Bókin fjallar um lífið í ónefndu þorpi úti á landi. Heilmikið persónugallerí er nefnt til sögunnar en burðarás hennar er þó hin ljúfi, eilítið feitlagni Lárus (Lalli) og stúlkan Sólveig (Sóla) sem á ættir að rekja í þorpið og flyst þangað öllum að óvörum ófrísk og fremur dularfull. Sagan hverfist um þau Lalla og Sólu sem verða ástfangin, eða Lalli verður ástfanginn af henni, allt eftir því hvernig maður vill líta á málið, og hvernig þeirra saga er samofin lífi og sál þorpsins.
Það er í raun mjög góð hugmynd hjá Hörpu að haga persónusköpun Sólu á þann hátt sem hún gerir, þ.e. að Sóla er í senn innfædd og utanbæjarkona. Með því nær hún að fá inn í söguna element sem hrista uppí þorpsbúum og hneyksla þá, en á sama tíma verða þeir að skoða málið betur því hún er jú ein af þeim líka.Sóla verður aldrei sérstaklega skýr karakter og sem lesandi nær maður (ég sem lesandi amk) aldrei neinu sambandi við hana. Manni finnst hún alltaf vera í einhverskonar móðu og nær aldrei alveg að festa á henni hendur. Hún segir aldrei neitt af sínum högum og þau myndbrot sem manni eru sýnd veita manni enga sérstaka innsýn í hennar karakter. Það liggur við að maður sé sammála hinni afar ósympatísku móður hennar í lokin þegar hún lýsir dóttur sinni sem svo að það hafi aldrei verið neinn „brilljans í henni Sólveigu minni.“ Tilfinningin sem maður er skilinn eftir með eftir lestur bókarinnar er að Sólveig, hennar saga og karakter, sé þarna sem verkfæri til þess að varpa ljósi á og virka sem hvati á Lárus og hans líf.
Ég hefði gjarnan viljað sjá aðeins meiri dýpt og tilþrif í persónusköpuninni. Persóna Lalla þróast og skýrist smám saman fyrir manni, en margir karakteranna eru full óljósir og renna nokkuð saman. Fyrir mína parta eru það helst þær Sissa og Sigurrós sem standa uppúr og ná að verða aðeins meira en bara einhliða fulltrúar skoðana og viðhorfa.
Það sem mér finnst verulega vel gert í bókinni er að draga upp mynd af lífi í þorpi, amk einsog ég, sem hef þó aldrei búið úti á landi, get ímyndað mér að það sé. Að því leytinu til má segja að það að gera persónunar aðeins einhliða og ekki málaðar mjög sterkum litum sé til bóta. Fókusinn er á þessa þorpstilfinningu, það hvernig allir virðast sammælast um að hlutirnir séu svona en ekki öðruvísi, að fólk sé sett á sinn bás og þar eigi það bara að vera. Efniviðurinn í bókinni er góður og margt er þar vel gert.
Það sem háir sögunni að mínu mati er að hún er á köflum svolítið samhengislaus, lesandinn verður aðeins ringlaður í stuttum köflum sem manni finnast einhvernveginn hvorki hafa upphaf né endi. Þá er aðeins vaðið á súðum eftir miðja bók og hver kirkjuathöfnin og veislan rekur aðra. Gifting og skírn, ferming, jarðarför og önnur – þetta verður full mikið af því góða. Ég þykist nokkuð viss um það, m.v. það pótensíal sem mér finnst vera í þessari sögu að meiri ritstjórn og yfirlestur hefði getað gert kraftaverk fyrir bókina.
Á heildina litið er „Eitt andartak í einu“ falleg en fremur rislítil saga. Það eru ekki mikil tilþrif eða djúp dramatík en á sinn hljóðláta hátt nær hún samt að fanga mann þannig að maður vill halda áfram að lesa.
5 ummæli:
Ég sá titilinn "andartak í lífi þorpsbúa" og var alveg viss um að einhver hefði skrifað um Valeyrarvalsinn. Eru svo ekki tvær bækur í flóðinu sem fjalla um fólk undir glerkúpli?
Allavega tvær um fólk undir glerkúpli. Við erum að sjá þemu í þessu.
Haldiði að það væri ekki hægt að skrifa lærða grein um notkun kvenmannsnafnsins Sóla í íslenskum bókmenntum? Þetta er miklu algengara sögupersónunafn en alvörupersónunafn, af augljósum ástæðum.
Þú segir nokkuð. Ég man eftir bók eftir Guðlaug Arason sem heitir Sóla, Sóla og svo heitir persóna í bók eftir Þorgrím Þráins Sóla (Svalasta 7an?) og svo er það auðvitað Sjálfstætt fólk. Hvar eru fleiri?
Bréf til Sólu? (Ekki skáldsaga, en gælunafnið er sett í fókus í titlinum) Svo minnti mig að Sólar saga Sigurbjargar Þrastardóttur innihéldi Sólu, en það var víst bara Sól. Ég er sannfærð um að þær eru fleiri...
Skrifa ummæli