13. desember 2011

„Maður skrifar ekki um samtímann með zetu.“

Undirrituð sendi nokkrar spurningar, um nýja bók, vinnubrögð, bókmenntaumræðu og fleira, á Hallgrím Helgason. Hann svaraði fljótt og af alkunnri ljúfmennsku og hér fyrir neðan er afraksturinn.



Til hamingju með nýju bókina, Konan við 1000°, sem tilnefnd er til Íslensku bókmenntaverðlaunanna. Þessi bók kom fyrst út í Þýskalandi og þú ert líka tiltölulega nýkominn þaðan sjálfur, eru Þjóðverjar góðir lesendur?
Já, þeir eru góðir. Þolgóðir, móttækilegir og sérlega opnir fyrir okkur kuldabúum. Og einnig mjög hláturvana. Þeim nægir alveg að fá að hlæja þrisvar á upplestrarkvöldi, þá er það „stórfengleg skemmtun“ í þeirra huga. Þeir virðast svo illu vanir. Að loknu upplestrarkvöldi í Graz bað íslensk kona Austurríkismennina að nefna þýskumælandi höfunda sem hefðu húmorinn með sér, og var svarað með þriggja mínútna langri umhugsunarþögn. Loks kom síðbúið svar: „Ja, Thomas Bernhard er nú fyndinn á sinn hátt, en hann er reyndar dauður.“

Þú skrifar gjarna „stórar“ sögur. Nýja bókin segir sögu konu, Herbjargar Maríu Björnsson, en um leið segir hún sögu 20. aldar. Hvernig hugsarðu svona bók áður en þú byrjar, ertu með rosalegt plan og veistu alveg nákvæmlega hvað þú ætlar að gera? Já og fallast þér aldrei hendur í upphafi þegar þú ert með svona stórvirki í smíðum og veist hvað þú átt fyrir höndum?
Ég er með gróft plan hausnum og tilhlökkun í kroppnum. Fyrir mér er það alltaf lúxus að fá að eyða góðum tíma með verki sem gaman er að skrifa. Fyrstu mánuðirnir eru erfiðir, þá er allt á brattann. En svo er maður búinn að stilla stílinn af, kemst á flug og getur þá flogið vel og lengi. Síðan kemur vesenið að koma sér niður á jörðina. Síðustu vikurnar eru tóm handavinna og spurning um úthald.

Þessi bók var hinsvegar ólík öðrum því ég þurfti í raun að byrja á nýrri bók á fimmtíu síðna fresti. Bernska í Breiðafirði, Köben í stríðsbyrjun, Frísku eyjarnar, Pólskur skógur, Argentína eftir stríð, Vestfirðir um 1980 … Maður þurfti að lesa sér til og koma sér í nýjan gír á nokkurra mánaða fresti.

Það koma auðvitað alltaf örvæntingarmóment hér og þar, þegar yfirlesarinn segir að maður sé kominn út í skurð með söguna, hvar maður er búinn að spóla í tvær vikur, í því sem maður hélt vera gargandi snilld, en reyndist þá bara vera tóm drulla. Það borgar sig alltaf að hlýða yfirlesaranum, og ég geri það, alveg þar til ég sé að hann er sjálfur kominn út í skurð.


Aðalpersónan á sér raunverulega fyrirmynd og þekktar persónur eru á sveimi í bókinni, varstu ekkert ragur við að kippa þessu fólki inn í bók?
Rithöfundurinn ég er aldrei ragur en það fór aðeins um prívatpersónuna mig þegar hún sá hvað sá fyrrnefndi hafði gert. Hún vildi ekki særa fólk og bað hann vinsamlegast að breyta bókinni en sá svo að þá var hann farinn að særa bókina, og af tvennu illu var það verra en hitt, þannig að breytingar gengu til baka. Annars tel ég að látnir þjóðhöfðingjar verði nú að sætta sig við það að verða yrkisefni skálda. Þeir eru hluti af íslensku landslagi, rétt eins og Esjan. Skáldskapurinn er frelsið sjálft og erfitt að setja honum hömlur.

