju bókunum sínum og létu mig langa í þær allar. Næstu þrjú skáld hefði mátt kalla ung-, tveir strákar og stelpa. Þau voru minna hátíðleg en þær á undan og ræddu sinn skáldskap heldur ekki mikið en lásu upp nokkur ljóð, lekandi af neimdroppum úr bókmenntasögunni, kynsjúkdómum og sjálfsfróun. Alls ekki alslæm, en komu lítið á óvart.
|
Johanna Rojola og spyrill |
Að lokum þessa föstudags sá ég svo viðtal við Johönnu Rojola, sem ritstýrði
Suffragettien city, nýútkominni bók með finnskum þýðingum á sænskum, femínískum myndasögum. Á bókamessunni var heilt á litið nokkur myndasöguslagsíða, sem skrifast á að í ár telst finnska myndasagan eiga 100 ára afmæli. Rojola lærði í Frakklandi og vill meina að þar séu jafnréttismál ekki svo langt á veg komin að femínistamyndasögur geti átt sérstaklega upp á pallborðið. Sænska myndasögusenan er hinsvegar greinilega það umfangsmikil að femínískar myndasögur ná að blómstra innan hennar – stærri markaður auðvitað en í Finnlandi (og hvað þá á Íslandi). Höfundarnir í safninu eru allir kvenkyns, sem varla kemur mikið á óvart. Bara ein er yfir þrítugu en að sögn ritstjóra var það ekki með ráðum gert.
|
Don Rosa, rithöfundur og krúttsprengja |
Laugardagsleiðin lá að stærsta sviðinu, kenndu við Aleksis Kivi. Þar var rétt að ljúka viðtali við Martti Ahtisaari, tíunda forseta finnska lýðveldisins og fyrsta Finnann til að hljóta friðarverðlaun Nóbels. Við fylgdumst með meðalaldri á svæðinu falla um sirka 40 ár þegar áhlýðendur Ahtisaaris hurfu að mestu á braut og í staðinn flykktust að aðdáendur næsta höfundar á dagskránni: Andabæjargóðkunningjans Don Rosa, sem vart þarf að kynna. Rosa missti bókstaflega andlitið þegar hann kom inn á sviðið í fylgd viðmælenda sinna og sá fjöldann sem beið hans. Ég man eiginlega ekki eftir að hafa séð svipbrigði lýsa undrun á jafn ýkt kómískan en janframt einlægan hátt. Það var reyndar greinilegt að hann er síst í essinu sínu á sviði frammi fyrir mannfjölda, en viðtalið sem fylgdi var mjög skemmtilegt. Rosa sagðist „ekki einusinni í Finnlandi“ hafa mætt svona fjölmennum áheyrendahóp og velti upp þeirri spurningu af hverju konur væru í svo miklum meirihluta finnskra aðdáenda hans – vildi meina að þar væru þær 60-70%, annarsstaðar í Skandinavíu nær 30-40% og í Bandaríkjunum ætti hann sér varla nokkra kvenaðdáendur lengur (ekki hef ég annars hugmynd um hvernig slík tölfræði er fengin, en gott og vel). Tilefni komu Don Rosa á bókamessuna í ár er m.a. útkoma endurskoðaðrar útgáfu af finnskri safnbók, sem m.a. inniheldur söguna sem hann byggði á finnska söguljóðabálkinum Kalevala – í nýju útgáfunni er búið að lagfæra þýðingar- og innsláttarvillur og færa til betri vegar liti, skugga, stafagerðir og annað sjónrænt. Svoleiðis „smáatriði“ finnast honum nefnilega mikilvæg, sömuleiðis að sándeffektar séu vel þýddir (gisp!). Loks tók Rosa við spurningum úr sal. Fyrst var hann spurður af hverju hann hataði Mikka Mús. Hann svaraði að honum fyndist Mikki bara alveg mega við því að vera niðurlægður aðeins, verandi svona miklu vinsælli en Andrés – að minnsta kosti í Bandaríkjunum. Sjálfur teldi hann vinsældir Mikka stafa af því að ásjóna hans væri krúttlegri og áferðarfallegri en Andrésar – enda hafa sögurnar um íbúa Andabæjar og nágrennis víst ekki komið út í BNA í 30-40 ár, og andlit persónanna því fyrst og fremst orðin að lógóum sem sjást á stuttermabolum og í Disney World. (Finnski túlkurinn kaus að þýða þetta þannig oní áheyrendur að í Bandaríkjunum legðu menn meiri áherslu á útlit en innihald, þó að í Finnlandi væri því öfugt farið.)
|
Þessi fíni bókabíll var opinn. |
Ég sá svo margt margt fleira í messuhöllinni í Helsinki, þar sem bókabreiðurnar minntu á blómabeð og klósettin fáu virtust gufa upp á dularfullan hátt til þess eins að birtast í öðrum og fjarlægari hornum hallarinnar. Síðasti viðburður laugardagsdagskrárinnar okkar var viðtal við Hugleik „okkar“ Dagsson (hvað kallast annars frægir Íslendingar erlendis – útlandavinir?). Líkt og verk Don Rosa hafa bækur Hugleiks komið út á finnsku, einnig við töluverðar vinsældir. Ég er álíka mikill aðdáandi Hugleiks og hver annar, en við fylgdarkonan vorum sammála um semí vonbrigði með þetta viðtal – hann talaði aðeins um símaskrána og jólaköttinn en mestan partinn voru þeir spyrjandinn eitthvað að gaurast, lesa hugleiksbrandara upphátt á ensku með miklu flissi og „þetta er náttúrlega alls ekki við hæfi barna“-kommentum inná milli. Doldið barnalegt. En alveg skemmtilegt – bara ekkert mikið meira skemmtilegt en maður hefði sjálfur getað fengið út úr lestri bókanna.
2 ummæli:
Úff, hvað þetta hljómar skemmtilega! Ég er græn af öfund og hefði sko viljað vera á staðnum.
Don Rosa er ein af hetjum barnæsku minnar, en gaman að þú skulir hafa séð hann á sviði. Mig dreymir um að komast yfir heildarútgáfu Jóakimssagna hans.
Ég hef fengið talsvert lánað af skandinavískum myndasögum í Norræna húsinu og einmitt tekið eftir því hvað mikið er til af töff sænskum myndasögum, oft róttækum. Reglulega kemur út norrænt myndasögusafn sem heitir Allt för konsten og þar fann ég t.d. Li Österberg sem gerir frábæra seríu um Johönnu. Þetta er heimasíðan hennar: http://www.liosterberg.se/
Úh spennandi, tékka á henni!
Don Rosa er náttúrlega gamalt goð, gaman að hann sé svona krúttlegur kall líka.
Skrifa ummæli