17. desember 2011

maður verður til og maður deyr osfrv.

Jón Bjarki Magnússon er sennilega ekki síst þekktur fyrir starf sitt sem blaðamaður, en hann er líka ljóðskáld. Hann hefur tekið þátt í ljóðaupplestrum víðs vegar á Íslandi og erlendis, var framkvæmdastjóri útgáfufélagsins Nýhil um tíma og er nú meðal þeirra sem standa að stofnun nýrrar útgáfu, Útúr. Jón Bjarki hlaut nýræktarstyrk Bókmenntasjóðs í fyrra til að gefa út sína fyrstu ljóðabók, Lömbin í Kambódíu (og þú), og hún kom út nú á dögunum – með einhverri speisuðustu kápu jólabókaflóðsins, eftir Unu Björk Sigurðardóttur – og af því tilefni svaraði hann nokkrum mishnitmiðuðum spurningum þessarar druslubókadömu. Ég fékk líka leyfi til að birta eitt af mínum uppáhaldsljóðum úr bókinni í heilu lagi, en það er ljóðið Pæling. Það fjallar um það að ferðast um heiminn, en bókin er meðal annars innblásin af ferðalögum Jóns Bjarka um Asíu:

„að ferðast um heiminn er eins og að hafa kynmök
í fyrstu mikil spenna fyrir komandi leyndardómi
þá taktur fastur og endurtekinn riþmi
þar sem hið nýja kemst í gamlan vana
inn og út þar til á andartaki springið þið
uppgötvið í augnablik fegurðina í heiminum
liggið svo í lakinu með sígó að spúa í hringi
aftur heima
en það má svo sem líkja nær öllu við kynmök
maður fer inn í Bónus og aftur út
kveikir og slekkur á sjónvarpinu
rænir flugvél og flýgur henni inn í skýjaklúf
maður verður til
og maður deyr
osfrv.“ (18)
Eitt af einkennum bókarinnar er skýr pólitískur tónn. Sum ljóðin minna mig á fyrstu bækurnar hans Ísaks Harðarsonar og hráa ádeiluna í þeim, t.d. Hraðinn og BORGARI OG SKULDARI. Ég er líka sérlega hrifin af Útgönguleið (í Kambódíu):
„þökk sé kúlu sem glansar
og mylur sér leið inn um kúpu
sem brot-
nar
og hugmyndin um þá ekki lengur til
því rignir friðinum öfugum megin yfir þig“ (51)
Pólitík er oft vandmeðfarin í ljóðlist, sérstaklega þegar um er að ræða svona hráa og beinskeytta pólitík, henni hættir stundum til að verða mórölsk og jafnvel hallærisleg eða banal. Ég held að meðal þess sem fær það til að ganga upp í þessari bók sé þetta kaos íslensks og alþjóðlegs samhengis. Varstu meðvitaður um þetta, reyndirðu að gera þetta á einhvern ákveðinn hátt?
Titillinn á bókinni — Lömbin í Kambódíu (og þú) — vísar til titilljóðsins en þar var ég kannski að velta fyrir mér samspili tveggja heima. „Okkar“ og „þeirra“. Ég var með mynd fasta í höfðinu — mynd af lömbum sem ég hafði séð í miðri Phnom Penh, höfuðborg Kambódíu, þar sem þau voru að róta í ruslinu. Úr varð einhverskonar ávarp eða spurning — Á meðan lamb jarmar af hungri ert þú (eða ég) að gera eitthvað. Og hvað er það? Hvað erum við að gera á meðan lamb jarmar af hungri? Og það er auðvitað ýmislegt sem við erum að gera á meðan. Ýmislegt ljótt jafnvel. Þetta er svona upphafspunktur þessarar bókar held ég. Spurningin um tengsl okkar allra og áhrif hvert á annað í þessari veröld sem við gætum allt eins kallað Kambódíu.
Það er svona útfrá þessu upphafi sem ég ég sauma þetta verk saman. Það er erfitt að segja að ég hafi beitt einhverri ákveðinni aðferð við skrifin. Ég skrifaði auðvitað heil ógrynni af efni. Klippti, skar og henti þar til ég sat uppi með myndir/tilfinningar/ljóð sem mér fannst grípa ákveðið hugarástand. Þú spyrð einmitt hvort ég hafi unnið verkið á einhvern ákveðinn hátt, og það er kannski helst hægt að nefna einhverskonar hugarástand sem aðferð til að vinna þetta verk. Hugarástand sem ég vildi miðla en mér fannst ég ekki ná að festa á blað fyrr en með fyrsta ljóðinu — Lömbin í Kambódíu (og þú). Og þaðan hélt ég áfram.
