13. desember 2011

Ærlækjarbók - fyrirlestur

Miðvikudaginn 14. desember flytur Sverrir Tómasson erindið: ,,Bið fyrir mér dándikall". Nikulás saga og Nikulás tíðir í Ærlækjarbók: AM 640 4to í erindaröð um handrit úr safni Árna Magnússonar í tilefni upptöku þess á varðveisluskrá UNESCO ,,Minni heimsins".

Erindið hefst kl. 12.15 á bókasal Þjóðmenningarhússins og stendur í um hálfa klukkustund. Handritið verður til sýnis á staðnum.

Heilagur Nikulás frá Mýru var í miklum metum meðal kaþólskra mann á Íslandi út allar miðaldir. Fjórar gerðir og brot af lífssögu hans hafa varðveist og sérstaklega er athyglisvert hve lífssaga Bergs Sokkasonar ábóta á Munkaþverá hefur orðið vinsæl, einkum að því er virðist í Þingeyjarsýslu en þaðan eru runnin a.m.k. þrjú handrit hennar frá 14. Og 15. öld. Eitt þeirra er Ærlækjarbók, AM 640 4to sem ritað er undir lok 15. aldar og hefur verið eign hálfkirkjunnar á Ærlæk uns Árni Magnússon eignaðist það í byrjun 18. aldar. Aftan við sögu Nikulás stendur latnesk tíðagerð um hinn sæla mann. Sá hluti handritsins hefur ekki upphaflega heyrt til AM 640 4to og ekki heldur íslenskar vísur um Nikulás sem þar sem þar eru skrifaðar aftan við með lagboða.

Engin ummæli: