11. desember 2011

Börn sem hlusta og horfa

Þegar saga er sögð skiptir að sjálfsögðu máli hver segir hana, hvort sem hún er skáldskapur eða upplifun úr raunveruleikanum. Sjónarhornið litar frásögnina, bæði efnislega og stílrænt. Mér finnst oft mjög gaman að lesa höfunda sem eru meðvitaðir um þetta og leika sér með hlutdrægni sögumannsins eða forsendur hans til að skilja atburði. Af vinsælum, nýlegum skáldsögum sem stíla inn á þessa nálgun má nefna Atonement eftir Ian McEwan, þar sem telpan Briony mistúlkar og misskilur atburði á afdrifaríkan hátt; hún er barn sem túlkar það sem hún sér og heyrir út frá eigin hugarheimi, fyrirfram gefnum skoðunum og ákveðnum barnaskap. Ég hef áður minnst á bókina English Passengers eftir Matthew Kneale hér á blogginu, en hún nálgast hlutdrægni sögumannsins á annan hátt; sagan er sögð af ótal röddum og sjónarhorn hverrar persónu litast af persónuleika, fordómum, stétt, staðsetningu og persónulegri upplifun.
Agalega góð bók!


Hinn stórskemmtilegi höfundur Kneale hefur skrifað sjö skáldsögur og í þeirri nýjustu, When We Were Romans (sem reyndar er frá 2008), leikur hann sér með sjónarhorn barnsins en á aðeins annan hátt en Ian McEwan. Röddin er alltaf barnsins og Kneale býr til ótrúlega sannfærandi gegnumgangandi sjónarhorn. Sögumaðurinn er hinn níu ára gamli Lawrence, sem býr með einstæðri móður og lítilli systur. Lawrence er í verndarahlutverki gagnvart mæðgunum, hefur ákveðið að hann þurfi að halda fjölskyldunni gangandi, og strax frá upphafi skynjar lesandinn að eitthvað er ósagt og útgáfa Lawrence af veruleikanum er að einhverju leyti bjöguð.
Matthew Kneale, sposkur
Móðirin Hannah ákveður að flýja með börnin tvö undan ofsóknum föðurins og leggur af stað með þau til Rómar þar sem hún bjó á árum áður. Þetta er ein af þessum bókum sem ekki má ljóstra upp of miklu um, en Kneale nær merkilegu jafnvægi á milli hins sagða og ósagða, og við fáum að fylgjast með því hvernig Lawrence smám saman áttar sig á hinum sláandi sannleika. Lesandinn ferðast með Lawrence í gegnum bókina og sjónarhornið er allan tímann hans, og þótt við hinir fullorðnu lesendur höfum ríkari forsendur til að átta okkur á ýmsum staðreyndum er okkur aldrei hleypt langt fram úr drengnum enda upplifum við atburðarásina alfarið í gegnum vitund hans. Samband mæðgnanna er sérstaklega vel skrifað; uppfullt af sársaukafullri ást og löngun til að vernda þá sem maður elskar. Þetta er mikil þroskasaga, virkilega tilfinningaþrungin en algjörlega laus við væmni og oft ansi fyndin enda kann Kneale að beita húmor. Að lestri loknum var ég flóandi í tárum en fannst ég samt ekkert hafa verið manipúleruð til að brotna saman, eins og stundum gerist þegar höfundar klæmast á tilfinningum og skella fram öllum klisjunum í bókinni. Ég var svo hrifin af þessari bók þegar ég las hana fyrir 2-3 árum að mig langaði helst að fara með hana til útgefanda og biðja um að fá að þýða hana. Því miður hef ég ekki átt dauða vinnustund síðan þá þannig að það varð aldrei neitt úr þeim áformum ...
Jacqueline Wilson - mögulega
góðlegasta kona í heimi

Á vissan hátt minnti bókin mig á þá frábæru barnabók Lola Rose eftir Jacqueline Wilson. Wilson er efni í annan pistil (best að skrifa það hjá sér upp á framtíðina), framúrskarandi barnabókahöfundur frá Bretlandi sem skrifar skemmtilegar bækur um félagslegan raunveruleika breskra barna. Lola Rose fjallar líka um mæðgnasamband, geðsjúkdóma, ofbeldi og vanrækslu, barn sem tekur á sig óeðlilega ábyrgð og afneitun á raunveruleikanum. Ég hef ekki lesið hana í íslenskri þýðingu, sem kom út fyrir einhverjum árum hjá Forlaginu, og get því hvorki mælt með né á móti þeirri útgáfu og veit ekki alveg hvernig hún kemur út í þýðingarsamhengi, en mér finnst Lola Rose afbragðsgóð barnabók eins og reyndar flestar þær bækur Wilson sem ég hef rekist á. Hún hefur talsverða sérstöðu í breskum barnabókmenntum fyrir að notfæra sér félagslegt raunsæi í bland við mikinn húmor og í raun auðlesinn texta; það er dálítið skandinavískur blær yfir henni stundum en samt er hún líka afskaplega ensk og er óhrædd við að fjalla um enskan veruleika, misskiptingu, viðtekin gildi og félagsleg vandamál.

4 ummæli:

Védís sagði...

Skemmtilegur pistill - fær mig til að lesa Matthew Kneale. :)

Sigfríður sagði...

Endilega færslu um Jacqueline Wilson. Dóttir mín les bækur eftir hana í bílförmum, bæði á ensku og íslensku. Ég hef ekki lagt í hana enn, en las ritgerð sem dóttirin skrifaði um Lolu Rose og leist ágætlega á.

Sigfríður sagði...

Endilega færslu um Jacqueline Wilson. Dóttir mín les bækur eftir hana í bílförmum, bæði á ensku og íslensku. Ég hef ekki lagt í hana enn, en las ritgerð sem dóttirin skrifaði um Lolu Rose og leist ágætlega á.

Salka Guðmundsdóttir sagði...

Gaman að geta breitt út orðstír Matthews Kneale, mæli svo sannarlega með honum!

Og já, ég skal skrifa um JW við fyrsta tækifæri. Hún er einn af mest lánuðu höfundunum á breskum bókasöfnum og algjör þjóðargersemi. Ég man eiginlega ekki hvernig ég byrjaði að lesa hana, það var af einhverri rælni og ekkert með sérlega miklum væntingum, en ég er eldheitur aðdáandi.