Það er vissulega komið víða við í þessum ljóðum, þau teygja sig svolítið út um allan heim. Heim sem er einhvernveginn orðinn svo samansoðinn. Og maður á stundum erfitt með að átta sig á því hvar einn staðurinn endar og annar tekur við, hvenær maður er í Kambódíu og hvenær ekki? Og það er kannski það sem gerðist þegar leið á vinnslu þessarar bókar. Kambódía rann saman við Ísland og öfugt. Hin hefðbundna flokkun riðlaðist. Það er kannski ein pólitíkin í bókinni.
En eins og þú segir er pólitík vandmeðfarin í ljóðlist. Þar er svo margt sem ber að varast. Ég varð mjög meðvitaður um þetta í kringum hrunið en þá sat ég stundum heilu næturnar uppi í Grafarholti og skrifaði ljóð. Mjög banal ljóð um dauðann í úthverfunum eða um Jón Ásgeir eða einhvern álíka. Þetta var allt einhvernveginn svo mikill Facebook status að ég fékk fljótt viðbjóð á þessu. Seinna, og þegar ég var farinn að vinna að þessu verki, fannst mér eins og ég væri búinn að losna við þennan predikunartón sem hefur kannski svolítið einkennt andrúmsloftið hérna. Það var komið eitthvað annað hljóð í mallakútinn. Þú ert ekki sú fyrsta sem greinir skýran pólitískan tón í verkinu. Mér finnst eiginlega svolítið gaman að heyra það af því að þegar ég stóð uppi með lokahandrit fannst mér ég ekkert endilega vera með pólitískt verk í höndunum, kannski frekar eitthvað sem reyndi að fá að anda, eitthvað sem vildi fá að vera til óháð öllum gjaldeyrisskiptasamningum og lánalínum. Það er greinilegt að þetta „eitthvað“ hefur viljað vera svolítið pólitískt líka.
Í einu ljóði bókarinnar er vitnað í frægt upphaf Howl eftir Ginsberg, en í þínu ljóði tortímast mestu lifendur kynslóðarinnar í „lofttæmdum umbúðum akademíunnar“. Þú hefur undanfarið stundað nám í ritlist við Háskóla Íslands – er þetta með akademíuna meira kasjúal athugasemd eða viltu kommenta eitthvað frekar á þetta? Eru umbúðirnar lofttæmdar og kemst skáldskapurinn þá fyrir þar?
Hvítir og kaldir veggir stofnunarinnar hafa umkringt mig frá því að ég var sex ára gamall — þetta er alls ekki frumleg hugsun en hún sækir á mig eftir því sem ég eyði meiri tíma í skóla. Þessi flokkun á veröldinni — þessi flokkun á okkur í veröldinni. Þessar einingar sem við erum innan þessa hylkis. Framleiðslueiningar jafnvel, svo ég gerist pólitískur og banal. Það sem kom mér kannski mest á óvart í sambandi við ritlistarnámið var hvernig það var staðsett innan þessara sömu hvítu og köldu veggja. Hvað hugmyndin um sköpun og gagnrýna eða frumlega hugsun var fjarlæg. Áherslan virtist oftar en ekki vera lögð á hvort að efnið væri nógu þægilegt yfirlestrar fyrir væntanlega lesendur, í stað þess að rannsaka formið og eða nýjar leiðir til þess að miðla texta á listrænan og eða óhefðbundinn hátt. Ég man til dæmis oftar en ekki eftir því að hafa heyrt kennara tala um hvað væri söluvænt og hvað ekki. Eins og það skipti einhverju máli. Að þessu leyti var námið mun minna skapandi en ég hafði búist við. Að því sögðu var hægt að læra ýmislegt nytsamlegt þarna og ekki skemmdi fyrir að maður gat notað allan sinn tíma í að skrifa.