Gallinn við okkur Íslendinga er hins vegar sá að við trúum ekki á Guð heldur bókmenntir, og erum bókstarfstrúarmenn í þeirri merkingu að taka öllu því sem skrifað stendur á bók sem raunföstum sannleik. Ég hef ekki undan að minna fólk á það að þessi bók er skáldsaga, þegar ég fæ umkvartanir eins og þá að ég láti hana vera í París 1970-74, þegar konan hafi í raun verið búsett á Ísafirði. Konan í minni bók upplifir líka og gerir miklu skelfilegri hluti en fyrirmynd hennar í sínu lífi. Ég skálda henni mun grimmari örlög, einkum í síðustu köflunum. Verkið krafðist þess. Lögmál skáldskaparins er handan góðs og ills.

Það má lesa ákveðna kynjapólitík út úr þessu verki, Herbjörg María er engin passíf lufsa, varstu mjög meðvitaður um að hafa femíniskan undirtón í þessari bók?
Já, gleður mig að heyra það. Þetta er vonandi femínísk bók að einhverju leyti. Mig langaði til að skrifa um konu, um hinn kvenlega reynsluheim, sjá lífið út frá sjónarhóli kvenna, en þó með aðstoð „karlmennskunnar“ enda er Herbjörg María engin „kelling“, eins og þú bendir á. Og verandi í sambúð með áköfum femínista og miklum gegnumsjáanda pungveldisins var ögn auðveldara að ganga yfir þetta gil á femínísku línunni.

Fyrstu tvær bækurnar mínar voru um konur en frá 1996 hafði ég nær eingöngu skrifað um karlmenn og jafnvel karlrembur eins og Hlyn Björn í 101. Það var nokkuð meðvitað hjá mér að láta Herbjörgu Maríu gera jafn mikið grín að körlum og Hlynur Björn hafði gert að konum, snúa byssunni við og skjóta jafn fast og áður.

Reyndar finnst mér stundum eins og þessi bók kallist á við Þetta er allt að koma (1994). Báðar eru þær „ævisögur“ kvenna þótt ólíkar séu og í báðum bókum upplifði ég mikla skriftargleði. Í bókinni um Ragnheiði Birnu fann ég sjálfan mig sem höfund, með tilheyrandi kreisíness, sem var kannski fullmikið á köflum, og bókin um Herbjörgu Maríu var skrifuð eftir að ég hafði eytt tveimur árum í að skrifa á ensku. Að komast aftur í íslenskuna var mikið tripp, og þess vegna eru sjö nýyrði á síðu í Konunni við 1000°. Þá eru báðar bækurnar skrifaðar í kjölfar sálarkremjandi sambúðarslita og þá er maður alltaf svo gargandi ferskur.

Ég hef mikinn áhuga á þessum jafnréttisdebatt og er þar auðvitað á línu kvenna. Við karlar eigum enn svo margt ólært í þessum málum, og mínu femíníska uppeldi er langt frá því lokið. Það er ekki auðvelt fyrir fimmtugan, hvítan, vestrænan karl að þykjast vera femínisti. Konan mín þarf reglulega að minna mig á hvers vegna hin og þessi ummæli séu „feðrandi“ (patronizing) og hvers vegna sjónvarpsþáttur um tónlist sé ekki boðlegur þar sem eingöngu karlar standa að honum. Þá breytist maður í lítinn dreng sem er enn að læra. Gillzmálið er ekki bara nauðgunarmál. Jafnréttisbaráttan er líklega merkilegasta mál okkar tíma, og maður verður alltaf jafn hissa að heyra gólið í „hinum kvenmannslausu“, þessum gammeldrengjum sem eru til í að fórna mannorðinu til að verja síðustu vígin, en eru þó ekki meiri „karlmenn“ en svo að þeir væla eins og „kellingar“ þegar ungar stúlkur taka duglega á þeim.

