Það þarf varla að taka fram að Íslendingar hafa tekið glæpasögum fagnandi á undanförnum árum, Arnaldur er kóngurinn og á hæla hans koma hinir ýmsu krónprinsar og svo Yrsa. Flestir þessara höfunda skrifa sögur sem eru í ætt við skandinavísku glæpasagnahefðina svokölluðu þar sem þjóðfélagsmálum og allskonar félagslegum vandamálum er fléttað saman við glæpaplottið. Vandamálin liggja venjulega ekki síst hjá aðalsöguhetjunum sem eru upp til hópa misvirkar fyllibyttur, iðulega með að minnsta kosti einn hjónaskilnað að baki og ýmisskonar samskiptavandræði þar að lútandi.
Ég held að það megi segja að íslenskar glæpasögur hafi notið mikillar velvildar og athygli lesenda og fjölmiðla. Það má líka segja að íslenskar glæpasögur verði sífellt betri en það má hinsvegar deila um það hvort þær standist samanburð við það besta í þessum geira. Fyrst og fremst finnst mér að íslenskir glæpasagnahöfundar megi oft vanda sig betur þegar kemur að plottinu en glæpasaga er auðvitað ekkert á almennilegs plots. Þeir fjölmörgu sem hafa látið dáleiðast af Millenium þríleik Stieg Larsson vita hvað ég á við, þær bækur eru gríðarlega vel skrifaðar og spennandi, sérstaklega sú fyrsta sem kom út fyrir nýliðin jól í íslenskri þýðingu. Það fór að vísu merkilega lítið fyrir henni í jólabókaoforsinu, svona miðað við vinsældir höfundarins, en enskar þýðingar á tveimur fyrstu bókunum eru vinsælustu glæpasögur bresku amazon netverslunarinnar þegar þetta er skrifað. Stieg Larsson var blaðamaður, þekktastur fyrir skrif sín og þekkingu á hægri öfgahreyfingum og kynþáttafordómum, en hann fékk hjartaáfall og lést árið 2004. Bækurnar komu út eftir andlát hans en hér má lesa meira um Stieg Larsson og bækur hans. Mér tókst að rúlla í gegnum múrsteinsígildin þrjú á undraskömmum tíma og veit til þess að það á við um ansi marga. Þeir sem vilja lesa allar bækurnar í einum rykk verða þó að sætta sig við það að lesa þær á einhverju öðru tungumáli en íslensku eða ensku, það er von á síðustu bókinni á ensku á þessu ári og vonandi er ekki langt í bók númer tvö á íslensku.
Karlar sem hata konur var ekki eina sænska glæpasagan sem gefin var út fyrir þessi jól hérlendis, einnig kom út þýðing á bók eftir Henning Mankell en hún er ekki síst merkileg fyrir þær sakir að druslubókadama nokkur þýddi hana af mikilli list. Þetta er bókin Fyrir frostið (Innan frosten 2002)en í henni er Linda Wallander, dóttir lögregluforingjans Kurt Wallander í aðalhlutverki, hún er nýútskrifuð úr lögregluskólanum þegar hér er komið sögu og er um það bil að hefja störf við hlið föður síns. Hér er fjallað um trúarofstæki sem á rætur sínar að rekja til raunveruleikans svokallaða, en við sögu kemur söfnuður Jim Jones og fjöldasjálfsmorð safnaðar hans í Jonestown í Gvæjana. Þeir sem hafa sjúklegan áhuga á fjöldamorðingjum og ofsatrúarhreyfingum, eins og ég, ættu því að kunna að meta þessa ágætu bók. Einhvern tímann var því haldið fram að Henning Mankell hefði stolið frá Arnaldi Indriðasyni. Einhvern veginn finnst mér það ólíklegt.
Í lokin langar mig aðeins að minnast á ansi hreint fína glæpasögu eftir enn einn Svíann, Håkan Nesser. Þetta er bókin En helt annan historia sem fékk sænsku glæpasagnaverðlaunin árið 2007. Nesser hefur skrifað heil ósköp af glæpasögum og einhverjar hafa verið þýddar yfir á ensku en hinsvegar kannast Gegnir ekki við að neitt hafi komið út eftir þennan höfund á íslensku. Einhversstaðar heyrði ég að Nesser sé uppáhalds glæpasagnahöfundur Ævars Arnar Jósepssonar en sel það svo sem ekki dýrara en ég keypti það. Ef eitthvað er að marka þessa einu bók sem ég hef lesið er óhætt að mæla með Nesser fyrir glæpasagnaaðdáendur. En helt annan historia er önnur bókin í svokölluðum Barbarotti þríleik og ég er nú þegar búin að útvega mér fyrstu bókina sem bíður nú eftir næsta glæpasagnaskeiði í mínu lífi.
Ég les glæpasögur nefnilega í skorpum og nú hef ég snúið mér að öðru í bili.
11 ummæli:
Það hefur komið ein bók eftir Nesser á íslensku, "Kim Novak baðaði sig aldrei í Genesaretvatni."
Hann er þrusugóður höfundur sem mætti sko alveg þýða á íslensku.
Það getur verið alveg merkilega gefandi að lesa um blóðug morð í sænskum skógum.
Ég á eftir að kíkja á Stieg Larson en Fyrir frostið skemmti mér alveg ljómadi vel um daginn.
Sammála Hörpu, sænsk morð eru hressandi. Las Fyrir frostið í síðustu viku, takk fyrir lipra þýðingu Frú Drusludama. Stieg bíður plastaður upp í hillu meðan ég les í akkorði það sem ég næ í af nýjum bókum á bókasafninu.. SO
Hekdur þykja mér þær kaldar, kveðjurnar sem við aumir íslenskir krimmar fáum frá þokkagyðjunni Þorgerði. Hitt er rétt og satt að Nesser er í miklu uppáhaldi hjá undirrituðum og skal ég kannast við það hvar og hvenær sem er. Sérstaklega mæli ég með hans Tíleik eða decalog eða hvað menn vilja kalla það, tíu bóka röðinni um Kommisarie van Veeteren og hans undirsáta í ímynduðu borginni Maardam.
Ég hef ítrekað haldið Nesser að hinum ýmsustu útgefendum hér, en af einhverjum ástæðum hefur áhugi þeirra á að gefa hann út reynst giska lítill.
Ætli það endi kannski með því að "Druslubókaútgáfan" verði stofnuð, til að geta komið því út á íslensku sem okkur langar að koma á framfæri?
Það var nú ekki ætlunin að spæla íslenska krimmahöfunda en verk þeirra fara sífellt betur í mig...ég minnist einmitt á Nesser við útgefanda nokkurn hér og skilst mér að hann sé í "skoðun" hvað sem það nú þýðir.
Huh, það var nú heldur "ekki ætlun" neins að setja þjóðina á hausinn en samt er allt í kaldakoli - og ég alveg ógislega grútspældur. Held ég. Fyrir hönd þjóðarinnar, meina ég. Eða kollega minna. Eða - æ fokk, ég man það ekki. Allavega finnst mér að Þorgerður eigi að axla ábyrgð og segja af sér strax!
Hvað um það, bestu bækur Nessers eru miklu betri en bestu bækur okkar hér, ég get alveg viðurkennt það - en mér finnst áminnst allt önnur saga hans reyndar með hans sístu.
Og Druslubókaútgáfan gerði margt vitlausara en að gefa landanum lesfæri á Hákoni, svo mikið er víst.
Ég mun axla ábyrgð á skrifum mínum með því að leggjast nú á árarnar með lesendum, ég mun ekki svíkjast undan á ögurstundu sem þessari, þetta er ekki rétti tíminn til að skipta um druslubókaforystu heldur mun ég axla ábyrgð með því að sitja sem fastast...hehe
Allamalla, þetta endar með mótmælastöðu og uppþotum fyrir utan höfuðstöðvar Druslubókasíðunnar. Ég sé fyrir mér grímuklædda mótmælendur með spjöld. Spurning um að táragasvæða starfsstöðvarnar.
Er ekki piparúði meira móðins núnaÐ
Svíar eru góðir í glæpnum en (það er alltaf en), það er ein norsk sem slær þá (finnst mér), Karin Fossum, glæpir með samfélagsfléttu og smá perraskap.
Mæli með henni.
Skrifa ummæli