Hvort skáldskapurinn komist fyrir í slíkum lofttæmdum umbúðum er áhugaverð spurning. Kannski ætti frekar að kenna ritlist í Listaháskóla Íslands? Ég held að Háskóli Íslands verði seint skilgreindur sem leikvöllur fyrir skapandi eða listræna hugsun. Þetta ytra rými (HÍ) hefur vissulega áhrif á alla þá sem starfa innan þess. Hvort sem það eru kennarar eða nemendur. Að ætla að kenna skáldskap í formi akademísks náms geldir auðvitað ákveðin hluta af því sem getur talist til skáldskapar. Gerir hlutina kannski formúlukennda og treður þeim í fyrrgreinda flokka. En svo skipta kennarar auðvitað miklu máli í þessu samhengi, áhersla þeirra og nálgun. Sigurður Pálsson reyndist mér til að mynda afar vel og verð ég honum ávallt þakklátur fyrir þá andagift sem hann veitti mér.
Fyrir forvitni fór ég og skoðaði lokaverkefnið þitt úr ritlistinni, sem virðist vera uppkast eða fyrsta útgáfa af Lömbunum í Kambódíu (og þér). Ég ætla ekkert að ræða það sérstaklega en langaði til að vitna í greinargerðina þína við verkefnið, þar sem þú veltir fyrir þér tilgangsleysi skrifanna og þeim áhrifum sem meðvitundin um þetta tilgangsleysi hefur svo á sjálf skrifin: „Hvers vegna að skrifa? Til þess að ná til lesenda? Eða einungis til þess að fróa sjálfum sér á einhvern furðulega bjagaðan hátt?“ Sennilega hafa flestir sem skrifa haft svipaðar efasemdir á einhverjum tímapunkti, en þegar maður lætur frá sér texta sem ætlaður er til opinberrar útgáfu hlýtur maður að hafa tekið einhvers konar afstöðu gegn þessu tilgangsleysi. (Mér hefur líka stundum fundist að egórúnkið verði jafnvel mest þegar allt kemur til alls hjá þeim sem margorðastir eru um eigið tilgangs- og merkingarleysi – án þess að ég sé að beina því til þín.) Samt finnst mér eins og þessi tilgangsleysistilfinning svífi yfir vötnum í víðara samhengi í bókinni, t.d. í ljóðinu Það besta sem guð hefur skapað sem er frekar kaldranaleg vísun í lag Sigur Rósar:
„Þegar þú liggur í rúminu og keðjureykir til þess að gleyma.
Þegar þú gerir þér grein fyrir því að þetta er komið til að vera.
Þegar þú veist að svona verður þetta.
Þegar þú finnur fyrir því.
Þá er kominn nýr dagur.“ (79)
Hvernig tengist pólitískt efni bókarinnar svo þessum þunglyndislega og myrka tóni, sem er kannski ekki beinlínis líklegur til að grípa til aðgerða – er pólitíkin í ljóðunum leið til að horfa á heiminn eða er hún baráttuyfirlýsing?
Alinn upp á stofnun frá barnsaldri er kannski ekki skrítið að maður eigi erfitt með að sjá tilganginn í því að gera eitthvað sjálfur og algjörlega upp á eigin spýtur, óháð því hvort og þá hvað verði mögulega úr því sem maður er að rembast við að búa til. Það er einfaldlega erfitt vegna þess að maður hefur verið alinn upp við að hafa ramma utan um sig, þar sem hlutirnir eru annaðhvort samþykktir eða ekki. Inni á stofnuninni tekur maður próf og skilar inn efni og fær einkunnir í staðinn. Á vinnustaðnum gerir maður eins og manni er sagt, rétt eins og á hverri annarri stofnun, opinberri eða einkarekinni. Þegar maður kemur úr slíku umhverfi, sest einn fyrir framan tölvuskjá heilu næturnar og þykist ætla að skrifa bók, er kannski ekki skrítið að maður leiti rammans eða haldreipisins sem hefur gefið manni (falska tilfinningu?) um tilgang til þessa.
En svo kemst maður auðvitað yfir slíkar tilvistarkreppur eins og flest annað. Ég held þetta fylgi bara því að takast á við verkefni sem maður hefur ekki tekist á við áður. Á endanum er maður auðvitað sannfærður um tilgang þess að gefa efnið sitt út, annars væri maður varla að því. Maður fer kannski frekar að efast um tilgang alls hins, að feta öruggu leiðina, innan rammans. Hvort það sé almennt hollt að maður sé svo háður slíkum leiðbeiningum í gegnum lífið? Og hvort að óttinn við að sleppa tökunum af stofnuninni komi ekki hreinlega í veg fyrir eðlilega gagnrýni á hana sjálfa og kerfið sem slíkt? Úr verði samfélag hræddra, sem þori ekki og geti ekki tekist á við umhverfi sitt sem heldur því í heljargreipum. Þarna er tilgangur. Að brjótast út úr boxinu og gera eitthvað sjálfur. Mjög verðugur tilgangur meira að segja — nýtt haldreipi kannski?
Annars held ég að pólitíkin í ljóðunum sé frekar leið til að horfa á heiminn en baráttuyfirlýsing. Svona ef ég túlka þetta, sem ég á síðan kannski ekkert með að vera að gera. Kannski leið til að horfa svolítið kalt á heiminn. Horfast í augu við staðreyndir, eða eitthvað í þann dúr. Það má vissulega segja að ég máli upp nokkuð myrkan og þunglyndislegan heim. Sem er ein leið af mörgum til þess að horfast í augu við það sem hefur verið að gerast í kringum okkur hér (í Kambódíu?) Og heldur áfram að gerast sama hvað öllum Facebook statusum líður. Með nýrri tækni eru fundnar upp nýjar og þægilegri leiðir til þess að drepa fólk. Í ágúst á þessu ári skrifaði ég frétt á DV.is þar sem fram kom að árásir fjarstýrðra véla — sem stýrt er frá Nevada í Bandaríkjunum — hafi drepið 700 óbreytta borgara í Pakistan í 44 sprengingum síðan 2009. Í fréttinni kom fram að í einungis fimm tilvikum af þessum 44 hafi vélarnar náð að hitta skotmörk sín — alls fimm leiðtoga talíbana. Hér er fréttin fyrir áhugasama: http://www.dv.is/frettir/2010/8/25/fjarstyrdar-velar-bandarikjahers-drepa-konur-og-born/
Nú er ég kannski farinn að predika en það sem ég vildi sagt hafa er að slíkar fréttir úr þessari veröld okkar eru byggðar á raunveruleika. Á bakvið þessar tölur er fólk — fólk sem drekkur te, borðar dahl og dansar við trylltan trommuslátt. Eitt ljóðanna — Klukkan 07:12 — fjallar einmitt um þetta. Ég var nefnilega einu sinni í Pakistan, að drekka te, borða dahl og dansa, og fólkið þar var mér afar gott og gestrisið. Seinna las ég frétt á að morgni á Vísi.is þar sem mér var sagt að fjarstýrðar vélar hefðu sprengt vitlaust hús í Pakistan enn einu sinni. Og það skipti engu máli. Það skipti engu fjandans máli þó þetta fólk hefði einhverntíman gefið mér te. Þannig að já, pólitíkin og þunglyndið eiga ágætlega vel saman hér, held ég. Myrkrið úti í veröldinni og inni í manni sjálfum kallast einhvernveginn á. Allt hefur þetta áhrif hvert á annað. Svo má auðvitað spyrja sig hvort að þessi heimssýn kalli ekki á viðbrögð? Hvort að einhverskonar barátta sé ekki nauðsynleg í heimi sem er svona ljótur? Þá væri þetta kannski pólitísk baráttuyfirlýsing og ég því búinn að tala mig í hring.
Mér finnst dálítið áhugavert hvað maður sér svipaðar pælingar víða í bókaflóðinu þetta haustið, og kannski opinskárri en oft áður. Til dæmis var verið að kynna tilnefningar til Fjöruverðlaunanna í vikunni og þær þrjár bækur sem eru tilnefndar í barnabókaflokknum fjalla um a) stríð, b) vinnuþrælkun barna í Asíu og c) aðskilnað ríkra og fátæka. Og ein af mest áberandi bókunum þetta haustið er auðvitað Ríkisfang: Ekkert eftir Sigríði Víðis Jónsdóttur, en henni mætti í rauninni lýsa með mjög svipuðum orðum og þú notar hér á undan.
Hvað heldurðu svo um aðalpersónuna á blaðsíðu 45, kínverska athafnaskáldið Huang Nubo, erum við öll að fara að vera á ritlaunum hjá honum eftir smá?
Hann virkar voðalega mikið krútt á myndum, sérstaklega á myndinni þar sem er að gæða sér á harðfiski. Annars veit ég voðalega lítið um manninn og finnst hæpið að mynda mér einhverja sérstaka skoðun á honum. Er þetta ekki bara maður í bíssness sem hefur starfað hjá kínverska áróðursmálaráðuneytinu og langar til þess að eignast stærðarinnar landskika uppi á fjöllum? Ljóðaunnandi sem vill af einskærum áhuga styðja við íslensk skáld með milljónum júana? Annars var ég að tala við félaga minn sem starfar úti í Kína um daginn. Hann sagði mér frá því að íslensku skáldin sem hefðu farið til Kína í boði Nubo hefðu endað í þorpinu Hongcun, sem er í eigu Nubos. Það fannst mér skemmtilegt afþví að í bókinni minni minnist ég einmitt á þorpið sem er einkar áhugavert fyrir þær sakir að íbúar þess hafa tjáð sig opinberlega um að þar upplifi þeir sig sem leikmuni í einhverskonar leikriti. Þannig að já, kannski stefna íslensk skáld beinustu leið inn í leikrit athafnaskáldsins Huang Nubo, sum þeirra virðast að minnsta kosti vera lögð af stað.
Lömbin í Kambódíu (og þú) er önnur af tveimur fyrstu bókunum sem eru að koma út hjá Útúr nú fyrir jólin (hin er ljóðabók eftir Bergþóru Snæbjörnsdóttur sem heitir Daloon dagar). Geturðu sagt mér aðeins frá þessari nýju útgáfu, Útúr? Hefur hún einhver yfirlýst markmið?
Þetta er einhverskonar hliðarverkefni bókabúðarinnar Útúrdúrs sem rekin hefur verið með einu eða öðru móti frá árinu 2007. Ég, Bergþóra, þau sem staðið hafa á bakvið Útúrdúr og aðrir áhugasamir komum okkur saman um að setja á stofn einhverskonar regnhlífarsamtök utan um útgáfustarfsemi framsækinna verka. Útúr er afkvæmi þeirrar hugmyndar. Ég veit að fleiri ljóðabækur eru í smíðum núna en þær munu koma út undir merkjum Útúrs eftir áramót. Þá eru aðrir að vinna að pólitískum verkum sem munu líka koma út undir þessum regnhlífarsamtökum, hvort sem að sú útgáfuröð muni kenna sig við Útúr eða ekki. Þetta er allt saman á einhverskonar samræðustigi og þróast eflaust þegar fram líður. Annars er þetta afar einfalt allt saman, hjá okkur ríkir enginn fasismi og góður andi. Það er alltaf heitt á könnunni í Útúrdúr ef fólk hefur áhuga á því að spjalla og eða starfa með okkur að útgáfumálum.

5 ummæli:

Nafnlaus sagði...

En - hverjum vildi Jón Bjarki helst deila með vodka eða gin flösku? Æ.

Kristín Svava sagði...

Þessu steingleymdi ég. Jón Bjarki, vinsamlegast gefðu þig fram í athugasemdakerfinu - höfum þetta Ribenasaft eða maltflösku!

J�n Bjarki sagði...

Er að leita að bíllyklum — Svara þegar ég hef fundið þá!

J�n Bjarki sagði...

Ég finn ekki bíllyklana og það er ekki til neinn aukalykill. Hvað gerir maður þá? Kaupir nýjan bíl?

J�n Bjarki sagði...

Ég á ekki einu sinni þennan! En já, ég svara þessu bara án þess að lykillinn hafi komist í leitirnar. Ég væri alveg til í að deila malti með Nubo á fjöllum. Ræða við hann um framsækna kínverska ljóðlist. Ribenasaftinu væri ég síðan til í að deila með indverska ljóðskáldinu Vivek Narayanan sem kom á ljóðahátíð Nýhil 2009, hann var svo fjári skemmtilegur! Þ.e. ef ég mætti bæði.