Það sem mér finnst sérlega áhugavert er að þessi gamla kona, Herbjörg María, er á netinu og facebook og er um margt mjög nútímaleg. Mér finnst það oft ekki eiga við um persónur í íslenskum nútímabókmenntum og reyndar ekki erlendum heldur. Ég gæti alveg nefnt sögupersónur í nýlegum bókum sem virðast varla kunna á farsíma, hvað þá að þeim detti í hug að fletta fólki upp á facebook. Viltu tjá þig eitthvað um þetta?
Ég hef alltaf viljað skrifa um lífið eins og það er, en ekki eins og það á að vera. Höfundurinn verður að lúffa fyrir lífinu en ekki fara að því með allan sinn eigin smekk. Það er til dæmis vont að sjá þegar höfundur þrýstir eigin tónlistarsmekk upp á skáldsagnapersónur sínar. Það gefur auga leið að þannig verður persónugalleríið ansi takmarkað.

En hræðslan við að vera plebbalegur er ansi lífseig, óttinn við að fjalla um það sem gerir okkur öll að sömu súpuþegnunum: útigrill, anorakka, fésbækur og kynlíf. Og svo er kannski smá nostalgía þarna líka, eins og við sjáum birtast í þessari undarlegu ást kvikmyndaleikstjóra á símklefum.

Ég hef sjálfur alltaf verið með staðsetningaráráttu: Njörva karakterana mína niður á stað og stund, í tíma og rúm. Aldrei verið mikið fyrir þetta loðna. Fyrir mér liggur þetta allt í smáatriðunum, nákvæmninni. Og ef þú ert rúmföst haustið 2009, með fartölvu á sænginni, gefur auga leið að þú hlýtur að vera á netinu, hlýtur að vera á Fésbók.

Ég fór inn á Fésbók um mitt ár 2007 til þess að verða ekki útundan í samfélagsveruleikanum. Um daginn hitti ég listamann sem enn er ekki á Fésbók og ætlar ekki. Þar með er hann dáldið dottinn úr tengslum við íslenskan hversdag og á erfitt með að fjalla um hann. Maður skrifar ekki um samtímann með zetu. Íslenskar bókmenntir hafa löngum þjáðst af hátíðleika, hinum fagra, ljóðræna stíl, en ég hélt nú satt að segja að krimmarnir hefðu náð að berja mesta hrímið utan af þeirri skonnortu.

Undanfarið hefur töluvert verið rætt um íslenska bókmenntarýni og þú hefur tekið þátt í þeirri umræðu. Bent hefur verið á að sama fólkið sé á mörgum miðlum og einhverjir hafa sagt að óhóflegur stjörnuaustur tíðkist þegar einhver meðalverk eru gagnrýnd, hvað finnst þér um íslenska bókmenntagagnrýni?
Hún er og verður eilífðarvandamál. Og það eru víst alltaf blessuð jólin sem eru orsökin ... Hvernig er hægt að ætlast til þess að einn einstaklingur dæmi 12.000 blaðsíður á fimm vikum? Ég held nú að fáir höfundar geti kvartað yfir gagnrýni í ár, svo stjörnum prýdd sem við öll erum. Í þessari vertíð hafa þó athyglisverðustu dómarnir líklega komið frá leikmönnum, einhver smá ferskleiki þar á ferð. En samt sem áður verðum við auðvitað að hafa atvinnukrítíkera, fagfólk. Það eru þau sem bera umræðuna uppi.

Sjónvarpsþátturinn Kiljan hefur ægivald yfir öðrum, dómar þar geta skotið bók á loft eða skotið hana niður. Það er auðvitað gleðilegt að bækur skuli fá slíka athygli í sjónvarpi en hér er tímafaktorinn líka að stríða okkur. Það er kannski ekki alveg sanngjarnt að afgreiða bækur á mínútu eða tveimur eins og stundum hefur gerst. Um daginn hitti ég höfund sem vann í þrjú ár að skáldsögu sem afgreidd var í einni setningu í Kiljunni. Slíkt getur varla talist til almennrar kurteisi. Kannski er málið að lengja Kiljuna yfir hávertíðartímann.

