Undanfarin kvöld hefur kvöldlesturinn hjá okkur 7 ára dóttur minni verið Söngur Guðsfuglsins. Sagan af unganum sem vissi ekki til hvers fuglar voru eftir Ísak Harðarson með myndum eftir Helga Þorgils Friðjónsson. Aftan á bókarkápunni er talað um þessa sögu sem ævintýri sem á erindi til barna á öllum aldri. Bókin fjallar um þrjár kynslóðir þrasta í Hljómskálagarðinum og hugleiðingar þeirra um tilgang lífsins.
Lesturinn var mér bæði ánægjulegur og erfiður.
Fyrst ber að nefna að texti bókarinnar sem slíkur er frábær. Þetta er einstaklega vel skrifuð barnabók og unun að lesa þennan texta. Framsetningin er skemmtileg og full af húmor; við mæðgur höfðum báðar mjög gaman af því hvernig sagt var frá hugleiðingum unganna í hreiðrinu og spurningum þeirra til foreldra sinna. Ýmis smáatriði koma skemmtilega út, eins og það hvernig málfarið er heimfært á fugla. Til dæmis er „ungalegt“ notað um það sem við köllum „barnalegt“ og vitaskuld er talað um spáfugl en ekki spámann. Myndirnar í bókinni eru mjög fallegar og alveg lausar við krúttheitin sem stundum má sjá í barnabókum. Ekki það að myndskreytingar megi aldrei vera krúttlegar en það er mjög skemmtileg tilbreyting að sjá barnabók með myndum sem eru einhvern veginn „fullorðins“.
Eins og áður sagði koma þrjár kynslóðir fuglafjölskyldunnar við sögu í bókinni. Í upphafi eru ungar í hreiðri og við fylgjumst með samskiptum þeirra við foreldra sína. Þeir verða svo fullorðnir og eignast sjálfir unga, en aðalpersóna bókarinnar er einn unganna úr upphafi sem hefur svo í seinni hluta bókar eignast eigin unga. Dóttur minni þótti það ruglingslegt að fuglarnir sem voru foreldrarnir í upphafi bókar voru gegnum alla bókina kölluð ungapabbi og ungamamma, þrátt fyrir að vera orðin afi og amma í seinni hlutanum. Eins þótti henni það ruglingslegt að einn af ungunum í upphafi hlýtur nafnið Goggur og að einn af sonum aðalpersónunnar skuli svo líka heita Goggur. Þetta kallaði á stöðugar útskýringar á fjölskyldutengslum.
Það sem fer verulega fyrir brjóstið á mér við þessa bók er boðskapurinn. Bókin er trúaráróðursrit á hæsta stigi. Ungarnir eru í leit að tilgangi lífsins og finna sér tilgang einn af öðrum, nema söguhetjan nafnlausa. Sú verður svo fyrir áfalli um miðbik bókar og leggst í þunglyndi yfir tilgangsleysi alls. Ungapabbi nær svo að sannfæra þennan þunglynda son sinn, efasemdafuglinn, um að reyna að biðja til Guðsfuglsins og hleypa honum inn í líf sitt, „vera honum hreiður“. Viti menn: nafnlausi fuglinn uppgötvar gleði og tilgang gegnum bænina og tilhugsunina um að Guð (eða Guðsfuglinn) fylgi honum. Á þessu er að skilja að trúleysi færi manni svartnættið eitt og gleði og fegurð verði ekki upplifaðar nema með Guði. Þetta er boðskapur sem mér finnst hreinlega skaðlegur og í besta falli afar villandi. Ég ræddi boðskapinn aðeins við dóttur mína en hann virtist reyndar hafa farið fyrir ofan garð og neðan hjá henni, sem var líklega eins gott.
Bókin skítfellur á Bechdel-prófinu: Fuglarnir sem eitthvað hafa fram að færa eru allir karlkyns. Ungarnir sem velta fyrir sér tilgangi lífsins (eða spurningunni „Til hvers eru fuglar?“) og taka mismunandi afstöðu til hans eru allir karlkyns og það er ungapabbi sem ræðir við þá og uppfræðir meðan ungamamma er á hliðarvængnum. Aðrar nafngreindar kvenpersónur eru Flétta og Sólbrá sem gegna því hlutverki einu að vera kærustur og ungamæður karlkyns fugla. Öll djúp hugsun og allar samræður eru á hendi (eða öllu heldur væng) karlfuglanna.
1 ummæli:
Takk fyrir skemmtilega krítík. Vona að bókin sé ekki mann/barnskemmandi, það er nú bara verið að minnast á guð kærleikans en ekki hvetja til neinna voðaverka! En svona er nú nútíminn einu sinni; það er talið hættulegt að minnast á voðaveruna Guð! Í því sambandi er vert að minnast þess að engin boðun er boðun líka: Sé ekkert boðað þá fær neyslusamfélagið að boða sig athugasemdalaust. Er virkilega æskilegt að leiða aldrei hugann að því að æðra, heilla og víðara lífssamhengi geti verið til en það sem blasir við skynfærunum dags daglega? - Hef samt skilning á því að "upplýstir" nútímaforeldrar geti komist í bobba þegar þeir eiga að fara að ræða um Guð við börnin sín - einkanlega ef þeir hafa lítið leitt hugann að honum sjálf. Anyway: ha det bra. Skemmtileg síða.
Skrifa ummæli