6. janúar 2009

Sedaris - beittur en aldrei bitur!

Ég ætla að byrja á því að biðja Æsu fyrirfram afsökunar á að grípa annan gleðigjafa úr höndum hennar – en meðan hún kvaldist yfir hroðbjóðnum Kevin og hinni köldu móður hans (foreldrarnir eru alltaf sekir), hló ég dátt að/með David Sedaris – einum skemmtilegasta höfundi sem hefur rekið á fjörur mínar.

Sedaris hóf feril sinn sem pistlahöfundur í útvarpi (eftir stutt stopp sem leikhúslistamaður) og sló í gegn á þeim vettvangi eftir að hafa flutt smásögu sína SantaLand Diaries – sú fjallar einmitt um hugsanlegan hápunkt leikferilsins þegar hann vann sem jólaálfur í bandarískum stórmarkaði einn kaldan desembermánuð. Tveimur árum síðar (1994) gaf hann út sína fyrstu bók, Barrell Fever sem er, eins og aðrar bækur hans, sjálfsævisögulegt samansafn pistla eða hugleiðinga.

Fyrsta bók Sedaris sem ég las var Naked (1997) og eftir það var ég friðlaus þar til ég hafði komist yfir þær allar – áðurnefnda Barrell Fever, Holidays on Ice (1997), My Talk Pretty One Day (2000) og Dress Your Family in Corduroy and Denim (2004). Allar eru þær svipaðar að formi (og innihaldi ef út í það er farið) og synd að segja að einhver þeirra skeri sig mikið úr. Í Holidays on Ice eru þó sögur tengdar hátíð ljóss og friðar í fyrirrúmi á meðan My Talk Pretty One Day snýst mikið til um búferlaflutninga hans og Hugh, sambýlismanns hans til margra ára, til Frakklands. Það er þó fjarri mér að spæla mig á skorti á listrænum hástökkum Sedaris – til þess er hann alltof skemmtilegur og það væri sorgardagur ef hann leggði húmorinn á hilluna til að einbeita sér að hinni stóru djúpþenkjandi skáldsögu.

Í nýjustu bók sinni When You are Engulfed In Flames er Sedaris sem betur fer við sama heygarðshornið. Umfjöllunarefnið er eins og áður fengið úr daglegu lífi hans og óhjákvæmilega leika vinir og vandamenn þar stóra rullu. Ekki er gott að segja hvort Sedaris færir í stílinn eða hvort fjölskylda hans er upp til hópa létt biluð – nema hvort tveggja sé. Það verður þó að teljast þeim til tekna að ekkert þeirra virðist hafa afneitað Sedaris sem fer þó engum silkihönskum um fjölskyldulífið. Honum til varnar skal þó taka fram að hlífir hann ekki sjálfum sér nema síður sé.

When You are Engulfed In Flames segir meðal annars frá Helen, gamalli konu sem var nágranni þeirra Hugh í New York – og nánasti vinur Sedaris - milli þess sem hún barði barnunga, heyrnalausa sendla og bölvaði svarta kynstofninum. Í bókinni kynnumst við líka sérstaklega óhugnanlegri barnfóstru sem gætti Sedaris systkinanna í æsku og tengdamóður hans sem eitt sinn ól snák í sköflungnum. Sedaris er sérfræðingur í að lýsa örvæntingarfullum augnablikum daglegs lífs – eins og að missa brjóstsykur í kjöltuna á næsta manni í flugvél, sitja slopplaus og kaldur á læknabiðstofu eða missa sjónar á ferðafélaga á lestarstöð. Ítrekað veinaði ég af hlátri og strauk tárin úr augnkrókunum um leið og ég hryllti mig og kreppti tærnar í skónum.

Sedaris hefur sérstakt lag á að segja frá yfirgengilegu fólki sem hagar sér óafsakanlega án þess þó að taka frá því mennskuna. Hann er brjálæðislega fyndinn og hlífir engum en minnir stundum á 21.aldar, samkynhneigða, léttgeggjaða útgáfu af Chekhov því þrátt fyrir alla ógæfuna og niðurlæginguna sem hann lýsir verður Sedaris aldrei vís að hroka og mannhatri. Hann er beittur en ekki bitur!

2 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Óhugnanlega hauskúpan framan á bókinni segir sem sagt ekki alla söguna um efni hennar?

Maríanna Clara sagði...

Svo sannarlega ekki - enda má við nánari athugun sjá að beinagrindin er mjög afslöppuð að reykja sígó...reyndar er þetta víst mynd eftir Van Gogh...margræðnin í fyrirrúmi hér!