Maður vill líka fá eitthvað meira kjöt á beinin frá atvinnufólki en „þetta er flott bók“ og „mér fannst hún mjög skemmtileg“, slíkt er auðvitað engin bókmenntaumræða. Og svo er þetta með æviráðningarnar. Ég er búinn að fá sama dóminn frá Kollu allar götur frá 1996, með nánast sama orðalaginu.

Satt best að segja veit ég ekki hvar „bókmenntaumræðan“ fer lengur fram. Fólk skrifar greinar í tímaritin en þau virðast ekki hreyfa við neinum. Fólk hittist stundum á göngunum í Útvarpshúsinu og spjallar þar í nokkrum setningum á meðan beðið er eftir bíl. Kannski er það eina umræðan sem þekkist.

Er Ísland kannski bara of fámennt til að hér geti þrifist einhver (bókmennta)umræða af viti? Fólk fær lítið borgað fyrir að skrifa gagnrýni, allir þekkjast og svona ...
Frankfurtardæmið gerði mikið fyrir íslenskar bókmenntir, lyfti þeim á æðra plan. Það er engin tilviljun að einmitt á þessu sama ári upplifum við „bestu bókajól allra tíma“, eins og reynsluboltar í bransanum kalla þau. Allt í einu eigum við 20 alþjóðlega höfunda, fólk sem kemur út hjá alvöru forlögum erlendis. Tilfinningin er sú að bækurnar hafi aukist að gæðum en gagnrýnin orðið eftir, en síðan komið hlaupandi á eftir höfundalestinni veifandi stjörnum og stóryrðum. Grunnurinn að auknum gæðum íslenskra bókmennta var þó lagður með stofnun og síðar stækkun launasjóðs rithöfunda. Allt í einu gátu heilu kynslóðirnar helgað sig skriftum eingöngu, og árangurinn blasir við. Kannski þyrfti að stofna sérstakan launasjóð gagnrýnenda ...

Ertu búinn að lesa mikið af því sem er að koma út þessa dagana? Mælirðu með einhverju sérstöku eða hlakkarðu sérstaklega til að lesa eitthvað?
Tíminn hefur aðallega farið í að lesa eigin bók, annarsvegar inn á hljóðbók og hinsvegar fyrir fólk í fyrirtækjum. Ég hef þó rekið nefið inn í nokkrar nýjar bækur og lyktin var nú frekar góð af þeim Ármanni, Kalmani og Sölva Birni. Ljóðabækur náði ég að lesa, eftir Kristínu Svövu og Ingunni Snædal og Kanil eftir Sigríði Jónsdóttur. Allt mög djúsí stöff, og mun ferskara en það sem ort er í karlaheimi þessi dægrin. Af barnabókum las ég Flugan sem stöðvaði stríðið í handriti, mjög snjöll, og er að lesa bók bróður míns Víti í Vestmannaeyjum fyrir krakkana, við mikla hrifiningu. Alls óvænt festist ég svo í bók Sigrúnar Davíðsdóttur, Samhengi hlutanna, spennusögu um Hrunið. Þetta er reyndar dæmi um bók sem forlagið skuldar betri yfirlestur, sorglegt að sjá þarna glötuð tækifæri aftur og aftur, en efnið er bara svo yfirþyrmandi áhugavert (skv. bókinni var Ísland stærsta peningaþvottavél heims) að maður lætur sig hafa það. Og plottið líka alveg brilljant: Höfundur myrðir sjálfa sig á fyrstu síðu!

Nú er ég að lesa ævisögu Gunnars Gunnarssonar eftir Jón Yngva Jóhannsson, sem er mjög áhugaverð og greinilega skrifuð með löngu tilhlaupi. Ég hlakka svo mest til að lesa bækur Steinars Braga, Guðrúnar Evu, Sigríðar Víðis og Þórarins Leifssonar, sem og þá Gúlíver og Napóleon.

Með hvaða höfundi, íslenskum eða erlendum, myndirðu vilja deila koníakspela eða hasspípu?
Ég er tiltölulega hrein hassmey en væri vel til í að sitja nokkur kvöld í Kiev og sötra koníak með Andrei Kurkov. Hann er skemmtilegasti kolleginn.

Engin ummæli: