5. janúar 2009

Ekki lesa We Need To Talk About Kevin

Eftir að hafa oft labbað áhugalaus framhjá We Need To Talk About Kevin eftir Lionel Shriver tók ég bókina loksins upp í fyrradag og las aftan á hana. Ég hélt alltaf að hún fjallaði um uppeldi, sem ég hef takmarkaðan áhuga á en þarna kom í ljós að hún fjallar um fjöldamorð: bingó. Síðan ég las skáldsögu Wally Lamb um Columbine skotárásirnar hef ég verið haldin óútskýranlegum áhuga á fjöldamorðum. Ég hélt þessu útaf fyrir mig fyrstu vikurnar, enda hálf pervers að vera með svona hluti á heilanum. Með lævísum leiðum komst ég þó að því að saklausasta fólk í kringum mig drekkur í sig staðreyndir um aðferðir og ástæður viðurstyggilegra morða. Botnlaus hít internetsins nær varla til að fullnægja sjúklegri þekkingarlöngun fólks um frík eins og Harold Shipman, Fred og Rosemary, Charles Manson, Washington leyniskytturnar, auk allra skólaárásanna þar sem bólugrafin ungmenni frá Finnlandi til Flórída komast auðveldlega yfir byssur og stráfella samnemendur sína og kennara.

We Need To Talk About Kevin (2003) fjallar einmitt um skólaárás, en nálgun höfundar er mjög sérstök. Lionel Shriver staðsetur ímyndaða skólaárás tíu dögum áður en Columbine árásirnar áttu sér stað árið 1999, en bókin er safn bréfa sem Eva, móðir árásarmannsins, skrifar eiginmanni sínum, Franklin, tveimur árum síðar. Eva rekur sögu drengsins Kevin, allt frá því að hún fékk hann nýfæddan í fangið og fann ekki fyrir tengslum (nokkuð fyrirsjáanlegt fannst mér) til reglulegra heimsókna hennar í fangelsið sem hann mun dvelja næstu árin. Eva hlífir sér enganveginn í bréfum sínum til mannsins síns, hún ljóstrar upp ýmsum fjölskylduleyndarmálum svo sem að einu sinni hafi hún misst þolinmæðina og óvart handleggsbrotið Kevin (piff, aftur fyrirsjáanlegt hugsaði sérfræðingurinn ég) og aldrei sagt frá því. Lesandi áttar sig ekki á því í byrjun hvert samband þeirra Franklins og Evu er í dag, en fer fljótlega að átta sig á því að hjónaband þeirra hefur ekki staðist þessa raun.

Skemmst er frá því að segja að ekkert fyrirsjáanlegt er sem það sýnist og We Need To Talk About Kevin er ekkert nema óbærileg köfun í viðurstyggilega mannssálina. Ég vakti til fjögur í nótt að klára hroðbjóðinn og gat svo auðvitað ekki sofnað því heimurinn er svo vondur. Þetta er bók um blindaðar litlar stelpur og gröftinn úr augntóftum þeirra, kúkableyjur langt fram eftir aldri, óhugnarlega vonsku barnanna okkar og hryllilegt, hryllilegt vonleysi. Ég hélt fram á síðustu síðu að höfundur myndi gefa mér einhverja von um hið góða í manneskjunni en nei, svo var ekki. Ég sé eftir því að hafa lesið þessa bók. Hún er ekki góð fyrir sálina. Ég hef því lofað sjálfri mér að hætta að lesa um morð og ofbeldi á nýja árinu. Því miður var Maríanna mér fyrri til að skrifa um fíflið hana Pollýönnu, en ég ætla að leita að einhverjum álíka gleðigjafa til að fjalla um næst.

11 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Hey...ég horfði einmitt á tvær heimildarmyndir um Manson fjölskylduna á jólanótt...gaman að því...
ÞES

Maríanna Clara sagði...

Einmitt bók sem ég hef líka gengið áhugalaus fram hjá og eftir þetta hvarflar ekki að mér að lesa hana...spurning um að kíkja samt á kaflann um blinduðu stúlkubörnin og gröftinn úr augntóftum þeirra...

Nafnlaus sagði...

Oft heyrt þetta bókarheiti án þess að það vekti hjá mér áhuga en við lestur þessarar umsagnar blossar hann upp. Það jafnast fátt á við góðan hroða.

Æsa sagði...

Enter at your own risk, GK.

HelgaFerd sagði...

Kevin á andlegan bróður í Fimmta barninu eftir Doris Lessing sem er fullkomlega hægt að mæla með ef maður þarf aðstoð við að halda sér frá barneignum.

Þórdís Gísladóttir sagði...

Ég er einmitt með Fimmta barnið mér við hlið - búin að lesa slatta og er farin að óttast um hvað verður um Ben.

Hjörvar Pétursson sagði...

Ég las þessa bók fyrir nokkrum árum og verð að segja að ég var býsna hrifinn af. Þetta er bók sem situr eftir í huga mér sem bók sem situr eftir í huga mér. Kannski manippúlatíf, á svipaðan máta og bækur Jodi Picoult, en þó raunsærri, miskunnarlausari og gersneydd öllu melódrama. Frú Shriver veit að hryllingurinn er mestur þegar hann er lágstemmdur, kaldur og yfirvegaður.

Æsa sagði...

Jamm, það verður að játa að hryllingurinn víkur ekki úr huga manns. Ég las tvo síðustu kaflana aftur í gær. Kevin verður ekkert meira sjarmerandi í annað sinn.

Þórdís Gísladóttir sagði...

Lastu endinn aftur? Og uppgötvaðirðu eitthvað nýtt um þessi blinduðu börn með gröftinn?

Maríanna Clara sagði...

Jaðrar þetta ekki við sadisma?

Æsa sagði...

Þykja mér nú samdömur mínar einblína um of á vessa og viðbjóð. Taka tvö var einungis af fagurfræðilegum hvötum.