22. janúar 2009



„Börn síns tíma“ og barnabækur.

Raymond Chandler og Dashiell Hammett eru höfundar sem ég hef ekki gluggað í lengi en nýlega varð breyting þar á og hef ég nú sökkt mér á kaf í reyfaralestur. Eins og Pollýanna vinkona mín hafa þeir elst misvel – írónían, ljóðrænn og ofbeldisfullur stíllinn í bland við þurran húmor og pent mannhatur eiga alltaf jafn vel við. Kvenfyrirlitningin og kynþáttafordómarnir líta hins vegar aðeins verr út í dag en fyrir 60-70 árum. Hins vegar eyðilagði það nú alls ekki fyrir mér lesturinn – enda slíkt fánýtt – Þeir félagar Hammett og Chandler komust víst ekki hjá því að vera börn síns tíma frekar en svo margir aðrir og þar fyrir utan má auðvitað telja þeim það til hróss að vera yfirhöfuð að draga upp nýjar og oft á tíðum ögrandi myndir af minnihlutahópum sem aðrir kusu að fjalla hreinlega ekki um.

Að lestri loknum hjó ég hins vegar eftir því að þrátt fyrir að vera stundum röngu megin við pólitísku réttsýnis línuna þá hefur (sem betur fer) ekki hvarflað að neinum að endurskrifa Chandler og Hammett fyrir nýjar kynslóðir lesenda – eins og til að mynda barnabókahöfundurinn Enid Blyton hefur mátt þola. Í bókum hennar voru „útlendingslegir“ menn yfirleitt óreiðumenn ef ekki illir glæpamenn og á meðan drengirnir „könnuðu aðstæður“ kom það í hlut telpnanna að þvo upp. Í nýjum útgáfum bóka Blyton er búið að „laga“ slík atriði – aflita hárið á nokkrum skúrkum og skikka strákana í heimilisstörfin.

Þótt ugglaust búi góður hugur að baki slíkum breytingum verður mér þó hálf órótt þegar ég hugsa til þeirra – ekki bara af því að mér finnst Blyton sýnd óvirðing heldur er hér eiginlega um sögufölsun að ræða – í öllu falli þegar kemur að heimilisstörfunum. Hefði Blyton sjálf látið Jonna rífa uppþottaburstann af Önnu og heimta að fá að blanda aldinsafa tæru lindarvatni hefði það þótt mjög sérkennilegt. Jafnvel hefðu einhverjir ályktað sem svo að höfundurinn væri að setja spurningamerki við kynhneigð Jonna eða í öllu falli karlmennsku hans. Bækurnar eru ekki skrifaðar í dag og þær eiga ekki að gerast í dag – margt hefur breyst og sumt til batnaðar. Í Ævintýra bókunum eru engir farsímar, engar tölvur – ekki einu sinni sjónvarp og kvenréttindi eru ekki komin langt á veg. Sem lítil stúlka dauðvorkenndi ég Önnu og Dísu þessi eilífu heimlisstörf og var því fegin að í ævintýrum okkar krakkanna í Þingholtunum mátti ég rétt eins og strákarnir „kanna aðstæður“.

Auðvitað má segja að barnabækur séu viðkvæmari viðfangs – eða í öllu falli er markhópurinn viðkvæmari og kannski það réttlæti endurskoðun. Sjálfri fannst mér út í hött þegar Tíu litlir negrastrákar voru gagnrýnilaust endurútgefnir og stillt upp í massavís í bókabúðum við hliðina á Línu Langsokk og annarri klassík. Ég var alls ekki á móti endurútgáfu bókarinnar heldur því að hún skyldi seld sem góð og gild barnabók.
Mér finnst hins vegar vera grundvallar munur á bókum sem eins og Ævintýrabækur Blyton eru „börn síns tíma“ og bók eins og Tíu litlir negrastrákar sem var upphaflega beinlínis skrifuð til að kynda undir kynþáttahatri – skrifuð til höfuðs ákveðnum þjóðfélagshópum. En sjálfsagt er þessi skilgreining mín loðin og alls ekki allir sammála. Engu að síður er athyglisvert að skoða hvað í bókmenntasögunni er ritskoðað og hvað ekki og á hvaða forsendum.

2 ummæli:

Eiríkur Örn Norðdahl sagði...

Það er nú líka nokkuð annað sem maður býður fullorðnum, en börnum.

Annars datt mér í hug, vegna krosstengsla í gegnum Þórdísi, að bæta hér við hlekk á grein sem ég skrifaði fyrir Börn og menningu um Negrastrákana, ef einhver skyldi hafa áhuga:

http://www.norddahl.org/2008/12/um-yfirgang-on%C3%A6rg%C3%A6tni-og-%C3%BEv%C3%A6lu/

Maríanna Clara sagði...

Fín grein - og eins og talað út úr mínu hjarta. Ég man líka eftir því úr Eymundsson að lítill dökkur drengur kom stundum á kvöldin og tók öll eintökin af Negrastrákunum og faldi þau...mig langaði nú bara til að fleygja eintökunum út þegar ég heyrði þetta (ekki þó brenna þau).